Um hvað verður kosið?
6.12.2012 | 12:45
Það fer ekki á milli mála að kosningavetur er hafinn. Prófkjör, forvöl og aðrar aðferðir hafa skorið úr um það að hluta hvernig framboðslistar vorsins verða. En hvað merkir þetta fyrir okkur ESB-andstæðinga? Erum við einhverju nær um hvers konar ríkisstjórn við getum búist við að fá yfir okkur og hvað hún geri í Evrópusambandsmálum? Í rauninni ekki.
Á þessu kjörtímabili höfum við fengið smjörþefinn af því hvernig gengur ef flokkur sem er eindregið á móti aðild að ESB og fylgir því eftir í fjölda flokkssamþykkta lendir í slagtogi við ESB-sinnaðan flokk. Hrunstjórnin sem forveri þessarar ríkisstjórnar tók við af stefndi hraðbyri að því að lyppast niður á stefnu sama flokks og Sjálfstæðismenn virtust eiga furðu létt með að gefa eftir sína ESB-andstöðu (sem hefur þó aldrei verið sérlega traust, nema hjá stöku þingmanni). Skoðanakannanir sýna að ólíklegt er að núverandi stjórn haldi velli óbreytt. Ef hún héldi velli er ennfremur ólíklegt að hún hyrfi frá núverandi stefnu. Hún gæti framlengt líf sitt með því að bæta inn öðrum, til dæmis Framsókn og jafnvel fleirum. En þrátt fyrir fögur fyrirheit gæti sá flokkur ákveðið að halda vegferðinni áfram til að tryggja sér stólana gegn hótunum Samfylkingar um að horfa ella til hægri. Hvernig sem litið er á málin þá virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera á leið í ríkisstjórn og þar á bæ vilja menn helst vinna með einum flokki en ekki fleirum. Hverju flokkurinn væri tilbúinn að fórna til að ná hylli Samfylkingarinnar mun ef til vill koma í ljós fyrr en við á vinstri vængnum óskum. Ósennilegt er að þau nýju framboð sem þegar eru komin fram ráði úrslitum í þeim kosningum sem framundan eru.
Þá er komið að spurningunni: Um hvað verður kosið? Þrátt fyrir að flestir flokkar hafi gert einhverja kröfu um að þjóðin fái að ráða hvort aðildarviðræðum við ESB verði haldið áfram, þá benda umræður undanfarinna daga til að þetta séu innantóm orð. Önnur mál, stjórnarskrármálið, kvótakerfið og önnur hagsmunamál auðstéttarinnar munu þar vega þyngra. Og hrossakaup gætu enn og aftur verið í uppsiglingu. Sjálfsagt verður þetta allt undir yfirskyni umhyggju fyrir almenningi.
Brýnt er að losna úr þessum viðjum valdanna og þess sem vélað er um þegar þeim er skipt í bróðerni. Brýnt er að fara að gæta hagsmuna þeirra sem fá að tjá sig einu sinni á fjögurra ára fresti, kjósenda. Þeir vilja ekki að Ísland gangi inn í ESB, vilja ekki einu sinni halda viðræðum áfram.
Hér er ekki vettvangur fyrir umræðu um hver sé hæfastur til að tryggja velferðarkerfið - en á meðan hagsmunir stórfyrirtækja og stórra ríkja ráða för innan ESB, atvinnuleysi er notað sem hagstjórnartæki og ,,social dumping" er sífelld ógn, verður velferðarkerfið ekki best varið innan ESB.
Steinn Steinarr orti ljóðið ,,Undanhald samkvæmt áætlun" sem birtist í ljóðabókinni ,,Ferð án fyrirheits" árið 1942. Vonandi verða þetta ekki áhrínsorð næsta kjörtímabils:
Ég var móðgaður, hæddur, svívirtur, kvalinn og kúgaður
af kumpánum nokkrum, sem allt virtust geta og mega.
Og þótt ég sé maður á sigur sannleikans trúaður,
sýndist mér stundum þó von minni í flestu geiga.
Að endingu sagði ég yfirdrottnunarvaldinu
í alvöru stríð á hendur, án nokkurrar vægðar.
Og styrkur minn liggur allur í undanhaldinu,
þótt einhverjum sýnist það málstaðnum lítið til þægðar.
Og stríð mitt er nútímastríð, en ekki af því taginu,
að standa til lengdar í tvísýnum vopnabrýnum.
Þið vitið að jörðin er líkt og knöttur í laginu.
Og loksins kemst maður aftan að fjandmanni sínum.
-ab
Athugasemdir
það verður kosið á milli víðsýnis, raunsæisskynsemi og jöfnuðar en á hinn bóginn er Sérhagsmunaklíkuliðið, elítan og kjánaþjóðrembingar. Verður kosið á milli þessara tveggja meginfylkinga.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.12.2012 kl. 17:08
Það er nokkuð rétt hjá þér Ómar Bjarki, og ég er afar ánægð með að vera í raunsæishópnum. Þú þarft svo að díla við þína klíkufélaga og rörsýnismenn sem vija inn í brennandi ESB.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.12.2012 kl. 19:48
Þú sérð "góða bófa" og "vonda bófa" Ómar minn. Við hin sjáum bara bófa.
Annars er ljóðið eftir Stein Steinarr eitthvað sem maður þarf að fá prentað á stuttermabol.
Seiken (IP-tala skráð) 6.12.2012 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.