Flokkar í hringekju stefnumála sinna

Jón Bjarnason, Morgunblaðið 9. maí 2013

Hún er oft skondin atburðarásin í pólitíkinni og hlutverkaskipti eða jafnvel hamskipti einstakra stjórnmálamanna. Framsóknarflokkurinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar tók mikla hægri sveiflu og reyndi að sverja af sér uppruna sinn af landsbyggðinni. Formaðurinn færði sig um set til Reykjavíkur og ásamt sínum nánustu samherjum breytti hann flokknum í miðjukrataflokk. Hann gerði lítið úr hagsmunum atvinnugreina hinna dreifðu byggða, þ.e. landbúnaðar, matvælavinnslu og sjávarútvegs. Álverksmiðja skyldi koma í hvern fjörð. Hvern foss og hverja á skyldi virkja í þágu stóriðju.

Ný forysta Framsóknar en hvað svo?

Á tíma Halldórs yfirbauð forysta Framsóknar sjálfan ESB-flokkinn, Samfylkinguna, í undirlægjuhætti gagnvart ESB og vildi komast þar inn í hraðferð. Svo mikið lá á að landinu var troðið inn í Schengen til að formaðurinn og aðrir ESB-sinnar þyrftu ekki að sýna vegabréf í reglubundnu flugi sínu til Brüssel. En forystan gleymdi rótunum og baklandið á landsbyggðinni hrundi og þá einnig hinn nýi vettvangur á mölinni. ESB-draumur Framsóknar varð að martröð. Í örvæntingu sagði formaðurinn af sér í dramatískri sýningu á Þingvöllum, en reyndi þó að troða gæðingi sínum og ESB-sinna sem eftirmanni í formannsstólinn. Það var skammgóður vermir og sá hluti grasrótar Framsóknar sem enn var til sagði stopp. Allri forystu Framsóknarflokksins hefur nú verið skipt út. Ný forysta með formanninn í broddi fylkingar var klók. Skipti alveg um stefnu og ásýnd og gerðist landsbyggðarflokkur og lagðist harkalega gegn umsókn og aðild að ESB.

Hin týndu gildi VG

Vinstrihreyfingin grænt framboð var fyrst og fremst stofnuð til að berjast gegn umsókn og aðild að ESB og fyrir náttúruvernd, jafnrétti, búsetujafnvægi og öðrum samfélagslegum gildum. Hreyfingin sótti í upphafi styrk sinn ekki hvað síst til landsbyggðarinnar. Sinn stóra kosningasigur 2009 vann VG m.a. vegna einarðrar andstöðu við umsókn og aðild að ESB og baráttunni gegn stóriðju en jafnframt stuðningi sínum við grunnatvinnuvegina. Það voru jú þessi gildi sem aðgreindu VG frá Samfylkingunni á sínum tíma, þegar þessir tveir flokkar voru stofnaðir.

Trúverðugleikinn sökk í Bjarnarflagi

Þrautaganga Framsóknarflokksins síðasta áratuginn hefði átt að vera öðrum víti til varnaðar, en svo var því miður ekki. VG breyttist smám saman í borgaralegan krataflokk, sótti um aðild að ESB, tók upp tækifærismennsku í umhverfismálum, skar sérstaklega niður grunnþjónustuna á landsbyggðinni, heilbrigðisstofnanir og löggæslu, og týndi sjálfum sér.

Stór hluti forystu VG missti tengsl við grasrótina sem áður hafði sett traust sitt á frambjóðendur flokksins vegna stefnufestu og skýrra skoðana. Fimm þingmenn sögðu skilið við hann eða hættu vegna ágreinings um framkvæmd á stefnunni. Landsfundarsamþykkt VG frá í vetur um áframhaldandi umsókn og innlimun í ESB var fyrir mörgum félaganum dropinn sem fyllti mælinn. Umhverfisverndin og stóriðjuandstaðan beið svo verulegan hnekki þegar ráðherrar og þingmenn VG samþykktu Bjarnarflag við Mývatn í nýtingarflokk og niðurgreidda stóriðju á Bakka.

Þegar hrun VG blasti við í lok kosningabaráttunnar var gerð örvæntingarfull tilraun til að auglýsa þau gildi sem í upphafi lögðu grunn að stefnu flokksins en hafði verið fórnað jafnt og þétt fyrir setu í ríkisstjórn með krötunum. Formaðurinn sagði af sér í skyndi, en varaformaðurinn, sem sagði í viðtali að aldrei hefði gengið hnífurinn á milli þeirra í neinu máli tók við. Slagurinn um trúverðugleikann mun því halda áfram.

Skrítin útkoma

Það verður því skondin hringferð, ef af verður. Framsóknarflokkurinn, einn harðasti ESB-flokkurinn fyrir nokkrum árum, stendur nú í lappirnar og afturkallar ESB-umsóknina eins og hann lofaði fyrir kosningar. Stóriðjudraumarnir og virkjanaáráttan er áfram föst við Framsókn og hefur herst ef eitthvað er. En einnig þar hefur Framsókn fengið keppinaut. VG var meðal annars stofnað til að koma í veg fyrir umsókn og aðild að ESB og lofaði þráfaldlega fyrir kosningar 2009 að ekki yrði sótt um á þeirra vakt. Flokkurinn situr nú uppi með umsóknina sjálfa og nýlega landsfundarsamþykkt um að halda þeirri umsókn og innlimunarferli áfram. Allt til þess að fá »samningsniðurstöðuna«: að ganga í ESB. Það eina sem nú truflar er að þeim flokkum sem sóttu um aðild að ESB var hafnað í síðustu kosningum.

Hver mun verða hvar?

Samfylking og VG munu nú væntanlega ganga saman í eina sæng, enda ekki svo margt sem skilur þá lengur að. Núverandi formaður VG reifaði sameininguna sjálf á fundi Samfylkingarfólks á Suðurlandi síðasta ári. Því var svo fylgt eftir af formönnum beggja flokkanna þegar kosningaúrslitin lágu fyrir. Fari fram sem horfir mun því þörf á nýju stjórnmálafli á vinstri væng stjórnmálanna sem »varðveitir og treystir sjálfforræði þjóðarinnar og ryður braut fyrir nýja hugsun, þar sem sjálfbærni og hófstilling er höfð að leiðarljósi« eins og Hjörleifur Guttormsson orðar það í nýlegri grein. - Afl sem axlar ábyrgð og gefur trú á okkur sjálfum, landi og þjóð, náttúru, menningu og grunnatvinnuvegum okkar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband