ESB ferlið er ólýðræðislegt
2.9.2012 | 12:35
Í orðræðu ESB sinna kveður sífellt við sú krafa að ljúka eigi ESB viðræðunum og kjósa svo. Það sé hin lýðræðislega nálgun og það er sú afstaða sem forysta VG hefur tekið með þáttöku sinni í þessu áhugamáli Samfylkingarinnar.
Þegar ESB vegferð ríkisstjórnarinnar hófst var enn nokkur möguleiki á þessari leið og í ljósi þess hinkruðu margir ESB andstæðingar við með að krefjast viðræðuslita. Undanfarna hefur þeirri kröfu aftur á móti vaxið ásmegin, bæði meðal vinstri andstæðinga ESB sem og annarra að slíta beri viðræðunum tafarlaust eða efna þegar í stað til kosninga um málið.
Enn aðrir hafa bent á að það var Alþingi sem samþykkti að fara í viðræðurnar án aðkomu þjóðar og því hreinlegast að Alþingi afturkalli umsóknina.
En hversvegna hefur þessi aukna harka hlaupið í málið. ESB sinnar verða vitaskuld æfir við að heyra að ekki megi keyra ferlið til enda en geta í reynd sjálfum sér og sinni pólitísku forystu um kennt. Þvert ofan í loforð er nú ekki lengur neitt jafnræði með andstæðingum og stuðningsaðilum ESB. Þvert ofan í loforð og fyrirheit við umræðuna sumarið 2009 hefur ESB verið hleypt inn í landið með ótakmarkað áróðursfé. Opnaðar hafa verið sérstakar áróðursskrifstofur fyrir málstað ESB og utanríkisráðuneytið hefur beitt sér af vaxandi þunga í áróðursstríði fyrir málstað ESB sinna.
Í öllu alþjóðastarfi er það viðurkennt sem grundvallarregla að fullvalda þjóðríki séu sjálfráða þegar kemur að pólitískum ákvörðunum og að erlendir aðilar geti ekki og megi ekki beita sér í viðkvæmum innlendum deilumálum. Í ESB málinu gerist það aftur á móti að Evrópusambandið sendir hingað sérstaka áróðursmenn, loftar stjarnfræðilegum upphæðum til áróðurs og eys hér fé á báða bóga til gæluverkefna sem vitaskuld kaupa góðvild og fylgi.
Alkunna er að Íslendingar hafa mikið álit á eigin vitsmunum og þeirri skoðun heyrist nú hampað að þetta hafi engin áhrif. Slíkt er vitaskuld mikill barnaskapur. Sú vitþjóð hefur enn ekki fundist að ekki megi kaupa fylgi hennar við fé og raunar sáum við það glöggt í bankabólunni hér að peningamönnum var ekkert ómögulegt í því að kaupa sér þingmenn og fylgispekt almennings.
Allar vonir manna um að þjóðin fengi sjálf og lýðræðislega að ráða fram úr ESB málinu eru fyrir bí í þeirri atrennu sem nú á sér stað. Áður en efnt yrði til kosninga væri lágmarkskrafa að ESB lokaði öllum áróðursstofum sínum og innkallaði styrki sína til gæluverkefna. Sem stendur eru yfirburðir ESB andstæðinga með þjóðinni mjög miklir sem helgast að nokkru leyti af óvinsælli ríkisstjórn. Yrði kosið í dag er því hæpið að peningagjafir ESB einar dygðu. En hin "lýðræðislega" nálgun ESB og fylgismanna þess meðal þjóðarinnar er að bíða færis og efna til kosninga þegar betur árar.
Í ljósi alls þessa er mikilvægt að allt lýðræðissinnað fólk á Íslandi standi fast á kröfunni um að ferlinu ljúki á yfirstandandi kjörtímabili. /-b.
Athugasemdir
þetta eru alveg rök. Alveg vonlaus.
það að EU opnaði vefsíðu er ástæða þess að krefjast verði viðræðuslita?
Og hva? Á þá bara að loka netinu eða? Taka bara Norður-Kóreu á þetta eða?
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.9.2012 kl. 19:22
Er einhver keppni í gangi um hver getur komið fram með mestu öfugmælin?
Það eina sem er ólýðræðislegt við ESB-ferlið eru tilraunir til að slita viðræðunum og svíkja þannig samstarfsflokkinn, með því að fylgja ekki stjórnarsáttmálanum, og svíkja loforð við þjóðina um að hún fái að kjósa um aðild þegar samningur liggur fyrir.
Furðuleg þessi krafa um að ferlinu ljúki á kjörtímabilinu. Að halda því fram að lagt hafi verið upp með það og því megi það ekki ná yfir á næsta kjörtímabil er hrein rökleysa enda er það ekki á færi Íslendinga að stjórna því hvað ferlið tekur langan tíma.
Það er auðvitað hreinn skrípaleikur að tefja ferlið árum saman og krefjast þess svo að því ljúki á kjörtímabilinu. Þvílíkur aulaháttur.
Það er alveg ótækt ef Íslendingar þurfa að reiða sig á áróður hagsmunaaðila til gera upp hug sinn. Það er því nauðsynlegt að hafa aðgang að réttum upplýsingum frá fyrstu hendi sem hægt er að treysta á. ESB stundar hér engan áróður enda er það óheimilt.
Það er algjörlega fráleitt að starf Evrópustofu sé brot á grundvallarreglu í alþjóðastarfi enda hefur sami háttur verið hafður á hjá öðrum ESB-þjóðum. ESB-umsókn er milliríkjamál en ekki innanríkismál.
Það er einnig hefðbundið að ESB taki þátt í kostnaðinum við að ná samningi. Það er ekkert óeðlilegt við að samningsaðilar skipti á milli sín kostnaðinum. Það væri einnig óheppilegt ef einstakar þjóðir teldu sig ekki hafa efni á að sækja um aðild.
Svei mér ef Vinstrivaktin myndi ekki vinna öfugmælakeppni með glæsibrag.
Ásmundur (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 23:40
Alveg skýr pistill og skýr rök og takk fyrir hann. Í honum eru engin öfugmæli eins og kemur fram frá ´Ásmundi´. Svo er ekki skiljanlegt orð frá ofanverðum Ómari. Lýðræðið er að engu haft í þessu máli og jafnræðið ekkert milli andstæðinga og Brusselfara.
Elle_, 3.9.2012 kl. 00:33
Hey Ásmundur, geturðu ekki skrifað þessa dellu þína niður á blað og sent okkur í pósti? Þessi áróður þinn gæti þá mögulega komið að gagni í þessum raunveruleika, ef við skyldum óvænt verða uppiskroppa með skeinipappír. Þá væri hægt að grípa í þín skrif, og þá hefðir þessi áróður þinn öðlast einhvern tilgang!! Loksins!!
Það væri nú munur!
palli (IP-tala skráð) 3.9.2012 kl. 07:24
Já og fyrst verið er að tala um ESB og lýðræði, þá er góður tími til að hlusta á orð Vaclav Klaus sem heldur smá ræðu á þinginu í Brussel um grundvallarspurningar um lýðræði OG ÞAÐ ER PÚAÐ Á HANN OG FÓLK GENGUR ÚT ÚR SALNUM!!!
Þarf ekki að hafa fleiri orð um s.k. lýðræðisást ESB.
http://www.youtube.com/watch?v=ljAANHPkrAE
palli (IP-tala skráð) 3.9.2012 kl. 07:35
Mér finnst vert að endurtaka alvarleikann í ofanverðum pistli hvað peningana frá Brussel og ójafnræðið og ólýðræðið varðar (ekki nema von Brussel-sinnar brjálist og kalli pistilinn öfugmæli. Hann var of lýsandi, of öflugur):
>Þvert ofan í loforð er nú ekki lengur neitt jafnræði með andstæðingum og stuðningsaðilum ESB. Þvert ofan í loforð og fyrirheit við umræðuna sumarið 2009 hefur ESB verið hleypt inn í landið með ótakmarkað áróðursfé. Opnaðar hafa verið sérstakar áróðursskrifstofur fyrir málstað ESB og utanríkisráðuneytið hefur beitt sér af vaxandi þunga í áróðursstríði fyrir málstað ESB sinna.
Í öllu alþjóðastarfi er það viðurkennt sem grundvallarregla að fullvalda þjóðríki séu sjálfráða þegar kemur að pólitískum ákvörðunum og að erlendir aðilar geti ekki og megi ekki beita sér í viðkvæmum innlendum deilumálum. Í ESB málinu gerist það aftur á móti að Evrópusambandið sendir hingað sérstaka áróðursmenn, loftar stjarnfræðilegum upphæðum til áróðurs og eys hér fé á báða bóga til gæluverkefna sem vitaskuld kaupa góðvild og fylgi.<
Það var andstyggilegt og bjálfalegt að erlendu veldi hafi verið leyft af nokkrum stjórnmálamönnum að opna mútustofu í landinu. Í sjálfstæðu ríki.
Elle_, 3.9.2012 kl. 22:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.