Sjálfstæður gjaldmiðill er gulli betri, segir Frosti Sigurjónsson

Eitt mikilvægasta verkefni sem stjórnvöld geta annast fyrir landsmenn er að halda úti traustum gjaldmiðli. Sjálfstæður og vel rekinn gjaldmiðill sem tekur mið af þörfum hagkerfisins á hverjum tíma getur aukið hagvöxt og lífsgæði í landinu verulega umfram það sem mögulegt væri ef hér væri notuð erlend mynt.

 

Þetta segir Frosti Sigurjónsson í mjög athyglisverða grein sem birtist fyrir skömmu á mbl.is 7. apríl. Hann segir þar:  „Þótt hér hafi orðið bankahrun og krónan bæði ofrisið og hrunið þá má ekki missa móðinn. Allt of margir vilja bara gefast upp. Ísland er ekki eina þjóðin sem hefur fengið skell. Norðmenn og Svíar lentu í bankakreppum á níunda áratugnum en hafa þrátt fyrir það náð góðum árangri í kjölfarið. Það getum við einnig og það ætti að vera okkar staðfasta markmið.

 

Þrátt fyrir alls kyns mistök hafa lífsgæði landsmanna tekið ótrúlegum framförum. Ísland var eitt fátækasta land Evrópu fyrir rúmum mannsaldri síðan. Í dag, jafnvel eftir efnahagshrun, eru fá lönd sem geta státað af jafn góðum lífskjörum og Ísland. Vera má að dönsk króna hafi haldið verðgildi sínu 2.000 sinnum betur en krónan okkar, en trúir því einhver að hér væru lífskjör 2.000 sinnum betri ef hér hefði verið dönsk króna? Það mætti frekar spyrja hvort framfarir hefðu ekki einmitt verið hægari ef hér hefði verið erlend mynt í stað sjálfstæðrar krónu?

 

Atvinnuleysi hefði verið meira

 

Það er óumdeilt að fastgengi leiðir til hærra atvinnuleysis. Ástæðan er sú að það getur tekið nokkur ár að lækka laun í niðursveiflu en það tekur ekki nema einn dag að lækka þau með gengisfellingu. Of há laun leiða til uppsagna eða gjaldþrota. Atvinnulaust fólk skapar engin verðmæti og það sem verra er, þeir sem hafa vinnu verða að borga hærri skatta til að greiða atvinnuleysisbætur. Krónan hefur oft fallið sem er vissulega slæmt en allir höfðu samt vinnu og hagsæld landsmanna jókst jafnt og þétt. Aukið atvinnuleysi hefði örugglega tafið framfarirnar.

 

Samdráttarskeið hefðu orðið dýpri og lengri

 

Hagkerfi sem býr við fastgengi getur ekki brugðist við niðursveiflu með því að lækka gengi myntarinnar. Fjármagn streymir þá yfirleitt úr landi og til þeirra landa þar sem betur árar og betri ávöxtun býðst. Afleiðingin er enn sárari skortur á fjármagni til framkvæmda einmitt þegar mest ríður á að auka atvinnu. Lengri samdráttarskeið hefðu án efa dregið úr langtímahagvexti.

 

Myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi

 

Myntsláttuhagnaður rennur til þess seðlabanka/ríkis sem gefur út gjaldmiðillinn. Myntsláttuhagnaður verður til þegar peningamagn er aukið til að mæta vexti hagkerfisins eða til að veikja gengið. Hér hefur hagkerfið iðnvæðst og margfaldast að stærð á einum mannsaldri. Íbúafjöldi landsins hefur líka margfaldast. Hér var þessu mætt með því að framleiða fleiri krónur. Án krónu hefði Ísland þurft að kaupa og flytja inn mikið magn af erlendri mynt til að auka peningamagn í umferð. Magnið samtals væri líklega nálægt grunnfé Seðlabankans í dag eða um 90 milljarðar. Það hefði því ekki verið hægt að fjárfesta jafn mikið í innviðum og framleiðslutækjum ef myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi í öll þessi ár.

 

Truflanir frá erlendu myntinni

 

Erlenda myntin hefði tekið mið af aðstæðum í útgáfulandinu. Uppsveifla í því landi hefði getað leitt til hærra vaxtastigs en Íslenska hagkerfið hefði þolað. Afleiðingin hefði getað verið gjaldþrot og minni framkvæmdir og verkefni en ella. Hagvöxtur hefði því tafist. En stundum hefðu vextir verið of lágir fyrir Ísland og það leitt til offjárfestingar, jafnvel í óarðbærum verkefnum. Þessar utanaðkomandi sveiflur hefðu verið sem steinar í götu íslenska hagkerfisins og hægt á framförunum.

 

Vonandi er ljóst af þessum dæmum að þrátt fyrir allt hefur krónan verið nauðsynlegt til að koma þjóðinni úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp þeirra ríkustu. Hún getur haldið áfram að þjóna landsmönnum um ókomin ár.

 

Vissulega mætti tína til einhverja smávægilega ókosti og kostnaðarliði við að hafa sjálfstæða mynt. Um þessa hluti er mikið skrifað þessa dagana og best að vísa áhugasömum á þau skrif. En tilgangurinn með þessum pistli er að benda á nokkra af kostunum við að hafa sjálfstæða mynt.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er algjörlega sammála Frosta þarna.  Besta hagstjórnartæki hvers lands er gjaldmiðilinn.  Þeir ættu að skammast sín sem sífellt tala niður gjaldmiðilinn, sérstaklega stjórnvöld.  Það hlýtur að komast nálægt landráði að tala svo niður sína eigin gjaldmynt og grafa undan velferð þjóðarinnar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.4.2012 kl. 15:16

2 identicon

Mjög góðar pælingar hjá Frosta. Að vísu væri hægt að semja við erlendan seðlabanka um að prenta seðla fyrir okkar hagkerfi í stað þess að kaupa þá, þannig að mintsláttukostnaðurinn yrði ekki óyfirstíganlegur. 

Góður punktur með að það þurfi að fjölga krónum eftir því sem hagkerfið vex. Held að það hafi verið grundvallarmistök að gera það ekki þegar Kárahnjúkavirkjunin var reist því þá stækkaði hagkerfið. Í stað þess hljóp ofvöxtur í krónuna sem leiddi svo til enn meiri ofvaxtar vegna rangra viðbragða. T.d. vaxtahækkunar sem leiddi til innstreymis gjaldeyris sem leiddi til meiri ofvaxtar krónunnar.

Það þarf að horfa á verðgildi krónunnar út frá 2 höfuðforsendum.

A. Gagnvart erlendum gjaldmiðlum, þar þarf hún að geta sveiflast og

B. Til að mæla innlend verðmæti, t.d. verðgildi vinnustunda Íslendiga, þar má hún ekki breitast en því miður hefur freistingin í gegnum tíðina verið sú af prenta fleiri krónur til að stinga tímabundinni dúsu upp í almenning án þess að verðmætaaukning hafi fylgt.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.4.2012 kl. 08:27

3 identicon

Hér virðist Frosti eingöngu vera að bera saman krónu við upptöku myntar annarrar þjóðar. Hann minnist ekki á ESB-aðild og evru.

Þó að það taki nokkur ár að fá evru mun ákvörðun um ESB-aðild hafa strax mjög jákvæð áhrif á traust á Íslandi. Eftir inngöngu í ESB er svo væntanlega hægt að fá einhvers konar skjól fyrir krónuna hjá ECB þangað til evran verður tekin upp.  

Íslensk króna flæmir erlenda fjárfestingu frá Íslandi. Íslensk króna kemur í veg fyrir að íslensk fyrirtæki treysti sér til að gera langtímaviðskiptasamninga við erlenda aðila.

Með ESB-aðild og evru fæst stöðugleiki sem er forsenda fyrir margbreytilegri útflutningsstafsemi og erlendri fjárfestingu í ýmis konar atvinnustarfsemi. Þannig kemur krónan í veg fyrir atvinnuuppbyggingu á Íslandi.

Með betri samkeppnisaðstöðu fæst hærra verð fyrir orkuna. Spillingin sem fylgir sveiflum á gengi krónunnar verður úr sögunni. Allt mun þetta ásamt mörgu öðru stuðla að betri og jafnari lífskjörum á Íslandi. 

Það er rangt að það leiði óhjákvæmilega til meira atvinnuleysis ef ekki er hægt að lækka gengi gjaldmiðilsins. Gengislækkunarúrræðið er neyðarúrræði, sérstaklega á Íslandi þar sem afleiðingarnar geta orðið hrikalegar eins og dæmin sanna.

Mun betra úrræði er að beita einföldum hagstjórnartækjum sem ganga út á að hækka skatta, draga úr opinberum framkvæmdum og safna sjóðum þegar vel árar til að lækka skatta og auka framkvæmdir þegar kreppir að.

Þannig er ekki aðeins hægt að jafna hagsveiflur. Opinberar framkvæmdir eru mun ódýrari í samdrætti en í uppsveiflu og það fé sem fólk fær í hendurnar með skattalækkunum nýtist mun betur í samdrætti en í þenslu.

Einföld hagstjórnartæki hafa takmörkuð áhrif þegar krónan er annars vegar, vegna þess hve óstýrilát hún er, en virka vel með evru. 

Þannig er komið í veg fyrir að stjórnvöld rýri tekjur almennings til að bæta fyrir eigin klúður. Þannig er komið í veg fyrir miklar eignatilfærslur sem gengislækkun hefur óhjákvæmilega í för með sér.

Auk þess hefur gengislækkunarúrræðið ekki tilætluð áhrif þegar erlendar skuldir eru miklar. Erlendar skuldir hækka í krónum með gengislækkun krónunnar. Lækkun gengis krónunnar hefur því þau áhrif að greiðslubyrðin þyngist.

Það sem gerir krónuna ónothæfa er smæð hennar. Hún þyrfti að hafa 10-20 sinnum meiri útbreiðslu til að virka í alþjóðlegu hagkerfi.

Öll viðbrögð hennar eru svo ýkt að menn eru á tánum til að græða eða til að koma í veg fyrir tap. Sumir hafa orðið milljarðamæringar á þessum sveiflum á kostnað almennings.

Með því að notfæra sér með þessum hætti veikleika krónunnar og mergsjúga um leið almenning eykst ójöfnuður. Þessa má sjá merki víða um þessar mundir. 

Eftirspurn eftir dýrustu einbýlishúsunum er meiri en framboð og mest seldi bílinn er lúxusjeppi af gerðinni Toyota Landcruiser sem enginn lítur við í nágrannalöndum okkar.

Gjaldeyrishöft eru stórhættuleg enda þarf mikið til að menn séu tilbúnir að eiga viðskipti við þjóð með gjaldmiðil í höftum.

Króna án hafta er hins vegar auðveld bráð vogunarsjóða og annarra fjárfesta. Það er því óhætt að slá því föstu að krónan er ónýt.

Síðast en ekki síst mun evran stuðla að mun betri geðheilsu Íslendinga. Það er engum vafa undirorpið að krónan hefur leikið geðheildsu margra Íslendinga grátt.

Það kæmi mér ekki á óvart ef hún er ein aðalástæða þess að Íslendingar nota margfalt meiri geðlyf en nágrannaþjóðirnar.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 24.4.2012 kl. 09:56

4 identicon

Hahahahahahahaha.....

Stundum er ekki annað hægt en að hlæja sig máttlausan yfir vitleysunni í þér, Ásmundur.

Þú ert algjört met.   Hahahahahaha....   Ég táraðist af hlátri

Þurfum við að ganga í ESB út af því að krónan veldur slæmri geðheilsu??

Hahahahaha....  þú ættir að skrifa greinar í blöð, þú ert svo klár.

Þínar öfgar eru komnar svo langt út í móa, og örvæntingin svo mikil, að maður á ekki orð. Það er ekki annað en hægt að hlæja að þessu.

Það er greinilega fokið í öll skjól hjá þér. Annars bara sami fullyrðingarflaumurinn og alltaf. Maður þarf ekki nema að kveikja á sjónvarpinu og athuga hvað er í gangi í Evrulandinu þínu, til að átta sig á þínum svakalegu vitsmunum.

Endilega haltu þessu áfram, kallinn.

Þetta bjargaði alveg deginum hjá mér.

Hahahaha....

palli (IP-tala skráð) 24.4.2012 kl. 11:52

5 identicon

Frosti ber saman annars vegar að þjóð hafi eigin gjaldmiðil og hins vegar að hún taki upp gjaldmiðil annarrar þjóðar.

Hann sleppir hins vegar alveg að nefna vandamálin við jafnlítinn eigin gjaldmiðil og krónan er. Hann er því heldur ekki með neinar lausnir á þeim.

Frosti viðurkennir að danska krónan hafi haldið verðgildi sínum 2000 sinnum betur en íslenska krónan en telur greinilega að svo mikil verðbólga á Íslandi sé ekki vandamál.

Menn taka nefnilega ekkert mark á krónunni og hækka því bara launin þegar kaupmátturinn minnkar vegna gengislækkunar. Þannig er gengisfallið ómarktækt en ekki aðlögun að breyttum aðstæðum.

En það er engin trygging fyrir því að laun hækki til að bæta fólki kaupmáttarskerðinguna. Þá er voðinn vís eins og gerðist td 2008.

Lánin hækkuðu á sama tíma og tekjur og íbúðarverð lækkuðu svo að milljónir í eigin fé í íbúð gufuðu upp og eftir stóðu hærri skuldir en íbúðarverðið.

Annað vandamál með krónu er að óprúttnir aðilar geta löglega hrifsað til sín mikla fjármuni á kostnað almennings.

Ef gjaldeyrishöft eru við lýði er það munurinn á skráðu gengi seðlabankans og aflandskrónugenginu sem er gróðavegurinn.

Með krónu á floti eiga vogunarsjóðir og aðrir fjársterkir aðilar td auðvelt með að keyra gengi krónunnar niður með skortsölu. Þannig geta þeir stórgrætt á að leggja krónuna í rúst.

Íslensku hagkerfi blæðir því út hvort sem höft eru við lýði eða ekki.

Með höftum gerist það hægt og bítandi svo að menn verða þess ekki varir fyrr en skyndilega að allt er komið í hönk. Án hafta gerist það miklu hraðar eins og við höfum reynslu af.

Kannski finnst einhverjum í góðu lagi að greiða fyrir það himinhátt verð að halda í þjóðlega krónu. Þá er ég ekki að tala um þá sem notfæra sér veikleika hennar til að stórgræða.

En því miður höfum við ekki efni á þeim "lúxus". Við erum í hópi skuldugustu þjóða heims og erum í hættu á að lenda í greiðsluþroti. Það er því nauðsynlegt að hafa allar klær úti til að standa í skilum.   

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 25.4.2012 kl. 07:50

6 identicon

Jájá, Ásmundur.

Er bara þá ekki kominn tími fyrir þig að flýja ástandið á Íslandi? Hlauptu út í Evrulandi þitt. Það er allt alveg í frábæru standi.

Þá losnarðu líka við orsakavald þinnar geðheilsu, eins og þú nefnir sjálfur!

Og þá losnum við líka við geðheilsuna þína!!

Hik er sama og tap, Ásmundur.

Láttu þig hverfa af landi brott. Þín verður ekki saknað.

Þú ert ekki Íslendingu hvort sem er. Þú ert Esbingur.

palli (IP-tala skráð) 25.4.2012 kl. 09:12

7 identicon

Íslensk króna hentar mjög illa til útlána. Við hrökklumst úr einu lánsforminu yfir í annað án þess að finna nothæft form.

Það þarf ekki að fjölyrða frekar um verðtryggð lán eða gengisbundin lán. Vegna slæmrar reynslu af þeim er óverðtryggt lán núna lausnarorðið.

En þegar verðbólgan fer á skrið og vextir hækka verulega verður greiðslubyrði óverðtryggðra lána svo þung að stór hluti skuldara mun lenda í vanskilum.

Til að koma í veg fyrir mikil vanskil verða raunvextir að vera neikvæðir. Slíkt fyrirkomulag mun hins vegar rústa lífeyrissjóðunum og öðrum sparnaði og festa gjaldeyrishöft í sessi enda geta neikvæðir vextir á innlánum ekki keppt við ávöxtun erlendis.

Frá sjónarhorni skuldara er þó líklega enn verra hið mikla vaxtaálag sem fylgir krónunni ef ekki eru höft. Vegna brothættrar og veikrar krónu verðum við einfaldlega að bjóða miklu hærri vexti en eru í boði erlendis.

Annars streynir fjármagnið úr landi. Vaxtaprósentan tekur mið af framboði og eftirspurn og verður því að vera miklu hærri hér en erlendis til að jafnvægi náist. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 25.4.2012 kl. 19:17

8 identicon

Hvað nákvæmlega fær þig til að halda að þú vitir eitthvað um hvað þú ert að röfla, Ásmundur?

Að endurtaka möntrur frá goðunum þínum í Samspillingunni er ekki það sama og að skilja hlutina.

En kanski er það bara það sem þú vilt, með þessu tuði og gjammi á þessari vefsíðu endalaust? Að sýnast ekki vera lúserinn sem þú ert.

palli (IP-tala skráð) 26.4.2012 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband