Verður evrukreppan til þess að sundra ESB?
29.5.2013 | 10:37
Bretar undirbúa þjóðaratkvæði um framtíð sína í ESB. Fyrrv. fjármálaráðherra þeirra vill að þeir gangi úr ESB. Fyrrv. fjármálaráðherra Þýskalands vill að evrusamstarfið sé leyst upp.
Á fáeinum árum hafa deilur magnast mjög innan ESB um framtíð samstarfsins. Háværastar eru rökræður Breta sem deila hart um það hvort Bretar eigi að fá enn frekari undanþágur frá regluverki ESB eða beinlínis að yfirgefa ESM. Gríðarlegur uppgangur Sjálfstæðisflokks Breta (UKIP) sem heimtar úrsögn úr ESB hefur sett mikinn þrýsting á forystu Íhaldsflokksins . Nigel Lawson, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, er einn þeirra sem staðhæfa að efnahag Bretlands sé betur komið utan ESB, auk þess sem útganga úr sambandinu muni hafa jákvæðar afleiðingar innanlands í lýðræðisátt. Íhaldsmenn undir forystu Cameron, forsætisráðherra, hafa því gripið til þess ráðs að heita Bretum þjóðaratkvæði um aðildina að ESB árið 2017.
Mikla athygli hefur vakið að samkvæmt skýrslu sem kennd er við Pew-rannsóknir hefur stuðningur við aukinn samruna aðildarríkja ESB hrunið í Frakklandi, en Frakkar voru meðal sex stofnþjóða sambandsins 1958 og hafa ávallt verið annar burðarásinn í ESB ásamt Þjóðverjum. Evrukreppan hefur valdið stóraukinni misklíð og gjá milli Frakka og Þjóðverja og 77% Frakka segja nú í könnunum að efnahagslegur samruni í ESB hafi skaðað franska ríkið.
En einnig í Þýskalandi eru gagnrýnisraddirnar háværar. Oskar Lafontaine, fyrrverandi fjármálaráðhera Þýskalands, hvatti beinlínis til þess fyrir skemmstu að evrusamstarfið yrði leyst upp til að forða frekari efnahags- og samfélagshörmungum ýmissa ríkja Suður Evrópu.
Innsti kjarni Evrópusambandsins er að leysast upp, sagði Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands 1998 til 2005, í grein sem birtist 1. maí s.l. á vegum Project Syndicate og vísaði þar til evru-kreppunnar. Hann sagði að um stjórnmálahamfarir væri að ræða og trúnaðarbresturinn í garð ESB sé miklu hættulegri en nýjar áhyggjur á fjármálamörkuðumaf því að pólitíska vandann sé ekki unnt að leysa með því dæla peningum úr Seðlabanka Evrópu. Hörkuleg ummæli Fischer eru viðbrögð við þeirri upplausn sem er að skapast innan ESB enda er hann meðal allra áköfustu ESB-sinna og sparar ekki stóryrðin gagnvart gagnrýnendum ESB, en stóryrði hans bera glöggan vott um örvæntinguna sem er að grípa um sig í röðum þeirra sem harðastan áróður reka fyrir auknum samruna. Í fyrrnefndri grein komst Fischer svo að orði:
Er málum kannski í raun þannig háttað að Evrópusinnar séu orðnir svo huglausir og lúbarðir að þeir velja einfaldlega þann kost að láta valdataumana í hendur á and-evrópskum lýðskrumurum og þjóðernissinnum? Það væri hrikalegt því að kreppan nú er dýpri en svo að hún hverfi fyrir tilverknað teknókrata.
Hér talar örvæntingarfullur Þjóðverji einnig fyrir hönd Össurar og Árna Páls Árnasonar eða Eiríks Bergmanns og annarra þeirra sem nú sitja eftir með sárt ennið og sjá ESB-drauminn sinn fjarlægjast óðum.
![]() |
Segir ESB-stefnuna óskýra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.