Ætlar VG að ganga til kosninga með vitavonlausa hvorki-né-stefnu?
11.9.2012 | 11:46
Ljóst er að ekki verður gerður neinn aðildarsamningur við ESB fyrir kosningar. Afstaða sjálfstæðismanna og framsóknar gegn ESB-aðild er skýr. Samfylkingin mun safna til sín atkvæðum ESB-sinna. En sú stefna VG að halda umsókn um aðild til streitu en vera jafnframt andvíg aðild mun fáum hugnast öllu lengur.
Vinstri grænir hafa komið sér í einhverja verstu klípu sem stjórnmálaflokkur getur ratað í. Kosningar nálgast óðum þar sem bersýnilega verður tekist hart á um stærsta mál líðandi stundar: afstöðuna til ESB-aðildar. Forystumenn VG samþykktu aðildarumsókn í trausti þess að á tveimur, þremur árum mætti kanna hvað í boði væri og síðan gæti þjóðin fellt sinn lokadóm um samningsniðurstöðuna og hafnað inngöngu í ESB.
Þetta fór þó allt á versta veg fyrir VG eins og vænta mátti. Leiðtogar ESB hafa sem stendur lítinn áhuga á aðildarsamningi við Íslendinga vegna þess að þeim er löngu orðið ljóst eins og öllum öðrum að íslenska þjóðin vill ekki ganga í ESB. Þess vegna hafa viðkvæmustu þættir samningaviðræðnanna ekki einu sinni verið opnaðir hvað þá meir.
Eftir stendur sú stóra spurning hvort forystumenn VG ætla að fórna flokki sínum í þágu ESB-aðildar með því að ganga til kosninga með þá yfirlýstu stefnu að flokkurinn muni halda áfram á næsta kjörtímabili að aðstoða Samfylkinguna við að draga Ísland inn í ESB. Verði það boðskapur VG í komandi kosningabaráttu og VG kjósi að sitja uppi með óafgreidda aðildarumsókn í fanginu þegar kjósendur ganga að kjörborðinu er það deginum ljósara að flokkurinn ríður ekki feitum hesti frá þeim kosningum.
Í viðtali við DV um liðna helgi er eftirfarandi haft eftir Steingrími Sigfússyni um ESB-málið: Steingrímur segir VG alvara með að vilja fara yfir málefni Evrópusambandsins og umsókn Íslands. Við sáum það ekki fyrir að haustið 2012 værum við enn á þessum stað. Það gefur alveg tilefni til að fara yfir stöðuna. Það er fullur einhugur að baki þeirri kröfu okkar að nú viljum við fara yfir málið og ræða í okkar herbúðum, við samstarfsflokkinn og á öðrum vettvangi í utanríkisnefnd, ráðherranefnd um Evrópumál og í ríkisstjórn, segir Steingrímur.
Steingrímur tekur það þrívegis fram í sömu málsgrein að hann vilji fara yfir málið. Hvað þau orð raunverulega merkja vita fáir. Vonandi gerir formaðurinn sér grein fyrir því að meira þarf til en að fara yfir málin ef hann ætlar að forða flokki sínum frá hörmulegri útreið í komandi kosningum. Þar dugar í rauninni ekkert minna en að segja: Hingað og ekki lengra!
VG hefur brýna þörf fyrir á þessu hausti að slá botninn í ESB-leiðangur flokksins sem hófst fyrir rúmum þremur árum og enginn skilur lengur, jafnvel ekki ESB-sinnar hvað þá ESB-andstæðingar. ESB-málið er einfaldlega það stórt og örlagaríkt í hugum flestra kjósenda að þeir geta ekki haft samúð með frambjóðendum sem slá úr og í, þegar þetta stóra mál er annars vegar og segjast hvorki vera fylgjandi aðild né andvígir aðildarumsókn. - RA
Athugasemdir
Vinstri grænir vilja halda áfram ríkisstjórnarsamstarfinu á næsta kjörtímabili. Afstaða þeirra til ESB verður því óbreytt enda verður það skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi.
Auk þess er það mjög ótrúverðugt að samþykkja í upphafi aðildarviðæður og að þjóðin fái að kjósa um aðild þegar samningur liggur fyrir, en hætta svo við þegar miklu fé og orku hefur verið varið í verkefnið og séð er fyrir endann á því. Flokkurinn hefur ekki efni á slíku rugli.
Sumum kann að þykja ólíklegt að Samfylking og Vinstri grænir verði saman í næstu ríkisstjórn miðað við fylgið í skoðanakönnunum. Skoðanakannanir sýna hins vegar að Sjálfstæðisflokkurinn missir venjulega mikið fylgi þegar nær dregur kosningum en vinstri flokkarnir vinna á.
Ef meirihlutinn heldur ekki velli mun Björt framtíð vera með í ríkisstjórn. Hún verður eina smáframboðið sem nær mönnum á þing. Guðmundur og Heiða verða þingmenn og kannski einn eða tveir til viðbótar.
Fylgi við ríkisstjórnina er að aukast. Meðal aðgerða ríkisstjórnarinnar fyrir skuldsett heimili var mikil hækkun vaxtabóta. Fólk er fyrst nú nýlega að fá þær í hendur og finna margir fyrir miklum mun. Það mun skila sér í fylgisaukningu ríkisstjórnarinnar.
Meðan allt er í hers höndum vestan hafs og austan vekur ótrúlegur viðsnúningur á Íslandi heimsathygli. Einkum í ljósi þess að engin þjóð fór jafnilla út úr hruninu í upphafi og Íslendingar. Fólk mun sannfærast og fylgi ríkistjórnarflokkanna þar af leiðandi aukast.
Fylgið við Sjálfstæðisflokk og Framsókn stafar að miklu leyti af óréttmætri reiði út í ríkisstjórnina. Slíkt fylgi gengur auðveldlega tilbaka. Öfgahægristefna (á íslenskan mælikvarða) hugnast fólki ekki sérstaklega vegna þess að hún olli hruninu 2008.
Það er alveg fráleitt að auðmenn leiði flokka sem er ætlað að höfða til almennings. Auðmenn gæta hagsmuna auðmanna á kostnað almennings. Er það ekki ljóst?
Ef ekki tekst að mynda vinstri stjórn mun Sjálfstæðisflokkurinn reyna að mynda stjórn með Fransókn ef þeir ná saman meirihluta. Þær umleitanir munu ekki bera árangur vegna þess að Framsókn setur 20% lækkun á skuldum heimilanna sem skilyrði. Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir það ekki.
Ef ekki verður mynduð vinstri stjórn eftir kosningar er líklegast að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur myndi stjórn.
Til að ríkisstjórnin haldi velli er nauðsynlegt að ólátabelgirnir í VG slíðri sverðin. Enginn kýs flokk þar sem hver höndin er upp á móti annarri nema hann tilheyri fastafylginu sem lætur ekkert hagga sér.
Ásmundur (IP-tala skráð) 11.9.2012 kl. 16:00
Og hverja skildir þú nú vera að kalla ólátabelgi sem eiga að þínum háa dómi að slíðra sverðin? Væntanlega ´villiketti´ Jóhönnu og eina vitið í VG? Væri nær að banna stríðsflokk Jóhönnu og heimilisketti hennar í VG.
Elle_, 11.9.2012 kl. 19:09
Og´flokkurinn hefur ekki efni á slíku rugli að hætta þegar miklu fé og orku hefur verið varið í verkefnið´, segir ´Ásmundur´ líka um VG. Það er nú meira ´verkefnið´ að nauðga okkur inn í Brusselveldið. Þú veist ýmislegt um hvað VG ætti að gera og studdir samt örugglega aldrei flokkinn. Eða var þetta kannski hótun?
Elle_, 11.9.2012 kl. 19:29
Vinstri grænir sitja uppi með Svarta Pétur.
Tómas Ibsen Halldórsson, 12.9.2012 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.