Verkalýðsbarátta gegn ESB

Það voru ánægjuleg straumhvörf í 1. maí göngu gærdagsins þegar fánar og skilti gegn ESB aðild settu svip sinn á gönguna. Í hagsmunabaráttu fyrir lítilmagnann er ekkert eins mikilvægt eins og baráttan gegn heimsvaldastefnu hvar sem hún birtist.

Ásælni ESB í auðlindir, land og yfirráð yfir Íslandi er beint og rökrétt framhald af gamalli nýlendustefnu herraþjóða sem til skamms tíma höfðu heiminn allan undir.

Þjóðfrelsisbarátta Evrópu var barátta almúgans fyrir rétti sínum og hin menningarlegu þjóðahugtökin urðu til vegna samkenndar og baráttu alþýðu. Sagan endurtók sig á tímum nær okkur þegar kúguð nýlenduríki brutust undan oki hinna alþjóðlegu nýlenduherra sem höfðu þá um kynslóðir skítnýtt vinnu og auðlindir fjarlægra þjóða án þess að skeyta í nokkru um hag þeirra, þjóðmenningu eða náttúru.

Þrátt fyrir að yfirstétt Vesturlanda hefðu þá um aldir gamnað sér við að smíða hugtök mannréttinda, frelsis og jafnvel náttúru- og dýraverndar til handa eigin löndum var síst talið að slíkur munaður ætti erindi við fjarlægar þjóðir eða afskekta auðuga landskika. Ríki þriðja heimsins náðu frelsi sínu fyrir eigin baráttu og þó svo að á ýmsu hafi gengið í stjórnarfari Afríku og Asíu síðustu áratugi er staðan þar miklu gæfulegri en hún var undir nýlendustjórn hinna veraldarfirrtu hvítu drottnara.

Drifkraftur gamla aðalsins í Evrópu og síðar nýlenduherranna var græðgi í það sem öðrum tilheyrir. Þessi þörf gömlu nýlenduveldanna er óröskuð og tekur sífellt á sig nýjar myndir. Til þess að endurvekja hinn alþjóðlega yfirstéttaraðal hefur elíta Evrópu búið til sitt fríríki í Brussel þar sem menn sitja skattfrjálsir við þægilega innivinnu og gera sitt til að endurvekja það andrúm aðalsins að þjóðahugtakið sé misskilningur, lýðurinn sé framleiðsluvél og valdið sé fagleg vísindagrein embættismanna.

Evrópusambandið ver meira fé til áróðurskenndra auglýsinga fyrir eigin ágæti en sjálf Kókakóla samstæðan sem hefur þó allan heiminn undir. ESB starfar aðeins í litlum hluta heimsbyggðarinnar þó miðaldamenn hafi talið það heiminn allan og lönd þar utan einhverskonar ólönd. Hluti af þeim áróðri sem batterí þetta eys yfir almenning er að þjóðahugtakið sé frá hinum vonda, ættjarðarástin daður við nasisma, þjóðfrelsið úrelt lumma. Staðreyndin er þó sú að nútíma lýðræði á einmitt uppruna sinn í þjóðahugtakinu og þjóðfrelsið er seint og snemma helsta ógn peningaaðals, alþjóðakapítalisma og heimsvaldastefnu. /-b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ég styð baráttuna gegn ESB-flækjunni stjórnlausu og gráðugu, bæði innanlands og erlendis.

Ég styð baráttu verkafólks í Evrópu, gegn ógnaröflum bankamafíukónganna í heimspíramídanum. Þeir sem vilja fá laun fyrir sína vinnu, ættu að velta því fyrir sér hvað þeir gera, þegar ekki þarf að virða launaréttindi almennings lengur.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 2.5.2013 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband