VG hafnar aðild en vill gefa ársfrest til að ljúka viðræðum
24.2.2013 | 16:42
Landsfundir Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG, sem allir hafa verið haldnir í þessum mánuði, sýna ótvírætt að Samfylkingin er óðum að einangrast í sókn sinni undanfarin fjögur ár með þjóðina inn í ESB.
Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins nú um helgina var enn hert á andstöðu flokksins við ESB-aðild miðað við þær samþykktir sem gerðar voru á landsfundinum 2011. En þá var samþykkt að gera skuli hlé á viðræðunum. Að þessu sinni samþykkti landsfundurinn með miklum meirihluta atkvæða að aðildarviðræðunum við ESB skuli hætt og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá var íhlutun sendiherra ESB í íslensk stjórnmál mótmælt og að Evrópusambandinu skuli gert að loka kynningarskrifstofu þess hér.
Flokksþing Framsóknarflokksins sem haldið var fyrr í mánuðinum tók líka af öll tvímæli um að aðildarferlinu verði hætt þegar í stað. Flokkurinn staðfesti það mat sitt að Íslandi sé best borgið utan Evrópusambandsins og að útistandandi ESB-umsókn verði afturkölluð. Þá verði ekki sótt um aðild að nýju án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er alveg hreint samkvæmt þessari ályktun að nú verður ekki lengra haldið. Þeim verður hætt og ekki hafnar aftur nema þjóðin vilji halda áfram aðildarferlinu, sagði Frosti Sigurjónsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, um ályktun flokksins um utanríkismál sem samþykkt var á flokksþinginu.
Í drögum að samþykktum landsfundar VG sem haldinn er nú um helgina segir afdráttarlaust að hreyfingin hafni ESB-aðild. Skoðanakannanir sýna að einungis fjórði hver hugsanlegur kjósandi VG er hlynntur inngöngu Íslands í ESB og hafa þó fjölmargir gefist upp á stuðningi sínum við VG eftir að hreyfingin lét flækja sig í í ESB-neti Samfylkingar.
En um leið og þessu kjörtímabili lýkur verða vatnaskil, einnig hjá VG. Umræðuhópur um utanríkismál lagði eftirfarandi tillögu fram á fundinum og naut hún stuðnings mikils meirihluta þeirra sem þátt tóku í störfum hópsins:
VG telur að þar sem ekki tókst að ljúka viðræðum við ESB á kjörtímabilinu og mikil óvissa ríkir um þróun mála innan ESB, sé rétt að viðræðum við ESB skuli ekki haldið áfram á næsta kjörtímabili nema því aðeins að meirihluti sé því samþykkur í þjóðaratkvæði að stefnt sé að inngöngu í ESB.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis lagði til að tillagan yrði orðuð svo og var það samþykkt á landsfundinum:
VG telur að þar sem ekki hefur tekist að ljúka viðræðum við ESB á kjörtímabilinu og mikil óvissa ríkir um þróun mála innan ESB, sé rétt að aðildarviðræðum við ESB skuli ekki haldið áfram á næsta kjörtímabili nema því aðeins að meirihluti sé því samþykkur í þjóðaratkvæðagreiðslu.
En síðan voru greidd atkvæði milli tveggja tillagna, þ.e. annars vegar þessarar tillögu og hins vegar svofelldrar tillögu:
Landsfundur VG telur að Íslandi sé best borgið utan ESB en vill ljúka aðildarviðræðum við ESB og setja ferlinu tímamörk, t.d. eitt ár frá kosningum. Þjóðin kjósi síðan um niðurstöður aðildarviðræðna. VG mun ennfremur beita sér fyrir því að tryggðar verði breytingar á stjórnarskrá þannig að þjóðaratkvæðagreiðslan um ESB verði bindandi en ekki aðeins ráðgefandi.
Atkvæði greiddu 156 og varð þá niðurstaðan sú að 83 samþykktu þessa seinast nefndu tillögu en 72 studdu tillöguna um að setja framhald aðildarviðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Munurinn var aðeins 11 atkvæði á fundi sem sóttur var af nokkrum hundruðum fulltrúa, og endurspeglar sú niðurstaða fyrst og fremst þá staðreynd að mjög mikill ágreiningur var á fundinum um framhald þessa máls.
Af þessu yfirliti um stefnumótun þriggja stjórnmálaflokka seinustu dagana er þó engu að síður ljóst að Samfylkingin er stöðugt að einangrast meira og meira í aðildarbrölti sínu og yfirgnæfandi líkur eru á því að umsóknarferlinu ljúki nú í vor. - RA
VG vill ljúka ESB-viðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta sínir að forista VG var alltaf ESB sinnuð en þessi flokkur er búinn það eitt er víst.
Valdimar Samúelsson, 24.2.2013 kl. 17:35
Mér sýnist nú Samfylkingin ekki vera að einangrast neitt í aðildarbröltinu. Samstarfsflokkurinn VG samþykkti á landsfundinum í dag að standa með ESB aðildarumsókninni út yfir gröf og dauða.
Björt Framtíð fylgir Samfylkingu að málum og greinilega er hin nýja Lýðræðisfylking sama sinnis.
Ef nokkuð er þá hefur Samfylkingu bæst þó nokkur liðsauki.
Kolbrún Hilmars, 24.2.2013 kl. 17:35
Með þessari ályktun sem reyndar var samþykkt með naumindum á Landsfundi VG þá staðfestir flokkurinn nú endanlega pólitíska geðklofasýki sína í ESB málinu og að sífelld þjónkunn þeirra við Samfylkinguna á sér enginn takmörk.
Þessi nýjasta moðsuða og sýndarmennska þeirra er bara enn einn naglinn í líkkistu þessa flokks !
Gunnlaugur I., 24.2.2013 kl. 18:16
Sem betur fer fyrir vinstrisinnaða fullveldissinna, er til vinstriflokkur sem leggur mikla áherslu á fullveldi. Það er Alþýðufylkingin. Sjáið t.d. Ályktun um Evrópusambandið, sem framhaldsstofnfundur okkar samþykkti um síðustu helgi.
Vésteinn Valgarðsson, 24.2.2013 kl. 20:08
Stefna VG markast núnan af því að 11 manna meirihluti vill svo gott sem klára ESB-aðlögun Íslands á meðan kjósendur flokksins kysu helst að halda sig utan ESB. Þessi hörmungarniðurstaða getur varla heillað marga.
En hafa ber í huga að Steingrímur J. lofaði andstöðu gegn AGS, ESB og Icesave en sveik það allt um leið og hann settist í ráðherrastólinn. Kannski VG- kjósendur verði að treysta á að nýju loforðin verði svikin núna, svo að allt gangi upp til samræmis við vilja þeirra kjósenda?
Ívar Pálsson, 24.2.2013 kl. 22:04
Það verður fróðlegt að vita hvort þessi minnihluti upp á 11 manns, muni halda áfram að vera í VG, eða flytja sig yfir til Vésteins og félaga nú þegar útséð er um að VG ætlar að halda áfram þessu ESB brölti.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.2.2013 kl. 22:27
Tölulega er það ekki þannig, Ásthildur. Þeir voru 72 sem vildu hætta viðræðum núna en 83 studdu ESB aðlögun áfram.
Upphaflega var talað um 404 atkvæðisbæra á flokksþinginu, þar af 249 sem greiddu atkvæði í formannskjörinu. 155 týndir.
Síðan aðeins 156 sem greiddu atkvæði um ESB. 93 týndir í viðbót.
Mér sýnist á þessu að Alþýðufylkingin megi því alveg eins búast við að fá 155+93+72 af flokksbundnum VGingum.
Kolbrún Hilmars, 24.2.2013 kl. 22:38
Já einmitt, rétt orðað hjá þér.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.2.2013 kl. 22:58
VG geta auðvitað ekki gefið neinn frest til að ljúka viðræðum því að það er ómögulegt að segja fyrir um hve langan tíma það tekur.
Það er rangt að fresturinn sé bundinn við eitt ár. "Til dæmis eitt ár" gæti vel orðið tvö ár. Og auðvitað verður þeim ekki slitið ef reyndin verður sú að tvö ár nægja ekki.
Það sannaðist á landsfundinum það sem ég hef svo oft haldið fram að Jón Bjarnason og aðrir fyrrum villikettir í VG höfðu nánast ekkert fylgi.
Tillagan sem var samþykkt var breytingartillaga frá tillögu um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna sem Katrín formaður studdi.
Það kom því á óvart að breytingartillagan skyldi samþykkt. Það endurspeglar mikinn stuðning við frammistöðu Steingríms á kjörtímabilinu.
Að sjálfsögðu samrýmist það prýðilega að vera á móti aðild en vilja gefa þjóðinni kost á að kjósa um aðild þegar samningur liggur fyrir.
Ásmundur (IP-tala skráð) 25.2.2013 kl. 00:36
Kannski VG- kjósendur verði að treysta á að nýju loforðin verði svikin núna - -
Já, en varla kýs nokkur alvöru fullveldissinnaður maður lengur VG.
Elle_, 25.2.2013 kl. 01:09
Þeir eru næstum allir flúnir.
Elle_, 25.2.2013 kl. 01:12
Ef einhver fullveldissinnaður vinstrimaður var ennþá að hugsa um það fyrir helgi, að trúa forystu VG fyrir atkvæði sínu í Alþingiskosningunum, þá ættu samþykktir helgarinnar að fá hann til að hugsa sig aftur um. Vinstriarmurinn í VG hefur verið hrynjandi árum saman og vinstrimenn sem eru í alvörunni vinstrisinnaðir eiga þar minna og minna skjól. Ég reyndi til þrautar að snúa þessari skútu við, en gekk frá borði þegar ég taldi það fullreynt. Alþýðufylkingin fyllir það pólitíska tómarúm á vinstrivængnum sem hefur farið stækkandi og stækkandi um árabil.
Vésteinn Valgarðsson, 25.2.2013 kl. 14:19
"Ef nokkuð er þá hefur Samfylkingu bæst þó nokkur liðsauki."
Það er ekki alveg rétt, því að bæði Lýðræðisfylkingin, Björt Framtíð og VG eru ekki annað en útibú frá Samfylkingunni. Þótt naumur meirihluti sé fyrir aðild á Alþingi núna, þá á það eftir að breytast í vor, þ.e. stuðningur við aðild fellur undir 30%, jafnvel niður í 24% sem þá myndi endurspegla viðhorf þjóðarinnar.
En þetta leikrit sem VG setti á svið sjá allir í gegnum. Þau halda víst að við séum fífl. Katrín er orðin strengjabrúða Björns Vals, sem jú aftur er strengjabrúða Steingríms. Og Ögmundur? Það mun sennilega ekki heyrast meira frá honum um þetta mál, því að hann hefur ekki lengur nein völd í flokknum.
Pétur (IP-tala skráð) 26.2.2013 kl. 12:58
Pétur, VG gaf sig ekki út fyrir að vera útibú frá Samfylkingu fyrr en nú um helgina. Það kalla ég liðsauka.
Auk þess er alls ekki víst að Björt Framtíð og Lýðræðisfylkingin höfði eingöngu til SF sinna. Þar innanflokka gætu leynst nokkrir fv. Frammarar og Hreyfingarsinnar.
Kolbrún Hilmars, 26.2.2013 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.