Framboð á og eftirspurn eftir ESB-sinnuðum frambjóðendum

Um þessar mundir er mörgum nöfnum hreyft í umræðunni um frambjóðendur til alþingis í næstu kosningum. Þótt margir freistist til að líta svo á að fjórflokkurinn muni skipta með sér þorra þingsæta, eins og svo oft áður, skyldi enginn útiloka að önnur framboð næðu góðum árangri. Þrátt fyrir vísbendingar í skoðanakönnunum virðist sem gengi Besta flokksins í borgarstjórnarkosningum fyrir rúmum tveimur árum hafi komið mörgum Reykvíkingnum í opna skjöldu. Hvort nákvæmlega sama fólk, í öðrum framboðum, verður sigursælt í næstu kosningum er of snemmt að spá um. Nýjabrumið er farið og sumir hafa orðið fyrir vonbrigðum með pólitík Besta flokksins. Hvort það verður þessu fólki til framdráttar að bjóða fram með Guðmundi Steingrímssyni og Róbert Marshall eða ekki á eftir að koma í ljós. Nokkrir stjórnlagaráðsmenn hafa fundið sér farveg með öðru framboði, í bland við gömul nöfn, sumir svo staðfest sé en annað er enn orðrómur. Gengi þeirra er enn óráðið. Þá er Samstaða enn við lýði, byrjaði með látum en hefur látið á sjá, enginn skyldi þó vanmeta Lilju Mósesdóttur og í hennar hópi er enn öflugt fólk. Píratapartý hefur verið stofnað og það má segja um Birgittu eins og Lilju að enginn skyldi vanmeta hana.

Það er okkar, sem stöndum vinstrivaktina gegn ESB, að tryggja að það fólk sem endanlega fer í framboð, geri grein fyrir afstöðu sinni til aðildar að ESB, aðildarumsóknarinnar og ferlisins alls. Það var gert í tengslum við nýlegt forval VG og skilaboðin sem felast í svörum frambjóðenda eða undanbrögðum og svarleysi eru gagnlegar upplýsingar fyrir kjósendur í vor.

Í fljótu bragði virðist nokkurt offramboð á ESB-sinnuðum frambjóðendum, en það er ekkert nýtt né séríslenskt. Í Noregi var uppi svipuð staða þegar seinast var sótt um aðild að ESB, meirihluti stjórnmálamanna vildi inn en meiri hluti almennings ekki. Hins vegar var umgjörð aðildarferlisins gerólík, aðlögunarkrafa ESB ekki í neinni líkingu við það sem nú er, og því er brýnt að einnig sé ljóst hver afstaða frambjóðenda til umsóknarferlisins er. Aðhald vefmiðla og annarra fjölmiðla hefur aldrei verið eins mikilvægt og einmitt nú.

-ab


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flestir frambjóðendur vilja eflaust að þjóðin kjósi ekki um aðild fyrr en  samningur liggur fyrir. Annars gæti hún hafnað aðild fyrir misskilning.

Það er ekki líklegt til vinsælda að fótum troða lýðræðið með því að berjast gegn því að þjóðin fái tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun þegar það er tímabært.

Skynsamlegasta svar frambjóðenda við spurningunni um hvort þeir séu hlynntir aðild er að ekki sé rétt að taka afstöðu til þess fyrr en að loknum samningi.

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 08:36

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Kjósendur eru fullfærir um að mynda sér "upplýsta ákvörðun" nú þegar.

Að auki er þessi fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðsla, þegar allt er orðið klappað og klárt til þess að innlimast ESB, aðeins ráðgefandi fyrir stjórnvöld.

Við erum farin að þekkja vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og reiknum með að hún verði samkvæm sjálfri sér og láti geðþótta sinn og frekjuna ráða.

Okkar eina von er að núverandi ríkisstjórn fari frá eftir vorkosningarnar.

Kolbrún Hilmars, 14.12.2012 kl. 13:54

3 identicon

Jón Ásmundur Frímann þreytist ekki á lygunum um að það þurfi einhvern samning til að átta sig á því hvað sé í boði. Var ekki einhver fundur í Brussel að hreinlega stafa þetta fyrir nokkrum dögum. Ekki að Jón Ásmundur láti Brussel segja sér hvernig hlutirnir gangi fyrir sig í ESB. Alveg er það ótrúlegt hvað náunginn er steiktur í hausnum! 

...og ef þjóðin hafnar með öllu ESB aðild, þá verður það bara líka misskilningur, og þessir apakettir heimta aðrar kosningar þar til rétt niðurstaða fæst.

Þannig virkar lýðræði a.m.k. í ESB-inu þeirra.

palli (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 14:15

4 identicon

Ætli fólk í Brussel sé bara ekki farið að sjá hvers konar geðbilun grassar í hausnum á ESBsinnum á Íslandi, sem ætla sér að koma þjóðinni inn sama hvað með lygum, frekju og hroka, og hafi ekki áhuga á slíku bulli. Ráðherraráðið undirstrikar það sem aðildar-andstæðingar hafa alltaf sagt:

"Ráðherraráð Evrópusambandsins ítrekar að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagabálk Evrópusambandsins við mögulega inngöngu í sambandið."

http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/12/12/radherrarad-esb-adildarvidraedur-ganga-vel-en-island-tharf-ad-samthykkja-allan-lagabalk-esb/

En það styttist samt í að þetta rugl verði stoppað.

Merkilegur þessi hroki og frekja. Það er farið af stað í aðlögunarferli með pólitískum þvingunum og svikum, og lygum, en svo ef meirihluti þjóðarinnar vill hætta við, og sem var aldrei spurður um hvort halda skyldi af stað í þetta ferli, þá er vælt eins og smástelpur um lýðræðið að frekjudollurnar fái að ná sínum fram.

Ótrúlegt.

ESBsinnar eru heilabiluðustu einstaklingar Íslandssögunnar. Ég geri ráð fyrir því, þegar ég hitti ESBsinna, að viðkomandi gangi ekki heill til skógar, nema annað skyldi koma í ljós (sem hefur ekki gerst hingað til.)

palli (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 14:34

5 identicon

Kolbrún, fólk er haldið ótrúlegum ranghugmyndum um hvað felst í því að ganga í ESB.

Fyrir utan að fá upplýsingar um það sem samið verður um þarf að leiðrétta þessar rangfærslur áður en kosið er. Það verður gert þegar samningur liggur fyrir. Þá fyrst verður hægt að taka upplýsta ákvörðun.

Andstæðingar aðildar láta sig dreyma um að fá fólk til kjósa áður en blekkingaráróðurinn verður afhjúpaður og meðan ástandið á evrusvæðinu er enn slæmt. Meiri trú hafa þeir ekki á eigin málstað.

Þú hefur illilega misskilið þessa ríkisstjórn ef þér dettur í hug að hún standi ekki við loforðið um að þjóðin fái að skera úr um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er nákvæmlega engin hætta á að það loforð verði svikið. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 17:11

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, það er hvorki hægt að misskilja þessa ríkisstjórn "illilega" né öðruvísi.

Sjálfur forseti ASÍ lýsti því yfir síðast í dag að ríkisstjórnin hefði svikið allt sem hægt er að svíkja.  

Ert þú í þeirri aðstöðu að geta fullyrt, og fylgt því eftir,  að þetta eina atriði muni ríkisstjórnin ekki svíkja?

Kolbrún Hilmars, 14.12.2012 kl. 18:07

7 identicon

Kolbrún, þú ert að tala um ríkisstjórn sem hefur vakið athygli og aðdáun um allan heim fyrir frábæran árangur við að endurreisa íslenskt þjóðfélag eftir allsherjarhrun.

Hvergi í heiminum hefur verið gert jafnmikið fyrir almenning eftir efnahagshrun og hér. Það er því óhætt að segja að það hafi verið sleginn skjaldborg um heimilin í landinu.

En því miður er stór hluti þjóðarinnar orðinn hálfgalinn. Hann heimtar að ríkisstjórnin sjái til þess að tekjulágir og eignalausir greiði skuldir þeirra sem betur mega sín. Þá skjaldborg hefur ríkisstjórnin sem betur fer ekki slegið.

Gylfi er laumusjalli sem stendur vörð um hagsmuni vinnuveitenda. Til allrar guðs lukku hefur hann nú sagt sig úr Samfylkingunni. Innanflokksátök eru atkvæðafæla eins og ástandið í VG sýnir glögglega. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 19:29

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, þú ert alveg ótrúlegur.  

Ríkisstjórn sem allur umheimurinn dáist að?

Hvergi í heimi hér finnst önnur eins velgerðar- og velferðarstjórn almúgans og þessi?

Gylfi aðalkrati alltaf laumusjalli?

Þínu fólki á Alþingi var brugðið í dag  en þú fagnar bara.  

Ert kannski laumusjalli sjálfur? 

Kolbrún Hilmars, 14.12.2012 kl. 20:22

9 identicon

Kolbrún, ég fagna því ekki að formaður ASÍ sé með allt niður um sig. Mér finnst það hins vegar jákvætt fyrir Samfylkinguna, sem ég geri ekki ráð fyrir að kjósa, að Gylfi sé búinn að segja sig úr flokknum.

Við höfum dæmi um það hvernig flokksmenn sem eru í stríði við forystuna eyðileggja fyrir flokknum. Það hefði verið mjög gott fyrir VG ef Jón Bjarnason hefði sagt sig úr flokknum fyrir löngu. Það hefði átt að gerast þegar ríkisstjórnin var mynduð.

Það er eins og þú sért búin að steingleyma því að hér varð mesta efnahagshrun í heimi. Í ljósi þess hafur almenningur það ótrúlega gott. Hér hefur ekki stór hluti þjóðarinnar soltið heilu hungri eins og td í Finnlandi í kreppunni á 10. áratugnum.

Þessi ríkisstjórn hefur einmitt verið mikil velferðarstjórn. Bætur almannatrygginga til hinna verra stöddu hækkuðu mun meira en laun, mikil hækkun á vaxtabótum hefur komið almenningi til góða og skattar á þá verst settu hafa lækkað en hækkað á þá tekjuháu.

En kannski að þú hafir eitthvað misskilið. Þú hefur kannski haldið að það hafi staðið sérstaklega til að standa vörð um hagsmuni hinna tekjuhærri á kostnað hinna tekjulægri og eignalausu?

Það er fyrst og fremst krónan sem hefur valdið okkur erfiðleikum. Lántökur í krónum hafa reynst vera fjárhættuspil. Meðan við sitjum uppi með krónu verðum við að taka afleiðingunum að mestu. Ríkisstjórnin hefur gengið lengra í að leiðrétta þær en góðu hófi gegnir ef eitthvað er.

Fyrir utan að það er engin sanngirni í því að hinir tekjulægri greiði skuldir hinna tekjuhærri hefur ríkið ekki efni á að bæta við sig skuldum upp á hundruð milljarða.

Ef eitthvað vit væri í kröfum um aðgerðir í skuldamálum væri krafa #1 að skipta um gjaldmiðil til að koma í veg fyrir að ósköpin endurtaki sig.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.12.2012 kl. 00:51

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Rangt hjá þér, Ásmundur,  ASÍ-Gylfi var einmitt að hysja upp um sig buxurnar,  með hvatningu forystumanna stéttarfélaganna sem hann er samnefnari fyrir.

Hitt er rétt ákvörðun hjá þér, að kjósa ekki Samfylkinguna í vor.  Það mun ég ekki heldur gera.

Kolbrún Hilmars, 15.12.2012 kl. 15:53

11 identicon

Kolbrún, þú ert auðvitað ánægð með Gylfa vegna þess að hann er með allt niður um sig. Það hentar þínum málstað. Hér er góð lýsing á risaklúðri hans: 

http://blog.pressan.is/stefano/2012/12/14/kjarabaratta-asi-a-villigotum/

Taktu eftir að ummælin eru honum síður en svo hliðholl eins og við er að búast.

Ætlarðu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn?

Ásmundur (IP-tala skráð) 16.12.2012 kl. 00:37

12 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, ég skil að þér þyki súrt í broti, en það er satt að það hentar mínum málstað að forseti ASÍ sé hvergi flokksbundinn.

Sem launþegi á almennum vinnumarkaði gleðst ég semsagt yfir ákvörðun Gylfa.  Ég tel mér málið skyldara en væri ég opinber starfsmaður.  

Eins og þú hlýtur að vera, miðað við þína afstöðu.

Hvaða flokk ætlar þú sjálfur að kjósa?  

Kolbrún Hilmars, 16.12.2012 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband