Eftirmæli ríkisstjórnar
11.3.2013 | 13:38
Ívar Jónsson prófessor skrifar athyglisverð eftirmæli um sitjandi ríkisstjórn í Morgunblaðið fyrir helgi. Þar rekur hann hvernig VG toppaði jafnvel Don Quixote þegar hann sneri frá sínum helstu markmiðum og barðist fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gegn íslenskri alþýðu. Vinstri vaktin birtir hér grein Ívars sem heitir Sálumessa félagshyggjunnar.:
Síðustu fjögur ár, stjórnartíð hinnar »hreinu vinstristjórnar«, hafa verið samfelld röð afhjúpana á blekkingum og goðsögnum. Stjórnarárin hafa fært okkur sönnun þess hversu veruleikafirrt hugmyndin um sameiningu vinstriaflanna í pólitiíkinni er orðin og hversu veruleikafirrt þau öfl eru orðin sem fremst standa í stafni á draugagaleiðu VG og Samfylkingar.
Sósíalískar rætur
Íslenskri félagshyggju var í byrjun haldið á lofti af Alþýðuflokknum og Kommúnistaflokknum og síðan Sósíalistaflokknum sem börðust fyrir afnámi kapítalisma á Íslandi. Þessir flokkar vildu þjóðnýta atvinnulífið að stórum hluta og afnema arðrán eignastéttanna á vinnandi alþýðu. Atvinna fyrir alla, tekjujöfnuður og öflugt velferðarkerfi voru aðalbaráttumálin (sjá nánar á www.felagshyggja.net).
Eftir seinni heimsstyrjöldina lagði Alþýðuflokkurinn áherslu á þróun blandaðs hagkerfis í anda frjálshyggjumannsins J.M. Keynes, en hélt þó áfram á lofti þjóðnýtingarkröfunni. Helstu atvinnutækin og bankar skyldu færðir í hendur ríkis og sveitarfélaga. Alþýðubandalagið, arftaki Sósíalistaflokksins, hélt þjóðnýtingarkröfunni einnig á lofti og sama gerðu róttækir framsóknarmenn, sem á 7. áratugnum voru fremstir þeirra sem börðust fyrir valddreifingu, beinu lýðræði og samvinnuhreyfingu. Úr herbúðum Möðruvallahreyfingar framsóknarmanna komu hugmyndirnar um sameiningu vinstrimanna í eina öfluga hreyfingu.
Vinstridraumar
Draumurinn um sameiningu vinstriflokkanna fór fyrir alvöru að taka á sig mynd á 8. og 9. áratugnum þegar ýmsir smáflokkar vinstrimanna og jafnaðarmanna, eins og þeir kölluðu sig, voru stofnaðir og tóku þátt í alþingiskosningum. Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið hlýddu ekki kallinu og það var ekki fyrr en undir lok síðustu aldar sem þessir tveir flokkar voru lagðir niður og meðlimir þeirra gerðu misheppnaða tilraun til sameiningar vinstrimanna, ásamt kvennalistakonum: niðurstaðan var eins og við mátti búast tveir flokkar; VG og Samfylkingin.
Sjálfsafneitun
Um aldamótin síðustu var margt breytt frá 8. áratug síðustu aldar þegar flokkarnir sem kölluðu sig félagshyggjuflokka börðust gegn arðráni og kröfðust kinnroðalaust þjóðnýtingar helstu atvinnutækja og banka og barist var fyrir valddreifingu, fjórðungsþingum og samvinnurekstri. Samfylkingin umhverfðist á fáum árum í nýfrjálshyggjuflokk sem barist hefur streitulaust fyrir naívri markaðshyggju, alþjóðavæðingu og inngöngu í Evrópusambandið. VG voru óþreytandi í baráttu sinni gegn nýfrjálshyggju og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), en aðgerðir VG í núverandi ríkisstjórn sýndu og sönnuðu að flokkurinn var jafnvel Don Quixote fremri í orustum sínum gegn vindmyllum. Flokkurinn varð harðasti málaliði AGS, Icesave-aflanna og erlendra hrægammasjóða á ögurstundu íslenskrar alþýðu.
Það er auðvitað grátbroslegt að fylgjast með því hvernig fráfarandi formenn þessara tveggja flokka lifa í veruleikafirrtum draumnum um sameiningu vinstrimanna og goðsögn um mátt »vinstristjórnar« þegar annar flokkanna er harðasti markaðshyggjuflokkurinn í landinu og hinn telur sig vera fyrirmynd í innleiðingu nýfrjálshyggjustefnu AGS á alþjóðavísu. Það er auðvitað engin tilviljun að ríkisstjórnin varði ekki íslenska velferðarkerfið og reisti aldrei skjaldborg heimilanna.
Útfararstjóri eigin jarðsetningar
Tímabils núverandi ríkisstjórnar verður minnst sem kveðjustundar félagshyggjunnar líkt og ærandi sálumessu frelsandi hugmyndafræði. Þegar á reyndi barðist hún ekki fyrir hefðbundnum grundvallarmarkmiðum vinstrimanna og vörn velferðarkerfisins enda standa að baki henni flokkar sem snúið hafa baki við þessum markmiðum og berjast í dag aðeins fyrir tvö markmið: náttúruvernd og inngöngu í Evrópusambandið. Flokkarnir sneru baki við þjóðinni á ögurstundu og uppskera sögulegt fylgishrun og afneitun þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur í raun verið útfararstjóri eigin jarðsetningar.
Athugasemdir
Þetta er vel skrifaður pistill og engu við hann að bæta.
Seiken (IP-tala skráð) 11.3.2013 kl. 14:07
Þessi ríkisstjórn er svo sannfærð um eigin ágæti, og halda því á lofti hvar sem þeir koma því við, hvað þeir hafið unnið gott starf og séu frábær. Málið er bara að þetta er ekki það sem almenningi finnst. Það er því ákveðin tvískinnungur þarna.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2013 kl. 18:44
óttaegt bull er þetta endalaust. það var vel vitað fyrir kosningar 2009 að Ísland myndi auðvitað halda áfram í prógrammi IMF.
það sem vinstri stjórnin gerði var að hlífa velferðarkerfinu og haga skattakerfinu þannig að álögur leggðust frekar á hin breiðu bök en álögum létt af þeim er minna áttu.
En svokölluð ,,vinstri" vakt hefði náttúrulega viljað hafa það á hinn veginn og viljað aflétta sem mest öllum íþyngjandi álögum á sjallaelítuna sem hún starfar fyrir.
Algjör skömm að skrifum þessarar soraöfgasíðu. Skammist ykkar bara fyrir að ráðast svona að þjóðinni trekk í trekk.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.3.2013 kl. 12:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.