Getur VG orðið trúverðugt afl á móti ESB?
1.11.2012 | 12:31
Stjórn VG samþykkti á síðasta fundi sínum svohljóðandi tillögu Arndísar Soffíu Sigurðardóttur varaþingmanns í Suðurkjördæmi:
Stjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs samþykkir að stofnaður verði sérstakur vettvangur innan hreyfingarinnar sem standi fyrir umfjöllun, fræðslu og rökræðum um Evrópusambandið, yfirstandandi umsóknarferli Íslands að ESB og stöðu og tækifæri Íslands utan Evrópusambandsins til framtíðar. Samþykkt samhljóða.
Á fréttasíðu flokksins, Smugunni segir svo frá málinu:
Arndís Soffía Sigurðardóttir lögfræðingur og varaþingmaður Vg í Suðurkjördæmi [sem] lagði þetta til á stjórnarfundi Vg 19. október segir vettvanginn hafa fengið vinnuheitið Evrópusellan, Ísland utan ESB.
,,Mér hefur þótt vanta vettvang fyrir efnislegar umræður um Evrópusambandið innan okkar raða, fundarform flokksráðsfunda hentar ekki nógu vel fyrir slíkar umræður. Þetta á að vera vettvangur þar sem lagt er upp úr fræðslu og rökræðum, ég tel að sterkasta vopnið í þeirri baráttu að Íslands standi utan ESB sé fræðsla og upplýst umræða en vinstri grænum hefur ekki gengið vel á þessari umræðu.
,,Ég vil að vinstri græn taki forystu í umræðunni um að Ísland standi utan ESB," segir Arndís Soffía sem hvetur félaga í VG til að taka virkan þátt í uppbyggingu og störfum sellunnar.
Í þessu sambandi er rétt að minna á að fyrir fáum árum var Vinstri hreyfingin grænt framboð forystuafl í "umræðu um að Ísland standi utan ESB" og raunar í allri baráttu fyrir þeim málstað. VG var vitaskuld ekki eitt að verki heldur starfaði að málinu með öðrum, meðal annars innan Heimssýnar þar sem forystumenn flokksins létu til sín taka. Fjölmargir kusu VG vegna ESB andstöðunnar og það jafnvel fólk sem hefur aðra daga ekki skipað sér sérstaklega undir merki okkar vinstri manna.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, margir ESB andstæðingar hafa yfirgefið flokkinn og hart verið tekist á um málið innan VG. Við sem enn sitjum í flokknum höfum alveg fram undir þetta vonað að það yrði viðsnúningur. Að á einhverju augnabliki snúi forystan aftur að þeirri stefnu sem hún var kosin út á og reki ESB ófögnuðinn af okkur. Staðreyndin er að þingflokkur VG ber algerlega ábyrgð á ESB ferlinu og hefur það algerlega í hendi sér að slíta viðræðunum.
Tilboð stjórnar flokksins nú um að stofna til umræðuhóps er einkennilega mikið á skjön við þennan veruleika. Á slíkur hópur að beita sér fyrir því að þingflokkur flokksins fylgi stefnu flokksins eða á það að vera hlutverk hópsins að réttlæta stefnubreytingu og fánahátt þingflokksins?
Ef það er ætlun einstakra frambjóðenda að auglýsa að VG ætli sér að vera á móti ESB aðild á næsta kjörtímabili (þegar flokkurinn verður mjög sennilega í stjórnarandstöðu) en leyfi Samfylkingunni að fara öllu sínu fram á þessu kjörtímabili,- þá er það ekki mjög trúverðug stefnubreyting!
Sem fyrr segir hafa fjölmargir ESB andstæðingar sagt sig úr VG. Á sama hátt hafa einstakir forystumenn VG sem óvænt hafa gerst ESB sinnar fjarlægst starf Heimssýnar og jafnvel sagt sig þar úr félagi. Í þeim hópi er Arndís Soffía Sigurðardóttir sem nú flytur tillögu innan stjórnar.
En ef það er að verða stefnubreyting hjá einstökum forystumönnum og frambjóðendum þá er gagnlegt fyrir lesendur Vinstri vaktarinnar að vita af því og við tökum fúslega við ábendingum í þá veru.
En fyrst og fremst bíðum við aðgerða af hálfu þingflokks sem hefur fjöregg fullveldisins í hendi sér. Ef þingflokkur VG notar ekki mánuðina sem eru til kosninga til þess að losa þjóðina undan ESB fárinu þá verður flokkur þessi aldrei aftur trúverðugt afl vinstri manna. Engar sellur breyta þeirri mynd. /-b.
Athugasemdir
Mér sýnist eftir þennan lestur að hér sé verið að búa til trójuhest til að koma aftan að hinum venjulega VG manni sem er á móti ESB. Enn ein svikin eða þannig. Þó ég sé ekki í VG þá fylgi ég öllum að málum sem vilja koma þessari ógn af okkar höndum. Þess vegna er afar þýðingarmikið að fólk sé upplýst um svona svikaumræður sem hér virðast vera á ferðinni. Langlundargeð ykkar ESB andstæðinga innan flokksins er orðið ansi.... langt að mínu mati. Meðan augljóslega er stefnt að innlimun leynt og ljóst með dyggri aðstoð ykkar forystufólks. Og hver reglugerðin af annari er samþykkt á alþingi. Burt með þessa vá.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.11.2012 kl. 13:04
Einfalt svar við spurningunni er Nei.
Alveg sama þótt fótgönguliðar reyni að teygja lopann til þess að bjarga flokksforystunni. Kjósendur vita nú orðið hvað það þýðir að mikilvæg mál séu sett í nefnd eða á umræðuvettvang.
Kolbrún Hilmars, 1.11.2012 kl. 13:25
Þetta er bara enn einn undanslátturinn og enn ein svika-undanbrögðin til þess að reyna nú á síðustu stundu að breiða yfir stórkostleg og ítrekuð svik VG forystunnar í ESB málinu.
Sem hingað til alla vegana verða ekki flokkuð öðruvísi en stærstu og stórkostlegu kosningasvik 21 aldarinnar.
Flokkurinn mun því miður gjalda afhroð í næstu kosningum en hann á það bara svo sannarlega skilið, miðað við ömurlega framgöngu sína og undirferli í ESB málunum gagnvart þjóð sinni og kjósendum sínum !
Gunnlaugur I., 1.11.2012 kl. 14:29
Baráttan gegn ESB-aðild Íslands er barátta fyrir sérhagsmunum.
Það er þægilegt að varpa vandanum yfir á almenning með gengislækkunum. Ekki er síður mikils um vert að geta grætt á gengissveiflum krónunnar eða gjaldeyrishöftum. Almenningur borgar.
Rétt eftir hrun hlustaði ég á landsfrægan auðmann lýsa því fjálglega í útvarpi hvernig hann hefði flutt auð sinn til útlenda þegar hann sá að það stefndi í hrun krónunnar. Það furðulega var að hann gerði sér greinilega enga grein fyrir að þannig hefði hann stuðlað að hruninu. Með þessu móti tvöfaldaði hann auðinn á kostnað almennings.
Það er auðvitað ekki trúverðugt að vinstri flokkur styðji sérhagsmunaöflin. Þegar við bætist að þannig er hann að stuðla að verri lífskjörum almennings er það mjög ótrúverðugt.
Barátta gegn stöðugleika, betri samkeppnishæfni með fjölbreytilegum nýjum atvinnutækifærum, miklu minni verðbólgu, lægri vöxtum, engri verðtryggingu og lægra vöruverði er ekki trúverðug af hálfu vinstri flokks.
Ég ætla þó ekki að halda því fram að Vinstri grænum sé sérstakt kappsmál að gera vel við sérhagsmunaöflin á kostnað almennings. En alla vega er ljóst að það truflar þá ekki að þeir geri það.
Almennt afturhald og upphafin ímynd fullveldis virðast frekar ráða ferðinni. Hörðustu andstæðingar ESB, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson eru fæddir nokkrum árum áður en Ísland varð lýðveldi. Fullveldishjal þeirra er því arfur frá sjálfstæðisbaráttunni sem þeim hefur ekki tekist að varpa frá sér í tímans rás.
ESB-þjóðirnar eru allar fullvalda ríki. Aðeins er um að ræða samvinnu þeirra á ákveðnu sviði. Það má segja að þær deili fullveldinu á þessi sviði. Ef menn vilja tala um að Ísland missi visst fullveldi þá fær það á móti hlutdeild í fullveldi allra hinna ESB-þjóðanna.
ESB er samband um samvinnu á ákveðnu sviði. Með samvinnu næst betri árangur. Með mestalla Evrópu sameinaða er Ísland án bandamanna með ónýtan gjaldmiðil í höftum skelfileg framtíðarsýn.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 14:51
Ásmundur, þú segir að ESB sé samband um samvinnu á "ákveðnu sviði". Áttu þá aðeins við hagsmuni peningaaflanna? Svo sem hið frjálsa fjármagnsflæði auðkýfinga?
Á meðan viðgengst mikið misvægi á atvinnuástandi innan ESB. Af hverju er hin frjálsa för vinnuaflsins ekki nýtt til þess að flytja hluta af atvinnulausum þegnum til þeirra sambandsríkja sem minnst hafa atvinnuleysið? Af hverju deila ekki aðildarríkin Austurríki, Holland, Þýskaland og Luxembourg atvinnu og /eða atvinnuleysi með sambandsþjóðum sínum?
Á samband ESB þjóða ekki að byggjast á samvinnu þar sem einn er fyrir alla og allir fyrir einn? Eða snýst allt heila battaríið aðeins um hagsmuni peningavaldsins?
Kolbrún Hilmars, 1.11.2012 kl. 15:47
Mundi skundi, heyrðir þú nokkuð viðtöl við landsfræga Grikki sem hafa flutt auð sinn í stórum stíl frá evrusæluríkinu Grikklandi, til Sviss og Bretlands?
Eða landskunna Spánverja sem hafa líka flutt fé í stórum stíl frá evrusæluríkjum Ítalíu, Portúgal og Spáni?
Eða viðtöl við landskunna Svisslendinga sem bölva áðurnefndum landskunnum Grikkjum, Ítölum, Spánverjum og Portúgölum, fyrir þessa ótæpilegu flutninga, sem eru hrein ógn við svissneska frankann?
Nú eða þakkláta Breta, sem hafa getað selt lúxusíbúðir í London á uppsprengdu verði, til þessara fjárflóttamanna.
Þú ert eiginlega svo mikill sauður, að rétt er að innrétta fyrir þig pláss í fjárhúsinu í Húsdýragarðinum, svo börnin geti líka haft gaman af þér.
Hilmar (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 15:51
Kolbrún, að sjálfsögðu á ég við hagsmuni almennings en ekki peningaaflanna.
Lægra vöruverð, lægri vextir, miklu minni verðbólga, engin verðtrygging og ný fjölbreytt atvinnutækifæri eru til mikilla hagsbóta fyrir almenning.
Frjálst fjármagnsflæði er mikill gróðavegur með krónu en ekki með evru. Auðmenn geta spilað á gengismuninn og stórgrætt á kostnað almennings.
Með evru er sá gróðavegur horfinn. Aðeins er um að ræða hættu á að menn flytji mikið fjármagn úr landi ef þeir óttast afdrif banka heimalandsins.
Íbúum ESB-landa er frjálst að vinna hvar sem er innan ESB (og EES) ef þeir fá vinnu. Þetta frelsi er til hagsbóta fyrir almenning í þessum löndum. Þannig verður vinnuaflið hreyfanlegt.
Hvað viltu meira? Viltu þvinga einstaklinga til að leita sér vinnu í öðru landi ef þeir fá ekki vinnu í heimalandinu? Viltu þvinga vinnuveitendur til að ráða erlent vinnuafl? Endilega útskýrðu betur hvað þú átt við.
ESB á ekki að snúast um samvinnu þar sem einn er fyrir alla og allir fyrir einn. Þetta eru sjálfstæð ríki sem mjög ójafnt er komið á með efnahagslega. Aðeins er um að ræða samvinnu á vissu sviði. Þar á meðal er frjáls vinnumarkaður.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 16:41
Ásmundur, eigum við ekki bara að segja að fjórfrelsið sé ekki það sem lagt var upp með?
Auðkýfingar grískir, spænskir, portúgalskir eru fyrir löngu búnir að forða sínu fé á öruggan stað; til Sviss, Bretlands - jafnvel Danmerkur, af öllum stöðum. OK, þar með er staðfest að einn þáttur hins frjálsa flæðis virkar.
En hvernig héldu hugmyndasmiðir ESB þá að næsti þáttur hins frjálsa flæðis myndi virka; eða hin frjálsa för vinnuaflsins?
Hinir atvinnulausu sitja sem fastast heima hjá sér! Eins og þú staðfestir; það þyrfti að þvinga þá til þess að hreyfa sig.
Er þá ekki einfalt að álykta að fjórfrelsið var alltaf blekking og snérist alltaf um einfrelsi fjármagnsins?
Kolbrún Hilmars, 1.11.2012 kl. 16:59
Kolbrún, viltu gjaldeyrishöft til frambúðar sem er brot á einni grunnstoð EES-samningsins? Viltu að Ísland fari úr EES?
Ef gjaldeyrishöftum verður aflétt geta allir flutt fjármagn frá Íslandi að eigin geðþótta. Hættan er hins vegar miklu meiri hér en í ESB vegna þess að slíkir fjármagnsflutningar valda hruni krónunnar auk þess sem við njótum ekki þeirrar verndar Seðlabanka Evrópu sem ESB-þjóðir fá og felst í láni frá bankanum. Okkur yrðu allar bjargir bannaðar.
Hefurðu ekkert kynnt þér gífurlega skaðsemi gjaldeyrishafta til lengdar. Skaðinn er mjög lúmskur vegna þess að hann á sér stað smám saman á löngum tíma.
Pétur Blöndal alþingismaður, stærðfræðidoktor og fyrrum eigandi Kaupþins líkir gjaldeyrishöftum við að taka ópíum. Hann telur það "varða allt að því þjóðaröryggi" að losna við þau.
Krónan er ónýt og krefst auk þess mjög skaðlegra gjaldeyrishafta. ESB-aðild og evra í fyllingu tímans er því lausnin ekki bara sem lausn á gjaldeyrisvandanum og höftunum heldur svo mörgu öðru.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 17:12
Ásmundur, höldum okkur þá bara við fjármagnsflæðið, sem er eina frjálsa flæðið sem virðist skipta máli hvort sem er.
Krónan er ekki ónýt - til innanlandsbrúks. En vissulega er krónan ónýt til útflutnings. Gjaldeyrishöftin ná ekki til krónunnar - þau ná aðeins til þess gjaldeyris sem hægt er að kaupa fyrir krónur. Samt hefur landið eðlileg vöruviðskipti við útlönd þrátt fyrir gjaldeyrishöft.
Þeir sem hæst hrópa gegn höftunum eru einmitt þeir sem vilja flytja ómælt fjármagn úr landi. Og hverjir skyldu það nú vera?
Evruupptaka leysir ekki þetta útflutningsvandamál á fjármagni - nema þjóðin vilji taka evrurnar að láni með grísku aðferðinni og setja ríkissjóð og/eða skattgreiðendur í ábyrgð fyrir lánunum?
Það er nefnilega alveg sama hvað gjaldmiðill okkar heitir; við getum ekki leyft okkur að eyða meiru en því sem við öflum.
Kolbrún Hilmars, 1.11.2012 kl. 17:46
Kolbrún, sérðu ekkert athugavert við gjaldeyrishöftin?
Ertu ósammála Pétri Blöndal sem líkir þeim við ópíum vegna lúmskra langtíma áhrifa þeirra? Ertu ósammála honum að málið "varði allt að þjóðaröryggi".
Viltu loka inni í landinu fjármagn útlendinga um aldur og ævi? Viltu koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir geti fjárfest í erlendum verðbréfum sem mun gera þá miklu berskjaldaðri gagnvart næsta hruni?
Nánast allir sem hafa eitthvað um málið að segja fordæma gjaldeyrishöftin. Sumir þeirra vilja ekki ganga í ESB og hafa því leitað logandi ljósi að öðrum gjaldmiðli en evru þar á meðal Steingrímur J sem vildi taka upp norska krónu.
Nú hefur seðlabankinn úrskurðað að aðrir erlendir gjaldmiðlar komi ekki til greina. Evran er því sjálfsagður kostur í fyllingu tímans eftir inngöngu í ESB.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 19:11
Ásmundur, þú verður að skilja að þegar ég er að skrifast á við þig núna, er ég að tala um ástandið hér á landi eins og það er í dag. Ekki eins og það gæti orðið eftir einhver X mörg ár - ef landsmálunum yrði skynsamlega stjórnað.
Ég er orðin það gömul að muna gjaldeyrishöftin fyrrum, upplifa frelsið eftir að þeim var aflétt og svo hafa reynslu af nýjustu höftunum. Verð að segja að núverandi höft eru barnaleikur einn fyrir hinn almenna borgara miðað við þau fyrri.
Hvaða útlendingar eiga annars allt þetta óþolinmóða fé sem þeir þurfa að flytja úr landi?
Kolbrún Hilmars, 1.11.2012 kl. 19:25
Kolbrún, ástandið fer óhjákvæmilega hægt og sígandi versnandi vegna gjaldeyrishafta.
Því lengur sem það dregst að losa okkur úr snörunni því erfiðara verður það. Þess vegna líkti Pétur Blöndal höftunum við ópíum. Eftir því sem neyslan dregst á langinn verður ástand sjúklingsins verra og erfiðara fyrir hann að losna undan fíkninni.
Þegar ég tala um útlendinga sem vilja úr landi með sitt fé er ég að tala um snjóhengjuna svokölluðu. Það eru td krónueignir útlendinga í innlánsstofnunum og krónueignir þrotabúa bankanna sem útlendingar fá. Þetta eru um 1000 milljarðar.
Ef Íslendingar samþykkja ESB-aðild mun ástandið strax batna. Ef við höfnum því versnar það til muna.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 20:28
Ah, þú ert að tala um snjóhengjuna, Ásmundur.
Af hverju í ósköpunum ættum við að skipta um gjaldmiðil vegna hennar?
Mér hefur skilist að Lilja Mósesdóttir hafi einhverja hugmynd um hvernig það vandamál mætti leysa - áreiðanlega er hún til þess hæfari en bæði ég og þú.
Kolbrún Hilmars, 1.11.2012 kl. 20:39
Kolbrún, Lilja Mósesdóttir er engin manneskja til að leysa snjóhengjuna. Hún vill bara auka höftin.
Snjóhengjan er aðeins sjúkdómseinkenni. Það verður að uppræta undirliggjandi sjúkdóm til að einkennin hverfi með öllu.
Vilhjálmur Þorsteinsson lýsti því nákvæmlega í bloggi sínu á sínum tíma hvernig farið skyldi að því.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 21:19
Þegar ESB sinnar skilja að framtíðarkróna verður ekki með svona ströngum höftum eins og eru í gangi núna er hægt að komast á næsta stig umræðunnar, ekki fyrr. Enginn talar um svona ströng höft til framtíðar nema heilaþvegnir ESB sinnar. Ef þessi ströngu höft hefðu ekki verið látin á á sínum tíma væri ástand okkar mun verra í dag. Þau gerðu það t.d. að verkum að ríkissjóður gat fjármagnað sig með mun ódýrari hætti sem var algjör nauðsyn á þessum tíma auk þess að stöðva fjármagnsútstreymið. Hins vegar er ekki hægt að mæla með svona ströngum höftum í venjulegu árferði, sér í lagi til lengri tíma og því mikilvægt að losna við þau hægt og rólega og öfugt við það sem heilaþvegnu ESB sinnarnir halda, þá er það auðvitað hægt með krónu sem gjaldmiðil.
Þau höft sem seðlabankinn ræðir um að verði til staðar í framtíðinni eru einfaldlega þessi, http://en.wikipedia.org/wiki/Macroprudential eða þjóðhagsvarúðartæki. Slík tæki munu líka koma á evrusvæðinu, ef það nær að lifa af það er að segja.
Algjört frelsi í alla staði er mjög falleg hugmynd en stjórnmál evrulanda eða Íslands eru ekki tilbúin í slíkt. Það sást augljóslega með falli íslenska fjármálakerfisins og falli S-Evrópuþjóða og Írlands.
Bragi, 1.11.2012 kl. 21:48
Nú verður einhver að svara fyrir mig, því þetta tiltekna blogg VÞ hef ég ekki lesið.
Það eina sem ég veit er að maðurinn sá vill ESB aðild og evruupptöku, sem er þvert á hugmyndir Lilju. Enda er hann umsvifamikill í fjármálageiranum.
Kolbrún Hilmars, 1.11.2012 kl. 21:49
Kolbrún Ásmundur svokallaður er einstaklingur sem allir hafa gefist upp á að ræða við. Hann tekur engum sönsum og er eins og róbót, segir bara sömu rullurnar utanbókarlærðar. Enda er hann að sögn þeirra sem betur þekkja til að vinna fyrir ESBstofnunina, sennilega á launum við að reyna að snúa okkur í áttina til ESBMekka. Það er því vonlaust verk að reyna að ræða við hann af viti.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.11.2012 kl. 22:47
Ásthildur, ef hún heitir það, er eins og álfur út úr hól sem veit ekkert í sinn haus.
Skrif hennar eru bara bull og öfugmæli. Án þess að ég hafi athugað það sérstaklega er ég td viss um að enginn hér hafi fengið eins mikil viðbrögð við skrifum sínum og ég.
Ásthildur er í afneitun gagnvart staðreyndum enda líklega nauðsynlegt til að geta verið á móti ESB-aðild.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 23:04
ESB-flokkarnir tveir Samfylking og Björt framtíð auka mikið fylgi sitt frá því fyrir mánuði í nýrri könnun Capacent. Samtals eykst fylgi þeirra um 6% af þeim sem tóku afstöðu í könnuninni.
Samtals stuðningur þessara flokka hefur aukist úr 22% í 28% sem er 27% fjölgun stuðningsmanna. Það er ótrúleg aukning á aðeins einum mánuði. Er þróunin byrjuð að snúast við?
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 23:26
Álfurinn út úr hól er beint fyrir ofan. Það er svona lygaálfur sem ekkert þýðir að rökræða við.
Elle_, 1.11.2012 kl. 23:27
Elle veit ekki hvað rökræður eru samanber þegar hún sagði: Við viljum ekki aðild, það eru okkar rök.
Hún er sami öfugmælaálfurinn og Ásthildur - ef ekki verri.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 23:31
En ég kallaði það aldrei nokkurn tíma þessu veiklulega orði ´aðild´. Kallaði það sem það væri: Yfirtöku. Við viljum ekki, eru næg rök. Við viljum ekki vera nauðgað, þýðir NEI.
Elle_, 1.11.2012 kl. 23:37
Síðan hvenær hefur samstarf ríkja af frjálsum vilja verið kallað yfirtaka?
Elle hljómar eins og ýkt tilfelli af heilaþvotti upp á lífstíð.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 23:43
Samstarf? Ýkt af heilaþvotti? Þú ert nú drepfyndinn lygaálfur.
Elle_, 1.11.2012 kl. 23:51
Ég er ekki sammála ykkur ágætu konur, kindin hann Mundi er temjanlegur.
Sjáið til, hann lærir. Hann er t.d. hættur að tala um að evrusvæðið lendi aldrei í skuldavanda, af því að svæðið getur prentað eins mikið af evrum og það vill.
Með því að þurfa að þola aðhlátur í nokkra vikur, höfum við skilyrt hann. Jafnvel þó hann sé jafn innilega vitlaus í peningamálum, þá veit hann að þarna auglýsti hann heimskuna.
Sko, hundar Pavlovs voru skilyrtir, á sama hátt og við skilyrðum Munda. Hérna fyrr röflaði greyið eitthvað um fjármagnsflótta frá Íslandi, vegna krónu. Eftir að honum hefur verið bent á fjölda landa innan evrusvæðisins, þar sem fjármagnið flýr sem fætur toga, er hann hættur að röfla um það mál.
Þannig er um fjölda mála sem Mundi hefur tjáð sig um, af einstæðri fákunnáttu, en síðan þagað um, eftir að hafa verið flengdur.
Ef Pavlov gat skilyrt hunda, þykir mér líklegt að við getum skilyrt ESB rolluna hann Munda, hann hefur sýnt merki þess að það sé hægt.
Hilmar (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 23:52
Er það frjálst samstarf milli ríkja þegar samtök ætla sér að taka að sér að ráða yfir fjármálum allra ríkjanna, deila og drottna og skipta sér af fjárlögum ríkjanna?
Er það frjálst samstarf þegar lög ESB eru ofar landslögum viðkomandi ríkis.
Ásmundur þú þarft að gera betur en þetta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.11.2012 kl. 23:52
Ásthildur, að sjálfsögðu er það frjálst samstarf sem ríki ákveða að bindast samtökum um að gera sameiginlega.
Það er meira að segja svo frjálst að hvert ríki getur hvenær sem er ákveðið að taka ekki lengur þátt í samstarfinu.
Samtökin ætla sér ekki að ráða yfir neinu. Það eru ríkin sem ákveða að leiða viss mál sameiginlega til lykta til að ná betri árangri.
Þetta er spurning um að nýta samtakamáttinn öllum ríkjunum til hagsbóta.
Ásmundur (IP-tala skráð) 2.11.2012 kl. 08:37
Æ, Ásmundur, æ.
Bragi, 2.11.2012 kl. 22:17
Já, Bragi, það er sárt að fá ekki að vera í friði í afneitun.
Ásmundur (IP-tala skráð) 4.11.2012 kl. 10:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.