Næst ætlar ESB að beita svipunni í makríldeilunni

Sömu dagana og kommissarinn í sjávarútvegsmálum hjá ESB átti árangurslausan fund með Steingrími í Brussel var framkvæmdastjórn ESB að ganga frá frumvarpi um fyrirhugaðar refsiaðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum. Næst á sem sagt að beita svipunni!

 

Að sjálfsögðu hljóta Íslendingar að láta hótanir ESB sem vind um eyru þjóta. Samkvæmt alþjóðalögum hefur ESB sem betur fer ekkert yfir Íslendingum að segja, að minnsta kosti ekki enn, ekki á meðan Samfylkingunni hefur enn ekki lukkast að draga þjóðina inn hið verðandi stórríki. Íslendingar ráða því sjálfir sem sjálfstæð þjóð hvað þeir veiða í eigin lögsögu og þeim ber engin skylda til að fallast á afarkosti ESB. Samningsréttur Íslendinga um fiskveiðar er einmitt meðal þess allra mikilvægasta sem við gefum frá okkur og glötum við inngöngu í ESB.

 

Þó það væri ekki nema það eitt að varðveita rétt okkar til setu við samningaborðið þegar samið er um veiðar á flökkustofnum í hafinu umhverfis landið þá er það næg ástæða til að hafna algerlega inngöngu í ESB og framsali samningsréttarins í hendur ESB, enda er veiði okkar úr flökkustofnum um það bil þriðjungur af útflutningsverðmæti sjávarafurða.

 

Framkvæmdastjórn ESB virðist ímynda sér að hún geti sett sjálfa sig í dómarasæti á vettvangi þjóðanna og dæmt ríki sem ESB telur stunda „ósjálfbærar veiðar“ til að þola refsingar ef viðkomandi ríki fellst ekki á kröfur ESB „innan eins mánaðar frá því að ríkinu berst formleg tilkynning um fyrirhugaðar refsiaðgerðir“. En einmitt þannig mun vera komist að orði í frumvarpi að reglugerð ESB sem framkvæmdastjórn ESB hyggst leggja fyrir þing ESB 13. september n.k.

 

ESB hefur hins vegar fulla heimild til að beita eigin aðildarríki refsiaðgerðum. Það er önnur saga. En ESB hefur enga heimild til þess að alþjóðalögum að fara í groddalegt viðskiptastríð við ríki sem ekki er í ESB og beita það refsingum vegna fullkomlega löglegra veiða í eigin 200 mílna lögsögu. Þetta er svo augljóst sem verða má, og furðulegt að lögfræðingaherinn í ESB skuli ekki gera sér grein fyrir því að aðgerðir af þessum tagi eiga sér enga stoð á alþjóðalögum og hlytu að verða fordæmdar víða um lönd ef þær kæmu til framkvæmda.

 

Hlálegast er þó að ESB skuli ætla sér að setja sig í dómarasæti yfir sjávarútvegsþjóðum við Atlantshaf þar sem alkunna er að óvíða í heiminum er sjávarútvegi jafn illa stjórnað og einmitt í ESB og hvergi virðast veiðar jafn ósjálfbærar og einmitt í „Evrópuhafinu“ eins og þeir sjálfir nefna sameiginlega lögsögu ESB-ríkja. Kommissararnir eiga því sannarlega á hættu að verða að athlægi víða um lönd ef þeir þykjast geta gert sjálfa sig að dómara um það hverjir stunda „ósjálfbærar veiðar“ og hverjir ekki.

 

Íslendingar eru í fullum rétti að standa fast á rétti sínum í þessu máli og hvika hvergi. Rétturinn og rökin eru okkar megin. Makríllinn hefur fyllt hér flóa og firði í sívaxandi mæli og étur að sögn fiskifræðinga um þrjár milljónir tonna árlega í lífríki íslenskra fiskimiða. Hann fitar sig því margfalt í íslenskri lögsögu á við það magn sem Íslendingar draga að landi, en árlegur afli Íslendinga er nú 150 þúsund tonn. Munurinn er tuttugu faldur! – Ragnar Arnalds


mbl.is Telja samningaleiðina hafa brugðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Næst ætlar Noregur að beita svipunni:

,,Vi vil setje inn ytterlegare sanksjonar mot Island og Færøyane." (Berg-Hansen Sjávarútvegsráðherra Noregs.)

http://www.nrk.no/nyheter/distrikt/more_og_romsdal/1.8309080

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.9.2012 kl. 13:11

2 identicon

Mikið erum við hepppin, að þurfa bara að lifa við hótanir ESB.

Innan ESB myndum við bara þurfa að sætta okkur við ákvarðanir spænskra, búlgarskra, slóvakískra og allra hinna landbúnaðarráðherrana.

Það er ánægjulegt að við skulum vera í þeirri stöðu, að þeir stóru þurfi að hóta okkur. Hótanir þolum við mætavel, höfum þurft að mæta þeim áður, og sigra, en baktjaldamakk í reykfylltum bakherbergjum Brussel, myndum við ekki lifa af.

Við erum vanir því, Íslendingar,að setja fordæmi í hafréttarmálum, og við höldum því áfram. Við settum fordæmin í útfærslu landhelgi, sem hver einasta þjóð hefur svo tekið upp eftir okkur. Og við þurftum að sigra ofureflið, sem við gerðum eftirminnilega.

Við erum menn, en ekki mýs.

Nema kratamýsnar náttúrulega, þær mega ekkert yfirvald sjá, án þess að skjálfa fyrir því.

Hilmar (IP-tala skráð) 4.9.2012 kl. 13:54

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka góða grein.

 Það er hlökkunarefni ef þeir geta fælt samfylkinguna í burt frá Brussel. Við þurfum í raun að styrkja okkar markaði annarstaðan s.s. N.Ameríku sem vilja svo sannarlega kaupa af okkur fisk. Við eru búnir að eyðileggja þannmarkað með kæruleysislegum athöfnum markaður sem tók mörg ár að byggja upp með eigin verksmiðjum of öðru. Byrjum aftur að byggja þann markað upp en ekki veitir af að nota tíman vel áður en Evrópa hrinur aftur.

Valdimar Samúelsson, 4.9.2012 kl. 14:13

4 identicon

Vinstrivaktin ætti að láta af þessum vænisýkiköstum sem minna á leikskólabörn í sandkassaleik. Takið upp málefnaleg skrif.

Makríldeilan er óháð ESB-umsókninni. Hvað sem ESB gerir, myndi hún gera hið sama þótt við værum ekki að sækja um aðild. Ef eitthvað er, njótum við umsóknarinnar.

Það er auðvitað fráleitt að við getum veitt eins og okkur sýnist ef við erum ekki í ESB. Okkur ber lagaleg skylda til að semja til að komast hjá ofveiði og hruni stofnsins.

Innan ESB er samningsstaða okkar miklu betri en utan enda dregur ESB eðlilega taum sinna aðildarþjóða. Þar höfum við einnig óskerta möguleika á að tala okkar máli.

Norðmenn virðast mun harðari í horn að taka en ESB-þjóðirnar. Kannski að aðildarumsóknin mildi afstöðu ESB.

Það er alveg ljóst að ESB hefur ýmsa löglega möguleika á að láta okkur finna fyrir því ef við neitum að semja. Við erum nú þegar á undanþágu frá EES-samningum vegna gjaldeyrishafta. Það verður ekki til eilífðar. 

Það er því betra að halda góðu sambandi við ESB. Það þýðir þó ekki að við eigum að samþykkja ósanngjarnar kröfur heldur sýna samningsvilja.

Harkan sex hjá Vinstrivaktinni bendir til að hún vilji úrsögn úr EES þó að það þýði sífellt versnandi lífskjör og einangrun enda eru gjaldeyrishöft óhjákvæmilegur fylgifiskur krónunnar.

Var það ekki dæmigert þegar Seðlabankinn tilkynnti afnám gjaldeyrishafta nýlega með leið nýrra hafta?

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.9.2012 kl. 14:42

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Norskir útvegsmenn eru búnir að koma sér vel fyrir gagnvart ESB. Auðvitað munu þeir ekki mótþróalaust afsala sér neinum makrílkvóta fyrir litlu aumingjaþjóðirnar Ísland, Færeyjar og Grænland. Það myndi einfaldlega vera slæm hagsmunagæsla af þeirra hálfu.

Sennilega svíður þeim öllum sárast, bæði norskum, írskum og skoskum, að mega ekki sækja makrílinn "sinn" inn í landhelgi Íslands.

Kolbrún Hilmars, 4.9.2012 kl. 16:42

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Buðu þeim 14% samanlagt samkv. færeyska útvarpinu. Skipta jafnt. Ekki minnst á hvort Grænlendingar hafi átt að fá eitthvað af því. Færeyingar eru ekki 1/2 með kvótann. Veiðist ekkert.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.9.2012 kl. 19:13

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Enn eru knappliga 80.000 tons eftir av makrelkvotuni í ár. Góð 60.000 tons eru fiskað higartil, upplýsir Fiskiveiðueftirlitið. Lafayette hevur ikki enn fingið nakran makrel, men hitt móttøkuskipið, Kai Yu, hevur keypt 1100 tons frá Ennibergi og Ran, sum partrola."

http://www.kringvarp.fo/Archive_Articles/2012/09/04/skotar-vilja-seta-tiltok-i-verk-moti-foroyum-nu

Færeyingarnir eru bara með alþjóðleg verksmiðjuskip á svæðinu. En það vekur athygli að þeir eru ekki hálfnaðir með þann kvóta sem þeir tóku sér - og það er kominn september.

Hvað á Ísland mikið eftir af sínum sjálftökukvóta? Var ekki að koma nýtt fiskveiðiár.

Ennfremur munu þeir Grænlendingar eiga einhvern rétt þarna.

það sem íslendingar átta sig sumir ekki á er að Danmörk, Grænland og Færeyjar eru í ríkisfélagsskap. Afstaða færeyskra stjórnvalda gæti breyst snögglega og þá mundu þeir tæplega fara að hugsa um Ísland sérstaklega í því tilviki.

Maður tekur strax eftir því ef maður fylgist eð umfjöllun um þetta makrílmál í færeyjum - hve umfjöllunin er miklu hófstilltari er hérna uppi. Í Færeyjum er það alveg viðurkennt að stjórnvöldum beri að fara þetta mál en ekki hagsmunasamtökum og einhverjum þjóðrembingum útí bæ.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.9.2012 kl. 22:48

8 identicon

Mikið ógurlega hljóta sálir Ásmundar (og apabróðursins Ramó) að vera ljótar og skemmdar. Það skal öllu fórnað á altari ESB.

Sturlaðir einstaklingar. Gjörsamlega algjörlega fullkomlega sturlaðir einstaklingar.

Megi skömm þeirra verða ævarandi.

palli (IP-tala skráð) 5.9.2012 kl. 05:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband