Evruríkin eru berskjölduð gagnvart hagsveiflum, segir einn fremsti hagfræðingur Evrópu
10.3.2013 | 10:11
Evran hefur aukið sveiflur í hverju evruríki fyrir sig vegna þess að þjóðríkin misstu stjórntæki sín til sveiflujöfnunar án þess að nokkur sambærileg stjórntæki kæmi í staðinn. Hann varar Íslendinga við því að taka upp evrur vegna þess að hagsveiflur í hagkerfi okkar séu aðrar en á evrusvæðinu.
Paul De Grauwe er prófessor í alþjóðahagfræði við London School of Economics og talinn einn allra fremsti sérfræðingur í Evrópu um gjaldmiðlasvæði. Aðvörunarorð hans til Íslendinga koma ekki á óvart og eru i fullu samræmi við það sem margoft hefur verið bent á hér á Vinstrivaktinni. Eftirfarandi er byggt á viðtölum við De Grauwe sem birtust í Viðskiptablaðinu svo og í Morgunblaðinu í gær:
,,Evran var frá upphafi líkt og hús án þaks, segir De Grauwe. Til að laga galla kerfisins verður að taka upp mun nánara pólitískt samband aðildarríkjanna, en það er afar lítill og jafnvel enginn vilji til þess. Er líklegt að Frakkar eða Þjóðverjar vilji gefa upp fjárlagavaldið til Brussel? Mér þykir það ólíklegt.
Hann segir því að líklega muni næstu ár einkennast af hverju áfallinu á fætur öðru og plástralausnum sem ekki dugi í langan tíma í senn. Það getur ekki dugað til eilífðar, bætir hann við. Í samtali við Morgunblaðið segir De Grauwe að þrátt fyrir að evrulöndin hafi sameiginlega mynt séu hagsveiflur þeirra ekki eins. Og hin sameiginlega mynt hafi leitt til þess að hagsveiflurnar hafi magnast. Þegar Spánn var í uppsveiflu var efnahagslíf Þýskalands í lægð. Þar sem vaxtastigið tók ekki mið af aðstæðum á Spáni var mikið um lántökur, enda vextir lágir, og á sama tíma stækkaði fasteignabólan. Vaxtastigið ýkti uppsveifluna. Það þurftu því að vera til staðar tól og tæki til að halda aftur af lántöku við þessar aðstæður, til að mynda væri gerð krafa um aukið eigið fé í lánum, svo fólk tæki minna af lánum, eða hækka bindiskylduna, svo dæmi sé tekið.
Blaðamaður Mbl. spyr De Grauwe: Hvernig væri hér umhorfs ef Ísland hefði haft evruna?
»Ég held að þá hefði verið erfiðara fyrir Ísland að takast á við efnahagskreppuna. Kreppan hefði verið dýpri, meira atvinnuleysi og lítil von um umskipti á næstunni. Íslenska krónan hefur lækkað mikið í verði og það hefur verið lykillinn að því að blása lífi í efnahaginn.«
- Þú ráðleggur Íslendingum að hafa varann á varðandi inngöngu í Evrópusambandið. Af hverju?
»Hagkerfið ykkar er sérstakt, hagsveiflur eru aðrar en á evruvæðinu. Oft og tíðum er peningamálastefnan frá Brussel ekki rétt fyrir ykkur. Ég mæli með því að þið bíðið þar til óvissan í Evrópusambandinu verður minni. Ég myndi sannarlega ekki taka upp evruna núna.«
Meirihluti áfram andsnúinn aðild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Viðtalið við De Grauwe er um margt merkilegt og samlíkingin sem hann notar nokkuð skemmtileg.
Hann líkir evrunni við fallegt hús sem ekki hefur enn verið sett þak á. Meðan vel viðrar eru allir ánægðir sem í þessu húsi búa, en þegar syrtir í lofti átta íbúarnir sig á að þakið vantar.
Þegar hann var spurður að því hvort hann teldi að þak yrði fljótlega sett á þetta hús, taldi hann ekki svo verða. Hræðsla stjórnmálamanna væri of mikil og að þeir gerðu aldrei meira en bráð nauðsynlegt væri. Því sæi hann fyrir sér að þetta glæsihýsi yrði þaklaust um næstu framtíð.
Hús án þaks er lítið skjól. Fyrir okkur Íslendinga er enginn akkur að fá gistingu í slíku húsi. Þá er ljóst að þaklaust hús skemmist fljótt undan veðrum, það fúnar og að lokum fellur það saman.
Því má túlka orð De Grauwe sem svo að hann sé að spá endalokum evrunnar. Það er nokkuð merkilegt af manni sem var einn af höfundum þessa gjaldmiðils og hefur verið hellsti talsmaður hans frá upphafi.
Gunnar Heiðarsson, 10.3.2013 kl. 10:37
Reynslan af ummælum erlendra sérfæðinga, jafnvel heimsfrægra, um efnahag Íslands er mjög slæm.
Eru allir búnir að gleyma þeim sem komu hingað fljótlega eftir hrun? Þeir sögðu okkur að við ættum ekki að borga skuldir okkar því að við gætum það ekki. Parísarklúbburinn átti að vera okkar eina athvarf. Annað kom á daginn.
Almennt þekkja erlendir sérfræðingar lítið eða ekkert til annmarka lítilla gjaldmiðla sem krefjast gjaldeyrishafta. Gjaldeyrishöft takmarka útflæði gjaldeyris eins og þeim er ætlað að gera. En þar sem þeir takmarka einng innflæðið eru þau stórskaðleg.
Það er rétt að evran hefur þá annmarka að hún krefst agaðri hagstjórnar en eiginn gjaldmiðill. En sá agi margborgar sig fyrir allan almenning og fyrir þjóðfélagið i heild, sérstaklega Ísland vegna þess að krónan er ónýt vegna smæðar.
Með evru verður ekki lengur hægt að skerða kaupmátt launa með gengislækkunum. Það verður ekki lengur hægt að hækka skuldir. Erlendar skuldir ríkisins tvöfaldast ef gengi krónu lækkar um helming. Það gæti riðið okkur að fullu.
Með evru lækka vextir mikið. Það mun lækka greiðslubyrði húsnæðislána miklu meira en 20% lækkun á höfuðstól krónulána mun leiða til. Hvers vegna berjast skuldarar ekki fyrir upptöku evru frekar en að aðrir greiði skuldir þeirra?
Evran er eins og nokkuð strangur skóli. Ef þú gengur í skólann og stundar námið af kostgæfni verður ávinningurinn gífurlegur. Ef þú lætur allt reka á reiðanum fer illa.
Það er þegar komin reynsla á að evran hentar ólíkum hagkerfum. Ríki þurfa fyrst og fremst að gæta þess að verða ekki of skuldug og að almenningur og fyrirtæki safni heldur ekki of miklum skuldum. Þau verða alltaf að reikna með hagsveiflum.
Samdráttur er óhjákvæmilegur eftir uppsveiflu. Að skuldsetja sig upp í rjáfur í uppsveiflu er því feigðarflan. Kostir evrunnar eru hins vegar að sveiflurnar verða miklu minni ef takmörk hennar eru virt.
Þær þjóðir sem hafa lent í vandræðum með evru hefur öllum orðið á alvarleg mistök. Þær hafa leitt hjá sér takmarkanir evrunnar og leyft skuldum að vaxa upp úr öllu valdi annaðhvort ríkisskuldum eða skuldum þjóðarbúsins nema hvorttveggja sé.
Reynsla þessara þjóða af mistökum sínum mun kenna þeim að virða þær takmarkanir sem evran setur. Þegar þær svo sjá hve ríkulega þeim er umbunað fyrir það munu þær gæta sín í framtíðinni.
Slík aðlögun getur tekið tíma. Núverandi kreppa hefur þó þann kost að stytta þennan aðlögunartíma. ESB og evra munu koma sterk út úr kreppunni.
Það er enginn að tala um að taka upp evru núna enda er það ekki hægt. En með því að ganga sem fyrst í ESB verður það hægt rúmum tveim árum seinna ef okkur sýnist svo.
Bretar og Bandaríkjamenn sjá ofsjónum yfir evru enda rýrir hún þeirra eigin gjaldmiðil. Það er því auðvelt fyrir þá að vera á móti evru þar sem þeir þekkja lítið til staðhátta.
Hinn bresk-bandaríski Willem Buiter, aðalhagfræðingur Citigroup og fyrrum meðlimur í peningastefnunefnd Bank of England er vel kunnugur íslenskum aðstæðum eftir vinnu fyrir íslenska ríkið og gamla Landsbankann.
Hann sá fyrir hrunið í frægri skýrslu fyrir Landsbankann sem var stungið undir stól. Hann mælir eindregið með ESB-aðild Íslands og upptöku evru.
Ásmundur (IP-tala skráð) 11.3.2013 kl. 10:44
Í stað þess að jafna sveiflur með gengisbreytingum eykur krónan sveiflurnar. Á þetta bendir seðlabankinn í skýrslu sinni.
Íslendingar ættu að spyrja sig hvers vegna hafa stjórnvöld allra þeirra landa sem hafa átt möguleika á að ganga í ESB lagt til aðild? Hvers vegna hafa allar þessar þjóðir nema tvær, sem standa Íslandi efnahagslega langtum framar, samþykkt aðild?
Sigmundur Davíð hefur svarað þessu og sagt að við eigum ekki erindi í ESB vegna þess að við séum svo ólík öllum hinum þjóðunum. Hann útskýrði það ekki nánar.
Fyrir utan landfræðilega legu felst sérstaða okkar einkum í þörf á traustum gjaldmiðli og í ófullkomnum lögum. Hvorttveggja gerir þörf okkar á ESB-aðild meiri en flestra ef ekki allra annarra þjóða.
Allir þekkja annmarka krónunnar: Miklar gengissveiflur, mikil verðbólga, háir vextir, verðtrygging, gjaldeyrishöft, snjóhengja ofl. Minna hefur verið rætt um annmarka íslenskra laga í þessu samhengi.
Það er þó ljóst að 320 þúsund manna þjóð getur ekki haldið úti vönduðum lögum eins og 500 milljóna ESB. Einnig hefur fámennið þau áhrif að þrýstihópar hafa mikil áhrif á lögin.
Réttarvernd Íslendinga er því illa tryggð. Gallar á lögum leiða til sýknunar á augljósum brotum eða hugsanlega sakfellingar án tilefnis. Íslenskir dómstólar hafa margoft verið gerðir afturreka af Mannréttindadómstól Evrópu með mannréttindabrot.
Reglan um hlutfallslegan stöðugleika tryggir okkur allar aflaheimildir í íslenskri landhelgi. Ísland er fyrir norðan 62°N breiddargráðu og fær því sömu sérlausn og Finnar og Svíar í landbúnaðarmálum. Síðan má búast við sérlausnum sérstaklega vegna okkar aðstæðna.
Það eru því öfugmæli að Íslandi sé frekar betur borgið utan ESB en ESB-þjóðunum. Þvert á móti er þörf okkar fyrir aðild meiri. Ein á báti með ónýtan gjaldmiðil án bandamanna er ástand sem leiðir til einangrunar og versnandi lífskjara.
Hvernig eigum við þá að geta greitt himinháar skuldir ríkissjóðs?
Ásmundur (IP-tala skráð) 12.3.2013 kl. 11:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.