Eru hagsmunir Íslendinga kjördæmapot?
24.4.2012 | 12:02
Evrópuþingmenn sem blanda saman makríldeilum og aðildarviðræðum við Evópusambandið leggja til brot á samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Þetta segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og kallar það vitleysisgang. (http://www.ruv.is/frett/brot-a-ees-ad-blanda-makril-og-adild)
Fyrir utan þennan þrönga hóp þingmanna úr makrílkjördæmunum veit ég ekki til þess að aðrir hafi reynt að splæsa þetta saman með beinum hætti. (http://www.dv.is/frettir/2012/4/23/kjaftbruk-skoskra-og-irskra-thingmanna/)
Össur Skarphéðinsson hefur ekki áhyggjur af kjaftbrúki nokkurra þingmanna úr makrílkjördæmum ESB og mest sé þetta ætlað til heimabrúks. ESB hefur aðra hagsmuni og reglur leyfa ekki að hlustað sé á makrílkjördæmin.
Skemmtilegra væri íslenski utanríkisráðherrann temdi sér betur mannasiði þegar hann talar um erlenda stjórnmálamenn, evrópuþingmenn sem aðra. En auðvitað er þetta alveg rétt hjá Össurri. ESB mun ekki hlusta á 'vitleysisgang og kjördæmapot' í þingmönnum úr makrílhéruðum sem telja ekki nema rétt um 10 milljónir íbúa.
En hvað verður þá mikið mark tekið á Íslandi með þrjú hundruð þúsundir íbúa!
Hin hliðin á deilum Íslands og ESB nú er vitaskuld hver gæti hagsmuna Íslands? Við höfum nú heyrt látlausan áróður ESB þjóða um að Ísland veiði allt of mikinn makríl sem er vitaskuld afar ósanngjörn nálgun á því máli. Ísland veiðir afar lítinn hluta af þeim makríl sem er hér í efnahagslögsögunni og íslenska landhelgin fæðir stóran hluta af makrílafla Evrópuþjóðanna. Þessu var til skila haldið í ráðherratíð Jóns Bjarnasonar en málstaður Íslands hefur síðan hljóðnað mikið. Öflugasti og einarðasti samningamaður Íslands í makríldeilunni, Tómas H. Heiðar lá á þeim tíma undir ámæli frá áköfum ESB sinnum í íslenskri ríkisstjórn og stjórnarráði. Hann hefur nú verið leystur frá störfum.
Íslenski utanríkisráðherrann segir að það sé því engin ástæða til að slíta viðræðunum vegna makríls. Og alls ekki heldur þó að ESB sé komið í harðvítug málaferli gegn fjárhagslegum hagsmunum Íslands. Þetta er rétt hjá Össurri ef horft er á málið út frá langtímahagsmunum ESB.
Getur verið að Ísland sé komið svo langt í aðlögun að ESB að það sé nú bara hallærislegt evrópskt kjördæmapot að halda fram hagsmunum Íslands!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.