Áramótapistill Vinstri vaktar
31.12.2012 | 13:15
Hvort betra sé að ganga á þrísoðnum fótum
Á sjöunda áratug 20. aldar fluttust í mína æskusveit einstaklingar sem að sönnu vöktu athygli fyrir talanda, vaxtarlag og vitsmuni. Þetta var nokkru fyrir mína hérvistardaga og verð ég því að styðjast við sagnamenningu þegar kemur að frásögn af finngálknunum í Mýrinni.
Skepnur þessar sem enginn veit nú hvort voru sjö eða tvær héldu til í gróðurhúsum Ingvars Ingvarssonar kaupmanns og garðyrkjubónda og settu þar á ræður langar. Um stóra og flata gluggskjái sinna heimila sáu þeir vítt um Reykholtshverfi þar sem skiptust á snjóhríðar, hverastrókar og beljandi rigningartíð.
Á þessum tíma ríkti í mínum sælu Biskupstungum sannkallað Eldoradó til efna og unaðar. Fjárríkir og rasssíðir Diðrikar sátu bæi sveitarinnar og gömlu mennirnir, þeir hinir sömu sem ég man úr minni bernsku, voru enn ungir. Til matar var þá saltfiskur og spað. Grænmetistegund var aðeins ein, rabbabarasultan, étin í hvert mál og var gömlu fólki sífellt og undravert nýnæmi.
Hinir nýju íbúar í gróðurhúsum Ingvars bónda höfðu skoðun á öllu sem í sveit þeirra gerðist og iðkuðu samræðustjórnmál.
Finngálkn sveitar
Forframaðir kennarar í Reykholtsskóla kenndu börnum að skepnur þessar hétu kalkúnar og væru til átu. Grónir fjárbændur vissu sem var að þarna voru komin þau skrímsl og finngálkn sem smám saman myndu ganga að lífsháttum Tungnamanna og atvinnu dauðri. Trúðu báðir á vit þessara fugla og spádómsgáfu.
Sumarlangt sátu fugldýr þessi á heitavatnsrörum og létu þannig yl hvera verma fætur sína. Var jafnvel svo að því lengur sem setið var á rörunum að því dýpri og merkari urðu samræður og skiptir þá engu hvort sjö eða tveir fuglar eru í sögunni. Þótti þar enginn fugl meðal fugla nema á röri sæti.
Þegar vetraði fór það saman að hitastig í vatnsrörum var hækkað eftir því sem það lækkaði utan við gróðurhúsin. Finngálkn Tungnamanna létu sig það engu skipta en sátu sem fastast á rörum og ræddu sem fyrr. Svo kom að fugl sá sem kallaður var Bjössi ugla soðnaði fótur og varð af því nokkur pína sem heyra mátti á mæli og ræðu. Valt sá hinn sami niður af rörinu og hafði nú enga ósoðna fætur til að stíga í.
Hinn mæti bóndi Ingvar í Mýrinni miskunnaði sig þar með yfir fuglinn og sneið af honum höfuð og var þá einboðið að nota það sem millum var höfuðs og fóta til matar ofan í stóra fjölskyldu. Sumt var þegar soðið og tilbúið en annað þurfti þá ögn meiri eldun. Var og von manna að sá fugl sem næstur sat og kallaður var Jóhann beri myndi nokkuð læra af örlögum félaga síns og síður sjóða fætur sína lifandi.
Því hét sá í auknefni hinn beri að allvíða vantaði hann fjaðrir þar sem aðrir höfðu en þær sem til voru sýndust mórauðar líkt sem á forystusauð Ingvars Halakotsbónda handan Tungufljóts. Slík líkindi með fugli og sauð höfðu margir einfaldir úr hópi manna og kalkúna tekið sem teikn um vit og forystuhæfileika fugls þessa.
Sú von brást. Hinir heimspekilegu nýbúar sveitarinnar týndu tölunni einn af öðrum með sama hætti og mun vitleysa þeirra og píslarvætti lengi uppi meðal Tungnamanna.
Ræða endurflutt
En líkt og Predikari Gamla Testamentis bendir á þá er allt háð háð endurtekningu og ekkert er nýtt. Þeir sem halda að nýmæli séu í íslenskum stjórnmálum segja svo því þeir ekki þekkja sífrjóa sagnaþætti uppsveitamanna í Árnesþingi.
Nýlega beindu þingmenn þeirri fyrirspurn til forystu VG að hún tæki afstöðu í því þrætumáli sem mestur hiti er í um þessar mundir en það er hvort gefa skuli eftir til útlendra landhelgi þá sem í eina tíð vannst undan evrópskum verksmiðjutogurum.
Svar formanns VG sem lesa má hér í þingtíðindum (http://www.althingi.is/altext/141/12/l20104509.sgml) var næsta samhljóða ræðu þeirri sem Jóhann beri hélt fyrir liðlega hálfri öld í Birkilundarhúsunum og skólabörn nærsveita lærðu utanbókar.:
Eigi skal gráta Björn uglu og skal mig enginn í net veiða í svo stóru máli meðan enn er ekki fullreynt hversu gott er að ganga með þrísoðna fætur.
Með það féll hinn beri mauksoðinn af rörinu og er úti sagan. /-b.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.