Ný og ný innspýting megnar ekki að lækka sótthita evrusvæðisins
3.8.2012 | 12:04
Dauðastríð evrunnar heldur áfram þrátt fyrir sífelldar tilraunir æðstu manna ESB til að lækna kerfislægar meinsemdir gjaldmiðilsins. Staðan er lítið breytt þótt rætt sé um stjarnfræðilegar upphæðir sem stöðugt er ausið í björgunarsjóði evrunnar.
Nú seinast var samþykkt að útvega Spánverjum 100 milljarða evra í því skyni að koma spænskum bönkum á lygnari sjó. Þessa upphæð, samtals 15.000 milljarðar króna, þurfa evruríkin að útvega í formi ábyrgða og beinna framlaga úr vasa skattgreiðenda sinna. Engu að síður virðast markaðirnir ekki hafa trú á að þessar aðgerðir dugi til. Sama gildir um Grikkina. Í tvö ár hefur verið reynt að bjarga þeim, en ástandið í dag er margfalt verra en það var fyrir einu ári.
Við á Vinstrivaktinni höfum öðru hvoru gefið lesendum okkar grein fyrir því hvernig lánstraust verst settu evruríkjanna hefur breyst með vísan til sótthitamæla alþjóðlegra markaða, svonefnt skuldatryggingaálag, skammstafað: cds (credit-default swaps). Í septemberbyrjun á liðnu hausti þóttu það stórtíðindi að cds fyrir gríska ríkið færi upp í 2200 punktum, en yfirleitt er talið að ríki sé að nálgast bjargbrúnina ef cds er komið yfir 500. Grikkland var þó komið í um 16.000 punkta í byrjun júlímánaðar og var nú um mánaðamótin í 17.280 punktum.
Spánska ríkið stóð í 362 punktum fyrir níu mánuðum, þ.e. í septemberbyrjun 2011 en var komið í um 530 punkta nú í vikunni. Ítalía stóð í 365 punktum í septemberbyrjun en var nú í vikunni í kringum 485.
Markaðirnir lýstu reyndar vantrausti sínu á peningakerfi Írlands nokkru áður en ósköpin dundu yfir í Grikklandi. Írar hafa síðan fengið gífurlega lánafyrirgreiðslu úr björgunarsjóðum evrunnar á rúmum tveimur árum. Álagið á írska ríkið var þó enn 772 punktar í haust og hefur lítið eitt skánað síðan, stóð í 514 nú um mánaðamótin. Ástandið er talsvert verra í Portúgal og hefur lítið breyst um skeið, en það var nú um mánaðamótin um 822.
Skuldatryggingaálag á íslenska ríkið reis til hæða í aðdraganda hrunsins 2008. Það var komið í 444 punkta í apríl 2008, hálfu ári fyrir hrun og fór hæst í 1400 punkta mánuðina eftir hrunið. Nú um mánaðamótin stóð álagið í 272 punktum. - RA
Athugasemdir
Grikkland er sértilfelli á evrusvæðinu og í ESB.
Það eru verulegar líkur á Grikkir verði að gefa evruna upp á bátinn og jafnvel ganga úr ESB þvert gegn eigin vilja. Það mun hins vegar engu breyta fyrir evruna.
Önnur ríki í vanda eru með eða voru með, þegar verst lét, miklu lægra skuldatryggingarálag en Ísland hafði þegar það var hæst. Öll þessi ríki munu spjara sig enda mikils stuðnings að vænta frá ESB.
Hækkun á skuldatryggingarálagi einnar evruþjóðar hefur áhrif til lækkunar hjá öðrum. Það er því bara sanngjarnt að ESB-þjóðir ábyrgist lán á hagstæðum kjörum til landa í vanda. Slík lán eru eina leiðin til að koma í veg fyrir hrun þeirra sem er hagsmunamál allra ESB-þjóða.
Evrukreppan er liður í alþjóðlegri skuldakreppu sem hófst 2008 og er fjarri því að vera lokið. Hún er nú í hámarki á evrusvæðinu. Önnur lönd hafa getað velt vandanum á undan sér. Það kemur þó óhjákvæmilega að uppgjöri hjá þeim. Þá verður evrusvæðið löngu komið á lygnan sjó.
ESB og evra þurfa að upplifa kreppur til að eflast og styrkjast. Núverandi kreppa er óvenjudjúp. Að henni lokinni verða ESB og evra miklu öflugri en nokkru sinni fyrr.
Ásmundur (IP-tala skráð) 3.8.2012 kl. 15:49
Jón Ásmundur Frímann hefur sýnt og sannað að hann skrifar undir mörgum nöfnum.
Hvað segir það okkur um þennan einstakling?
Reyndar hefur hann ekkert á móti því að opinbera eigið auma líf:
http://www.jonfr.com/?p=6809
palli (IP-tala skráð) 3.8.2012 kl. 17:43
Ásmundur, er Evrukreppan ,,liður,, í alþjóðlegri skuldakreppu? Hélt hún væri afleiðing,annars hljómar þetta eins og það hafi verið fyrir fram ákveðið. Ég ætlaði nú ekki að snúa neitt út úr,en ef þú skyldir vita eitthvað,sem lak óvart úr penna þínum !!??? Því rétt eins og meðferðar úrræði er staðhæfing þín um,að Esb. og evra þurfi að upplifa kreppu-r til að eflast og styrkjast, gætu þeir sömu sem því halda fram,ákveðið í auð,æði að hrinda kreppu af stað.
Helga Kristjánsdóttir, 3.8.2012 kl. 17:51
Helga, evrukreppan er hluti af alþjóðlegri skuldakreppu. Mér finnst réttara að taka þannig til orða en að tala um afleiðingu heimskreppunnar. Heimskreppan liggur tímabundið í dvala í Ameríku og Asíu en hefur hins vegar brotist upp á yfirborðið í Evrópu.
Enginn tekur út mikinn þroska nema að hann gangi í gegnum mikla erfiðleika. Þetta á jafnt við um einstaklinga, þjóðir og ríkjabandalög. Enginn verður óbarinn biskup segir máltækið. Vandamálin verða að vera raunveruleg en ekki tilbúin. Það eru ekki vandamál.
Hitt er svo annað mál að erfiðleikar geta orðið svo miklir eða menn svo illa í stakk búnir til að takast á við þá að þeir valda varanlegu tjóni. Ég efast ekki um að þróuðustu þjóðir heims, þar sem lýðræði er mest og mannréttindi mest í hávegum höfð, ráði við vandann.
Ásmundur (IP-tala skráð) 3.8.2012 kl. 19:17
Það er ekkert hægt að dæla bara peningum í þessi kerfi. Vandamálið er innri kerfi landanna sem slíkra - kerfi sem er allt öðruvísi en kerfi Þýzkalands.
Ef þeir hefðu eitthvað vit myndu þeir fyrst skoða hvað það er sem td veldur 25% atvinnuleysi á Spáni. Það er ekki bara evran.
Laga það fyrst, fara svo að skoða hvort það þarf virkilega að dæla inn einhverjum peningum. (Peningum sem reyndar eru ekkert til.)
Gefum þeim 5 ár í viðbót.
Ásgrímur Hartmannsson, 3.8.2012 kl. 19:37
Ásmundur:
1. Það hefði auðveldlega verið hægt að bjarga Grikklandi frá glötun á sínum tíma, smápeningar í stóra samhenginu. Slík björgun hefði hins vegar sett fram hættulegt fordæmi varðandi aðrar, stærri og áhrifaríkari þjóðir. Ef menn viðurkenna að það hefði verið hægt, þá vaknar upp sú spurning af hverju það var ekki gert, og það strax.
2. Þegar menn viðurkenna að Grikkland er fallið, þá getur myndast enn hættulegra fordæmi en úr 1. að ofan, því aðrar evruþjóðir ásamt Troika tapa miklum fjárhæðum vegna þess. Ef slíkt gerist byrja aðrar þjóðir að hugsa slíkt hið sama, þ.e. af hverju ekki við ef Grikkir gerðu þetta. Sem leiðir svo af sér stórkostlegan fjármagnsflótta frá S-Evrópuríkjunum. Þess vegna eru þessar smáskammtalækningar til staðar, því svo lengi sem evrusvæðið lifir halda Þjóðverjar áfram sínu striki með sínum útflutningi sbr. við ef evrusvæðið myndi splundrast upp. Safna fjármunum fyrir erfiðari tíma.
Enn er ekki viðurkennt að það gæti mögulega verið betra fyrir Grikki að taka upp drökmuna aftur vegna tæpra 10 ára bóluvelferðar sem myndaðist hjá þeim við upptöku evru. Grikkir hefðu aldri, aldrei fengið 4-5 ára samdrátt ef þeir hefðu haft sinn eigin gjaldmiðil.
Eina framtíð evrusvæðisins liggur í gífurlegum pólitískum samruna sem virðist því miður ekki ganga upp fyrir evruþjóðir. En mikið er ég feginn að vera ekki inni í þessu myntbandalagi.
Bragi, 3.8.2012 kl. 22:03
Bragi, á sínum tíma var mikill fengur fyrir Grikki að fá evru. En vandi fylgir vegsemd hverri. Grikkir voru því miður ekki vandanum vaxnir.
Lækkun vaxta er auðvitað af hinu góða. En ef menn bregðast ekki við hættu á bólumyndun vegna lækkunar vaxta er voðinn vís.
Grikkir taka ekki upp drökmur nema tilneyddir. Ég sé það gerast þannig að ríkið kemst í greiðsluþrot og getur hvorki greitt laun, lífeyri né haldið úti grunnþjónustu.
Til að koma í veg fyrir algjört hrun prenta þeir eigin gjaldmiðil. En það þarf sífellt að prenta meira og meira með þeim afleiðingum að verðbólgan fer upp úr öllu valdi með skelfilegum afleiðingum.
Grikkir geta ekki gleymt erlendum skuldum þó að þeir taki upp eigin gjaldmiðil. Það þarf að semja um þær ef þeir eiga ekki að einangrast og missa viðskipti við útlönd.
Þannig verða afleiðingarnar af að gefa evruna upp á bátinn öðrum ESB-þjóðum víti til varnaðar en ekki til eftirbreytni.
Ásmundur (IP-tala skráð) 4.8.2012 kl. 08:52
Ásmundur:
Verðbólguleið þarf fyrir evruríkin, þ.e. hærri verðbólgu í Þýskalandi og betur sett lönd sbr. við S-Evrópuríki til að laga samkeppnisstöðu þeirra síðarnefndu. Pólitískur vilji er einfaldlega ekki fyrir hendi.
Auðvitað yrði verðbólgan mun hærri ef Grikkir tækju upp drökmuna og þær erlendu skuldir sem eftir væru (eftir hátt default á skuldum) myndu hækka.
Hér er athyglisverð staðreynd um GDP per capita PPP um Ísland og Grikkland. Tímabilið 2001 - 2011, Grikkir gengu þá í evruna og við tókum upp hið handónýta frjálsa verðbólgumarkmið.
Vöxtur í GDP per capita PPP 2001 - 2011 í Grikklandi: 6,8%
Vöxtur í GDP per capita PPP 2001 - 2011 á Íslandi: 9,8%
Grikkland var með lægri GDP per capita PPP en Ísland árið 2001 og hefði því átt að njóta "catch up effect", þ.e. auðveldara fyrir þá þjóð að vaxa í samanburði við okkur. Sér í lagi í myntbandalagi með sterkari þjóðum. Samt sem áður uxum við meira á þessu tímabili. Einnig erum við á uppleið núna meðan ekki sér fyrir endanum á niðurleið þeirra.
Geturðu útskýrt þetta þannig að það komi vel út fyrir evrusamstarfið?
Bragi, 4.8.2012 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.