Nýjar skýrslur ESB boða harkalegan Thatcherisma

Kreppan í Evrópu dýpkar. Skoðum hvernig ESB-valdið bregst við henni. Í áranna rás hafa komið fram tvær meginaðferðir til að fást við auðvaldskreppu. Annars vegar er það aðferð frjálshyggju og nýklassíkur sem vill „spara sig út úr kreppunni", svara samdrætti í framleiðslu með sparnaði á eftirspurnarhliðinni, þ.e.a.s. með kjaraskerðingum og niðurskurði. Gegn þessu setti Bretinn J.M. Keynes fram stefnu um virkt ríkisvald sem skyldi vinna gegn hagsveiflum: með niðurskurði útgjalda og niðurkælingu hagkerfis á þenslutímum en hallarekstri ríkissjóðs og auknum ríkisumsvifum (skapar aukna eftirspurn) á samdráttartímum og í kreppu.

Þessi seinni stefna er oft kennd við kreppupólitík Roosevelts, en í Evrópu er hún einkum tengd sósíaldemókrötum sem töldu að með hjálp hennar mætti temja óstjórn kapítalísks markaðar og hindra ofþenslu jafnt sem kreppu. Sósíaldemókratar hafa á tímabilum staðið mjög sterkt í ESB. Til dæmis sátu þeir árið 1999  í 13 af 15 ríkisstjórnum sambandsins. Það kom ekki í veg fyrir ofþenslu og svo kreppu í ESB. Ekki nóg með það, nú ber lítið sem ekkert á Keynesisma í kreppuviðbrögðum innan ESB.

Þvert á móti. Þann 2.mars 2012 undirrituðu 25 af 27 leiðtogum ESB-ríkja svokallaðan ríkisfjármálasáttmála. Þar kemur fram að ríkishalli aðildarríkja megi helst ekki fara yfir 0.5%, og fari hann eitthvert ár yfir 3% eru viðlagðar þungar sektir. Þegar sú stefna var samþykkt dró danska Information þessa ályktun: „Leiðtogafundur ESB samþykkti að úthýsa meginþáttum velferðarhagfræði-kenninga breska hagfræðingsins Keynes af evrópska meginlandinu..." (information.dk 30. jan 2012).  Sáttmáli þessi sem bannar Keynesisma er nú lög í aðildarríkjum ESB.

Vegna áhrifa hægri krata hefur verkalýðshreyfingin lengi stutt samrunaferlið í Evrópu  og stefnuna og stofnanirnar í Brussel. En það er að breytast. Aðgerðir verkalýðssamtakanna gegn hinum blóðuga niðurskurði fara vaxandi, einkum í Suður-Evrópu þar sem kreppan kemur harðast niður. Sláandi dæmi um breytta tíma er allsherjarverkfall í sex ESB-löndum samtímis - Spáni, Portúgal, Ítalíu, Grikklandi, Kýpur og Möltu - þann 14. nóvember sl.

Ekki sitja menn aðgerðarlausir í hinum herbúðunum. Í september í haust sendi Framkvæmdastjórn ESB frá sér tvær skýrslur sem hafa vakið reiði og óhug í evrópskri verkalýðshreyfingu. Önnur þeirra fjallaði um ástandið á evrópskum vinnumarkaði ásamt tillögum um „skipulagsumbætur" á honum. Tillögurnar mynda heildstætt kerfi, meðal þess sem lagt er til er að lækka lágmarkslaun, draga úr vægi heildarkjarasamninga, vinnumarkaðurinn verði sveigjanlegri með sveigjanlegri vinnutíma, fyrirtæki geti sagt upp samningum, meira verði um staðbundna samninga, atvinnuleysisbætur verði lækkaðar en eftirlaunaaldur hækkaður. Í skýrslunni er almennt lagt til „almenn takmörkun á áhrifum stéttarfélaganna á ákvörðun launa."

Tillögur Framkvæmdastjórnarinnar varðandi vinnumarkaðinn eru ekki eru misskilin kreppuviðbrögð. Þau eru í anda frjálshyggju, það er rétt. Alveg eins og ríkisfjármálasáttmálinn. En það er meðvitað. Tillögurnar fela einfaldlega í sér stríðsyfirlýsingu gegn verkalýðshreyfingunni í því augnamiði að brjóta hana á bak aftur, í anda Margrétar Thatcher.  Evrópska stórauðvaldið undir forustu „Þríeykisins" (Troika) Framkvæmdastjórnar, Evrópska seðlabankans og AGS mætir hinni dýpkandi kreppu með stéttastríði. Veður gerast nú válynd.

Að þessu sögðu þarf að geta þess að sk. Keynesismi eftirstríðsáranna - með virku ríkisvaldi, m.a. útgjöldum til velferðarmála - varð ekki til í fílabeinsturni hagspekinnar. Hann var útkoma sterkrar verkalýðshreyfingar, stéttaátaka og síðan málamiðlana. Og aðeins þannig má vænta hans aftur, á Íslandi, í ESB eða annar staðar. Ekkert fæst ókeypis, sérhvern ávinning þarf að knýja fram. En í ESB nú um stundir  ber þó meira á sókn auðvaldsaflanna. / ÞH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elle, við vitum að afneitun þín og veruleikafirring er algjör.

Það er því óþarfi að vera endalaust að gera okkur það ljóst.

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.12.2012 kl. 12:48

2 identicon

Augljóslega á athugasemd #1 ekki heima hér. Hún er komin á sinn stað.

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.12.2012 kl. 12:51

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

"Here we go again".  Jólaspenningurinn er að fara með þig, Ásmundur. 

Nema þetta sé vísvitandi gert til þess að drepa niður umræðuna?

Sjálf hef ég ekki þá hagfræðiþekkingu að geta skilgreint "skólana" á því sviði.  Afleiðingarnar skil ég betur.

Kolbrún Hilmars, 22.12.2012 kl. 13:22

4 Smámynd: Elle_

Æ-i, ´Ásmundur´ eða Ómar H.  Verður maður nú að lesa ruglið þitt þarna líka?  Þú ert ekki svaraverður.

Elle_, 22.12.2012 kl. 14:22

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Elle, Ásmundur er ítrekað farinn að villast á þráðum.  Ég er farin að hafa áhyggjur af honum.  Ætli batteríið sé að klárast...?

Kolbrún Hilmars, 22.12.2012 kl. 14:37

6 Smámynd: Elle_

Ekki sæi ég neitt eftir honum, Kolbrún.

Elle_, 22.12.2012 kl. 20:28

7 Smámynd: Bragi

Sér í lagi bilað að þessi stefna sé notuð í ljósi hærri margfaldara ríkisútgjalda, sem nýlega hefur komið í ljós.

En það er ekki að spyrja að völdum fjármálageirans. Og þangað vilja ESB-sinnar.

Bragi, 23.12.2012 kl. 02:53

8 identicon

Að tala um harkalegan Thatcherisma í ESB er auðvitað algjörlega fráleitt. Jafnvel í Bretlandi á það ekki við en þar er frjálshyggjan mest i ESB.

Það sætir furðu eftir það sem hér gerðist 2008 að menn geri sér enga grein fyrir nauðsyn þess að koma í veg fyrir að bankakerfið hrynji.

Tiltölulega mikil jöfnuður í ESB-löndum í samanburði við enskumælandi lönd er tryggður með vandaðri löggjöf. Þannig er fátækt haldið í lágmarki.

Ásmundur (IP-tala skráð) 23.12.2012 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband