Grikkland - þröngt í vöggu lýðræðisins: Um hótanir og innstæðum fyrir þeim.

Merkilegt er að fylgjast með umfjöllun um stöðuna sem upp er komin í Grikklandi. Í lýðræðislegum kosningum ákváðu Grikkir að leiða til valda stjórnmálaöfl sem stefna í allt aðra átt en næsta stjórn á undan, sem af sumum hefur verið kölluð leppstjórn ESB. Nú hefur verið ákveðið að kjósa á nýjan leik í Grikklandi og það er mjög forvitnilegt að velta fyrir sér hver niðurstaða þeirra kosninga verður, en þær verða þann 17. júní næstkomandi. Þjóðhátíðardagur Íslendinga verður reyndar varla yfirskyggður af fréttum frá landinu sem oft er kallað vagga lýðræðisins. Á vissan hátt er atburðarásin núna einnig prófsteinn á það hvernig Evrópusambandið bregst við lýðræðislegri andspyrnu í aðildarlandi, sem þar að auki er með í Evrusamstarfinu. Fjölmiðlaumfjöllun hér á landi og víða annars staðar er einnig forvitnileg og hér er staldrað við umfjöllun í fréttaskýringu í Fréttablaðinu í gær eins og hún birtist á visir.is. Fyrst eru tildrög núverandi stöðu rakin sem hér segir:

Flokkarnir sjö, sem kosnir voru á gríska þjóðþingið fyrir tíu dögum, hafa ekki getað komið sér saman um myndun meirihlutastjórnar vegna ágreinings um niðurskurðinn, sem fyrri stjórn samþykkti að leggja á íbúa landsins gegn því að fá fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Geti grísk stjórnvöld ekki afgreitt áætlun um frekari niðurskurð fyrir júnílok fær gríska ríkið ekki næstu útborgun frá Evrópusambandinu, sem þýðir að gríska ríkið getur þá ekki greitt næstu stóru afborganirnar af skuldum ríkisins. Afleiðingarnar gætu orðið þær að Grikkir yrðu að taka upp drökmu á ný, kasta evrunni og jafnvel segja sig úr Evrópusambandinu.

Hér er vert að staldra við og vekja athygli á því hvaða skrúfstykki ESB er að setja Grikkland í. ,,Refsingin" er hins vegar umdeilanleg, hvort það yrði á endanum Grikklandi til farsældar að vera innan eða utan ESB. En ljóst er að innan ESB skjálfa ýmsir, ekki vegna samkenndar með grísku þjóðinni heldur vegna fordæmisgildis og skiptast þar á hótanir eða afneitun.

Skiptar skoðanir voru reyndar á ráðherrafundi evruríkjanna í Brussel á mánudag um hugsanlegt brotthvarf Grikkja. Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, vísaði á bug öllum vangaveltum um að Grikkir þurfi að kasta evrunni.

„Ég sé það ekki fyrir mér í eina sekúndu að Grikkland yfirgefi evrusvæðið. Þetta er tóm della, þetta er áróður," sagði Juncker, sem er í formennsku fyrir evruríkjahópnum.

Olli Rehn, sem fer með efnahags- og peningamál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagðist hins vegar ekki sjá að Grikkir geti haldið áfram að vera með í félagsskap, ef þeir vilja ekki standa við þær samþykktir sem þeir sjálfir áttu þó aðild að.

Það ætti að vera okkur vinstra fólki nokkuð umhugsunarvert hversu mótsagnarkennd staða vinstri manna er í þessu ástandi í Grikklandi.

Lykilmaðurinn í stjórnarmyndunarviðræðunum í Grikklandi hefur í reynd verið Alexis Tsipras, leiðtogi SYRIZA, sem er bandalag nokkurra vinstriflokka og varð næststærsta aflið á þingi eftir kosningarnar 6. maí síðastliðinn.

Flokkurinn var kosinn út á harða andstöðu gegn aðhaldsaðgerðunum, sparnaði og niðurskurði ríkisins sem bitnað hefur harkalega á grískum almenningi. Á hinn bóginn vill Tsipras, rétt eins og 80 prósent Grikkja, alls ekki segja skilið við evruna, enda litlar líkur á því að grískur almenningur kæmi vel út úr þeim efnahagshamförum, sem fylgdu gjaldmiðlaskiptum.

Væntanlega yrði þá allsherjar bankahrun á Grikklandi, verðbólga færi upp úr öllu valdi og atvinnuleysi sömuleiðis. Búast má við enn harðari óeirðum og pólitískri pattstöðu sem öfgaöfl gætu hugsanlega notfært sér.

Það sem vantar inn í þessa frásögn er að ástandið og viðbrögð við því eru af mannavöldum. Grikkland er vissulega mjög innblandaðir í ástandið á Evrusvæðinu öllu, sem ESB-þjóð með Evru, en nú væri hollt að rifja upp umræðuna á Íslandi áramótin 2008-2009 þegar öllum var ljóst að framvinda mála hér á landi væri ekki aðeins háð því hvað við gerðum sjálf, heldur einnig hver viðbrögð ESB yrðu, Icesave-landanna og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sem sagt ekki efnahagsleg rök sem réðu ferðinni heldur hreinlega pólitískar ákvarðanir. En þróunin á Íslandi átti eftir að koma mörgum á óvart. Fyrst var ríkisstjórninni sem leiddi okkur á vit hrunsins hreinlega kollvarpað í búsáhaldabyltingu. Stjórnin sem við tók gaf fyrirheit um að aðrar leiðir yrðu farnar, en flestir þekkja þá sögu og í tvígang kolfelldi þjóðin Icesave-samninga sem henni þóttu ekki ásættanlegir, þrátt fyrir býsna harðar hótanir um að sú niðurstaða myndi kollvarpa íslensku samfélagi, einkum á það við um fyrri atkvæðagreiðsluna. Nú er Grikkjum hótað og því miður má vel vera að slagkrafturinn sé meiri og möguleikarnir til að hunsa vilja grísku þjóðarinnar sé meiri. Grikkland er nefnilega (enn) í ESB og hefur tekið upp Evruna. 

„Afleiðingarnar fyrir Grikkland yrðu alvarlegri en fyrir hin evruríkin," var haft eftir Jens Weidemann, bankastjóra þýska seðlabankans, í fjölmiðlum um síðustu helgi.

Hin evruríkin stæðu hins vegar ekki síður frammi fyrir erfiðleikum, því að þrýstingur á evruna myndi væntanlega aukast til muna. Fjárfestar, fyrirtæki og einstaklingar myndu hika við að eiga evrur í bönkum þeirra ríkja, sem eftir brotthvarf Grikkja stæðu tæpast, nefnilega ríkja á borð við Írland og Portúgal, Ítalíu og Spán.

Spurningin snýst hins vegar um það hvort grískum stjórnmálamönnum tekst í tæka tíð að komast að einhverri niðurstöðu um aðhaldsaðgerðir, sem hin evruríkin geta sætt sig við.

Hér er augljóslega gengið út frá því að það séu grískir stjórnmálamenn sem eigi að komast að niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir ESB en ekki spurt hvað sérétt að gera út frá vilja grísku þjóðarinnar. Þetta er sá tónn sem sleginn er afskaplega víða í umfjöllun um ástandið í Grikklandi. Oft er talað um að Grikkland sé vagga lýðræðisins, er verið að reyna að troða hinni fullvaxta þjóð í pínulitla vöggu undir bláum fána með stjörnum á? 

Hvað ef Grikkir segja ,,Við mótmælum öll!" á 17. júní næstkomandi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það vantar eitt mikilvægt atriði í þetta og líka hjá Fbl. í upphafskvóti.

Tsipras vill hætta að borga af skuldum ríkisins. (Allaveg tímabundið og sú hugmynd er svo óljós hjá honum og lýðskrumskennd að mikil fádæmi eru)

Á sama tíma ætlast hann til að Grikkland fái fullan fjárhagsstuðning og haldi útgjöldum ríkis uppí toppi.

það er nú ekkert voðalega flókið að finna út að þarna er eitthvað verulega bogið.

Eg er búinn að finna út hvað málið er. þ.e. afhverju svokallaðir ,,vinstri r´ttækir" tala svona furðulega í Grikklandi.

Ástæðan er sú að það er búið að lýðskrumast svo mikið og bulla (Af flestum stjórnmálaflokkum nema helst PASOK) að því er víða trúað í Grikklandi að opinberar skuldir Grikklands - séu bara mestanpart lygi. það hafi verið vondir útlendingar sem hafi logið þessum skuldum uppá Grikkland. Við þá lygi fengu þeir aðstoð frá ,,svikurum innanlands".

Útúr þessari bullumræðu koma svo vinstri róttækir, sovétkommar og nasistar afar sterkir.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.5.2012 kl. 12:59

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ps. Og, eins og hann sagði þarna í grikklandi, mig minnir seðlabankastjórinn, að ef Grikkland ætlar ekki að standa við gerða samninga viðvíkjandi lánaaðstoðinni (Lánaaðstoð sem er ætlað að brúa ákveðið bil og er í rauninni ósköp venjulegt IMF prógram svipað og var á Íslandi) - afhverju skyldi þá einhver vilja lána þeim?

það er ekki eins og þetta sé flókið. Og þetta ætti sérstaklega ekki að vera flókið fyrir fyrrverandi fjármálaráðherra sem þurftu einmitt að grípa til aðhaldsaðgerða og aga á tímabili sínu sem fjármálaráðherrar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.5.2012 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband