Evrukrísan gæti orðið Obama að falli

Efnahagsmál eru eðlilega ofarlega á baugi fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember. Þótt Obama hafi haft forystu í mörgum skoðanakönnunum trúa margir Repúblikanar og íhaldsmenn því að kjósendur muni fylkja sér yfir til Romneys á síðustu vikunum fyrir kosningarnar ef ekki tekst að efla atvinnulífið að marki og draga úr atvinnuleysi (sem er ríflega 8%). Reagan skaust einmitt fram úr Carter í forsetakosningunum árið 1980 vegna efnahagsmálanna, segja þeir.

Dagblöð í Bandaríkjunum fjalla talsvert um ástæður efnahagsvandans, en þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur Obama-stjórninni ekki alveg tekist að ná landinu upp úr kreppudalnum og draga að marki úr atvinnuleysi þótt störfum hafi fjölgað talsvert. Eins og við er að búast segja íhaldsmenn að ástæða erfiðleikanna sé einkum of miklir skattar og útgjaldaþensla ríkisins. Ýmsir hagfræðingar, þar á meðal Paul Krugman, segja þetta ekki rétt. Obama hefði átt að nota aðstæður á mörkuðum til að taka hagstæð lán þegar vextir eru svo lágir og auka útgjöld ríkisins til að efla heildareftirspurn í hagkerfinu og þar með atvinnu. Jafnframt segja þessir aðilar að bandaríski seðlabankinn sé of aðhaldssamur og sýni stundum óskýranlega hræðslu við verðbólgu (svipuð gagnrýni beinist reyndar stundum að evrópska seðlabankanum).

Um eitt virðast þó flestir Bandaríkjamenn sammála. Hin langvarandi kreppa í Evrópu á sinn þátt í að stuðla að áframhaldandi lægð í bandarísku efnahagslífi og þar með að tiltölulega miklu atvinnuleysi. Slíkt kætir vitaskuld ekki kjósendur og hinir óákveðnu gætu því hallað sér að Romney á kjördegi og tryggt honum sigur. 

Dagblaðið UT-San Diego, sem er eitt víðlesnasta blaðið í Kaliforníu, einu stærsta og fjölmennasta fylki Bandaríkjanna, fjallar ítarlega um áhrif evrukrísunnar á bandarísk fyrirtæki í útgáfu sinni mánudaginn 6. ágúst síðastliðinn. Þar er því lýst hvernig þverrandi eftirspurn almennings í Evrópu eftir ýmsum neysluvörum og fjárfestingarvörum sé einn helsti dragbíturinn á efnahagsbata í Bandaríkjunum, því evrukrísan hafi gert það að verkum að afkoma margra stórfyrirtækja hafi stórversnað (og störfum fækkað). 

Dagblaðið rekur þannig slælegan árangur stórfyrirtækja á borð við Whirlpool, Ford, General Motors, Apple og jafnvel Starbucks. Jafnvel þeir Evrópubúar sem eru í fastri vinnu og hafa tryggar og góðar tekjur eru hræddir og halda í við sig í innkaupum á rafmagnstækjum og bílum jafnt sem kaffibolla á veitingahúsi.  Blaðið greinir frá því að bílasalar Ford í Madríd hafi gripið til þess ráðs að lækka útsöluverð bifreiða um fjórðung. Það hefur þó ekkert aukið söluna, því ekki er nóg með að neytendur haldi fast um budduna því bankar séu líka mjög tregir til að lána til slíkra kaupa.

Sölumenn grípa jafnvel til skondinna úrræða, segir blaðið. Til dæmis rakst blaðamaður  á sölufyrirtæki sem hafði ráðið fólk til þess að mæta verslanir og látast vera að kaupa eitthvað til þess að einhver viðskipti virtust vera í gangi. Þetta dugar þó skammt á Spáni þar sem atvinnuleysið er sem næst 25%.

Efnahagslægðin í Evrópu er því ekki bara vandamál almennings í þeirri álfu, heldur hefur hún slæm áhrif á fyrirtæki úr öllum heimshornum sem þar starfa og selja. Þar með talin eru fjölmörg bandarísk fyrirtæki, en afkoma þeirra og þar með atvinnustig í Bandaríkjunum ræður jafnan talsverðu um afstöðu kjósenda til frambjóðenda í forsetakosningunum. Demókratar hafa skiljanlega af þessu miklar áhyggjur, því ef fer sem horfir gæti þetta átt sinn þátt í því að koma í veg fyrir endurkjör Obamas í haust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst ótrúlegt að kristnir muni kjósa mormóna yfir sig.. tel það afar ólíklegt

DoctorE (IP-tala skráð) 8.8.2012 kl. 11:59

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Doksi metur horfurnar; Já saxi læknir,það er ólíklegt,já ótrúlegt,að þau fatti að við látumst vera að lækna.

Helga Kristjánsdóttir, 9.8.2012 kl. 01:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband