Er hrein vinstri stjórn á Íslandi

Einhvern veginn minnir mig að Samfylkingin hafi orðið til upp úr gamala Alþýðuflokknum og Ólafs Ragnars armi Alþýðubandalagsins. ÓRG væri trúlega formaður Samfylkingarinnar í dag ef hann hefði ekki farið á Bessastaði.

Ofangreint er tilvitnun í stutt andsvar Eiríks Jónssonar fyrrverandi formanns Kennarasambandsins inni á fésbókarvef blogghöfundar. Nú er það ekki ætlunin að Vinstri vaktin taki afstöðu til forsetaframbjóðenda enda afar umdeilanleg túlkun að sú kosning snúist um ESB mál. Um það sýnist sitt hverjum. En í bloggi dagsins er ætlunin að fjalla aðeins um þessa staðhæfingar Eiríks og um leið þann flokk sem hún snýst um, Samfylkinguna.

Það er enginn ágreiningur um fyrri setningu Eiríks, að Samfylkingin hafi orðið til með samruna Alþýðuflokks og þess hluta Alþýðubandalagsins sem studdi Ólaf Ragnar. Til viðbótar komu svo smærri hópar eins og Kvennalisti Ingibjargar Sólrúnar. Um seinni fullyrðingu Eiríks geta menn deilt en hún er samt fjarri því að vera út í loftið og bregður upp nokkuð umhugsunarverðri mynd af þeim jafnaðarmannaflokki sem nú gerir að sínu helsta og á stundum eina baráttumáli að Ísland gangi í ESB. Og um leið spurningunni hvort að Samfylkingin sé sá vinstri flokkur sem að var stefnt.

Með stofnun Samfylkingarinnar var rennt saman ólíkum hópum af vinstri væng og hörðum kjarna markaðssinnaðra hægri krata úr Alþýðuflokki. Með klofningi Steingrímsarms Alþýðubandalagsins og stofnun VG varð vitaskuld til muna minna vinstra viðnám innan Samfylkingarinnar en ella hefði orðið og flokkurinn tók smám saman upp þá möntru að Evrópuhugsjónin væri ofar öðrum hugsjónum. Samhliða hertu hægri kratar tök sín á lykilstöðum.

Það er þó fjarri því að um þá stefnu hafi verið alger samstaða innan Samfylkingarinnar og lengi vel voru áberandi menn í trúnaðarstöðum flokksins sem töluðu gegn ESB aðild eins og Stefán Jóhann Stefánsson borgarfulltrúi og enn stærri hópur sem hafði efasemdir. Í hópi hinna síðarnefndu var Jóhanna Sigurðardóttir Þjóðvakakona og núverandi forsætisráðherra fremst meðal jafningja. Henni fylgdu í þessu Haukur Már Haraldsson og Páll Halldórsson svo einhverjir séu nefndir. Alger viðsnúningur Jóhönnu í ESB málum var síðasti stórsigur hægri krata Samfylkingarinnar.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Fylgi við ESB aðild er nú til muna minni en var en engu að síður hefur krataflokkurinn bitið hér fastar og fastar í skjaldarrendur. Efasemdarmenn hafa ýmist flúið flokkinn eða látið undan fyrir hinni hörðu kröfu sanntrúaðra. 

En með ESB áherslu sinni fjarlægist Samfylkingin stöðugt allt sem kenna má við vinstri stefnu en gengur alþjóðakapítalismanum á hönd. Þverbrestir kapítalismans og hinnar óheftu markaðstrúar koma hvergi betur fram en í brestum þeim sem nú liða í sundur efnahagslíf og myntsamstarf ESB. Alger einkavæðing atvinnulífs, fullkomið frelsi til viðskipta án tillits til hagsmuna þjóða og héraða, markaðsvæðing vegakerfis með veggjaldakerfi og söluheimildir á öllu sem hægt er að koma í verð - allt eru þetta ófrávíkanleg lögmál hins hægri sinnaða bandalags. 

Spurningin er hvort stjórn sem hefur hreintrúarflokk ESB sinna innanborðs getur með einhverjum rétti skreytt sig með því hugtaki að kallast hrein vinstri stjórn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vel grundaðar athuganir hér og niðurstaðan mjög eftirtektarverð.

Jón Valur Jensson, 3.6.2012 kl. 02:23

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég lít á Safylkinguna sem flokksapparat hinna nýríku. Þessir nýju peningar og hinar gömlu valdablokkir Íslandseigenda bænda og ættarveldisins takast á án tillits til alþýðunnar og jafnaðar í landinu.

Samfylkingin á allt sitt undir þessu nýja fjármálavaldi og er óskilgetið afkvæmi útrásarinnar. Þetta sjá menn með að skoða hverjir mæla hæst fyrir framgangi flokksins og það oft með hótunum um að yfirgefa landið ef ekki verði látið að kröfum þeirra.  Kúgunartaktík fjölþjóðafyrirtækja sem nýta sér ruðningsáhrif sín til að fá allt sitt fram.  Fyrirtæki sem semja sjálf frumvörp um tilslakanir og ívilnanir þeim til handa sem eru samþykkt á færibandi og samþykkt af agentum þeirra á þingi. (Verslurnarráð þ.a.m.)

Til fulltygis þeim hefur síðan bæst háskólaelítan og samstaða akademískra öryrkja og atvinnustyrkþega. Klíka ópródúktívra drullusökka, sem virðist halda að þjóðin geti öll lifað á styrkjum eins og þeir án þess að framleiða nokkuð. Lykillinn að baráttu þessara afla er algert vald yfir fjölmiðlum, svo hlutleysi þekkist ekki í því samhengi.  

Ísland er sjálfhverft klíkusamfélag þar sem andi Sturlungaaldar svífuur enn yfir vötnum. Almenningur á sér ekkert afl gegn þessum eigendum íslands og tekur í blindni sinni afstöðu með öðrum hvorum vængnum án þess að átta sig á að það eru fleiri kostir. 

Jón Steinar Ragnarsson, 3.6.2012 kl. 06:28

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Athyglisverður Jón Steinar Ragnarsson!

"Kúgunartaktík fjölþjóðafyrirtækja ..." : Gleymum ekki fjárfestingasamsteypu úr einu einræðisríki, virkasta nýlenduveldi heims: Kína.

Jón Valur Jensson, 5.6.2012 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband