Baráttukveðjur til alþýðu

Vinstri vaktin sendir íslensku launafólki og öllum almenningi baráttukveðjur í tilefni dagsins.

Alþjóðlegt hrun á fjármálamörkuðum hefur staðfest áratuga gagnrýni vinstri manna á markaðshyggjuna. Við gjaldþrot þúsunda fyrirtækja er tap stórkapítalismans þjóðnýtt en hagnaðurinn er eftir sem áður í einkaeigu.

Þessi sannindi eru hvergi berlegri en einmitt í Evrópusambandinu sem byggir á hagsmunagæslu auðhringa og óbilandi trú á markaðskerfið. Allt tal um að Evrópusambandið sé bandalag lýðræðis og samvinnu er barnalegt og verður að skoðast í því ljósi að ESB eyðir meiru í áróður fyrir ágæti sínu heldur en Coca cola keðjan í auglýsingar.

Íslenskur almenningur á mikið undir að þjóðin haldi fullveldi sínu. Daglegar fréttir af lífskjaraskerðingum, atvinnuleysi og niðurskurði opinberrar þjónustu í ESB löndunum sýnir okkur svo ekki verður um villst að Evrópusambandið er ekki draumaland vinstri manna.

Það er því einkennilegt að líta við á heimasíðu ASÍ og sjá þar að eitt helsta baráttumál þeirra samtaka er að Ísland gangi í ESB. Um langt skeið hefur forseti ASÍ varið til þess vinnutíma sínum að berjast fyrir þessu hugðarefni. En gerir hann það í umboði ASÍ félaga?

Samtals er um 110 þúsund félagsmenn í ASÍ. Heildartala ESB sinna í landinu er innan við 70 þúsund samkvæmt könnunum og þeir eru fráleitt allir í ASÍ.

Samtök iðnaðarins gerðu það lengi að helsta baráttumáli sínu að Ísland gengi í ESB eða allt þar til könnun meðal félagsmanna sýndi að mikill meirihluti iðnrekenda vildi halda Íslandi utan ESB.

En þrátt fyrir litla hylli almennings og þeirra sem eru úti í hinu virka samfélagi á ESB aðildin bæði hér á landi og erlendis mikið fylgi meðal starfsmanna í hvers kyns stjórnsýslu, stéttarsamtökum, innan stjórnmálastéttarinnar, meðal fjölmiðlafólks og hverskyns skriffinna. Þessi hópur á hér hagsmuna að gæta að því það er einmitt fólk úr þessum stéttum sem fyllir hinar dýrðlegu hallir og hirðlíf Brusselvaldsins.

En meðan almenningur stendur báðum fótum á jörðinni og berst fyrir lýðræði, fullveldi, jafnrétti og bræðralagi berjast Brusselbræður fyrir forréttindum, miðstýringu og skrifræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband