Á fullveldið bjarta framtíð?

Fyrir áhugamenn um stjórnmál eru nú uppi mjög áhugaverðir tímar. Hér verður fyrst og fremst horft á stöðuna út frá ESB málum. Fyrst af öllu er ástæða til að vara við þeim hugsunarhætti að baráttunni gegn aðild að ESB sé lokið og umsóknin þegar búin að vera. Evrópusambandið er stærri og meiri andstæðingur en svo og á hér vaska sveit sem ekki skyldi vanmeta. Hér verður rýnt í tölur og dregnar ályktanir af nokkrum síðustu könnunum.

Framsóknarflokkurinn er í sókn og það er ánægjuefni út frá stöðunni í ESB slagnum því þar í flokki hafa ESB andstæðingar nú yfirhöndina. Þar eru vissulega enn ESB sinnar í þingliði og meðal óbreyttra flokksmanna en engu að síður er mikill meirihluti fyrir því að hætta aðlögunarferlinu tafarlaust. Flokkurinn gæti fengið 12-18% samkvæmt nýjustu könnunum.

Af VG er það að frétta að velflestir ESB andstæðingar eru þar farnir frá borði en allmargir ESB sinnar hafa gengið til liðs við flokkinn á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir vasklega baráttu nokkurra úr okkar liði á síðasta flokksráðsfundi verður að teljast hæpið að flokkurinn hasli sér framar völl sem baráttuflokkur gegn ESB aðlögun. Til þess skortir hann trúverðugleika og það er vafamál hvar meirihluti flokkskjarnans liggur í þessu máli. Fylgi VG er lítið um þessar mundir en það er þó varlegt að áætla að fylgið verði um eða jafnvel aðeins yfir 10% í komandi kosningum. Það er um helmingur þess sem var í síðustu kosningum.

Um Samfylkinguna þarf í reynd ekki að tala í þessu efni því innan þess flokks leyfist aðeins ein opinber skoðun. Virðist þá engu breyta að stór hluti kjósenda er og hefur verið fullur efasemda um ágæti þess að ganga í ESB. Stærstu tíðindin eru vitaskuld að flokkurinn er líkt og VG í frjálsu falli og ekkert sem bendir til að nýkjörnum formanni takist að snúa þeirri þróun við. Miklu sennilegra er að vinstri menn hörfi nú enn frekar frá Samfylkingunni og ætla má að fylgi flokksins verði um 15-20%.

Björt framtíð er líkt og Samfylkingin hreinn ESB flokkur og í mikilli sókn þessa dagana. Fyrir fullveldi þjóðar er ekkert bjart við þennan nýja flokk. Fjölmargir sem bloggari hittir segjast ekki geta hugsað sér að kjósa neinn gömlu flokkanna og þá sé Björt framtíð raunhæfasti kosturinn. Margir þessara eru einlægir ESB andstæðingar en afgreiða það mál sem svo að umsóknin sé þegar búin að vera og því allt í lagi að ljá Guðmundi Steingrímssyni atkvæði sitt. Fylgi þessa dótturfyrirtækis Samfylkingarinnar gæti því orðið 10% eða jafnvel meira sem er gríðarlega mikið hjá nýjum flokki.

Lestina í þessum stjórnmálaspádómum rekur Sjálfstæðisflokkurinn sem er vægast sagt blendinn í trúnni þegar kemur að ESB. Formaður, varaformaður og formaður þingflokks hafa öll á einhverjum tímapunkti lýst yfir hálfvoglu fylgi við ESB aðlögun og sama er að segja um mjög volduga og sterka aðila í bæði flokkseigendafélagi og grasrót þess flokks. Landsfundarsamþykktir og vilji mikils meirihluta flokksmanna gengur í aðra átt og meðal þingmanna hans, núverandi og verðandi eru margir traustir baráttumenn gegn aðild og aðlögun. Flokkurinn er eftir kosningar til alls vís og þarf ekki mikið til að hann kaupi ráðherrastóla því verði að halda viðræðunum áfram. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt þetta kjörtímabil verið í sókn og mun vafalítið enda með um eða yfir 40% fylgi.

Reikniglöggir menn sjá að hér eru gerð grein fyrir um (15+10+18+10+40) 93% en flokkum sem ekki ná manni á þing er einmitt spáð um 7%. Fyrir okkur sem viljum tryggja áframhaldandi fullveldi er þessi niðurstaða ekki nema rétt svo ásættanleg. Fyrir utan blendið eðli Sjálfstæðisflokksins þá eru flokkar sem hafa ESB ýmist á stefnuskrá eða ferilskrá með nálægt 40% fylgi sem er til muna meira en t.d. fylgi umsóknarinnar hjá þjóðinni.

Betur má ef duga skal! /-b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég ætla með ykkar leyfi að svara athugasemd Jóns Frímanns á þræðinum Allt í þágu ESB, þar eð tímamörkin liðu.

Jón Frimann: Þú vitnar í upplýsingar um ein samtök, Folkebevægelsen mod EF til að láta fólk halda að þetta séu þeir einu sem eru á móti ESB-aðild. Frekar viðvaningslegt af þér. Þér myndi vegna mikið betur ef þú reyndir ekki að slá ryki í augu fólks.

Þær hreyfingar og flokkar, bæði til hægri og vinstri sem eru andsnúnir ESB, þótt sumir af þeim hafa gefizt upp á því að segja sig úr sambandinu, sem er ómögulegt, en eru samt ESB-andstæðingar, eru:

1. Folkebevægelsen mod EF

2. Junibevægelsen

3. Enhedslisten

4. Dansk Folkeparti

5. Retsforbundet

6. Socialistisk Folkeparti.

Svo er hægt að telja hversu mörg atkvæði þessir fengu í síðustu kosningum til þings (Þjóðþingsins og/eða ESB-þingsins). Svo veit ég frá meira en 2ja áratuga dvöl minni þar, að margir kjósendur Socialdemokratiet og Venstre, þótt þingflokkarnir séu hlynntir ESB, eru ESB-andstæðingar, því að ég þekkti þetta fólk eða las greinar þeirra í blöðunum.

Málið er nefnilega þa, að ólíkt íslenzku Samfylkingunni, þá eru dönsku þingflokkarnir ekki eins-málefnis flokkar. Þeir dönsku kratar sem kjósa Soc. eru ekki allir sáttir við ESB vegna lægri standards sem sambandið tilskipar, en kjósa flokkinn út af öðrum málefnum, sem tengjast velferð, þótt flokkinum hafi því miður förlast í þeim efnum eftir hægrisnúninginn á tíunda áratugnum. Margir kjósendur Venstre eru frjálshyggjumenn en eru óhressir með forræðishyggjuna í ESB.

Pétur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 13:03

2 identicon

Það er vafalaust að þeir flokkar sem enn sem komið er hafa tilkynnt um framboð til þings eru allir tilbúnir að svíkja í Evrópumálunum. Þar er engum treystandi.

Guðmundur S. Brynjólfsson (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 14:10

3 identicon

Er ekki svolítið kjánalegt af höfundi þessa pistils að opna skrifin með því að stimpla Evrópusambandið sem "andstæðing". Verð nú að segja eins og er að maður skilur nú hvorki upp né niður í svona viðhorfi. Að stimpla ESB, þar sem allflestar okkar vina-, viðskipta-, og nágranaþjóðir eru innaborðs, sem "andstæðing"! Merkieg nálgun. Ef ESB er okkar andstæðingur þá væri forvitnilegt að fá að vita hverjir eru okkar "samherjar"?

Úlfar Hauksson (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 15:53

4 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Pétur, Merkilegur listi. Þó minna í honum en ætla mætti við fyrstu sýn.

#1: Þetta eru hálfdauð samtök. 

#2: Eru ekki til í dag. Hættu árið 2009.

#3: Smáflokkur.

#4: Öfgaflokkur sem er að tapa fylgi þessa dagana í Danmörku.

#5: Stjórnmálaflokkur sem aðhyllist Bandarísk stjórnmál í Danmörku. Hefur ekki mann á þingi og er smáflokkur.

#6: Stærsti stjórnmálaflokkurinn á þessum lista. Virðist engu að síður vera valdalaus í dönskum stjórnmálum og njóta almennt frekar lítils fylgis.

Þannig að eftir 2 áratuga búsetu í Danmörku. Þá veistu samt ekki neitt.

Hérna er svar fyrir Elle á eldri færslu sem núna er lokuð.

"Ætlun mín var ekki að gera Vinstrivaktina ábyrga fyrir hvað fólk skrifar í síðuna.

Það skýtur þó skökku við, að maður sem oft hótar opinberlega að kæra fólk fyrir meiðyrði, og þar með Vinstrivaktina, skuli endalaust leyfa sér að kalla fólk öllu illu, í síðu Vinstrivaktarinnar.

Elle_, 4.2.2013 kl. 12:19"

Ég er ekkert að hóta. Ég er búinn að framkvæma og læt málin fara alla leið ef þessa þarf. Enda sé ekki ástæðu til annars. Sérstaklega þegar fólk hótar mér líkamsárásum og öðru slíku. Ásamt almennum ærumeiðingum hérna.

Jón Frímann Jónsson, 4.2.2013 kl. 16:43

5 identicon

Ég ætla að fá að setja fram tölur í sambandi við fylgi við danska ESB-andstæðingaflokka fyrir Jón Frímann, sem hélt því fram, að aðeins 8% styddu þá:

Í Þjóðþingskosningunum 15.9.2009 fengu andstæðingaflokkarnir (Ø, F, O) alls 28,2%

Í ESB-þingkosningunum júlí 2009 fengu andstæðingaflokkar og -samtök (F, O, N, J) alls 39,5%.

Heimildir: http://www.valg-2011.dk/valgresultat-valg-2011/

og

http://www.europarl.europa.eu/aboutparliament/en/00082fcd21/Results-by-country-%282009%29.html?tab=04#result_party

Svo heldur Jón Frímann þessu fram: "Aftur á móti veit ég fullvel að hérna í Danmörku eru það bara öfgamenn sem berjast gegn aðild Danmerkur að Evrópusambandinu." Sýnir bara hvað hann er fáfróður. Eins og svo margir kratar álítur hann að kjósendur flokka sem ekki eru sammála honum sjálfum séu öfgamenn. Sama gamla klisjan, sem allir sjá í gegnum.

Sem betur fer eru ekki allir ESB-sinnar eins óheiðarlegir og Jón Frímann og Ómar Bjarki. Það hafa verið menn hér á Moggablogginu, sem hafa getað rökrætt um ESB út frá staðreyndum og út frá mismunandi sjónarhornum (eins og t.d. Stefán Júlíusson). Þeir hafa haft mikið til síns máls og fá þeir fulla virðingu mína þótt séu á öndverðum meiði og hafa aldrei viljað eða þurft að grípa til lyga til að viðhalda blekkingum eins og Jón Frímann, Ómar Bjarki og Ásmundur gera alla jafnan.

Takk fyrir áheyrnina.

Pétur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 16:58

6 identicon

Pétur, þú felur ekki eigin lygar með því að kalla aðra lygara að tilefnislausu. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 17:05

7 identicon

"#1: Þetta eru hálfdauð samtök." (um Folkebevægelsen mod EF, sem eru þverpólísk samtök)Þessi samtök fengu samt 7% af atkvæðum í ESB-þingkosningunum 2009 og komu manni inn. 7% er álíka fylgi og Samfylkingin mun fá í kosningunum í vor og þá verður Samfylkingin hálfdauð samtök.

"#4: Öfgaflokkur sem er að tapa fylgi þessa dagana í Danmörku." Það er vitleysa. Það kaus hver 8. danskur kjósandi DF árið 2011. Þú ert bara sár, af því að DF er á móti ESB og á móti hömlulausum innflutningi á ólæsum öfgamúslímum. Svo eru þeir með keppnismál sem kratarnir (Soc.) trössuðu, nefnilega velferð sjúkra og aldraðra og margt fleira. Þú hélzt því fram áður, að enginn vildi starfa með DF. Það er þvæla. Þeir hafa starfað mjög giftusamlega með stærsta flokk Danmerkur, Venstre (sem er hægrisinnaður frjálshyggjuflokkur), bæði á landsvísu og í sveitarfélögum allan síðasta áratug.

"#3: Smáflokkur." (um Enhedslisten, sem er vinstrisinnaðasti flokkur á þinginu). Þeir fengu samt 6,7% í síðustu þingkosningum og juku þá fylgi sitt. 6,7% er álíka og Samfylkingin fær í kosningunum í vor og sem verður þá smáflokkur á Alþingi

Ég vil geta þess fyrir þá sem ekki vita það, að Folkebevægelsen og Junibevægelsen eru ekki í framboði til Þjóðþingsins, aðeins ESB-þingsins.

Pétur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 17:38

8 Smámynd: Elle_

Svar Jón Frímann: Þú hefur ekki efni á að kæra einn eða neinn fyrir meiðyrði, ljúgandi mannorðsníðingurinn sjálfur, ekki heldur Palla.  Hvað þá Vinstrivaktina.

Úlfar, hvaða ESB-þjóð er vinaþjóð okkar?  Engin evrópsk þjóð var beint vinir okkar að ég viti, í  það minnsta ekki stjórnvöld þar, eftir fall bankanna eða í nauðungungarmálinu ICEsave, nema Færeyjar og Grænland.   Og þau ríki eru ekki ESB-ríki.

Elle_, 4.2.2013 kl. 18:18

9 identicon

"Fjölmargir sem bloggari hittir segjast ekki geta hugsað sér að kjósa neinn gömlu flokkanna og þá sé Björt framtíð raunhæfasti kosturinn. Margir þessara eru einlægir ESB andstæðingar en afgreiða það mál sem svo að umsóknin sé þegar búin að vera og því allt í lagi að ljá Guðmundi Steingrímssyni atkvæði sitt."

Þetta er ótrúlegt, ef satt reynist. Hvernig geta menn verið einlægir ESB-andstæðingar og síðan greitt BF atkvæði sitt? Það er fyrir ofan minn skilning.

Ég skil samt vel að skynsamt og heiðarlegt fólk vilji ekki kjósa fjórflokkinn, en þá er betra að skila auðu eða kjósa flokk sem kannski ekki kemst á þing skv. könnunum heldur en að sóa atkvæði sínu í "Bjarta" framtíð.

Pétur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 18:28

10 Smámynd: Gunnlaugur I.

Tek undir með "Elle".

Öfgamaðurinn og mannorðsníðurngurinn Jón Frímann hefur ekki efni á að kæra neinn, eða hóta einu eða neinu.

Þetta brjóstumkennalega mannkerti hefur marg verið staðinn af því hér á netinu að kalla okkur sem viljum ekki ESB aðild öllum illum nöfnum, svo sem að við værum nasistar og fasistar, fífl og bjánar !

Gunnlaugur I., 4.2.2013 kl. 18:35

11 Smámynd: Elle_

Og útlendingahatarar og vitleysingar, þjóðrembingar og öfgamenn.  Og ekki fyrir neitt nema vilja ekki það sem hann sjálfur vill.  Sé hinsvegar ekki betur en hann sjálfur sé allt sem hann kallar saklaust fólk.

Elle_, 4.2.2013 kl. 18:50

12 identicon

Hmmm... hver er munurinn á því að vera öryrki á framfæri íslenskra skattborgara og loka sig inni á herbergi í Danmörku, og lesa um ESB á Wikipediu, og vera öryrki á framfæri íslenskra skattborgara og loka sig inni á herbergi á Skagaströnd og lesa um ESB á Wikipediu?

Munurinn er náttúrulega augljós, öryrkinn sem lokar sig inni á herbergi í Danmörku er sigldur og veraldarvanur. Það er alveg ótrúlegt hversu mikla reynslu menn fá með því að fara í gegnum Kastrup einu sinni. Tala nú ekki um, ef rútuferð yfir Stórabeltisbrúna fylgir með. Það er endanleg staðfesting á því að allt sé svo stórt og frábært í Danmörku, og þar með ESB.

Ekki svo að Freeman geti ekki bætt sig, enda er hann á leiðinni, þó hægt fari, yfir landamærin til Þýskalands. Þar ætlar hann að sækja um lögformlegan ESB stimpil um að hann sé besserwisser af evrópskri náð.

Utan ESB er Freeman reyndar þekktur sem klugscheisser.

Hilmar (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 22:21

13 identicon

Úlfar, Evrópa er enn sem áður vinaþjóðir okkar, en ESB-báknið og regluverk þess er andstæðingurinn. Við blöndum ekki saman þjóðunum, þ.e. almenningi í aðildarríkjum ESB, sem vilja okkur vel annars vegar og svo hins vegar stofnunum ESB,  embættismönnum og hagsmunasamtökum sem vinna gegn smáþjóðum bæði innan ESB og utan, þ.m.t Íslandi og Noregi.

U.þ.b. þegar Jón Frímann var að fara á koppinn í fyrsta sinn, þá sigldi ég til brezks útgerðarborgar (Hull) á íslenzkum togara. Þá var fyrra þorskastríðið í uppsiglingu eftir að landhelgin var færð út í 50 mílur. Þá komst ég að því að þótt ríkisstjórnir og útgerðarmenn deildu, þá var almenningi alveg sama og kom ekkert ver fram við okkur en aðra. Þetta á líka við um Íslendinga sem ferðast til meginlandsins. Þjóðirnar eru ennþá vinir okkar og eru ekkert að kippa sér upp við IceSave eða makríl. Sama hvað Dalmiaki rembist við að eyðileggja orðspor Íslendinga, þá mistekst það, því að almenningur í Evrópu er vinveittur öllum öðrum Evrópuþjóðum. En það eru alltaf einhverjir hérlendis, eins og t.d. Ómar Bjarki, sem sífellt reyna að ala á ímyndaðri fjandsemi milli Íslendinga og annarra þjóða, ekki sízt eftir IceSave-ósigur hans.

Og mín reynsla af fólki frá hinum 50 Evrópulöndum, enda hef ég ferðast um þvera og endilanga álfuna, er að það metur mikils þann mun sem er á milli hinna mjög mismunandi menningarheima og tungumála sem er innan álfunnar. Það hefur almennt alls ekki áhuga á samruna. Það eru bara embættismenn og misvitrir stjórnmálamenn sem vilja það.

Það sem hinar 50 Evrópuþjóðir vilja helzt er starfsöryggi og velmegun. En það er það er ekki það sem ESB hefur verið að færa aðildarríkjunum, þvert á móti. Athuga ber, að þótt Kol- og stálsambandið, (síðan að hluta til EBE) hafi komið í veg fyrir stríðsrekstur í Vestur-Evrópu, þá á ESB engan heiður að neinu og átti engan veginn skilið að fá friðarverðlaunin.

Pétur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 22:24

14 Smámynd: Elle_

Við skulum passa okkur, við gætum fengið yfir okkur kæru fyrir að segja að hann hafi kallað okkur fasista og fífl, og fyrir að segja að maður sé sigldur og veraldarvanur.

Elle_, 4.2.2013 kl. 23:09

15 identicon

Það lítur úr fyrir að flestir andstæðingar ESB-aðildar séu í einhverjum tilfinningalegum vandræðum með það. Þeim finnst ESB ósmekklegt.

Það er ekki nóg með að þeir hafi engin rök gegn aðild, né heldur lausn á alvarlegum efnahagsvanda sem ESB-aðild og evra eru lausn á. Þeim finnist það ekki koma málinu við. Fyrir þeim er þetta nánast eins og að velja sér fótboltalið til að halda með.

Þeim dettur ekki í hug að hugleiða hvers vegna nánast allar þjóðir, sem hafa átt þess kost, hafa gengið í ESB.

Aðeins Sviss og Noregur (fyrir utan örríki með fáeina tugi þúsunda íbúa) hafa leyft sér að fara ekki alla leið inn enda hafa þau efni á að láta það eftir sér.

Vegna smæðar okkar og vegna ónýts gjaldmiðils er þó auðvelt að færa rök fyrir því að varla nokkur ESB-þjóð hafi verið í brýnni þörf fyrir að ganga í ESB en einmitt við.

Geðvonska ESB-andstæðinga með tilheyrandi rangfærslum er ekki innlegg í málið. Það keyrir svo um þverbak þegar staðreyndir eru kallaðar lygar 

Þegar samningur liggur fyrir verður þjóðinni væntanlega ljóst að að okkar hag er best borgið í ESB.

Þá mun vonandi meirihlutinn hafa þroska til að hugsa um hag komandi kynslóða og segja já við ESB-aðild í stað þess að lita á kosninguna eins og val á milli tveggja fótboltaliða. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 08:37

16 identicon

Ég verð að hrósa þér núna Mundi. Það er með ólíkindum að þú skulir getað prumpað frá þér svona þvælu, daginn út og inn, og komast hjá því að segja eitthvað merkilegt eða innihaldsríkt. Tala nú ekki um, að þér tekst að komast hjá því að segja satt, og að sjálfsögðu, eins og áður, algerlega "clueless" um málefnið.

Hann ágerist sá grunur að þú sért forritaður róbóti, sem er stilltur á sjálfvirka þvælu.

Hilmar (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 09:56

17 identicon

Ásmundur: Talandi um Sviss, sem vel að merkja er ekki innan EES, þá sýnir ferillinn mjög vel eðli ESB. Svisslendingar vildu ekki vera í EES, því að þeim fannst fullveldisafsalið of mikið. Og þeir þverneita að gerast meðlimir að ESB, þótt sambandið biðli til þeirra dag og nótt, enda þýðir aðild að ESB fullt afsal sjálfstæðis. Svo að þeir láta sér nægja EFTA, sem er (eða var) fríverzlunarbandalag fullvalda þjóða. En samkvæmt þeirra skilgreiningu eru hvorki Íslendingar né Norðmenn alveg fullvalda, því að þær þjóðir eru þvingaðar til að innleiða tilskipanir frá framkvæmdastjórninni, en ráða samt talsvert meira um eigin málefni en þau ríki sem hafa innlimazt í ESB.

Í staðinn fyrir EES tóku Svisslendingar upp tvíhliða viðskipti við ESB (sem stæði Íslandi og Noregi líka til boða ef farið væri úr EES). Eftir nokkur ár fóru Svisslendingar að kvarta undan því að ESB gæti ekki sinni staðið við gerða tvíhliða samninga án þess neyta ofureflis og þvinga fram viðskiptahalla Svisslendingum í óhag. En svona er sambandið. Ekkert nema helvítis frekjan og yfirgangurinn.

Pétur (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 17:40

18 identicon

Ég vil nýta tækifærið og ræða aðeins um hugtakið fullveldi, því að ESB-sinnar virðast skilja það allt öðruvísi en andstæðingar, enda hafa fullyrðingar varðandi þetta gengið fram og aftur árum saman.

Ísland varð formlega "fullvalda" árið 1918, en samt varð þjóðin ekki sjálfstæð fyrr en 1944, þar eð á meðan sambandssamningurinn var í gildi 1918 - 1944 réðu Danir yfir utanríkismálum (þ.m.t. milliríkjaverzlun) Íslendinga auk íslenzku landhelginni. Þar með fékk Ísland aðeins fulla heimastjórn 1918, en ekki eiginlegt fullveldi eins og ég skil það í ESB-samhengi. Frá 1874 til 1918 hafði landið takmarkaða heimastjórn.

Nú, ESB-sinnar halda því fram, að aðildarríkin séu fullvalda. Þau eru augsjáanlega ekki sjálfstæð, því að ríkisstjórnir ríkjanna hafa ekki fullt vald yfir sinni landhelgi, sínum fjármálum, þær mega ekki veita ríkisstyrki og verða að innleiða allar tilskipanir frá Bruxelles á embættismannastigi (mega ekki taka það til umræðu í þjóðþingunum) vegna valdaframsals skv. Maastricht-sáttmálanum.

En hafa aðildarríkin þá fulla heimastjórn? Nei, heldur ekki, því að skv. regluverki ESB er litið á fjölmörg innri málefni ríkjanna sem hluta af innri markaðnum, þ.m.t. opinberar framkvæmdir og bílaumferð og annað sem takmarkast við ríkin sjálf, en er samt sem áður undirlagt yfirráðum ESB. Þannig að skv. þröngri skilgreiningu hafa aðildarríki ESB ekkert meira en takmarkaða heimastjórn svipað og Íslendingar höfðu frá 1874 og fram til 1918.

Er það það sem við vilum? Fara 100 ár aftur í tímann?

Pétur (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 18:42

19 identicon

Pétur, það er uppspuni að okkur standi til boða tvíhliða samningar við ESB ef við segjum upp EES-samningum. 

Reynslan af slíkum samningi við Sviss er svo slæm að það er mjög ólíklegt að ESB ljái máls á slíkum samningi aftur við Evrópuríki, sérstaklega við örríki eins og okkur.

Þeir eru einnig óraunhæf lausn fyrir örríki enda eru þeir tímafrekir og dýrir. Það getur tekið tíu ár að ganga frá slíkum samningum.

Annars uppfyllum við ekki lengur ákvæði EES-samningsins vegna þess að gjaldeyrishöft samrýmast þeim ekki.

Við verðum því væntanlega brottræk þaðan enda er um grundvallaratriði í EES-samningnum að ræða.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 22:39

20 identicon

ESB-þjóðirnar eru allar sjálfstæð fullvalda ríki eins og hér má sjá dæmi um:

"Danish foreign policy is based on its identity as a sovereign nation in Europe. As such its primary foreign policy focus is on its relations with other nations as a sovereign independent nation."

http://en.wikipedia.org/wiki/Denmark#Foreign_relations_and_military

Danskur fulltrúi ESB, sem hér var fyrir nokkru, sagði að ESB-aðild Dana hefði verið fullveldi þeirra mikil lyftistöng.

Það er fráleitt að bera saman ríki sem lútir stjórn annars ríkis við samstarf ríkja á jafnréttisgrundvelli, sem þau öll hafa tekið sjálfstæða ákvörðun um sér til hagsbóta.

Í EES tökum við við tilskipunum frá Brussel án þess að geta haft nein áhrif á þær. Með ESB-aðild er það liðin tíð enda er þá um að ræða ákvarðanir sem við tökum sjálf í samstarfi við hinar ESB-þjóðirnar.

Við höfum fundið fyrir "fullveldisafsali" vegna EES-samningsins og er ekki annað að sjá en að Íslendingar hafi látið sér það mjög vel líka.

ESB-lög eru miklu vandaðri en íslensk lög sem eru hrein hrákasmíð. Okkur ber því að fagna ESB-lögum á því sviði sem þau ná yfir. Þá gefst tækifæri til að vanda önnur íslensk lög betur. Ekki veitir af.

EES hefur veitt okkur öryggi á mörgum sviðum og tryggt mannréttindi sem íslensk stjórnvöld hafa ekki komist upp með að brjóta.

Það er sama hvaðan gott kemur. Vont verður ekki skárra þó að það sé íslenskt nema þjóðremban sé öllu æðra. 

Skv reglunni um hlutfallslegan stöðugleika höldum við öllum aflaheimildum í íslenskri landhelgi. Það þarf enga undantekningu til þess. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 23:48

21 identicon

"Danish foreign policy is based on its identity as a sovereign nation in Europe. As such its primary foreign policy focus is on its relations with other nations as a sovereign independent nation."

Þetta er hreint bull. Aðildarríkin eru aðeins sjálfstæð (sovereign) að nafninu til. Þau hafa eftir að EBE stökkbreyttist og varð að ESB enga sjálfstæða utanríkisstefnu, aðeins sameiginlega. Danmörk getur þó sem einasta ríki  vegna hinna fjögurra undanþága, sem það fékk meðan EBE var og hét haldið sig utan sameiginlegan hernað, en allar utanríkismál eru teknar í sameiningu og það er ekki ætlast til að aðildarríkin geri neitt í þeim efnum upp á sínar eigin spýtur. Sovereign, my ass!

"Danskur fulltrúi ESB, sem hér var fyrir nokkru, sagði að ESB-aðild Dana hefði verið fullveldi þeirra mikil lyftistöng."

Þessi orð eru svo mikil þvæla, að manni verður flökurt. Hrein öfugmæli.

"Skv reglunni um hlutfallslegan stöðugleika höldum við öllum aflaheimildum í íslenskri landhelgi. Það þarf enga undantekningu til þess"

Þetta er þættingur. Skv. reglunni um hlutfallslegan stöðugleika, fá Íslendingar að veiða meira af sínum eigin fiski en aðrar ESB-fiskveiðiþjóðir. Gott ef við fáum að veiða helming af núverandi kvóta, restin af veiðiheimildum dreifist milli Breta, Frakka, Spánverja, Þjóðverja og Dana*. Fiskveiðistjórnin færist frá Íslandi til Bruxelles og munu Íslenzk yfirvöld ekkert um það að segja, nema sem fulltrúar í ráðgefandi fiskveiðiráði ásamt Bretum og Írum. Íslenzk fiskimið utan 12 mílna verða opnuð öllum fiskveiðiþjóðum sambandsins án þess að Íslendingar fái að ráða miklu þar um, því að Íslandsmið verða eftir aðild fiskimið ESB samkvæmt CFP. Það verða engar undantekningar. Í raun hafa Íslandsmið þegar verið á korti yfir fiskimið ESB í mörg ár og hafa fengið sitt eigið númer í ESB-kerfinu.

*) Þetta er óbein dreifing og miðast við samanlagðan fjölda og mismunandi tegundir skipa með hliðsjón af fisktegundum frekar en þjóðerni.

Pétur (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 16:33

22 identicon

"Danish foreign policy is based on its identity as a sovereign nation in Europe. As such its primary foreign policy focus is on its relations with other nations as a sovereign independent nation."

Þetta er hreint bull. Aðildarríkin eru aðeins sjálfstæð (sovereign) að nafninu til. Þau hafa eftir að EBE stökkbreyttist og varð að ESB enga sjálfstæða utanríkisstefnu, aðeins sameiginlega. Danmörk fær þó sem einasta ríki  vegna hinna fjögurra undanþága, sem það fékk meðan EBE var og hét að halda sig utan við sameiginlegar hernaðaraðgerðir, en allar ákvarðanir varðandi utanríkismál eru teknar í sameiningu og það er ekki ætlast til að aðildarríkin geri neitt í þeim efnum upp á sínar eigin spýtur. Sovereign, my ass!

"Danskur fulltrúi ESB, sem hér var fyrir nokkru, sagði að ESB-aðild Dana hefði verið fullveldi þeirra mikil lyftistöng."

Þessi orð fulltrúans eru svo mikil þvæla, að manni verður flökurt. Hrein öfugmæli. Ertu viss um að þessi orð hafi komið frá efri hluta líkamans?

"Skv reglunni um hlutfallslegan stöðugleika höldum við öllum aflaheimildum í íslenskri landhelgi. Það þarf enga undantekningu til þess"

Þetta er þættingur. Skv. reglunni um hlutfallslegan stöðugleika, fá Íslendingar líklega að veiða meira af sínum eigin fiski en aðrar ESB-fiskveiðiþjóðir, amk. framan af. Gott, ef við fáum að veiða helming af núverandi kvóta, restin af veiðiheimildum dreifist milli Breta, Frakka, Spánverja, Þjóðverja og Dana*. Fiskveiðistjórnin færist frá Íslandi til Bruxelles og munu íslenzk yfirvöld ekkert fá um það að segja, nema sem fulltrúar í einu af mörgum ráðgefandi fiskveiðiráðum þar sem Bretar og Írar eiga einnig setu. Íslenzk fiskimið (utan 12 mílna) verða opnuð öllum fiskveiðiþjóðum sambandsins án þess að Íslendingar fái að ráða miklu þar um, því að Íslandsmið verða eftir aðild hluti af sameiginlegum fiskimiðum ESB samkvæmt CFP. Það verða engar undantekningar. Í raun hafa Íslandsmið þegar verið á korti yfir fiskimið ESB í mörg ár og hafa fengið sitt eigið númer í ESB-kerfinu.

*) Þetta er óbein dreifing og miðast við samanlagðan fjölda og mismunandi tegundir skipa með hliðsjón af fisktegundum frekar en þjóðerni.

Pétur (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 16:46

23 identicon

Ég biðst velvirðingar. Vegna mistaka kom sams konar athugasemd tvisvar. Seinni athugasemdin er réttari, sú fyrri innihélt nokkrar málfræðivillur, sem hafa verið leiðréttar í þeirri síðari.

Pétur (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 16:50

24 identicon

Varðandi Common Fisheries Policy (CFP) vil ég benda á slóðina:

http://ec.europa.eu/fisheries/documentation/publications/pcp2008_en.pdf

þar sem hægt er að ná í kynningu á CFP á pdf-formi. Athygli beinist að einum af fyrstu síðunum, þar sem sést að Íslandsmið hafa númerið Va (5a) í landhelgi ESB. Lítið einnig á bls. 6 þar sem er stutt skýring á Hlutfallslegum stöðugleika (Relative Stability). Meginatriðið hér er þessi klausa, þar sem ég hef feitletrað það sem gæti orðið bitbein:

"Under this system, Total Allowable Catches (TACs) for each fish stock are
shared out between the Member States of the EU according to a fixed allocation key based on their historic catches. The purpose
of relative stability is, as the term suggests, to prevent repeated arguments
over how quotas should be allocated, and to provide fishers with an environment which is stable relative to the overall state of the stock in question."

Þar eð Bretar og Þjóðverjar hafa veitt á Íslandsmiðum mestan hluta síðustu aldar, þá er ljóst að þeim verði úthlutað stór hluti kvótans. Hversu mikið, fer eftir hvaða áratug(i) er miðað við.

Á bls. 10 stendur eitthvað um ráðgjafanefndirnar (RAC) sem ég nefndi í fyrri athugasemd og bls. 12 eru mikilvægar upplýsingar um Veginn meirihluta (Qualified Majority Voting, QMV), sem er notaður í flestum atkvæðagreiðslum um tillögur og frumvörp. Þetta kerfi var tekið upp samtímis með stofnum ESB og markaði afnám neitunarvaldsins, afnám áhrifa smáríkjanna innan sambandsins og þar með hófst núverandi tímabil, þar sem stærstu ríkin ráða öllu.

Skjalið er frá 2008, en það sem stendur í því er enn í gildi. Öll ný aðildarlönd verða að sætta sig við CFP án mikilvægra eða varanlegra undanþágna.

Pétur (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 19:30

25 identicon

Það væri að æra óstöðugan að eltast við allar rangfærslur Péturs. En að því að ég er með á takteinum vegna annarra athugasemda tvo hlekki sem sýna að með ESB-aðild munum við halda öllum afaheimildum í íslenskri landhelgi, birti ég þá hér:

Aðalsamningamaður Íslands við ESB:

"Stefán sagði það vera á kristaltæru að aðrar þjóðir hefðu ekki veiðiréttindi við Ísland, því hér hefðu engir aðrir verið að veiða í yfir 30 ár! Hann sagði þetta mæta skilning innan ESB og að framkvæmdastjórnin myndi t.d. ekki styðja kröfur Spánverja um fiskveiðiréttindi hér við land. Enginn annar en við eigum rétt hér við land," sagði Stefán á fundinum." 

http://evropa.blog.is/blog/evropa/entry/1092640/

Graham Avery, einn af heiðursframkvæmdastjórum ESB:

Graham Avery, einn af heiðursframkvæmdastjórum ESB, sagði í Silfri Egils í dag að stærsta "vandamálið" í sambandi við sjávarútvegsmálin og aðildarviðræðurnar, væri nú þegar leyst.

Það fælist í reglunni um ,,hlutfallslegan stöðugleika" sem tryggði að fiskveiðar hér við land héldust eins og þær hafa verið hingað til og undanfarna áratugi.

Þetta þýðir að fiskimiðin VERÐA EKKI TEKIN AF OKKUR AF ESB, heldur munum við halda rétti okkar hér."

http://evropa.blog.is/blog/evropa/entry/1120738/


"Það er mikil heimska þegar óbreyttur bloggari undir nafnleynd þykist vita betur en Wikipedia sem segir ESB-þjóðirnar vera sjálfstæð fullvalda ríki.

Og ekki tekur skárra við þegar hann afneitar reglu ESB um hlutfallslegan stöðugleika sem tryggir Íslandi einokun á aflaheimildum í íslenskri landhelgi. Þetta gerir Pétur þrátt fyrir staðfestingu framkvæmdastjóra ESB og aðalsamningamanns Íslands.

Þeir sem kalla aðra lygara að tilefnislausu reynast oftast mestu lygararnir.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 19:47

26 identicon

Ég gef ekki fimm aura fyrir þessi orð Stefans Füle, sem hann hefur í flimtingum og ber enga ábyrgð á. Það heillaráð, sem menn ættu að fylgja er að trúa ekki orðum embættismanna og stjórnmálamanna, heldur athuga gjörðir þeirra. Því að þessi orð Stefans eru í algerri mótstöðu við það sem bæði fulltrúar ESB og fulltrúar Íslands í aðlögunarferlinu hafa sagt, að sjávarútvegskaflinn verði sá langerfiðasti. Ef það væri þannig, að Íslendingar fengju að halda öllum sínum kvóta til frambúðar (þótt fiskveiðistjórnin flyttist til Bruxelles), þá væri búið að opna þennan kafla og loka honum fyrir löngu.

Tortryggni mín byggir á hálfrar aldar reynslu af opinberum starfsmönnum, sem ég treysti ekki. Og þá sérstaklega ekki embættismönnum ESB, sem segja eitt og meina annað. Ég er ekki auðtrúa fífl.

Ef svo illa vill til, að Ísland verður aðildarríki ESB, segjum árið 2020 og þú Ásmundur ferð að væla yfir því að ekkert af því sem þú hélzt, rættist, þá mun ég segja "I told you so".  Samt mun ég ekki fá neina ánægju út úr því. þar eð kringumstæðurnar munu vera svo sorglegar.

"Það er mikil heimska þegar óbreyttur bloggari undir nafnleynd þykist vita betur en Wikipedia sem segir ESB-þjóðirnar vera sjálfstæð fullvalda ríki." Og þú skrifar ekki undir nafnleynd, "Ásmundur"? Ekki allt á Wikipedia er satt, ESB-þjóðirnar eru ekki lengur sjálfstæð, fullvalda ríki. Ekki frekar en Puerto Rico eða Hawaii.

Pétur (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 21:22

27 identicon

Hér hefur ekkert verið vitnað í Stefan Fule. Hann er ekki aðalsamningamaður Íslands við ESB. Sá heitir Stefán Haukur Jóhannesson. Ég vitnaði í hann.

Hann ásamt heiðursframkvæmdastjóra ESB, sem hefur tekið þátt í öllum samningaviðræðum ESB í áratugi, þekkja málið manna best.

Þessir heiðursmenn ljúga ekki eins og Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. Halda ESB-andstæðingar að alltaf sé verið að ljúga að þeim?

Skipting aflaheimilda skv reglunni um hlutfallslegan stöðugleika fer eftir veiðireynslu síðustu ára fyrir inngöngu. 30-40 ár er langt umfram áskilinn árafjölda.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband