Fjandsamlegar aðgerðir ESB knýja á um endurskoðun aðildarumsóknar
17.4.2012 | 12:14
Í tvígang á fáeinum vikum hefur forysta ESB sýnt Íslendingum það svart á hvítu að þeir eiga ekkert erindi inn í ESB, bæði með því að hóta þeim refsingum fyrir að veiða makríl í eigin lögsögu og með því að troða sér að sem ákæranda í dómsmáli ESA á hendur Íslandi út af icesave deilunni.
Össur og Jóhanna hömruðu á því nú um helgina, að ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um að ganga inn í dómsmálið gegn Íslandi sem meðákærandi, væri hvorki óeðlileg né kæmi á óvart. Afsakanir þeirra á gerðum ESB eru þó algerlega út í bláinn þegar haft er í huga að ESB hefur ALDREI FYRR gerst meðákærandi í neinu dómsmáli sem ESA hefur höfðað gegn einstökum ríkjum.
Við vorum mjög á einu máli um að þetta væri fáheyrð ósvífni, sagði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, eftir þingflokksfund VG s.l. föstudag 13. apríl, og bætti við: Mér finnst full ástæða til þess að setjast yfir endurskoðun á þessu viðræðuferli öllu.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, lýsti því strax yfir að bréf ESB myndi óhjákvæmilega hafa áhrif á andrúmsloftið í samskiptum við Evrópusambandið og sagði í viðtali á Stöð 2 að kvöldi föstudags að væntanlega fækkaði í fáliðuðu vinabandalagi ESB hér á landi vegna framgöngunnar í ESB-málinu. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, orðaði viðbrögð sín m.a. svo: það er einfaldlega sparkað í okkur og það á sama tíma og við erum í aðildarferli að þessu sama sambandi.
Í Silfri Egils s.l. sunnudag neyddist Össur utanríkisráðherra loks til að viðurkenna að meðalganga framkvæmdastjórnar ESB í Icesave-málinu gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum (þ.e. það að gerast meðákærandi) sé ekki líkleg til að auka vinsældir Evrópusambandsins hér á landi.
Staðan er því augljóslega sú, að jafnhliða því sem fylgi ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna dvínar dag frá degi og andstaðan við ESB-aðild fer dagvaxandi berast þær raddir úr öllum hornum að aðildarferlið sé bersýnilega að nálgast sína endastöð.
Jafnvel Eiríkur Bergmann, einn ákafasti predikarinn í ESB-trúboðinu sagði á visir.is: "Það er ekki hægt að segja annað en að aðildarferlið stefni í einhvers konar sjálfheldu í aðdraganda komandi kosninga.
Ólafur Arnarson, pistlahöfundur Pressunnar, sem hingað til hefur verið eindreginn ESB-sinni, skrifar þar 12. apríl undir fyrirsögninni Blessuð sé minning hennar. Það reynast vera kveðjuorð um aðildarumsóknina: Aðildarumsókn Íslands að ESB andaðist í gær. Blóm og kransar afþakkaðir. Með því að óska eftir aðild að málaferlum ESA gegn Íslandi vegna Icesave málsins með það markmið að styðja við kröfur ESA hefur framkvæmdastjórn ESB sýnt umsóknarlandinu Íslandi fullan fjandskap. Komi ekki í ljós að fregnir af afstöðu framkvæmdastjórnarinnar séu á misskilningi byggðar er sjálfsagt að endurskoða aðildarumsókn Íslands. Það er óþarfi að eyða fjármunum í að ljúka aðildarsamningi, sem ljóst er að íslenskir kjósendur munu hafna. Og Ólafur bætir við:
Útspil framkvæmdastjórnar ESB er köld tuska framan í íslenska ríkisstjórn, sem lagt hefur allt á vogarskálarnar til að leiða aðildarviðræður til lykta. Framkvæmdastjórnin hefur sýnt íslenskum stjórnvöldum ódrengskap. Útspilið er rothögg fyrir íslenska aðildarsinna. Ljóst er að framkvæmdastjórn ESB er haukur í horni Heimssýnar og annarra andstæðinga aðildar Íslands að ESB.
Það er vel við hæfi að Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eigi lokaorðin í dag. Hann lagði áherslu á það í viðtali við RÚV í hádegisfréttum s.l. sunnudag að aðildarviðræður við ESB væru komnar að leiðarlokum. Flokksfólki VG um allt land væri nóg boðið. Aðild ESB að Icesave málssókninni sé kornið sem fyllti mælinn og einboðið sé að aðildarumsóknin verði afturkölluð. - RA
Athugasemdir
Nokkuð sem ég hreinlega skil ekki; hvað hyggst ESB apparatið fyrir með því að gerast aðili að þessu Icesave dómsmáli?
Við vitum að reglur EES banna ríkisábyrgð á innstæðum.
Við vitum að íslensku neyðarlögin virtu íslensku gjaldþrotalögin hvað varðar þrotabú einkafyrirtækisins Landsbankans.
Við vitum að hæstaréttardómur úrskurðaði bæði innstæður og heildsölulán sem forgangskröfur.
Við vitum að allar forgangskröfur verða greiddar úr þrotabúinu.
Ýmsir hafa tjáð ýmist ánægju sína eða óánægju með þessi ESB afskipti. En enginn hefur útskýrt AF HVERJU?
Kolbrún Hilmars, 17.4.2012 kl. 17:19
Góður punktur Kolbrún... Af hverju?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.4.2012 kl. 17:56
Þegar að málflutningi kemur, verður vonandi góður fréttaflutningur í heimspressunni,sem sækist eftir viðtali við forseta vorn,enginn betri en hann að verja málsstaðinn.
Helga Kristjánsdóttir, 17.4.2012 kl. 18:06
Framkvæmdastjórn ESB er málsvari fjármálaveldisins í Evrópu. Allar hennar aðgerðir frá fjármálahrunshaustinu 2008 hafa beinzt að björgun bankanna með skattpeningum Evrópumanna. Icesave-málið er þess vegna grundvallarmál fyrir ESB og skjólstæðing þess, peningaveldi Evrópu. Meðferðin á Grikkjum er verri en félaga Karl Marx gat órað fyrir, að handbendi peningavaldsins ættu eftir að gera sig sek um. Þau eru hins vegar ekki búin að bíta úr nálinni með þetta. Suður-Evrópa logar og e.t.v. er ekki langt í byltinguna. Slíkt ógnarhelsi er evran. Undirstaðan var ekki réttlig fundin, og sú, sem átti að sameina, sundrar nú Evrópu. Tíminn vinnur með Íslandi í þessu dæmalausa ESA-máli.
Bjarni Jónsson, 17.4.2012 kl. 21:07
Vona að Bjarni eða G. Tómas eða Stefán (úr næst-síðasta pistli) verði þarna að svara þegar herskái mikilmennsku-minnihlutinn hlýtur að koma og skjóta niður rök hans (og hann í leiðinni) innan skamms.
Elle_, 17.4.2012 kl. 21:48
Vona líka að hinir frábæru mennirnir sem hér skrifa oft komi ekki síður en ég var að hugsa um efnahagsspekúlanta þegar ég skrifaði ofanvert.
Elle_, 17.4.2012 kl. 22:09
Það var algjörlega fyrirsjáanlegt að ESB myndi eiga aðild að málinu enda snýst deilan um greiðslur til ESB-ríkjanna Bretlands og Hollands. Að ætlast til að ESB myndi ekki gera það vegna þess að aðildarviðræður standa yfir er barnalegt.
Menn láta eins og að ESB sé að sækja um aðild að Íslandi en ekki öfugt. Þar að auki hefur ESB átt í málaferlum við aðildarlönd án þess að það hafi þótt tiltökumál.
Þetta er því stormur í vatnsglasi. Vanmáttarkennd sem jaðrar stundum við paranoju virðist ráða för. Það er spurning hvort Íslendingar hafi þroska til að starfa á jafnréttisgrundvelli með öðrum þjóðum.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 18.4.2012 kl. 08:00
Meira að segja menn eins og Ólafur Arnarson hagfræðingur og alla vegana hingað til harður ESB sinni, hafa fengið upp í kok af hroka og yfirgangi ESB.
Hann segir nú í fyrradag í athyglisverðri grein í Pressunni að með því fordæmalausa atferli sínu að ætla sér að standa að málaferlunum með ESA í ICESAVE málinu gegn Íslandi þá sýni framkvæmdastjórn ESB Íslandi fullan fjandskap.
Í sömu grein segir hann einnig orðrétt:
"Aðildarumsókn Íslands að ESB var jörðuð í gær, blóm og kransar eru afþakkaðir"
Gunnlaugur I., 18.4.2012 kl. 09:00
Maður kemst samt bara í gott skap, nú þegar hillir undir að þessu rugli verði loksins hætt.
:)
palli (IP-tala skráð) 18.4.2012 kl. 09:03
Innlegg Bjarna var upplýsandi. Því má útleggja svo að tilgangur ESB sé semsagt sá að íslenskur almúgi greiði Icesave einkabankans en eignir þrotabúsins verði til skiptanna fyrir fjármálaveldið.
Sú skýring fellur vel að staðreyndum.
Kolbrún Hilmars, 18.4.2012 kl. 16:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.