Er að kvarnast úr vinstri kantinum hjá Vinstri grænum?

Vinstra fólk á Íslandi átti lengi vel framan af nýju öldinni sitt helsta athvarf í Vinstri grænum. Nú virðist sem margir þeir sem skilgreina sig á vinstri kantinum í VG séu búnir að gefast upp á flokknum eða í það minnsta orðnir langþreyttir á því hvað flokkurinn er að færast mikið í áttina frá sínum róttæku rótum. Kringum áramótin sagði sá þekkti vinstrimaður Ólafur Jónsson, betur þekktur sem Óli kommi, sig úr flokknum, rétt eftir að flokkurinn heiðraði hann sérstaklega á landsfundi sínum. Nýlega sögðu þeir Vésteinn Valgarðsson og Þorvaldur Þorvaldsson sig úr flokknum. Fleiri róttækir vinstri karlar og konur hafa sagt sig úr flokknum eða eru að íhuga það. Ein af þeim ástæðum sem þessir róttæku vinstri menn sem yfirgefið hafa VG hafa flokkinn hafa gefið upp fyrir úrsögninni er undanlátssemi Vinstri grænna í andstöðunni við ESB, þar sem í öðru orðinu er ítrekað að VG sé andvígt ESB en í hinu er gengið sífellt lengra í átt að aðlögun og undalátssemi við ESB í heild eða stakar þjóðir ESB. Dæmi um það hafa verið rakin í fyrri pistlum hér á Vinstrivaktinni.

Ef til vill þykir einhverjum í VG bara gott að losna við þetta róttæka lið, en öðrum finnst það miður. Eitt af því sem hefur fram til þessa einkennt VG er að þar hafa róttæk vinstri sjónarmið átt athvarf. Róttæk rök gegn ESB þar á meðal og ef slegið er af í þeim efnum þá er það stórmál, eða eins og Ólafur Jónsson sagði í viðtali við Ríkisútvarpið þann 3. janúar síðastliðinn:

„Útslagið gerði þó þetta dekur við Evrópusambandið. Þessi aðför að Jóni Bjarnasyni sem var andófsmaður í ríkisstjórninni varðandi evrópusambandið. Það var endapunkturinn á þetta, hjá mér," segir Ólafur. 

Í úrsögn Vésteins Valgarðssonar, sem meðal annars birtist á vefsíðu hans (http://vest-1.blogspot.com/) segir meðal annars:

Stjórnarsáttmálinn vissi á illt frá upphafi, þar sem flokksforystan lét undan í öllum aðalatriðum og fékk lítið í staðinn, og það við aðstæður sem fáir aðrir en smáborgaralegir tækifærissinnar í vinstrigæru hefðu getað gert. Fyrir tækifærissinna eru völd ekki verkfæri til að ná pólitísku markmiði, heldur eru völdin markmiðið sjálft. Sleikjuskapur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sæmir ekki vinstrisinnaðri ríkisstjórn fullvalda ríkis, en er eðlileg hegðun fyrir smáborgaralega sýndarvinstristjórn sem er hvort sem er tilbúin til að selja fullveldið fyrir baunadisk. Úrræðaleysi í skuldamálum heimilanna sýnir glöggt að fjármálaauðvaldið hefur hér tögl og hagldir. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var líka löðrungur sem erfitt verður að gleyma.

Ég segi skilið við VG vegna þess að ég er sósíalisti og VG er því miður ekki sósíalískur flokkur, heldur kratískur.

Þorvaldur Þorvaldsson tók í sama streng í nýlegri úrsögn sinni:

,, Afleiðingum kreppunnar hefur verið velt miskunnarlaust yfir á almenning meðan erlendir vogunarsjóðir fá bankana afhenda á silfurfati til þess að geta haldið áfram að féfletta fólkið. Stór fyrirtæki hafa fengið milljarða skuldir niðurfelldar og haldið áfram með óbreyttu eignarhaldi meðan fjöldi fólks er hrakinn út af heimilum sínum. Markaðsvæðing í innviðum samfélagsins hefur ekki gengið til baka og jafnvel aukið sinn hlut, eins og í orkugeiranum. Loks var með því að taka þátt í að sækja um aðild að Evrópusambandinu opnað fyrir háskalegan leik að fullveldi þjóðarinnar."

Engum dylst að kosningavetur fer í hönd. Róttækir vinstri menn, innan og utan VG, eru án efa að hugsa sinn gang. Þeir eru ekki meðal þeirra sem sjá lausn í að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, sem kannanir sýna í sókn nú um stundir. Einhverjir þessara róttæku vinstri manna stefna á að stofna nýjan flokk, aðrir vilja standa utan allra flokka, ef til vill brenndir af fyrri reynslu. Enn aðrir reyna enn að breyta gangi mála innan VG.

Þórarinn Hjartarson skrifaði á eggin.is þann 9. maí síðastliðinn:

,,Þetta er aldeilis ekki kreppa frjálshyggjunnar. Það er auðvaldskerfið sjálft sem er í kreppu. Frjálshyggjan hefur hins vegar styrkt sig fremur en hitt, og í Evrópu alveg sérstaklega. AGS og ESB eru samstíga. Steingrímur og Jóhanna ganga í þeim takti. Munurinn á bandaríska efnahagskerfinu og því evrópska er lítill og óðum að hverfa. Auðvaldið fer sínu fram, eins í kreppum. Draumur evrópuvinstursins á sér enga stoð og er í eðli sínu tragískur."

-ab


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Það er ekki bara að það kvarnast mjög alvarlega úr róttæka fylginu á visntri kanti VG. Sem að vissulega er slæmt fyrir flokk sem kennir sig við vinstri mennsku. En ég tel þó einungis að þessi armur hafi verið talsverður minnihluti innan VG, en svona flokki samt mikilvægar rætur.

Það sem er öllu alvarlegra fyrir flokkinn að það eru að hrúgast burt frá flokknum fullveldissinnaðir kjósendur og venjulegt fólk sem trúði því að VG væri heiðarlegur stjórnmálaflokkur sem væri nauðsynlegt aðhaldsafl og flokkur sem hægt væri að treysta á í svona stóru máli eins og andstöðuna við ESB. Slíkt á eftir að þýða að flokkurinn mun bera algert afhroð í næstu kosningum.

Ekki bara að flokkurinn hafi misst tiltrú tugþúsunda sinna eigin kjósenda, heldur hefur hann líka glatað virðingu og ákveðinni tiltrú sem margir forystumenn og kjósendur annarra flokka báru til hans víða um þjóðfélagið vegna staðfestu sinnar og stefnufestu.

Þau áhrif voru alltaf mun meiri og víðtækari en raunverulegt kjörfylgið sagði til um.

Slík tiltrú og þau áhrif sem hún vissulega hafði eru nú líka algerlega gufuð upp og flokkurinn í stað þess uppskorið virðingarleysi og sums staðar jafnvel líka hreina fyrirlitningu.

Hörmuleg örlög þessa stjórnmálaflokks er vissulega umhugsunarefni.

Gunnlaugur I., 6.9.2012 kl. 17:46

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála þér Gunnlaugur það eru einmitt þessi svik við kjósendur sem virðast fara fyrir brjóstið á liðsmönnum hans.  Þess vegna er ég alveg hissa á því að Steingrímur var endurkosin formaður á síðasta landsfundi og að eftir þann fund hafi ekki skilið á milli og róttækari armur flokksins stofnað nýjan flokk. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.9.2012 kl. 18:46

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

VG uppskar mikinn sigur í síðustu alþingiskosningum. Mun fleiri kusu þann flokk en bara vinstrisinnaðir kjósendur, þar var einnig fólk sem trúði og treysti VG til andstöðu við ESB aðild, enda eini flokkurinn sem hafði skýra stefnu gegn aðild.

Þennan sigur geta VG ekki síst þakkað formanni flokksins, enda mikill ræðuskörungur. Eftir kosnigarnar var auðvitað ljóst að þessi flokkur yrði í næstu ríkisstjórn, hann var sigurvegarinn og og í raun ekki möguleiki á að mynda ríkisstjórn án hans. Því var flokkurinn í lykilstöðu til að koma sínum málum fram, í lykilstöðu til að aftra því að ESB umsókn næði fram að ganga.

En það sannaðist að ræðuskörungurinn var ekkert annað en ræðuskörungur, hann gat talað en ekki framkvæmt. Hann sýndi sitt rétta eðli. Samfylkingin gat með einhverjum óskiljanlegum hætti vafið honum um fingur sér. Niðurstaðan var klofinn flokkur VG og nánast óstarfhæf ríkisstjórn.

Þegar svo verk formannsins eru skoðuð, eftir að í ríkisstjórn var komið, sannast enn frekar að þar fer maður orðs en ekki verka. Svik hanns við kjósendur VG opinberuðst og eru enn að opinberast, þar á margt ljótt eftir að sjást, til viðbótar því sem þegar hefur komið fram.

Sjálfsagt er hægt að benda á einhver verk formannsins sem eru í samhljóm við loforð hans fyrir kosningarnar, þó ég muni ekki eftir neinum sjálfur. Það er hins vegar auðvelt að telja upp öll þau verk sem hann hefur staðið að og eru í algjöri andstöðu við fyrri loforð. Þarna liggur stæðsti vandi VG.

Það er vissulega slæmt fyrir þann eina flokk sem telur sig boðbera vinstristefnu í pólitík, þegar þeir hörðustu í þeirri trú yfirgefa flokkinn. Verra er þó þegar hinir hófsömu, sem gáfu flokknum sitt atkvæði, yfirgefa hann einnig. Þá er ekkert eftir!!

Gunnar Heiðarsson, 6.9.2012 kl. 20:09

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hjá langþinga-gengnum stjórnmálamönnum er gömul ólund afar fyrirferðamikil,þar sem baráttan snýst meira um atið gegn andstæðingnum en að velferðarmálum. Það bitnar alltaf á þeim hópi kjósenda sem má sín lítils. Af nýfenginni reynslu sér maður allt eins mynd,sem líkist vopnuðum átökum pólitískra afla,þar sem almenningur er í skotlínunni. Sviksemi Steingríms hefur verið tíunduð margoft og líklegt að hann hafi talið bæði afskanlegt og réttlátt að láta þeim Jóhönnu eftir pólitíska drauma um gerilsneidda vinstristjórn. Ákafinn var orðinn allt að því geðveikur,þegar gegnheilir Íslendingar tóku að andmæla af hörku.Því tel ég að úr þessu komast þau ekki undan í náðarfaðm Esbésins. Þau vanmátu lund Íslendinga,sem spyrja ekki um vinstri/hægri þegar að fullveldi þjóðarinnar er í veði.

Helga Kristjánsdóttir, 7.9.2012 kl. 03:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband