Evran eykur fátækt og atvinnuleysi á Ítalíu
12.12.2012 | 13:34
Meginvandi Ítala er evrusamstarfið, en vegna þess hefur samkeppnisstaða Ítalíu versnað um 30-40% gagnvart Þýskalandi og atvinnuleysi ungs fólks nálgast fjörutíu prósent.
Nú þegar ESB-tæknikratinn Mario Monti og ólíkindatólið Silvio Berlusconi virðast ætla að takast á um það í næstu kosningum hvernig stjórn verði á Ítalíu rifja ýmsir upp stöðu mála í þessu mikla menningarlandi álfunnar. Ýmsum þykir sem Monti hafi bara verið útsendari Brussel-valdsins, enda einn af stórsmiðum evruvæðingar Ítalíu.
Einn af þekktari blaðamönnum í Bretlandi, Ambrose Evans-Pritchard á blaðinu Telegraph, segir í nýlegri grein að Ítalir hafi í raun aðeins einn meginvanda í efnahagsmálum: Þeir hafi ekki réttan gjaldmiðil.
Í greininni segir blaðamaðurinn að ítalska þjóðin eigi meiri uppsafnaðan auð en Þjóðverjar, þeir hafi einn stærsta afgang í ríkisfjármálum meðal sjö stærstu iðnríkja, reyndar aðeins miðað við svokallaðan frumjöfnuð, og að heildarskuldir þjóðarinnar séu lægra hlutfall af landsframleiðslu en í Frakklandi, Hollandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Japan. En þetta segir ekki allt og ástandið fer versnandi að ýmsu leyti.
Samt eru aðstæður á Ítalíu þannig, segir Pritchard og fleiri, að ekkert ríki er talið geta hagnast jafn mikið á því að yfirgefa evruna og Ítalir, því þannig gætu þeir náð fyrri samkeppnisstöðu. Fremur litlar erlendar skuldir, að minnsta kosti hins opinbera og tiltölulega hagstæð staða ríkisfjármála gera það að verkum að talið er að Ítalir tækju tiltölulega litla áhættu með því að yfirgefa evrusvæðið. Tiltölulega hátt sparnaðarhlutfall í landinu gerir það að verkum að vandi vegna hærri vaxta um stund yrði minni en ella vegna þess að vaxtatekjurnar héldust innanlands.
Eftir sem áður hefur hagur Ítalíu farið versnandi að undanförnu. Landsframleiðsla er að dragast saman um tæplega þrjú prósent á þessu ári og næsta og atvinnuleysi er að skríða yfir 10 prósent. Iðnaðarframleiðsla hefur dregist saman um meira en sex prósent frá síðasta ári og trú Ítala á atvinnulífið er jafn lítil og hún var þegar fjármálakreppan stóð sem hæst. Ástæðan fyrir þessari deyfð er talin vera fyrst og fremst sparnaðaraðgerðir Mario Monti og stjórnar hans. Einkaneysla hefur dregist saman um 5% og talin er hætta á að samdrátturinn haldi áfram á næsta ári.
Helsta ástæðan fyrir þessum erfiðleikum Ítala er rakin til þess þegar gengi lírunnar var fest gagnvart marki og evran tekin upp. Verðbólga og launahækkanir reyndust verða hærri næstu ár á Ítalíu en í Þýskalandi. Ítalskar vörur urðu dýrari fyrir vikið, samkeppnisstaða þeirra versnaði og viðskiptahalli jókst. Þetta gerðist á Ítalíu og víðar á evrusvæði þrátt fyrir ofurtrúa evrupáfanna á að verðbólga yrði ekki vandamál þegar ríki hefði tekið upp evruna. Ítalar hafa tapað 30-40% í samkeppnisstöðu gagnvart Þjóðverjum fyrir vikið og viðskiptahallinn gagnvart Þýskalandi er viðvarandi. Harkalegar sparnaðaraðgerðir á Ítalíu, launalækkanir og svokölluð innri gengisfelling er ekki að bæta samkeppnisstöðuna að ráði. Ýmsir telja að slíkar aðgerðir geti með tíð og tíma náð tiltölulega litlu og opnu hagkerfi eins og Írlandi smám saman út úr kreppunni, en síður stærri hagkerfum eins og Ítalíu. Þar hreyfist launin trauðla niður á við og fyrir vikið er atvinnuleysi hjá ungu fólki nær 37 prósentum og sé enn á uppleið. Og enn beitir Monti aðhaldi í ríkisfjármálum, þótt ýmsir telji að afkoma hins opinbera sé með þeim hætti að ekki sé þörf á svo miklu aðhaldi. Aðhaldið eykur svo enn á atvinnuleysið. Hagkerfið skreppur saman, skattagrundvöllur minnkar og það eykur hættu á frekari skuldasöfnun til framtíðar.
Síðustu tölur benda til að um 30% Ítala þyki evran vera góður kostur, en óánægjan með hana er að aukast. Spurningin er hvaða áhrif endurkoma Berlusconis á meginsvið ítalskra stjórnmála hafi á næstunni. Stór hluti stjórnmálastéttarinnar í Evrópu vonast til að geta haldið ólíkindatólinu frá völdum, en spurningin er hvort þægir bandamenn Brusselvaldsins muni eiga afturkvæmt í æðstu valdastöður í Róm á næstunni. Undir stjórn evrutæknikratans Montis hefur atvinnulausum fjölgað um milljón á Ítalíu, skuldir hafa aukist, fyrirtækjum hefur verið lokað í stórum stíl og eignir hrynja í verði. Það er því ekki ólíklegt að umræða um ókosti evrunnar muni aukast á Ítalíu á næsta ári.
Sjá nánar hér: http://www.europaportalen.se/2012/12/berlusconi-anklagar-monti-for-tyskpolitik
Sjá einnig hér: http://www.telegraph.co.uk/finance/comment/ambroseevans_pritchard/9735757/Mario-Montis-exit-is-only-way-to-save-Italy.html
Sjá einnig hér: http://www.bloomberg.com/news/2012-11-05/italian-gdp-to-shrink-as-unemployment-gains-istat-says.html
Athugasemdir
"Verðbólga og launahækkanir reyndust verða hærri næstu ár á Ítalíu en í Þýskalandi."
Launahækkanir eru mannanna verk. Launahækkanir leiða til aukinnar verðbólgu. Ítalir hafa einfaldlega sýnt þá óráðsíu að semja um launahækkanir án þess að nein innistæða væri fyrir þeim.
Þeir eru nú að komast að því fullkeyptu hvað það þýðir og munu tæplega endurtaka leikinn.
Það er mikill ávinningur fólginn í því að geta ekki fellt gengið. Gengisfellingar eru neyðarúrræði sem gera stjórnmálamönnum kleift að komast upp með óstjórn og spillingu með því að varpa afleiðingunum gjörða sinna yfir á almenning. Við ættum að þekkja þetta.
Fyrir utan kjaraskerðingar hafa gengisfellingar í för með sér miklar tilfærslur fjár sem í flestum tilvikum eykur ójöfnuð. Það er engin tilviljun að einmitt spilltustu ríki Evrópu, Grikkland og Ítalía eru í vandræðum.
Evran dregur þannig úr spillingu. Spilling rýrir lífskjör almennings. Evran er því happafengur. Betri lífskjör og miklu minni spilling eru verðug markmið sem fást með evru. Það er því til mikils að vinna að þjóðir setji sér þau takmörk sem evran setur þeim.
Gengisfellingar valda verðbólgu. Gengisfelling í einu ESB-landi getur hæglega valdið gengislækkun í öðru landi vegna þess að aukin samkeppnishæfni hins fyrra kemur niður á öðrum löndum einkum þegar viðskiptin eru mikil innbyrðis eins og í ESB.
Þannig getur gengislækkun "smitast" frá einu landinu yfir í annað og þannig koll af kolli þangað til fyrsta landið þarf aftur að fella gengið. Síðan endurtekur sagan sig aftur og aftur með mikilli verðbólgu.
Kreppueinkennin verða ekki umflúin. Það er hægt að varpa þeim yfir á almenning og aðrar þjóðir með gengislækkunum eða yfir á komandi kynslóðir með lántökum. Hvorugt er eftirsóknarvert.
Íslendingum finnst kannski fráleitt að ekki verði hægt að fella gengið. Það er vegna ónýtrar krónu. Ástæður gengislækkana verða ekki lengur til staðar með evru.
Ásmundur (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 15:54
Tiltölulega stöðugt gengi kemur á nauðsynlegum stöðugleika.
Stöðugleiki leiðir til aukinnar samkeppnishæfni. Aukin samkeppnishæfni leiðir til meiri útflutnings, fleiri og fjölbreytilegri atvinnutækifæra og betri lífskjara.
Til að ná þessum markmiðum þarf Ísland að fá aðild að ESB og taka upp evru.
Ásmundur (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 19:37
Og þú heldur að fólk líti ekki á þig sem þráhyggjusjúkan fáráðling, vegna þess að ..... ???
Náðu bara smá taki á sjálfum þér. Pínlegt upp á að horfa. Þvílíkur fábjáni.
palli (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 08:59
Evran á engan þátt í þessum vandamálum þeirra þarna - óráðsía er vandamálið
Rafn Guðmundsson, 13.12.2012 kl. 10:27
það sem er athyglisvert við þetta er að Berlúskóní er orðinn helsta átrúnaðargoð svokallaðrar ,,vinstri-vaktar ggn esb".
Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.12.2012 kl. 11:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.