Um helgina fara tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæði. Með þessu er merkum áfanga náð. Og þó andstæðingar atkvæðagreiðslunnar segi hana marklausa er það í fullkomnu ósamræmi við þá orrahríð sem dunið hefur yfir. Slíkur þungi yrði aldrei lagður í merkingarlaust mál.
Greinin um framsal ríkisvalds, hefur fengið sérlega útreið og sögð rennibraut inn í Evrópusambandið. Ákvæðið er svona:
111. gr.
Framsal ríkisvalds.
Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.
Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft. Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.
Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.
Sitjandi ríkisstjórn hefur lofað landsmönnum þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Samkvæmt nýju stjórnarskránni eru slík loforð óþörf því ekki er hægt að framselja ríkisvald nema með samþykki þjóðarinnar allrar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ergó: Í nýju stjórnarskránni ræður meirihlutinn og án hans ekkert ESB.
LÝÐUR ÁRNASON,læknir og liðsmaður Dögunar.