Stop!
24.5.2013 | 12:22
Nú þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum, og ljóst er að staldrað verður við í innlimunarferli því sem síðasta ríkisstjórn vann að fyrir hönd Evrópusambandsins, er von að spurt sé hvað taki við.
Í raun er hálfgerð holtaþoka ríkjandi í ráðagerðum nýrrar stjórnar hvað varðar Evrópusambandsaðild Íslands. Ný stjórn segist vilja kjósa seinna um það hvort halda eigi þessum innlimunarviðræðum áfram. Fyrst eigi að meta hvernig málin standa bæði hér heima og úti í Evrópu. Því er spurt: Kjósa um hvað? Og meta hvað?
Evrópa stendur í miðjum efnahagslegum glundroða. Þar eru ráðagerðir um flótta úr sambandinu, eða evrusvæðinu, uppi í nánast öllum löndum. Atvinnuleysi fer þar enn vaxandi og launamenn vita ekki sitt rjúkandi ráð. Verföll vofa yfir og eymdin og ráðleysið er daglegt brauð í fréttamiðlum um alla álfuna. Hvað þarf að meta í þessu sambandi? Ég fæ ekki séð betur en að staðreyndir tali sínu máli og eru þær aðgengilegar öllum. Hin nýja ríkisstjórn getur sparað okkur allar matsgerðir hvað stöðuna í Evrópu varðar!
Og hvað á meta hér heima? Stöðuna á hverju? Innlimunarsamningnum? Sem var þannig rekinn að alltaf lá ljóst fyrir að þvingun Íslands inn í Evrópusambandið var lokamarkmið beggja samningsaðila. Í fjögur ár stóðu linnulausar utanlandsferðir flokksgæðinga sem sóttu í þægilegheitin í Brussel í fylgd með embættismönnum sem voru í dagpeningaleik líkt og gæðingarnir. Nákvæmlega ekkert stendur eftir þetta ráp nema sú áþján sem fylgir hinum og þessum reglugerðum og lagaþvættingi sem troðið var í töskur þessara sendinefnda að hafa heim með sér í býttum fyrir át og drykkju.
Það er um ekki neitt að kjósa. Eða vill almenningur halda áfram að kosta menn og konur í vitleysisgang til Brussel? Að eyða þar skattpeningum okkar - ausa þar úr sameiginlegum sjóðum? Og rausa undir merkjum samninga" um eitthvað sem aldrei verður um samið? -Í nokkur ár í viðbót á fullum launum og dagpeningum áður en komið verður að því sem aldrei verður samið um og íslensk þjóð mun aldrei selja af höndum sér: auðlindir til lands og sjávar?
Það er mál að, ekki bara gera hlé á, heldur, hætta þessu brölti öllu saman og hefja hér viðreisn innan frá, heiman frá með fullri reisn og vitund um það að við erum í bestum færum sjálf að stjórna okkur í deginum í dag svo og allri okkar framtíð.
- gb.
Athugasemdir
Góður pistill. Mér finnst samt við gætum verið róleg í svip og ég bendi á þetta úr Evrópuvaktinni. Skil ekki fullyrðingar strax um 'svik, svik' nýju stjórnarflokkanna. Og rangtúlkanir um þjóðaratkvæði. Við eigum ekkert að kjósa frekar um Brusselruglið en hvort fíflar ættu að vera bannaðir á túnum.
Elle_, 25.5.2013 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.