Vér hinir kiðfættu á sauðskinnsskóm

Jón Bjarnason skrifar, Morgunblaðið 21. maí 2013

Kristján Eldjárn var tvímælalaust einn ástsælasti forseti þjóðarinnar. Í kosningabaráttunni 1968 var honum lagt reynsluleysi til lasts, hann væri aðeins fornleifafræðingur og þjóðminjavarsla lítillar söguþjóðar drægi ekki langt í forsetaembætti. Hann hefði verið á móti erlendri hersetu og haft horn í síðu kanasjónvarpsins á þeim árum. Spaugað var með þá »fásinnu að Íslendingar kysu yfir sig kiðfættan forseta á sauðskinnsskóm« og Halldóra Eldjárn væri »púkó« og lítt hæf til að sinna húsfreyjuhlutverki á þeim virðingarstað, Bessastöðum. (Guðni Th. Jóhannesson, Fréttablaðið, 10.6. 2012.)

»Það er fólkið sem velur forsetann« sagði sigurviss andstæðingur hans, Gunnar Thoroddsen, sem einnig hefði sómt sér vel á Bessastöðum. Kristján Eldjárn var hinsvegar kosinn með yfirburðum og fékk tæpa tvo þriðju atkvæða. Þar munaði ekki minnst um stuðning unga byltingarfólksins, 68-kynslóðarinnar. Hógværð og virðing fyrir náttúru landsins sögu og menningu þjóðarinnar einkenndi allt fas Kristjáns í orði og gjörðum. Hann var einn af fremstu vísindamönnum þjóðarinnar og afar virtur á þeim vetvangi. Kristjáni »tókst að sameina íslenskan alþýðleika og látlausa reisn í þeim mæli að aðdáun vakti«.

Þau Halldóra og Kristján Eldjárn urðu síðan ein ástsælustu forsetahjón sem við höfum átt, ekki síst meðal alls almennings í landinu.

Liðið á sauðskinnsskónumMér varð hugsað til þessa er ég las pistil Stefáns Ólafssonar prófessors við Háskóla Íslands á Eyjunni fyrir sunnudaginn 12. maí sl.: »Verður Eurovision bönnuð á Íslandi?«

Prófessorstitill gefur mönnum ákveðna stöðu í umræðunni en skrif sambandssinna á Eyjunni spegla þá hnappheldu og rökþrot sem ESB umræða þeirra er komin í, en þetta er ekki eina dæmið:

»Framhjá því verður sem sagt ekki horft að Eurovision-keppnin er mikilvægur þáttur í mótun evrópskrar sjálfsmyndar og sameiningar. Nú þegar Jón Bjarnason og liðið á sauðskinnsskónum hefur náð yfirhöndinni í sjálfstæðis- og einangrunarbaráttunni á Íslandi gætu orðið breytingar á sjónvarpsdagskránni.«

Nú þykir mér vænt um að vera nefndur í forystu þess hóps sem vill standa vörð um sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar og er stoltur af að vera kenndur við liðið á sauðskinnsskónum. Hinsvegar veldur það manni áhyggjum þegar í umræðunni um fullveldismál reynir hópur manna ítrekað að hefja sig upp fyrir alþýðu manna á Íslandi og gera lítið úr forfeðrum sínum og formæðrum. Skinnskór og torfkofar eru gjarnan misnotaðir í röksemdafærslum þeirra sem telja sig til háskólasamfélagsins. Fyrir mér er sá samanburður reyndar hrós. Vissulega er tekist á um gildismat og sýn en svona til gamans má nefna að einmitt handunnar vörur úr skinni og ull íslensku sauðkindarinnar er nú eftirsóttar sem hluti af ört vaxandi ferðaþjónustu sem miklar væntingar eru bundnar við. Skilaboðin eru bein til þessa fólks sem með listrænu handverki saumar meðal annars fallega skinnskó og skapar þjóð sinni virðingu og tekjur hjá erlendum gestum.

Vafið inn í búning er hinsvegar ekkert farið í launkofa með hvert gildismatið er hjá háskólaprófessornum og hver eru stærstu áhyggjuefnin:

»Einnig skal banna svokallaða »mútustyrki« frá ESB, sem þó var meira en ásættanlegt að þiggja í mun stærri skömmtum frá Bandaríkjunum á gullárum hermangsins og helmingaskiptanna á Keflavíkurflugvelli. Og hjá Íslenskum aðalverktökum og Menningarstofnun Bandaríkjanna.«

Við munum vel þegar Bandaríkjamenn yfirgáfu endanlega herstöðina í Keflavík, að þá var lagst á hnén og þeir beðnir að vera áfram, peninganna vegna sem komu með þeim inn í landið.

Hógværð, virðing og reisn til framtíðar

Á næstu dögum og misserum verður tekist á um gildi framtíðarinnar. Gildin sem einmitt Kristján Eldjárn forseti stóð öðrum fremur fyrir: Hógværð öndvert græðgi, virðingu öndvert yfirgangi, reisn og trú á sjálfum sér öndvert undirlægjuhætti og vanmetakennd.

Forsetinn á sauðskinnsskónum: »var í senn alþýðumaður og heimsborgari sem sá ekki neina þversögn í því fólgna að hlúa að arfi norðlenskra formæðra sinna og forfeðra um leið og hann tileinkaði sér það dýrmætasta í menningu erlendra þjóða. Hann ræktaði garð sinn af alúð, sótti ótrauður fram þótt á móti blési, og var sá lánsmaður að geta leitt erfið mál og flókin á gæfuveg«. (Gylfi Gröndal - ævisaga Kristjáns Eldjárns.)

Á grunni sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar hvílir ábyrgð okkar gagnvart framtíðinni hér heima sem og í alþjóðlegu samstarfi þjóðanna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband