Ungliðar í VG leggja fram ESB tillögu fyrir Landsfund
11.2.2013 | 11:41
Ungliðar í VG hafa lagt fram tillögu fyrir Landsfund flokksins sem haldinn verður síðar í þessum mánuði. Þar er tekið undir þá hugmynd sem var rædd her á blogginu í gær að efnt verði til kosninga um ESB. Orðrétt segir í tillögu stjórnar ungra vinstri grænna:
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs telur nauðsynlegt að endurskoða afstöðu ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Sú valdbeiting sem varð til þess að ríkisstjórnarþingmenn samþykktu aðildarumsókn á sínum tíma má ekki verða til stefnumótunar fyrir áframhaldandi samstarf félagshyggjuflokkanna. Ef möguleiki á að vera á slíku samstarfi þurfa meðlimir stjórnarflokkanna að leggja til hliðar ofstækisfulla orðræðu og taka ákvörðun um hvort halda eigi ferlinu áfram.
Ósamstaða vegna þessa máls hefur klofið hreyfinguna og bera þar óbilgirni umsóknarandstæðinga og meðfærileiki flokksforystunnar gagnvart kröfum samstarfsflokksins hvort tveggja sök. Sú málamiðlun sem var gerð á stefnu hreyfingarinnar við ríkisstjórnarmyndun hefur ekki breytt afstöðu hennar til aðildarumsóknar. Það er yfirlýst afstaða hreyfingarinnar að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en að aðild verði aðeins ákvörðuð með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Landsfundur telur nauðsynlegt að ákvörðun um áframhaldandi aðildarviðræður verði lögð í dóm þjóðarinnar.
Stjórn Ungra vinstri grænna
Það sem vekur hér athygli er að í tillögunni er afdráttarlaus yfirlýsing um að valdbeitingu hafi verið beitt við að koma aðildarumsókn í gegnum Alþingi. Þetta er í reynd hið alvarlegasta sem hægt er að saka lýðræðislega ríkisstjórn um,- að hún beiti Alþingi valdi við að koma máli sínu í gegn. Þessu hefur verið haldið fram m.a. af þingmönnum sem hafa yfirgefið VG. En þegar lengra er lesið í tillögu ungliða er greinilegt að hún er í heild málamiðlun milli ESB sinna og ESB andstæðinga því rétt síðar eru umsóknarandstæðingar sakaðir um óbilgirni, líklega þá einmitt þeir sem ekki voru til í að beygja sig fyrir valdbeitingu ríkisstjórnarinnar.
Tillagan endar á málsgrein sem gefur VG færi á að samþykkja ályktunina en aðhafast ekkert þar sem engin tímamörk eru á því hvenær efna eigi til atkvæðagreiðslu og taka þar með ákvörðun um framhaldið. Forystan hefur því möguleika á að standa að umsókinni út kjörtímabilið en getur svo að nýju beitt sér sem andstöðuflokkur við ESB eftir kosningar - enda þá væntanlega í stjórnarandstöðu.
Spurningin hlýtur að vera hversu trúverðugt útspil er hér á ferðinni. /-b.
Athugasemdir
Í þessari tillögu er ekkert minnst á að þingmenn VG hafi bitið höfuðið af skömminni með því að samþykkja að þiggja "aðlögunarstyrki" ESB.
Nei - ekki trúverðugt útspil.
Kolbrún Hilmars, 11.2.2013 kl. 13:53
Yfirlýsingin er ómarktæk, ef bara væri fyrir það að saka einu landvarnarmennina í stjórnarflokkunum, hina svokölluðu villiketti, um óbilgirni. Þau börðust við landsölumenn og neituðu að fórna landi og lýð.
Elle_, 11.2.2013 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.