Verða frændur vorir gerðir að blórabögglum?
20.7.2012 | 11:43
Sú harka og óbilgirni sem hlaupin er í makríldeiluna er slæm fyrir alla aðila, Noreg, Ísland, Færeyjar og ESB. En á sama tíma og Írar og Skotar hreyta úr sér ókvæðisorðum í garð grannanna í norðri er pukrast bakvið tjöldin í Brussel.
Fiskimenn á Bretlandseyjum eru eðlilega sársvekktir því þeir horfa til þess að fiskistofn sem þeir hafa reitt sig á er á förum. Hann hefur í stórum stíl flutt sig í kjölfar hlýnandi sjávar í norðurátt.
Við bætist að Skotar og Írar eru bundnir af ESB regluverki um hlutfallslegan stöðugleika. Þeir telja sig eiga rétt til að fiska ákveðnar tegundir sem þeir hafa alltaf veitt og það getur átt við í samskiptum milli aðildarlanda ESB. En þar gildir líka að brotthvarf einnar tegundar úr lögsögu þeirra færir þeim ekki rétt til að veiða þær tegundir sem væntanlega koma í staðin. Sá réttur getur verið Spánverja eða Frakka, allt eftir því hverjar hefðirnar eru. Hefðir sem ekki taka tillit til þess að lífríki sjávar er síbreytilegt.
Í þriðja lagi eru þessar þjóðir svarlausar. Þær geta látið í sér heyra í fjölmiðlum og það gagnlegasta sem þær geta gert er líklega að úthúða Íslendingum og Færeyingum.
Hvorki þjóðþing, utanríkisþjónusta né ráðherrar þessara landa eiga beina aðkomu að makríldeilunni sem snýst samt um mikla hagsmuni sjávarbyggðanna í þessum löndum. Hér er allt vald í hendi ESB. Og hinir keltnesku frændur okkar vita að hagsmunir strjálbýlis Bretlandseyja vegur lítið í höllum Brussel. Þar getur skipt meira máli að makka bakvið tjöldin við íslenska vini.
Nú bregður einnig undarlega við í þessari deilu allri. Færeyingar mótmæla með formlegum hætti hótunum ESB en hvað gera Íslendingar. Ekki neitt nema hvað ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins reyna í lengstu lög að þræta fyrir að refsiaðgerðir séu á borðinu eða að makríldeilan tefji svokallaðar aðildarviðræður. Sjálf Damanaki sjávarútvegsstjóri játar samt allt fúslega og það liggur milli línanna að hún muni launa stimamjúkum Íslendingum og fyrirhuguðum þegnum sínum með nokkrum makrílprósentum.
Það að stórríki komist upp með að vera með hótanir er eitt og sér tilefni til formlegra mótmæla. Það er vitaskuld fáheyrt í samskiptum þjóða að hótunum um refsiaðgerðir sé ekki mótmælt. Fram til þessa hafa Íslendingar og Færingar staðið saman í að verja rétt sinn og hagsmuni í þessu máli. Það er því ódrengilegt ef að ESB sinnuð ríkisstjórn Íslands ætlar að skilja frændur vora Færeyinga eina eftir eftir í bardaganum.
Fyrrum áttu engir betri frændsemi við Færeyinga en einmitt Langnesingar.
Hafa oft landað makríl á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hverjir voru það aðrir en Færeyingar sem fyrstir réttu íslendingum hjálparhönd eftir hrunið?
Núverandi stjórnvöld eru einfaldlega að auglýsa íslensku þjóðina sem þá ómerkilegustu sem um getur.
Nýjasta dæmið er löndunarbann grænlenska togarans Eriku.
Á sama tíma hlær þetta stjórnarlið við bírókrötum Brussel.
Kolbrún Hilmars, 20.7.2012 kl. 17:30
Hver er það sem bindur alræðisherran Steingrím nema brussel. Hann er með öll tögl í hendi til að neta og taka undir með færeyingunum og hefði alveg geta leift sér að sýna Grænlendingum sem eru á tilraunaveiðum meiri lipurð. Hann er undir pressu frá Brussel það er á hreinu.
Valdimar Samúelsson, 20.7.2012 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.