Af uppþembdum þjóðarrembingi & ættjarðarást
17.6.2012 | 15:04
Á Selfossi flutti Bjarni Harðarson bóksali hátíðarræðu dagsins og sagði m.a.:
Það er dagur samstöðu og skáldskapar, þjóðarstolts og það er afmælisdagur þjóðríkis. Þjóðríkis sem er eitt það minnsta í heimi hér.
Við nefnum skáldskap, það er við hæfi að gefa honum nokkurn sjans á þessum drottins degi. Þjóðskáldið Megas orti í stemningu dagsins:
Uppþembdur þjóðarrembingi
rigningarsudda og roki
ösla ég spýjupyttina
Það rignir hálfétnum pulsum,
pappírsfánaræflum,
prinspólóumbúðum
á stjórnarskrána spansgræna.
Við þessi litla þjóð stendur í hvirfilbylnum miðjum, á hún að rækta með sér uppþemda þjóðrembuna sem skáldið talar um eða á hún máske að gefa sig undir hið yfirþjóðlega, imperalíska á vondu máli og ganga erlendu valdi á hönd, verða hluti af evrópskri hugsjón um stórríki hinnar vestrænu menningar.
Því er fljótsvarað, þetta er eins og með sjéríósið. Það er bæði verra. Við eigum ekki að rækta þjóðrembuna og heldur ekki að kasta frá okkur þjóðríkinu. Síst eigum við að gefa land barna okkar andlitslausu embættisbákni suður í heimi.
Á degi sem þessum er það sem við eigum að rækta með okkur og veitir síst af, það er lítillætið. Minnast þess að við erum smá og aðeins sterk þegar við við höfum hugfast að drýgstur er styrkur stráa. Þjóðríkið er ekki íslensk uppfinning heldur samevrópsk og hefur þaðan breiðst út um allan heim. Þjóðríkið var fyrr meir óþekkt í austurálfu Kínakeisara eða kalífa og sultana í Austurlöndum nær sem höfðu líkt og tjallar þann vonda sannleik fyrir guð að ríkið skyldi ná jafn langt og sverðsoddi þeirra var við komið.
Með þjóðríkinu sem ryður sér til rúms á allra síðustu öldum varð Evrópa sterkasta álfa heimsins og ávextir þeirrar hugsunar að hver þjóð ætti sinn rétt, ávextir hennar var flest það fegursta og besta í hugsjónum og manngildi okkar tíma.
Andstæða þessara hugsjóna er þjóðremban, frekjan, yfirgangur gagnvart öðrum þjóðum og sú stefna að leggja undir sig lönd og álfur jafnt frændþjóða og andfætlinga. Andstæða þessara hugsjóna er að við gerum okkur breið og teljum okkar þjóð betri öðrum þjóðum, okkar húðlit betri sem við samt viljum sífellt lita með sólarljósi, okkar menningu merkilegri annarri menningu. Andstæða þjóðríkisins er heimsvaldastefnan sem nú hefur svo gott sem lagt að fótum sér góð og gegn þjóðríki við Miðjarðarhafið.
Það er skammt á milli oflætis og vanmetakenndar. Engin veit það betur en íslenska þjóðin. Þessvegna sjáum við svo oft í okkar fáfengilegu þjóðfélagsumræðu sveiflurnar frá því að við getum stjórnað heiminum öllum og svo hins að við eigum helst að láta erlendum sérfræðingum eftir öll okkar ráð. Oflátungurinn í okkur er okkar versti óvinur.
Aðeins hinn lítilláti sem hafnar oflætinu og rembunni kannast við styrk sinn, styrk strásins. Veit að þrátt fyrir alla okkar vöntun er ekki á öðru völ og engin lausn stráinu að þykjast eikartré. Vinur minn Ólafur heitinn á Hrauni í Ölfusi hafði eitt sinn á orði að Ölfusingar væru nú ekki taldir miklir andans menn en hefðu verið drjúgir að bjarga sér. Kannski er þetta það mikilvægasta og víst var það ekki annað en lítillæti að hann taldi sína sveit andlausa. Enda sjaldnast hægt að sækja andlegu spektina til þeirra sem telja sig hafa hana.
Ölfusingar eru hér aðeins partur fyrir heild. Þjóðin hefur þrátt fyrir öll sín axarsköft og smæð verið flestum drýgri í að bjarga sér. Við tókum við þessari ráðsmennsku eyjunnar köldu og afskekktu af Dönum. Þá var lýðurinn hér sá fátækasti í Evrópu, skólaus og þekkti ekki hjólið. Síðan hefur ræst furðanlega úr og væri flest gott ef ekki væru rassaköstin og þjóðremban.
Það er lítillát og fögur ættjarðarást sem skilar okkur fram á veginn, hefur lyft grettistaki og gert það vegna þess að hér hefur búið fólk sem í hvunndeginum var og er til í að tileinka sér það besta frá öðrum þjóðum, læra af þeim og eiga við þær uppbyggjandi samskipti. Í allri tilfinningaflóru mannskepnunnar getur ekki um meiri andstæðu við þessa ást á landinu en þjóðrembuna. Þjóðremban er yfirgangssöm og ofbeldisfull vond frænka sem heimsækir okkur eins og fyllerí og í hvert sinn erum við lengi að koma öllu í samt lag. Bræður hennar standa fyrir utan og selja glansmyndir þar sem sagt er að hér búi bankasnillingar, fjármálasjeni og ofurmódel.
Í næsta boði er sama settið mætt, með ögn sjúskaðan maskarann og vill nú selja útlendingum ár okkar og sjói. Jú, hinir útlendu og faglegu kunni einir með að fara það sem okkur var falið að geyma handa börnum og okkar og barnabörnum.
Við skulum hætta að trúa tröllasögum um að við séum bestir og draugasögum um að við séum verstir. Sækjum styrk okkar stráa til afmælisbarnsins, JS sem sat ævina út suður í Köben, hvunndags klæddur rauðum slopp, mæddur sveitungi óþekktrar náfrænku sinnar sem taldi ekki eftir sér að kaupa tvinnakefli fyrir kerlingar í Hreppunum.
Gefum skáldinu lokaorðin:
Því það er 17. júní og Jonni!
Hann Jonni Sig, hann á afmæli í dag.
Það er 17. júní og Jonni.
Hann Jón Sívertsen á afmæli í dag.
Ég á mér í Vesturbænum viðhald
sem vakir eftir mér og Jonna Sig.
En hann nelgdi í botn í djúsinu
og datt loks
Það var djöfulssveigurinn,
hann reið honum loks á slig.
Því það er 17. júní sjóvið,
hann Jón Sívertsen, hann á afmæli í dag.
(Á þessum hlekk má heyra skáldið flytja texta sinn og lag: http://www.youtube.com/watch?v=LNJGwytvJCI)
Athugasemdir
Ágæt ræða hjá þér Bjarni og gott og þarft að taka þjóðrembuna dálítið í gegn. Hún er óþolandi fyrirbrigði og er örugglega sprottin upp úr minnimáttarkenndinni sem í okkur blundar.
Á þessum degi ætla ég ekki að deila við þig um annað sem þú kemur inn á, geymi það til seinni tíma.
Ingimundur Bergmann, 17.6.2012 kl. 22:33
"Við eigum ekki að rækta þjóðrembuna"
Svakalega ertu orðinn ábúðarfullur Bjarni minn
Sigurður Þórðarson, 17.6.2012 kl. 22:49
Maður fer að halda að það sé einhver stefnubreiting í væmtum hjá svokallaðri ,,vinstri" vakt og þeir ætli að hætta að ala á þjóðrembingi daginn út og inn.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.6.2012 kl. 23:19
Sannleikurinn um ágæti okkar er ekki þjóðremba,miklu frekar er lítillæti hræsni,komum bara til dyranna eins og við erum klædd. Við eru rétt eins og aðrar þjóðir,góð í mörgu,lakari í öðru. Síðan ósköp venjuleg. Alloft er gerður samanburður á okkur og Evrópubúum, í öllu mögulegu,t.d. tíðni hverskonar sjúkdóma,atferlis og misindis,ofast er lítill munur þar á. Þetta eilífa rembutal er bara tískubóla orðin ansi þreytt. Hvað eiga hátíðaræðumenn að tala um,t.d. Jóhanna í dag.;"Fíflin ykkar,ef þið hefðuð samþykkt æseif,sætum við,við verðeldana í Evrópu í dag,þið vanþakklátu hró.
Helga Kristjánsdóttir, 18.6.2012 kl. 03:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.