Það er verið að fórna unga fólkinu fyrir bankana í ESB

Það hefur lengi verið alvarlegur ljóður á ráði ESB-landanna að velja atvinnuleysi sem sveiflujöfnunartæki í stað annarra úrræða. Um þverbak hefur þó keyrt í kjölfar bankakreppunnar.  Í frétt á mbl.is síðastliðinn mánudag er fjallað um þessa vá.

Evrópa hefur sett mörg hundruð milljarða evra í að bjarga bankakerfi álfunnar, en gæti tapað heilli kynslóð ungs fólks í kjölfarið. Þetta er haft eftir Martin Schulz, forseta Evrópuþingsins, í viðtali við Reuters-fréttastofuna. 

Ræddi hann um atvinnuvandamálið í Evrópu, en um 26 milljónir manna eru án atvinnu í Evrópusambandinu. Þar af er helmingur ungs fólks á Grikklandi, Spáni og hluta Ítalíu og Portúgal. Sagði hann nauðsynlegt að bregðast við þessu og að ef hægt hefði verið að setja 700 milljarða í bankakerfið, þá ætti að vera hægt að setja jafn mikinn pening í að koma kynslóð ungs fólks, sem hefur jafnvel aldrei fengið tækifæri til að vinna, til aðstoðar.

Sagði Schulz að Grikkland, Spánn og Ítalía ættu best menntuðu kynslóð í sögu landanna eftir að foreldrar hefðu fjárfest mikið í menntun barna sinna. Í dag væri staðan aftur á móti sú þegar þau væru á leið á vinnumarkaðinn að samfélagið hefði hreinlega ekki pláss fyrir þau. „Við erum að búa til tapaða kynslóð" segir Schulz.

Þetta eru engin ný tíðindi en að forgangsröðunin skuli vera sú að auka enn á mikinn og djúpstæðan vanda segir allt of mikið um hvers konar öfl ráða ferðinni þegar á reynir. Fyrir allmörgum árum var undirrituð á ráðstefnu í Evrópu þar sem ung og mjög hæf kona var ráðstefnugestum til aðstoðar. Hún hafði menntað sig afskaplega vel líkt og unga fólkið sem vísað er til í fréttinni er enn að gera. En það stakk okkur Íslendingana í hópnum illa að heyra hana blákalt segja okkur að ef til vill yrði þetta eina starfið sem hún fengi um ævina. Slík var framtíðarsýnin, og ekkert hefur batnað, bara versnað.

-ab


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálin í fáeinum ESB-ríkjum munu ekki snerta okkur þó að við göngum í ESB, ekki frekar en norðurlöndin eða flest Vestur- Evrópulöndin þar sem ástandið er miklu betra en hjá okkur.

Þó að ESB sé samstarfsvettvangur þjóða er fjarri því að slæmt ástand í einu landi smitist yfir í önnur lönd. Það er auk þess ekki til eftirbreytni að neita að eiga samstarf við þjóðir vegna þess að þær eru í vanda staddar.

Mjög ójafnt er komið á með ESB-löndunum. Td er atvinnuleysi i Austurríki undir 4% en yfir 25% í Grikklandi og á Spáni sem reyndar eru í sérflokki hvað mikið atvinnuleysi varðar.

Það er hefð fyrir miklu atvinnuleysi á Spáni. Á tíunda áratugnum, fyrir upptöku evru, varð það næstum jafnmikið og núna. Eftir upptöku evru hefur það að meðaltali verið mun lægra þar en á jafnlöngu tímabili næst á undan.

Sama má segja um Írland. Atvinnuleysið varð þar þó meira bæði á níunda og tíunda áratugnum en undanfarið.

Nýtt skuldabréfaútboð skilaði Írum lánsfé til 10 ára með 4.15% vöxtum. Við þurfum hins vegar að greiða yfir 6%. Þetta væri munur upp á tugi milljarða á ári ef við nytum ekki sérkjara vegna hluta okkar skulda sem fallít þjóð.

Athyglisvert er hve laun eru mishá i ESB-ríkjum. Lágmarkslaun í Danmörku eru td 12-14 sinnum hærri en í Búlgaríu.

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.3.2013 kl. 17:29

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Það hefur lengi verið alvarlegur ljóður á ráði ESB-landanna að velja atvinnuleysi sem sveiflujöfnunartæki í stað annarra úrræða."

það er auðvitað margskonar tilbrigði varðandi þetta efni milli Evrópuríkja rétt eins í mörgum öðrum málum. Hvert ríki getur að sjálfsögðu haft scheme eða kerfi til að aðstoða ungmenni útá vinnumarkað. Án efa eru slíkur mekkanismi til staðar í ýmsum löndum og án efa er hann sérlega umdeildur og þá sérstaklega frá hægri nýfrjálshyggjuöflum álíka og LÍÚ Mogga og svokallaðri ,,vinstri" vakt gegn ESB.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 15.3.2013 kl. 10:53

3 identicon

Undarleg þessi umræða um að taka hagsmuni fjármálafyrirtækja fram yfir hagsmuni almennings.

Íslendingar ættu að vita það þjóða best að það hefur skelfilegar afleiðingar ef bankar fara á hausinn og ekkert er að gert. Fólk tapar ævisparnaði og fyrirtæki verða að hætta rekstri svo að stór hluti þjóðarinnar verður atvinnulaus.

Þetta er því ekki val um hvort gæta skuli hagsmuna almennings frekar en fjármálafyrirtækja. Það verður að gera hvorttveggja. Það er nefnilega hagur almennings að fjármálafyrirtækin fari ekki á hausinn.

Sérstaklega á þetta við um Ísland. Ef einn banki fer á hausinn hefur það mjög alvarlegar afleiðingar fyrir allt þjóðfélagið. Ríkið verður því, hvort sem því líkar betur eða verr, að blanda sér í málið.

Ekki nóg með að fall eins banka valdi í sjálfu sér mjög alvarlegu tjóni. Miklar líkur eru á að fall hans valdi einnig falli hinna bankanna eins og gerðist 2008.

Með ónýta krónu í höftum sem gjaldmiðil er þessi hætta yfirvofandi. Næsta hrun getur riðið okkur að fullu vegna mikilla erlendra skulda ríkisins.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.3.2013 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband