Annar gjaldmiðill eykur líkur á greiðslufalli Íslands

Ríkissjóður gæti átt mjög erfitt með að endurfjármagna sig eftir upptöku erlends gjaldmiðils. Þá myndu bankar líklega lenda í lausafjárvanda nema að sett yrðu enn víðtækari gjaldeyrishöft en þau sem nú eru til staðar til að koma í veg fyrir útflæði nýja gjaldmiðilsins til annarra landa.

 

Þótt krónan hafi ekki reynst vel þýðir það ekki að upptaka erlends gjaldmiðils muni reynast betur. Hyggilegra er að halda í krónuna sem þjóðargjaldmiðil og koma á aga í stjórn efnahags- og peningamála. Takist það mun krónan verða stöðugri en hún hefur reynst fram til þessa og hún verða öryggisventill þegar skyndileg áföll dynja yfir.

 

Þetta er mat Erlends Magnússonar framkvæmdastjóra sem hann viðrar í grein sinni um kosti Íslands í gjaldmiðilsmálum í sumarhefti Þjóðmála. Erlendur fjallar um ýmsa þætti sem snúa að krónunni og þeim mýtum, sem hann kallar svo, og haldið hefur verið á lofti í umræðunni um upptöku annars gjaldmiðils. Hann telur líkurnar á greiðslufalli ríkisins aukast allverulega með upptöku annars gjaldmiðils þar sem ríkissjóður gæti átt mjög erfitt með að endurfjármagna sig eftir upptöku erlends gjaldmiðils, eins og fram kemur hér að ofan.

 

Stjórnvöld brugðust þegar krónan styrktist

 

Í greininni bendir Erlendur á að í gegnum tíðina hafi tvær meginástæður verið fyrir gengissveiflum krónunnar og hlutfallslega hárri verðbólgu hér umfram það sem er í öðrum löndum. Þar á meðal er mikil útgjaldaaukning, óábyrg skuldsetning sveitarfélaga, of ör útlánavöxtur banka og útlánsstofnana innanlands og óábyrgir kjarasamningar.

 

Hann bendir m.a. á að krónan hafi styrkst óheppilega mikið vegna útgáfu svokallaðra jöklabréf á árunum fyrir hrun samhliða miklum erlendum lántökum bankakerfisins. Erlendir segir í greininni peningayfirvöld ekki hafa gripið til mótvægisaðgerða gegn jöklabréfunum á sínum tíma.

 

„Þvert á móti virtust þau fyrst um sinn ánægð með þá yfirborðskenndu lækkun verðlags sem ofstyrking krónunnar leiddi af sér tímabundið meðan peningamagn í umferð jókst hratt innanlands, en það máttu menn vita að myndi fyrr eða síðar leiða til verðbólgu,“ skrifar Erlendur og bætir við að hin hliðin hafi falist í innflæði lánsfjár sem skilaði sér í viðskiptahalla. Frjálsir fjármagnsflutningar séu ekki rót vandans heldur krefjist þeir meiri aga í efnahagsmálum.

 

Erlendur segir á móti, að taki Íslendingar upp erlendan gjaldmiðil auk þess að temja sér agaðri vinnubrögð, þá verði erfiðara en ella að bregðast við ytri áföllum. Til viðbótar við það bætist nýr óstöðugleika þáttur þegar gengi þess gjaldmiðils sem tekinn er upp hækkar eða lækkar verulega á móti gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda. Hann segir einu leiðina til að bregðast við slíku með annan gjaldmiðil en krónuna felast í því sem hann nefnir innri gengisfellingu: lækkun launa, lífeyrisgreiðslna og bóta. Jafnfram muni atvinnuleysi stóraukast og fasteignaverð lækka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Fíklar (stjórnmálamenn) í afneitun telja að öll mál munu leysast þegar skipt verður um dóp (gjaldmiðil).

Eggert Sigurbergsson, 16.7.2012 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband