Skollaleikurinn á Spáni er víða stundaður um þessar mundir

Mikill skollaleikur er nú í gangi á Spáni. Forsætisráðherrann er staðinn að því að ljúga því vikum saman að Spánn þurfi ekki á neinni aðstoð að halda. En svo þegar hann fær 100 milljarða evra að láni neitar hann að viðurkenna að í því felist björgun. Þessi skollaleikur er þó víðar stundaður.

„Þetta er lán til bankakerfisins, sem bankarnir þurfa sjálfir að greiða“, sagði forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, á þingi um risalánið. Sannleikurinn er hinsvegar sá að spænska ríkið tók lánið og endurlánar það bönkunum. Raunveruleg ábyrgð á þessari gífurlegu upphæð hvílir því á herðum spænskra skattgreiðenda.

Rosa Diez, formaður eins vinstri flokksins á spænska þinginu, gagnrýndi Rajoy harkalega fyrir að vilja ekki nota ekki orðið „björgun“ um aðgerðirnar framundan. „Ekkert mun koma fyrir þig þó að þú viðurkennir sannleikann, gerir það á þinginu, og kallir björgunina björgun. Segðu orðið - segðu björgun“, hrópaði Diez að forsætisráðherranum sem sat þó við sinn keip.

Það er þó víðar en á Spáni að reynt er að klæða vandræðaganginn í kringum evruna í viðkunnanlegri búning. Í gær birti Fréttablaðið landsmönnum merk tíðindi undir fyrirsögninni: „Ný könnun í Svíþjóð: Stuðningur við evruna eykst“. Með fréttinni fylgdi mynd af þinghúsinu í Stokkhólmi og undir henni stóð: „Sænska þingið kann að þurfa að fjalla um upptöku evru, aukist stuðningur við skipti í landinu“.

Hvað stóð svo raunverulega í þessari merku frétt ef betur var að gáð? Jú! Stuðningur við upptöku evru hafði aukist úr 11% í 14%. En „átta af hverjum tíu Svíum myndu greiða atkvæði gegn evrunni“. Sem sagt nær 80% voru á móti upptöku evru! En Fréttablaðið taldi það augljóst tilefni til að efna til þjóðaratkvæðis í Svíþjóð um evruna. Fréttin bar öll merki þess að vera samin undir handarjaðri ritstjórans, Ólafs Þ. Stephensen, sem ævinlega notar hvert tækifæri til að syngja ESB og evru lof og prís.

Það var reyndar líka dálítið vandræðalegt þegar Steingrímur J. Sigfússon fékk það hlutverk á þingi fyrr í vikunni að segja nokkur orð um vandræðaganginn í kringum evruna. Illugi Gunnarsson spurði ráðherrann hvort ekki væri tímabært að endurskoða aðildarumsóknina með hliðsjón af gerbreyttum aðstæðum í ESB. Þá kom upp í Steingrími þörfin til að skeyta skapi sínu á þeim mörgu sem vekja athygli á evrukreppunni með því að áfellast þá fyrir að tala „glaðhlakkalega“ um ástandið.

Tónninn og hljómfallið í rökræðunni hér á Íslandi var allt í einu orðið meginmálið en ekki hitt að Steingrímur (sem segist þó vera andvígur ESB-aðild) stendur í ströngu við að hjálpa Össuri og Jóhönnu að koma Íslendingum inn í ESB og inn á evrusvæðið á sama tíma og miklar efasemdir eru uppi um hvort evran lifir af þau ósköp sem nú herja á hvert evruríkið á fætur öðru og sannanlega eiga rót sína rekja til þess að grundvöllur evrusvæðisins er stórgallaður.

Þetta er einfaldlega almennt viðurkennt, jafnvel af forystu ESB og leiðtogum Þýskalands, svo að hætt er við að orðaval andstæðinga ESB-aðildar vegi ekki sérlega þungt í samanburði við hitt hvort Steingrímur J. Sigfússon tekur bráðum á sig rögg og horfist í augu við veruleikann sem við blasir.


mbl.is Engir aðrir kostir í stöðunni en að fá lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hann gerir það aldrei, þá er ríkisstjórnin fallinn. Það verða bæði tannaför og naglaför á stólum þessara þriggja ef og þegar ríkisstjórnin hrökklast frá við lítin orðstýr.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.6.2012 kl. 12:34

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þeir hljóta að vera tegundarfræðilega skyldir þessi Mariano og Steingrímur.  Lygagenið dreifðist ekki svo víða samkvæmt dýrafræðinni. 

 

Hrólfur Þ Hraundal, 13.6.2012 kl. 21:44

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Hér er Nigel Farage í essinu sínu aftur.

http://www.youtube.com/watch?v=TN_1mF-3JTI&feature=youtu.be

Valdimar Samúelsson, 14.6.2012 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband