Þröngur sjónhringur umræðunnar

Það verður að segjast að ESB-umræðan er þröng, grunn og heimalningsleg. Hún er vissulega oft þröng hjá ESB-andstæðingum, enda er það fólk oft sakað um þjóðlega þröngsýni og einangrunarhyggju - og þjóðernishyggju ef menn vilja kasta skít.

Samt er orðræðan ennþá heimóttarlegri og þrengri hjá ESB-sinnum. Ef við bara tökum hið ESB-sinnaða málgagn Fréttablaðið, mest lesna ritmiðil landsins, þá er það aldeilis furðulega innanlandsmiðað blað. Ef ég renni yfir tölublöð undangenginnar viku sýnist mér erlent fréttaefni í blaðinu vera að jafnaði ein blaðsíða í hverju tölublaði! Það er lítið í blaði sem er 30-90 síður. Nægur er þó áróðurinn fyrir ESB-aðild í blaðinu. Mestur í lesendagreinum (greinar um það efni eru a.m.k. 90% já-megin) auk leiðara, fréttatúlkana með meiru.

Aðalrök aðildarsinna eru ein stutt mantra sem þulin er sífellt aftur og aftur: Í fyrsta lagi sé það „lýðræðislegur réttur" Íslendinga að taka afstöðu til spurningarinnar um inngöngu í ESB. Í öðru lagi verði Íslendingar að fá að vita hvað  „hvað er í pakkanum", vita hverjar undanþágur þeim bjóðist. Auðvitað bætast við gömlu rök ASÍ-forustunnar um lægra matarverð með ESB.-aðild, og fleira smálegt, en mantran er samt kjarninn í áróðrinum.

Það sem VG gerði eftir kosningarnar 2009 var að kaupa þessi lýðræðisrök aðildarsinna, og við þau hefur flokksforustan haldið sig síðan. Þetta er lítilþægt viðhorf. Látum stjórnun sjávarútvegs og landbúnaðar frá Brussel kyrra liggja. Látum kyrrt liggja þó ekki sé spurt hvert hald sé skrifuðum samningi um undanþágur hjá sambandi sem sjálft breytist í risaskrefum á hverju ári - og breytingunum stjórnað ofan frá.

Það sem vantar er umræða um það hversu fýsilegur samfélagslegur valkostur ESB er. Umræða um æ meiri og skrifræðislegri samþjöppun valdsins. Umræða um þá skyldu innan ESB að láta ríkiskassann (almenning) bjarga einkareknum bönkum og fjármálastofnunum. Umræða um bann ESB við Keynesisma og hallafjárlögum (bara þó eftir að bönkum hefur verið bjargað). Umræða um afstöðu Brusselvaldsins (og „Þríeykisins") til samfélagsáhrifa verkalýðshreyfingar. Umræða um boðorðið mikla, frjálst flæði á sameiginlegum markaði, hvernig það leiðir af sér skiptingu í kjarna og jaðar, iðnsvæði og efnahagslegar hjálendur. Umræðu um utanríkisstefnu ESB og helstu ESB-ríkja, tengslin við NATO, nýju stríðin. Og svo framvegis.

Ekkert af þessu er til umræðu hjá Samfylkingunni og aðildarsinnum (t.d. í málgagni þeirra Fréttablaðinu). Ekki hjá stjórnvöldum Íslands. Ekki heldur á vettvangi Vinstri grænna (t.d. á smugan.is) sem telja sig þó andsnúna ESB-aðild. Allt eru þetta þó þættir sem eru úti í dagsljósinu, öllum til skoðunar.  Tilheyrir ekki „pakkanum" heldur hinum 95-100 prósentunum sem við þurfum að aðlaga okkur til að komast inn. Þeir sem þylja möntruna virðast ætlast til að efnisleg umræða eigi að bíða og bíða - þar til samningur við Ísland liggur fyrir og einskorðast þá við samninginn.

Það er ekki að sjá að þetta sé fólk sem kennir sig við „umræðustjórnmál". Miklu líkara því að það sé haldið hastarlegri umræðufælni. /ÞH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er fyndið þegar Vinstrivaktin er að ásaka aðildarsinna um að færa ekki rök fyrir sínum málstað.

Það er nefnilega nákvæmlega það sem Vinstrivaktin forðast. Hún hefur td aldrei reynt að koma með neina lausn á þeim alvarlega vanda sem fylgir því að vera með ónýtan gjaldmiðil sem verður að vera í höftum.

Í stað þess að sækjast eftir nauðsynlegum stöðugleika til að auka samkeppnishæfnina og bæta lífskjör mærir Vinstrivaktin sveiflurnar á gengi krónunnar þrátt fyrir skelfilegar afleiðingar þeirra sem öllum ætti að vera ljósar.

Í stað þess að ræða það sem máli skiptir fjallar hver færsla Vinstrivaktarinnar á fætur annarri um léttvæga hluti á þann hátt að skrifin endurspegla fyrst og fremst hugarástand höfundar þar sem vanmáttarkennd og vænisýki eru í öndvegi.

Það hefur hins vegar ekkert skort á málefnaleg skrif aðildarsinna. Þeir hafa td verið duglegir að benda með rökum á mikilvægi stöðugleikans og hve mikill skaðvaldur krónan er.

Lægri vextir, minni verðbólga, engin verðtrygging, lægra verðlag og betri samkeppnishæfni hafa verið nefnd í því samhengi og rök færð fyrir því hvernig allt þetta bætir lífskjörin og tryggir öryggi okkar og velferð til framtíðar.

Gríðarlega skuldsett, eitt á báti með ónýta krónu og ónýt lög og án bandamanna mun Ísland tæpast spjara sig. 

Í þeirri stöðu erum við ótrúlega hólpin að geta gengið í ESB.

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 10:02

2 identicon

"Aðalrök aðildarsinna eru ein stutt mantra sem þulin er sífellt aftur og aftur: Í fyrsta lagi sé það „lýðræðislegur réttur" Íslendinga að taka afstöðu til spurningarinnar um inngöngu í ESB. Í öðru lagi verði Íslendingar að fá að vita hvað  „hvað er í pakkanum", vita hverjar undanþágur þeim bjóðist."

Ekki er þetta gæfulegt. Vinstrivaktin ruglar saman rökunum fyrir því að halda aðildarviðræðum áfram og  rökunum fyrir aðild sem eru að sjálfsögðu allt önnur.

Ekki bætir úr skák að gera lítið úr lögformlegum ákvörðunum meirihluta alþingis og  lýðræðislegum rétti þjóðarinnar til að ráða eigin málum Að slíta aðildarviðræðum við þessar aðstæður er andlegt ofbeldi.

Að ljúga þjóðina fulla og reyna síðan að plata hana til að hafna aðild, meðan enn er ekki ljóst hvað er í boði, er ekkert skárra. Það er afskræming á lýðræðinu.

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 23:08

3 identicon

ESB segir sjálft að samningurinn er óþarfur til að sjá hvað sé í boði við aðild.

ESB segir sjálft að orðið "samingarviðræður" séu villandi, því aðlögunarferlið snýst eingöngu um upptöku umsóknarlands á lagabálki ESB, sem sé óumsemjanlegur.

Og talar þú um að ljúga þjóðina fulla, Ásmundur?

Ef meirihluti Alþingis eftir kosningar ákveður að slíta aðlögunarferlinu og slíta viðræðum, hvernig er það ekki lýðræðislegur réttur þjóðarinnar og "lögformlegum ákvörðunum meirihluta Alþingis"??

Er það sem sagt "andlegt ofbeldi" ef þú ert ekki sammála? Er einhver lagalegur munur á ákvörðun meirihluta Alþingis að sækja um aðild, og að slíta umsókn?

Reyndu bara að troða því inn í þinn dvergaheila að þjóðin sér vel í gegnum lygaþvæluna sem gubbast út úr þér og þínum.

Það er virkilega ógeðslegt hvað þú ert hrokafullur, Ásmundur, en þú ert líka svo pínlega hlæilegur að halda að fólk sé yfirleitt að taka mark á dellunni í þér. Maður hálf-vorkennir þér. Það hlýtur að vera sorglegt að vera þú.

palli (IP-tala skráð) 18.3.2013 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband