ESB heppnaðist að láta leiðrétta kosningaúrslitin frá því í maí

Í ESB hefur lengi tíðkast að aðildarríki eru þvinguð til að endurtaka kosningar ef úrslit þykja óheppileg fyrir ESB. Danir, Írar og Frakkar hafa þurft að endurtaka þjóðaratkvæði. Nú um helgina voru Grikkir látnir leiðrétta úrslit þingkosninga sem fram fóru í maí og voru ekki þóknanleg ESB.

 

Mario Monti fékk ekki forsætisráðherrastólinn á Ítalíu með tilstyrk ítalskra kjósenda og enn síður forsætisráðherrann í Grikklandi, Lucas Papademos. Báðir gegndu háum embættum hjá ESB þegar þeir voru skikkaðir til forystu í þessum ríkjum, en báðir eru þeir dæmigerðir uppeldissynir ESB - forystunnar sem þrýsti ákaft á það leynt og ljóst að Brusselþjálfaðir menn tækju við leiðtogastörfum á Ítalíu og í Grikklandi, þegar evran tók að kollsigla efnahag landanna. Eftir að hafa gert mjög umdeildan samning við ESB í vetur þess efnis að enn skyldi hert á niðurskurði opinberrar þjónustu í Grikklandi og enn þyngri skuldabaggar lagðir á herðar grískra skattgreiðenda lét Papademos rjúfa þing og efna til nýrra þingkosninga nú í maí. En kosningaúrslitin dugðu ekki til að þröngva skuldasamningnum upp á Grikki. Og þá var gripið til gamla góða úrræðisins að láta bara kjósa aftur.

 

Nýafstaðin kosningabarátta í Grikklandi einkenndist af stöðugum og ódulbúnum hótunum forystumanna ESB  sem jafnvel hikuðu ekki við að fyrirskipa grískum kjósendum hvaða flokka þeir ættu að kjósa ef þeir vildu ekki lenda í skammarkróknum. Meðal þeirra sem hæst létu var Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sem ávarpaði gríska kjósendur sérstaklega fáum dögum fyrir kosningar. Þýska blaðið Bild lagði forsíðu sína undir ódulbúnar hótanir í garð grískra kjósenda og jafnvel formaður bankastjórnar Seðlabanka ESB lét ekki sitt eftir liggja.

 

Engu að síður varð sá flokkur sem harðast barðist gegn samningi grísku ríkisstjórnarinnar við ESB, vinstriflokkurinn Syriza, ótvíræður sigurvegari kosninganna, þótt hann vantaði um 2 % til að verða stærsti flokkurinn og ná þar með forystunni. Flokkurinn fékk rúm 27 % atkvæðanna en var aðeins með 4,6 % í kosningunum 2009 og um 17% í kosningunum nú í maí.

 

Pasok, hinn gamli sósíaldemókratíski valdaflokkur, sem oftast hefur stjórnað landinu seinustu áratugina fékk 44 % atkvæða í kosningunum 2009 en hrundi nú í bókstaflegum skilningi og fékk aðeins  rúm 12 %. Hægri flokkurinn  Nýtt lýðræði var hins vegar með um 33,5 % í kosningunum 2009  en fékk nú tæp 30 %  sem tryggði honum stjórnarforystu.

 

Kosningarnar snerust alls ekki um það hvort Grikkir ættu að yfirgefa evruna eins og sumir vilja vera láta. Það er afar flókið og torsótt fyrir þjóð sem tekið hefur upp evru að stíga skrefið til baka og komast aftur út af evrusvæðinu. Það myndi kosta mikla ringulreið í byrjun og valda gríðarlegum truflunum í gangverki hagkerfisins. Hitt er annað mál að þegar gríska þjóðin væri komin yfir erfiðasta hjallann yrði það henni vafalaust til góðs að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil, á sama hátt og íslenska krónan, þótt veik sé, hefur orðið okkur Íslendingum að miklu liði við endurreisnina eftir hrun.

 

Lærdómurinn fyrir okkur Íslendinga af því sem gerst hefur í Grikklandi og í mörgum ríkjum evrusvæðisins er einmitt sá að við upptöku evru vörpum við frá okkur þeim eiginleikum sjálfstæðs gjaldmiðils að endurspegla þarfir hagkerfisins. Eigin gjaldmiðill er hátt metinn þegar vel gengur en gengið fellur þegar hagkerfið verður fyrir áföllum. Hitt er aftur á móti tilviljanakennt hvort erlendur gjaldmiðill sem stjórnast af aðstæðum í fjarlægum ríkjum vinnur með hagkerfinu eða á móti því. Það er sannarlega dæmigert og upplýsandi hvað þjóðirnar á ystu jöðrum ESB hafa farið illa út úr því að sitja uppi með gjaldmiðil sem kjarnaríkin í Miðevrópu stjórna alfarið, sbr. vandræði Íra, Portúgala, Spánverja, Ítala og Grikkja. - RA


mbl.is Staðan versnar á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ESB hafði engin afskipti af tilraunum til myndunar ríkisstjórnar í Grikklandi eftir kosningarnar í maí sl. Það varð að endurtaka kosningarnar vegna þess að ekki tókst að mynda ríkisstjórn.

Ásmundur (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 14:33

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já, þeir eru vondir þessir útlendingar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.6.2012 kl. 15:19

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þessir evrópsku útlendingar hafa löngum verið vondir - ekki síst hver við annan.

Að auki voru þeir líka vondir við frumbyggja í öðrum heimsálfum samkvæmt nýlendustefnunni.

Hefur nokkuð breyst?

Kolbrún Hilmars, 18.6.2012 kl. 15:48

4 Smámynd: Skeggi Skaftason

Nú gengur raunar allt miklu betur á Ítalíu eftir að Mario Monti tók við af fólinu Berlusconi.

Skeggi Skaftason, 18.6.2012 kl. 19:12

5 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Það er örugglega rosalega erfitt að vera með svona miklar ranghugmyndir um heiminn.

Eru höfundar þessar vefsíðu búnir að tala við stórfót nýlega ?

Kveðja úr Evrópusambandsríkinu Danmörk.

Jón Frímann Jónsson, 18.6.2012 kl. 21:22

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Og ég sem hélt að stórfótur hefði flust aftur til ESB, eftir að hafa gefist þar upp í fyrsta skiptið. Eða var það flækjufótur bróðir hans?

Stórfótur eða flækjufótur ganga nú lausir í Danmörku og málefnalegir eru þeir ekki þegar þeir álpast eins og fífl inn á blogg manna á fjarlægum en sjáfstæðum skerjum, með hallelúja frá háborg ímyndunarveikinnar í ESB, Danaveldi.

Kveðja úr Evrópuhelvítinu Danmörku, segir sá sem alið hefur manninn lengur í ESB en uppgjafarESBingurinn Jón Frímann, sem ætti frelar að halda sig við jarðskjálftavakt.

Ég kem og vinka í Kastrup, þegar Jón Frímann hrökklast aftur heim slippur og snauður úr gósenlandinu í Útópíu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 19.6.2012 kl. 08:27

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Huldu-Ásmundur, sem er hættur að þykjast vera Harðarson, en er þó örugglega sonur mömmu sinnar, lætur hér sem Evrópusambandið sé hreint og hvítþvegið af öllum afskiptum af grískum stjórnmálum eftir fyrri kosningarnar á þessu ári. Samt linnti ekki hótunum Brussel-manna og Þjóðverja gagnvart Grikkjum vegna yfirvofandi ófara evrusvæðisins, ef kjósendur þar kysu ekki rétt.

Yfir þetta er farið í leiðara Mbl. í dag, þar sem segir m.a.:

"Kosningarnar í landinu nú fóru fram undir þrýstingi utan frá sem er næsta einstakur í sögunni. En byrjað var heima fyrir. Grískir kjósendur gengu í gegnum hræðsluáróður á heimaslóð sem var jafnvel enn þá ofstækisfyllri en sá sem ríkisstjórnin og Ríkisútvarpið, kunnustu eineggja tvíburar á Íslandi, beittu sér fyrir í aðdraganda kosninga um Icesave á Íslandi. Menn eiga því auðvelt með að ímynda sér hvað hefur gengið á. En það voru þó smámunir hjá þeim hótunum sem komu erlendis frá.

Kanslari Þýskalands sagði Grikki ekki fá neinn afslátt á þeirri meðferð sem ESB og AGS settu þá í þegar þeir neyddust til að biðja þau apparöt um aðstoð. Litlu leiðtogar álfunnar reyndu að hóta líka þótt af minni efnum væri. Þar sem Grikkir eru smáþjóð (ekki nema 25 sinnum fjölmennari en íslenska þjóðin) höfðu þeir verið beittir sérstöku harðræði "við efnahagsaðstoð" og sýnt yfirlæti sem Brussel leyfði sér hins vegar ekki við Spán, þegar vandræðin knúðu dyra þar. Og í aðdraganda seinni þingkosninganna var Grikkjum ekki aðeins sagt að sérhver hraðbanki þeirra yrði tæmdur á kosninganótt og sérhverjum grískum banka yrði svo lokað í kjölfarið kysu þeir ekki rétt. Þeim var bent á að þá myndu þeir prívat og persónulega bera ábyrgð á hruni evrunnar og "Evrópu" og heimskreppunni sem myndi fylgja!

Strax morguninn eftir kosningar tilkynntu tveir helstu pótintátar Brusselvaldsins, sem staddir eru í Mexíkó, að nú bæri að mynda ríkisstjórn í Aþenu án tafar og jafnframt tilkynntu þeir hverjir ættu að skipa ríkisstjórnina. Það er ekki einu sinni haft fyrir því lengur að vera með látalæti um að Grikkir sjálfir hafi eitthvað með málið að gera."

Tilvitnun í hluta leiðara Mbl. (http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/bl_grein.html?grein_id=1426288) lýkur.

Jón Valur Jensson, 19.6.2012 kl. 11:23

8 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

@Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. Afhverju drífur þú þig ekki til Íslands ef þér líður svona illa í Danmörku og innan Evrópusambandsins. Afsökun þín um að einhver sé á eftir skónum þínum á Íslandi halda ekki. Þú hefur einnig fullt af öðrum ríkjum sem ekki eru í Evrópusambandinu að velja úr, þar af tvö önnur í Evrópu. Auk Færeyja og Grænlands.

Hvað mig varðar þá eru flutningar til Íslands ekki á dagskránni næstu áratugina. Fátæktinni ætla ég að útrýma hjá sjálfum mér með tíma og vinnu.

Síðan mæli ég með því að Jón Valur slaki á í kaffidrykkjunni. Svona mikið samsæri er ekki heilbrigt fyrir fólk.

Jón Frímann Jónsson, 19.6.2012 kl. 12:25

9 identicon

Jóni Vali finnst sjálfsagt að menn virði ekki gerða samninga og kallar það hótun að benda á hvaða skilyrðum samningurinn er háður. Orð skulu standa er greinilega ekki til í orðtakasafni Jóns Vals.

Ekki eykur það trúverðugleika Jóns Vals að vitna í einn alræmdasta ritsóða landsins. Honum er haldið uppi af LÍÚ sem um leið neitar að greiða þjóðinni sanngjarnan arð af auðlindinni.

Er það kannski til að geta haldið áfram svona spillingu að Jón Valur vill ekki að Ísland gangi í ESB?

Ásmundur (IP-tala skráð) 19.6.2012 kl. 15:26

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég drekk einmitt sáralítið kaffi, kjánalegi nafni minn. Te er betra!

Ásmundur skyndilega föðurlausi, ef marka má hann sjálfan, notar sitt samasem-nafnleysi hér til grófra persónuárása á leiðarahöfund Morgunblaðsins, hvor aðalritstjíranna eða hver hinna þriggja ritstjóra sem kann að hafa skrifað þennan frábæra leiðara, einn af ótal mörgum frábærum þar.

Vitaskuld hatast jafn-forfallinn Esb-pjakkur og þessi Ásmundur (ef hann þá heitir það) við ritsnilldina í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins, sem oft í viku hverri fjalla þessa mánuðina um Evrópusambandið og hafa rústað mörgum málflutningnum hjá Össurargenginu og Brusselbullukollum að auki, þótt þær séu raunar sjálfum sér verstar á sviði fjölmiðla (en afar vel haldnar perningalega).

Að lesa leiðara Mbl. er "algjört möst" fyrir sanna Íslendinga.

Jón Valur Jensson, 19.6.2012 kl. 19:51

11 identicon

Fyndið að Jón Valur skuli kalla gagnrýni á leiðarhöfund Morgunblaðsins persónurárás en miklu grófari persónuárásir hans ritsnilld.

Mogginn er ómerkilegur snepill sem nánast enginn læsi ef ekki væri fyrir minningargreinarnar. Og allra síst lesa menn leiðarana enda "snilldin" undir velsæmismörkum og aðeins að smekk heilaþveginna.

Mogginn er rekinn fyrir ránsfeng LÍÚ sem notar hluta þess fjár, sem eiganda auðlindarinnar réttilega ber, til að greiða niður sívaxandi taprekstur.

Eitthvað gæti þó áskrifendum hafa fjölgað upp á síðkastið eftir að Mogganum datt í hug að múta háskólastúdentum með Ipad gegn því að þeir gerðust áskrifendur.

Ásmundur (IP-tala skráð) 19.6.2012 kl. 23:24

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vitaskuld studdi Huldu-Ásmundur málflutning sinn ekki rökum: talar um "grófari persónuárásir" leiðarahöfundarins án þess að nefna neitt dæmi! Svo er sami "Ásmunur" búinn að gera sig hér að ómerkingi með orðum sínum leiðara Mbl., sem eru það bezta, almennt talað, sem sést hér í blaðamennsku, bezta að röklegu gildi og efnislega vel grundaðri og uppbyggðri málefnafylgju. Það væri auðvelt að sanna þessar fullyrðingar mínar með dæmum, ef ég mætti taka heilu leiðarana og birta hér, en það er víst ekki heimilt. Í staðinn hvet ég alla til að lesa lungann í Mogganum hvern dag, la creme de la creme, þ.e. leiðarana.

Svo níðir þessi Ásmundur fyrirtæki Moggans án þess eflaust að vita hætishót um það. Vinstri villingarnir emjuðu yfir því, að Árvakur fekk niðurfelldar skuldir, en það voru ekki núverandi eigendur heldur aðrir. Sú niðurfelling í eitt skipti fyrir öll var svo bara partur af því, sem ríkisstjórnin lætur Rúvið hirða af okkur á hverju einasta ári

Síðasta setning "Á" sýnir, að hann hefur engan skilning á eðlilegri verkan viðskiptalífsins, alla vega ekki í þessu tilviki!

Og enginn sparkar í hundshræ. "Á" er svona illa við Mbl. vegna yfirburða þess á blaðamarkaði. "Á" greyið er Esb-snattari eða Esb-snati og geltir á þá sem láta sig hvergi fyrir yfirgangssömum húsbændum hans.

Jón Valur Jensson, 20.6.2012 kl. 01:20

13 identicon

Jón Valur, þú þarft ekki að birta heilu leiðarana. Það nægir að birta kafla úr þeim. Það er heimilt ef þú gerir það það orðrétt, innan gæsalappa og tilgreinir upprunann.

En vitaskuld er þetta fyrirsláttur hjá þér. Þú veist að það efni sem þið haldið vart vatni yfir þolir enga skoðun. Hér er eitt nýjasta dæmið sem ku þykja mikil snilld í ykkar herbúðum en stenst engin siðferðisleg gildi enda þar höfðað til lægstu hvata lesenda.

"Jóhanna býr svo vel að hafa landsfræga ræðuskrifara við höndina sem gæta þess að hún segi ekkert sem kemur þessu máli við og selja firðina iðulega dýrara en þeir kaupa þá. (Nú er 17. júní framundan, piltar. Láta nú einhvern eldri en tvævetur lesa textann yfir áður en þulan fær hann)."

Ég segi eins og Illugi Jökulsson; ef ein klaufavilla fyrir nokkrum misserum er það helsta sem hægt er að finna á Jóhönnu hlýtur hún að vera í góðum málum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 08:39

14 identicon

Jón Valur nefnir á söluna á Morgunblaðinu og afskriftir henni tengdar án þess að ég hafi komið inn á þau mál.

Það er rangt að fyrri eigendur hafi fengið skuldir afskrifaðar. Fyrirtækið varð gjaldþrota og tók bankinn reksturinn yfir. Við söluna til núverandi eigenda (á mikli lægra verði en búist var við) þurfti að afskrifa á fimmta milljarð.

Margt var grunsamlegt við þessa sölu. Miklu hærra tilboð barst en það var með fyrirvara sem aldrei hefur verið birtur. Tilboðið var frá tveim útlendingum. Annar þeirra sagði í blaðaviðtali að það hafi ekki falið í sér neinar afskriftir. Hann taldi prentsmiðjuna réttlæta þetta háa verð.

Stærsti hluthafinn í nýja eigendahópnum, Guðbjörg Matthíasdóttir, seldi hlutabréfin sín í Glitni upp á milljarða sama dag og Davíð Oddsson ríkisvæddi Glitni með  hruni í kjölfarið. Ráðgjafi hennar var einkavinur Davíðs Oddssonar. Sonur Guðbjargar sá um söluna fyrir Glitni.

Slitastjórn Glitnis, sem vakið hefur athygli fyrir vafasöm vinnubrögð, tengist innsta hring Davíðs Oddssonar. Þegar hún sótti marga einstakinga til saka í New York vegna rekstrar Glitnis var stjórnarformaðurinn sjálfur, Þorsteinn Már Baldvinsson, þar undanskilinn. Hann er einn stærsti eigandi Morgunblaðsins. 

Þetta mál ætti auðvitað að sæta rannsókn óvilhallara aðila. Þetta lið vill ekki ganga í ESB ævntanlega vegna þess að það óttast réttilega að það komist ekki upp með ýmis konar spillingu  þar.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband