ESB umsóknin er ekki hluti af stjórnarsáttmála
31.8.2012 | 11:48
Bragi Guðmundsson VG félagi á Akureyri birtir stutta og snarpa grein á Smugunni í kjölfar flokksráðsfundar VG. Þar hvetur hann til þess VG forðist þá einangrunarsinnuðu og þröngsýnu þjóðernisafstöðu sem Ögmundur Jónasson, Guðfríður Lilja, Ásmundur Einar, Atli Gíslason og Jón Bjarnason standa fyrir ásamt mörgum öðrum, gjarnan öfgaaðilum lengst til hægri. http://smugan.is/2012/08/fordumst-throngsyna-thjodernisafstodu/
Verður ekki af þessu lesið að hrifið hafi hin tvíræða áskorun varaformanns VG til félaga um að farið skuli í boltann en ekki manninn. Nema það hafi frá öndverðu átt að vera öfugmæli enda fór Katrín sjálf hvergi nærri boltanum í ræðu sinni, en því meira í almenna flokksfélaga.
En síðar í umræðunni segir Bragi meðal annars að ákvæði stjórnarsáttmálans séu alveg skýr. Það beri að ljúka viðræðunum og greiða síðan atkvæði. Þessu hefur allvíða verið haldið fram en er ekki rétt. Jón Bjarnason svarar Braga í sérstakri grein sem birt er á Smugunni í dag. http://smugan.is/2012/08/athugasemd-fra-joni-bjarnasyni/
Stefnuskrá VG er og hefur verið sú að sækjast ekki eftir aðild að ESB. Hins vegar ef svo færi gegn vilja VG að sótt yrði um, hefði þjóðin síðasta orðið um aðild. Þetta var þó ekki aðalmál síðustu alþingiskosninga heldur uppgjörið við hrunið og ný sókn fyrir íslenskt samfélag á forsendum og hugsjónum Vinstri grænna.
Eftir kosningar vorið 2009, þegar kom að myndun ríkissstjórnar VG og SF var okkur almennum þingmönnum í VG kynnt það sem afdráttarlausa kröfu Samfylkingarinnar að báðir flokkarnir stæðu saman að því að sækja um aðild að ESB. Mér fannst nokkrum þingmönnum í okkar flokki vera einnig mjög áfram um að það væri gert.
Um þetta mál var fullkominn ágreiningur í þingflokknum. Ég og fleiri töldum að stuðningur við umsókn að ESB bryti gegn grunnstefnu VG og kosningaloforðum. Þeirri umræðu innan þingflokks lauk með því að við, nokkrir þingmenn VG höfnuðum því að standa að slíkri umsókn um aðild að ESB og lögðu fram bókun þess efnis í þingflokknum.
Þar með var fullljóst að ekki var meirihluti fyrir myndun ríkisstjórnar VG og SF ef ESB málið ætti að ráða þar úrslitum.
Síðar fundu menn þá leið að setja í samstarfsyfirlýsinguna að utanríkisráðherra myndi leggja fram á Alþingi tillögu þessa efnis og réðist af meirihluta Alþingis hvernig tillögunni reiddi af. Orðrétt segir í samstarfsyfirlýsingunni:
Utanríkisráðherra mun leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi."
Hér var því ekki um ríkisstjórnarmál að ræða. Andstaða mín og fleiri við umsókn að ESB var í þessum ferli öllum kunn líka í ríkisstjórn þar sem ég bókaði andstöðu við ESB tillögu utanríkisráðherra. Þegar nú er sagt að ríkisstjórnarflokkarnir hafi samþykkt og sótt um aðild er það fullkomlega rangt. Það var meirihluti Alþingis sem samanstóð af þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Hreyfingunni ásamt öllum þingmönnum Samfylkingar og 8 þingmönnum frá VG.
5 þingmenn VG greiddu atkvæði gegn tillögunni.
Fimm þingmenn stjórnarandstöðunnar, úr Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Hreyfingunni greiddu tillögunni atkvæði og veittu henni þar með brautargengi. Ríkisstjórnarsamstarfið hvíldi því að mínu mati ekki á samþykkt þessarar tillögu enda lá fyrir við stjórnarmyndunina og fyrir atkvæðagreiðsluna á þingi að hún nyti ekki meirihluta stuðnings ef eingöngu kæmu til atkvæði ríkisstjórnarflokkanna.
Sannarlega var hart og óvægið gengið á þingmenn Vinstri grænna af formönnum ríkisstjórnar flokkanna um að styðja málið m.a. undir atkvæðagreiðslunni sjálfri og beitti þar formaður SF vinnubrögðum sem hafa áður verið umfjöllunarefni.
Í umræðunni síðan um ESB umsóknina hafa bæði þingmenn Samfylkingarinnar og þeir þingmenn og stuðningsmenn ESB aðildar sem eru innan VG haldið því fram að afturköllun umsóknarinnar væri brot á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og hótað því að slíkt jafngilti stjórnarslitum. Þar er veifað röngu tré.
Stjórnarslit vegna ESB málsins er sjálfstæð ákvörðun.
Samþykkt Alþingis veitti ríkisstjórninni skilyrt umboð til að sækja um aðild að ESB og ganga til samninga. Þar voru tilgreindir ákveðnir grundvallarhagsmunir Íslands og fyrirvarar sem settir voru fyrir framgangi umsóknarinnar.
Alþingi er sá aðilinn sem í raun getur afturkallað umsóknina. Ég hef lagt til að það verði gert. Það er mitt mat að þær forsendur sem lagðar voru fram við samþykkt tillögunnar á Alþingi á sínum tíma séu brostnar og því beri Alþingi að afturkalla umsóknina.
Umsóknin að ESB, aðildarferlið og sú aðlögun sem nú er hafin að ESB stríðir auk þess gegn grunnstefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Athugasemdir
"Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi."
Þetta er orðrétt úr stjórnarsáttmálanum. Þetta er afdráttarlaus yfirlýsing án nokkurra fyrirvara. VG er því bundið af þessu ákvæði eins og meirihluti þeirra gerir sér vel grein fyrir.
Að hunsa þetta ákvæði hlýtur að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir ríkisstjórnina, flokkinn og jafnvel þjóðina.
VG hefur ekki svikið neitt kosningaloforð enda eru þeir enn á móti aðild.
En jafnvel þó að þetta ákvæði málefnasamningsins væri ekki í samræmi við kosningaloforð VG væri það eðlilegt enda þurfa flokkar alltaf að miðla málum til að mynda samsteypustjórn.
Flokkar sem neita alfarið að gefa eftir í sinni stefnu geta aldrei myndað stjórn með öðrum flokkum. Þeir eru því dæmdir til áhrifaleysis og eiga því tæpast rétt á sér.
Jón Bjarnason og hinn hávaðasami minnihluti hans, sem samþykktu myndun stjórnarinnar, virðast vanta allan félagsþroska. Lýðræði og gildi meirihlutasamþykkta er fyrir þeim sem lokuð bók.
Ásmundur (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 17:45
Löngu þörf skýring frá Jóni Bjarnasyni. Nokkuð sem ég vissi ekki. Og kannski fæstir vissu, miðað við umræðurnar. Lýðræði er fyrir hávaðasama Brusselvinnumenn og Samfó-fólk eins og lokuð bók. Vitleysan verður að sjálfsögðu stoppuð á meðan þau öskra sig blá í framan.
Elle_, 31.8.2012 kl. 19:39
Þetta er góð skýring hjá Jóni. Fimm þingmenn VG greiddu atkvæði gegn "kíkja í pakkann" tillögu stjórnarinnar og þar með hefði hún fallið ef ekki hefði komið til þess að tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (ég man þau nöfn en vafasamt er um þingsetu viðkomandi til frambúðar) greiddu atkvæði með tillögunni og því stöndum við í þessu aðlögunnarferli nú. Jón bendir réttilega á að umboð ríkistjórnarinnar fyrir umsókninni voru skilyrt og fyrirvarar voru á um hagsmuni Íslands fyrir umsókninni. Er nokkur hér með "LINK" inn á þessa samþykkt Alþingis, ég nenni ekki að leita að henni?
Örn Johnson ´43, Sjálfstæðismaður. (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 20:20
Þetta er ekki alveg rétt, ef ég man rétt studdu allir þingmenn Samfylkingar, flestir þingmenn VG (-6), 3 þingmenn Framsóknar, 1 þingmaður Borgarahreyfingarinnar og 1 þingmaður Sjálfstæðisflokksins aðildarviðræður við ESB. 2 þingmenn, 1 frá Sjálfstæðisflokknum og 1 úr VG sátu hjá. Aðrir sögðu nei.
Skúli (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 22:18
Nota bene, ég var að svara Erni hér að ofan;)
Skúli (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 22:22
Að sjálfsögðu stendur stjórnarsáttmálinn fyrir sínu. Hann er afdráttarlaus að því er varðar að leiða skuli aðildarviðræður til lykta og að þjóðin eigi síðan að kjósa um samninginn. Engir fyrirvarar eru um þetta atriði.
Það var vitað fyrirfram að ekki myndu allir þingmenn VG styðja aðildarumsókn. VG skuldbatt sig hins vegar til þess að nægilega margir þingmenn flokksins myndu greiða atkvæði með umsókn til að hún yrði samþykkt á Alþingi.
Þó að allir flokksmenn séu ekki sammála stjórnarsáttmálanum verða þeir að virða hann. Annars væru stjórnarsáttmálar einskis virði og engin stjórn myndi lifa af nema mjög stutt. Hér væri þá algjört upplausnarástand enda ekkert traust á milli samstarfsflokka.
Það gengur ekki upp að þingmenn stjórnarflokks virði ekki stjórnarsáttmálann. Sólóspil Jóns Bjarnasonar gegn ríkisstjórninni, sem hann var ráðherra í, vakti furðu erlendra samningamanna. Þeir höfðu aldrei kynnst öðru eins.
Ásmundur (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 22:42
JÁ:
Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birkir Jón Jónsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þráinn Bertelsson, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson
NEI:
Atli Gíslason, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Eygló Harðardóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari, Þuríður Backman
Greiðir ekki atkvæði:
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir
Elle_, 31.8.2012 kl. 22:42
http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=41080
Elle_, 31.8.2012 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.