Steingrímur er að eyðileggja flokk sinn
29.11.2012 | 12:06
Enn einn þjóðkunnur andstæðingur aðildar að ESB segir frá því í dag að hann hafi sagt skilið við VG. Þetta er Bjarni Harðarson, bóksali og fyrrverandi alþingismaður sem skrifar grein í Morgunblaðið með yfirskriftinni: ESB-flokkur í kreppu.
Í upphafi greinar sinnar víkur Bjarni að nýafstöðnum prófkjörum VG og telur að niðurstaða þeirra sé öllum andstæðingum vinstristefnu á Íslandi mikil Þórðargleði". Hann fagnar því að vísu að ESB-sinnar geti ekki glaðst yfir árangri Ólafs Þórs Gunnarssonar og Björns Vals Gíslasonar og minnir á nauman sigur Ögmundur Jónasson í Kraganum. En þó fari því fjarri að flokkurinn verði við það trúverðugur valkostur og minnir á að Vinstri vaktin hafi lagt í vikunni spurningar um afstöðu sína til ESB fyrir frambjóðendur í forvalinu sem fóru fram nú um helgina, en flestir þeirra sem svöruðu hafi í orði kveðnu viljað halda aðlögunarferlinu til streitu.
Bjarni segir síðan: Fyrr á þessu ári stigu þrír þingmenn VG óvænt fram og töluðu fyrir þeirri skoðun að ESB vegferðin yrði að taka enda á kjörtímabilinu. Þetta voru þau Árni Þór Sigurðsson, Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir. Um stund var eins og þjófstartað væri til nokkurrar keppni um það hver myndi nú best hina yfirlýstu og samþykktu stefnu flokksins. Þessir atburðir gerðust einmitt meðan formaður flokksins dvaldi erlendis og allt var skjótlega leiðrétt þegar hann kom heim.
En glæðurnar lifa. Ekki vegna þess að fyrrnefndir þingmenn séu svo ákafir hugsjónamenn fyrir fullveldi landsins heldur miklu frekar hafa þeir hugsjónir sem tengjast þingsætum. Nú korteri fyrir kosningar er líklegt að umrædd keppni hefjist að nýju og er það vel, sér í lagi ef það mætti verða til þess að ESB-málið færi í pappírskörfuna.
En þessi keppni mun engu breyta um það að Steingrími J. Sigfússyni hefur á undraskömmum tíma tekist að eyðileggja flokk sinn til nokkurrar framtíðar. Það er raun og veru snöfurmannlega gert á ekki lengri tíma en fyrir aðeins fjórum árum horfðu landsmenn með velþóknun og trausti á flokk VG og formann hans. Á sama tíma hefur áætlunin um að búa til einn stóran ESB-flokk með samruna við Samfylkinguna runnið út í sandinn.
Þórðargleði íhaldsins er því mikil og að óbreyttu stefnir í stórsigur sjálfstæðismanna sem nýlega keyrðu þó íslenskt efnahagslíf fram af bjargbrún. Það verður einstæður sigur sem sjálfstæðismennirnir sjálfir eiga engan þátt í að skapa.
Skömm vinstristjórnar
Svokölluð vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur sáralítið á afrekaskrá sinni. Kraftur hennar hefur farið í slagsmál um ESB-aðlögun og almenna þjónkun við erlend stórríki. Mestur efnahagsbati okkar Íslendinga verður hinsvegar rakinn til neyðarlaganna svokölluðu og krónunnar sem vinnur sitt verk þegjandi og hljóðalaust þrátt fyrir snuprur húsbænda.
Í bankamálum og atvinnumálum hefur ríkisstjórnin fylgt úreltum Blair-isma hægri krata sem hefur fátt fram yfir klíku-kapítalisma hægristjórna. Í stað þess að nýta hrunið til að brjóta upp einokun og fákeppni hefur stjórnin eftirlátið útrásarvíkingum að hramsa í sínu gamla góssi. Vinstristefnu sér hvergi stað en ómaklegu óorði hefur verið komið á hana og alla félagshyggju.
Þaulsætnir villikettir
Það sem lengst situr eftir í arfleifð stjórnarinnar verða nafngiftir. Þannig kallaði forsætisráðherra stefnufasta VG-menn villiketti og Steingrímur J. gaf eigin armi flokksins skúrkanafnið, óviljandi þó!Það er ekki slæmt að vera talinn til villikatta enda fáar skepnur jafn aðdáunarverðar og kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. Eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið hefur fækkað í villikattadeildinni og nú erum við aðeins örfáir eftir og ekki seinna vænna að skrifa sig út svo enginn láti sér detta í hug að við kettirnir gefum út heilbrigðisvottorð á þá pissukeppni sem framundan er."
Bjarni farinn úr VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst þetta gott hjá Bjarna, hann er trúr sinni sannfæringu og stendur með sjálfurm sér. Það er með ólíkindum að Steingrímur J. skuli virkilega halda að þetta brölt hans og talandi sé eitthvað sem fólk tekur mark á, þegar hann hefur þverbrotið allt sem hann stóð fyrir.
Það er erfitt að standa á sinni sannfæringu og hafna þar með einhvers konar upphafningu, en slík upphafning sem hefur tilurð sína vegna svika við það fólk sem treysti honum fyrir síðustu kosningar er byggð á sandi eins og er að kokma í ljós núna.
En stjórnmálamenn dagsins í dag með örfáum góðum undantekningum hafa haldið að þeir geti endalaust misboðið kjósendum sínum, og stundað blaðursstjórnmál og komist upp með það. Jæja það er loksins að koma í ljós að slíkt er liðinn tíð. Loksins er fólk, almenningur að átta sig á því að þetta gengur ekki lengur. Og þetta skulu allir sem ætla sér inn á þing í vor hafa í huga, þegar þeir bjóða fram krafta sína til að vinna að þörfum almennings í þessu landi. Þessi framkoma verður einfaldlega ekki liðinn lengur. Sem betur fer.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2012 kl. 20:27
Við þurfum vinstri á meðan við höfum hægri. Öll lærum við t.d. snemma á ævinni á róló að vegasaltið virkar ekki öðru vísi.
Það þarf einhver að minna formann VG á hvað gerist með vinstrið hans þegar hann hleypur á miðjuna - í sæti Salta Péturs.
En sennilega er það orðið of seint núna.
Kolbrún Hilmars, 29.11.2012 kl. 20:52
Kolbrún já ég hef sterkan grun um að þau séu nú þegar búin að missa af þessari lest. Veit ekki alveg hvað þau voru að pæla nema að hafa haldið að þjóðin væri ennþá steinsofandi og hægt að ljúga hverju sem er upp sjálfum sér til dýrðar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2012 kl. 21:50
Þetta sama á líka við um hina flokkana, sjálfstæðisflokk, framsókn og samfylkingu, þau er gjörsamlega vanhæf um að takast á við nýja tíma og nýja hugsun. Þau eru föst í sama gamla farinu og þau hafa verið alla tíð.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2012 kl. 21:52
Steingrímur einn, þó mikill væri, dugði ekki til að eyðileggja heilan stjórnmálaflokk. Það var alræðisvaldið sem honum tókst að ræna af flokksmönnum og stuðningsmönnum flokksins með aumlegri hjálp foringjadýrkandi heimakatta eins og Kötu sem ótrúlega hangir enn á valdi.
Vandamálið var að villikettirnir í flokknum voru ekki nógu villtir.
Elle_, 29.11.2012 kl. 23:57
Það ætti að standa þarna og það skiptir máli í samhenginu: Vandamálið var líka að villikettirnir í flokknum voru ekki nógu villtir.
Elle_, 30.11.2012 kl. 07:56
Steingrími J. Sigfússyni ásamt Flokkseigendafélaginu hefur tekist að eyðileggja VG gjörsamlega, rétt eins og þessu sama fólki tókst að ganga af Alþýðubandalaginu sáluga dauðu.
Þetta fólk er með öllu ótækt í stjórnmálaflokki, félagsþroski þess er enginn, en að sama skapi er siðblinda, frekja, valdafíkn og íllt innræti þeim mun meiri hjá þessu ólánsliði.
Jóhannes Ragnarsson, 30.11.2012 kl. 09:34
Það er pínlegt að fylgjast með veruleikafirringu óstýriláta minnihluta VG.
Þetta er öfgahópur sem telur að veröldin eigi að snúast um hann. Hann lokar augunum fyrir staðreyndum og vísbendingum um að áherslur hans eiga ekki hljómgrunn nema meðal örfárra kjósenda.
Steingrímur nýtur stuðnings um 2/3 hluta kjósenda VG til forystu í flokknum. Flestir hinna treysta best Katrínu eða Svandísi. Órólega deildin er einfaldlega ekki inni í þessari mynd og nýtur því lítils sem einskis trausts.
Eftir að Alþingi hafði samþykkt aðildarumsóknina jókst fylgi VG. Níu mánuðum eftir samþykktina var fylgi flokksins skv þjóðarpúlsi Capacent komið upp í 28%. Þetta sýnir með óyggjandi hætti að aðildarumsóknin mæltist vel fyrir hjá kjósendum.
Eftir þetta tók fylgið hins vegar að dala og er nú tveim og hálfu ári seinna komið niður í 12%. Samfylkingin er hins vegar með nánast sama fylgi núna og fyrir tveim og hálfu ári.
Fátt ef nokkuð er jafnslæmt fyrir fylgi flokka og innanflokksátök. Hrun á fylgi VG kemur því ekki á óvart. Það er hins vegar ekki Steingrímur sem ber ábyrgðina heldur hinn hávaðasami minnihluti ásamt þeim sem eru horfnir úr flokknum.
Ég held að það sé uppspuni að Jóhanna hafi kallað þennan hóp villiketti. Það gerði hins vegar ég hér á Vinstrivaktinni. Jóhanna kvartaði hins vegar undan því að hún þyrfti að smala köttum.
Ríkisstjórnin fékk aðildarumsóknina samþykkta snemma á kjörtímabilinu. Hún hefur því getað einbeitt sér að öðrum úrlausnarefnum þrátt fyrir lítinn vinnufrið.
Stjórnarandstæðingar, utan og innan stjórnar, hafa verið til skammar og algjörlega misboðið virðingu þingsins. Þeir virðast lítið hafa gert annað.
Krónan hefur verið mikill skaðvaldur og sætir furðu hve lítið það hefur verið i umræðunni. Með evru hefðu skuldir ekki hækkað heldur þvert á móti lækkað með hverri greiðslu.
Skelfilegur skuldavandi undanfarinna ára hefði því ekki komið til ef við hefðum ekki verið með krónu sem gjaldmiðil.
Reyndar er óvíst hvort nokkurt hrun hefði orðið án krónu. Allavega er ljóst að það hefði aldrei orðið nærri jafnalvarlegt og raunin varð.
Í Evrópu er andstaðan við ESB mest áberandi meðal rasista. Rasismi og þjóðremba eru náskyld. Egill Helgason segir Bjarna Harðarson þó vera alveg lausan við rasisma enda sé hann ólíkindatól.
Einn forystumaður ESB-andstöðunnar á Íslandi fer hins vegar ekki leynt með að hann er rasisti:
http://www.dv.is/frettir/2012/10/13/glaepir-og-ofbeldi-hluti-af-menningu-thjoda-balkanskaga/
Það er erfitt að átta sig á hvernig órólega deild VG geti verið vinstri sinnuð. Þótt ástæðurnar fyrir andstöðu við aðild geti verið aðrar en hjá öfga hægri liðinu þá lætur hún sér í léttu rúmi liggja að styðja sérhagsmuni auðmanna.
Hvergi verður maður var við vinstri stefnu hjá þessum hópi enda virðist ESB-málið vera þeirra eina mál.
Í ESB eru mörg helstu lýðræðisríki heims. Þar er áhersla á lýðræði og mannréttindi miklu meiri en í íslenskri stjórnsýslu. Valddreifingin er mikil og jöfnuður hvergi meiri í heiminum. 
Það samræmist því prýðilega vinstri stefnu að sækja um ESB-aðild ef aukinn jöfnuður er markmið vinstri stefnu. 
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.12.2012 kl. 00:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.