Greiðslujafnaðarvandi Evrópusambandsins

 

ecb.jpg

 

 Það er athyglisverð grein sem hinn kunni dálkahöfundur Martin Wolf skrifar í Financial Times á dögunum (http://www.ft.com/intl/cms/s/0/f07a9aa6-8234-11e1-b06d-00144feab49a.html#axzz1rjM9aqAp). Þar veltir hann fyrir sér hversu vel evrusvæðinu hafi tekist að leysa kreppuna. Niðurstaðan er sú að það séu talsverðar líkur á frekari áföllum. Til að bregðast við þeim þurfi menn að viðurkenna eðli vandans, sem flestir hagfræðingar séu farnir að átta sig á þótt stjórnvöld í Evrópu þykist ekki skilja hvað veldur. Vandinn liggur m.a. í utanríkisviðskiptum og greiðslujöfnuði, segir Martin Wolf. Þetta er greiðslujafnaðarkreppa innan evrusvæðisins. Ástæðuna má rekja til þess að á sæluárunum fyrir fjármálakreppuna rann mikið fjármagnsflóð til jaðarlanda í Evrópu. Samhliða varð viðskiptahalli Grikklands, Portúgals og Spánar um eða yfir 10% af landsframleiðslu. Þessu fylgdi einnig mikil umframeyðsla fyrirtækja, fjölskyldna og opinberra aðila.


Fjármagnsflóð og fjármagnsflótti innan evrusvæðisins

Kreppan stöðvaði fjármagnsflóðið til Grikklands, Írlands, Portúgals, Ítalíu og Spánar. Í sumum tilfellum snerist þetta við og afleiðingin varð fjármagnsflótti og slæm fjárhagsstaða fyrir bæði fyrirtæki og ríkissjóði. Wolf segir að í aðdraganda og á upphafsárum evrunnar hafi menn talið að svona vandamál yrðu óhugsandi. Greiðslujafnaðarvandi innan sama myntsvæðis átti samkvæmt skilgreiningu ekki að geta átt sér stað. Þegar ríkissjóðir höfðu verið þurrausnir við að bjarga evrópskum bönkum tók á endanum Seðlabanki Evrópu við með lán til fjármálafyrirtækjanna.


Mismunandi samkeppnishæfni


Hvernig verður þetta svo leyst? Þar er komið að kjarna málsins. Skuldalöndin verða að auka samkeppnishæfni sína. Málið er nefnilega að til grundvallar öllum þessum vanda er m.a. að samkeppnishæfni Þýskalands hefur aukist gífurlega á kostnað jaðarlandanna. Þýskaland hefur flutt út vörur og tæki í stríðum straumi vegna hagstæðrar verðþróunar heima fyrir, haft afgang á viðskiptum sínum við útlönd og safnað eignum á meðan verðþróun á jaðarsvæðunum hefur verið óhagstæð, þau flutt meira inn en út og því safnað skuldum gagnvart öðrum löndum. Til að leysa vandann verður þessu að linna, eftirspurn að dragast saman í skuldalöndunum og samkeppnishæfni þeirra að batna (sumir leyfa sér reyndar að orða þá hugmynd að draga þurfi úr samkeppnishæfni Þjóðverja).


„Gengisfellingar“ á evrusvæðinu!


Oft hefur gengi gjaldmiðla áhrif á samkeppnishæfni, en það gat ekki verið skýringin á mismunandi þróun samkeppnishæfninnar innan evrusvæðisins, heldur tókst Þjóðverjum að framkvæma eins konar gengisfellingu með því að tryggja hægari verðhækkanir í Þýskalandi en annars staðar. Nú verði hins vegar að snúa slíkri þróun við til að leysa vandann og til þess þyrfti að lækka gengi um 35% fyrir Portúgal, 30% fyrir Grikkland, 20% fyrir Spán og 10-15% fyrir Ítalíu. Yrði þetta gert með verðaðlögun, líkt og Þjóðverjum tókst, þá gæti það tekið 5-15 ár. Það er þó ólíklegt að slíkt muni takast því það myndi kalla á slíkan mun á verðbólgu á milli landa, t.d. núll prósent verðbólgu í skuldalöndunum að jafnaði og 4% verðbólgu annars staðar. Eins og það væri nú líklegt að Þjóðverjar myndu leyfa slíkt!


Wolf virðist ekki trúaður á að svona innri gengisbreyting með öfugum formerkjum miðað við það sem var í aðdraganda kreppunnar, þegar samkeppnisstaða Þýskalands batnaði en jaðarríkjanna versnaði, sé líkleg. Því muni eftirspurn dragast saman á evrusvæðinu í heild og viðskiptaafgangur gagnvart umheiminum batna. Það yrði á sama tíma og álfan væri að óska eftir mikilli aðstoð frá IMF og öðrum löndum, og því yrði varla vel tekið af umheiminum sem myndi krefjast þess að aðlögunin yrði innan evrusvæðisins, en ekki bara gagnvart umheiminum. Vandinn sé hins vegar að evrusvæðið viðurkenni ekki að vandinn stafi einkum af mismunandi samkeppnishæfni innan svæðisins. // s

(Grein er inni á lokaðri síðu Financial Times en hana er einnig hægt að sjá hér: http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1234128)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fjármagnsflóttinn er umfangsmeira mál en margir halda. Maður fær það á tilfinninguna að þetta sé allt einhverskonar plott um miðstýrð yfirráð yfir löndum sambandsins, enda eru þau eitt af öðru að afhenda fjárráð sín til Brussel.

Þetta er hrollvekjandi að sjá.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.4.2012 kl. 15:53

2 identicon

Ef ekki væru gjaldeyrishöft væri fjármagnsflóttinn frá Íslandi miklu meiri sem hlutfall af landsframleiðslu en frá nokkru ESB-landi.

Staða okkar væri miklu betri ef seðlabankinn gæti gengið að vísum lánum frá seðlabönkum þeirra landa sem fjármagnið leitaði til upp á jafnháa upphæð. Það myndi koma í veg fyrir greiðsluþrot sem talsverð hætta er á.

Vandi fáeinna evruríkja hefur ekkert með ESB eða evru að gera. Þetta er sjálfskaparvíti þeirra sjálfra. Þær einfaldlega brugðust ekki við í tíma heldur fóru í afneitun gagnvart vandamálunum. Ekki vorum við í ESB með evru þegar bankarnir hrundu.

Evran á sér marga andstæðinga, einkum Breta og Bandaríkjamenn. Fjármálaumræðan í heiminum er einkum af hálfu þessara aðila. Vissulega eru vandamál í fáeinum ESB-löndum. En slík vandamál eru ekkert síður í löndum þar fyrir utan.

Bretar vilja evru feiga vegna þess að hún veikir þeirra eigin gjaldmiðil. Bandaríkjamenn óttast að þeirra eigin dollar missi stöðu sína sem alþjóðlegur viðskiptagjaldmiðill. Það væri þeim gífurlegt áfall. Bandarísk þjóðremba krefst þess að evran sé töluð niður.

Heimskreppan sem hófst 2008 er fjarri því að vera lokið. Hún hefur ekkert með ESB eða evru að gera enda upptökin annars staðar.   

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 08:43

3 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Flestir ef ekki allir ESB-sinnar skilja ekki hagkerfi sameiginlega myntsvæðisins eða er alveg sama þar sem hugsjónin er æðri raunveruleikanum eins og gerðis í raun með frjálshyggjuna sem átti að lækna sig sjáf en í staðinn varð helsi Íslands þökk sé EES og fjórfrelsinu.

Þessi árátta ESB-sinna að reyna að telja fólki trú um að það drjúpi smjör af hverju strá innan ESB er ekki bara innistæðulaus með öllu heldur beinlínis lygi og það vísvitandi lygi hjá mörgum enda helgar tilgangurinn meðalið þegar hugsjónablindan er algjör.

Þessi hugsjón að ætla að gera Evrópu að einu ríki með eina mynt, eina tungu og eina Evrópska vitund á mannsaldri er ekki bara vitlaus heldur beinlínis stórhættuleg. Að mylja niður jaðarhagkerfin mun hafa afleiðingar og það fyrr en seinna.

Hagsmunum Íslands er ekki borgið innan ESB eins og málum er háttað í dag en gæti kannski orðið það eftir 500ár ef allt gengur eftir á besta veg. Þetta rugl að leggja útnára eins og Ísland að jöfnu við kjarnaríki Evrópu, eins og ESB samningurinn gerir ráð fyrir, er kjánalegt og stenst ekki. Við þurfum við ekki annað en að skoða Bandaríkin og Kanada til að sjá það í beinni útsendingu hvernig undirmáls hagkerfi innan þessara ríkja rísa og hníga t.d bílaborgin Detroid og Nýfundnaland.

Eggert Sigurbergsson, 16.4.2012 kl. 08:48

4 identicon

Þetta er ótrúlegt innlegg hjá Ásmundi!

1. Það er eitt ríki sem hefur orðið gjaldþrota síðustu árin, þ.e. ekki getað greitt af sínum lánum. Það er evruríkið Grikkland.

2. Það varð gjaldþrota m.a. vegna þess að það var í evrusamstarfinu og fékk því lægri vexti á sín lán og gat safnað meiri skuldum. Þetta var ein ástæðan þótt fleira hafi þurft til.

3. Það er engum í hag, hvorki Bretum, Bandaríkjamönnum né öðrum, að allt fari í steik á evrusvæðinu. Þessar þjóðir hafi síður en svo staðið gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn legði í björgunaraðgerðir fyrir hvert evruríkið á fætur öðru. Allur heimurinn hefur í raun í gegnum AGS reynt að bjarga Evrópu.

4. Heimskreppan 2008 er m.a. tilkomin vegna lausungar í fjármálum og eftirlitsleysis sem kristallast í reglum Evrópusambandsins. Upprunann má e.t.v. rekja til Bandaríkjanna og þróunar sem þar átti sér stað síðustu áratugi, en sams konar þróun átti sér stað í Evrópusambandinu. Sem stendur eru erfiðustu kreppuvandamálin í Evrópu - og ekki er útlit fyrir að því linni, sbr. umræðu um fjármál Spánar og Ítalíu. Það er því miður fyrir þessi Evrópuríki og fyrir okkur öll.

Stefán (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 10:42

5 identicon

Maðurinn er sorglegur.

Blessaður leitaðu þér hjálpar, Ásmundur, og spurðu sjálfan þig að því af hverju þú hengur hérna inni. Það er enginn sem tekur mark á neinu sem þú segir, það segja þér allir að drullast út með þitt kjaftæði, en samt heldurðu áfram og áfram.

Af hverju, Ásmundur? Til hvers?

Geturðu ekki svarað því? Frekar einföld spurning

palli (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 11:16

6 identicon

Geðsjúklingurinn mættur aftur eftir að hafa reynt að sýna smábatamerki. Eða var hann kannski í einangrun? 

Eftir að hafa nánast ekki gert annað hér en að svara mér mjög fljótt með miklum langlokum með mjög sjúklegu innihaldi mánuðum saman svaraði hann ekki í örfá skipti.

Ef hann gekk laus var hann greinilega að reyna að sýna fram á að hann væri ekki alvarlega geðveikur. En svo sprakk hann eins og var fyrirsjáanlegt.

Bendi fólki á að það getur sleppt því að lesa viðbjóðinn.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 14:10

7 identicon

Stefán, það er rangt að Grikkir hafi orðið gjaldþrota. ESB bjargaði þeim áður en til þess kom með björgunarpakka frá björgunarsjóði þeirra og AGS og með því að semja um niðurfellingu lána.

Ísland hefði orðið gjaldþrota fljótlega eftir bankahrunið 2008 ef ekki hefði komið til fjárhagsaðstoð frá AGS og nágrannaríkjum. Aðstoðin var háð skilyrðum sem við síðan svikum.

En það var fleira sem kom okkur til hjálpar. Með neyðarlögum voru eigur lánadrottna færðar til innistæðueigenda með því að gera innistæður að forgangskröfum. Ef við hefðum ekki komist upp með þetta fyrir dómstólum, sem lengi ríkti eðlilega mikil óvissa um, hefðum við trúlega orðið gjaldþrota.

Með allsherjarhruni íslensku bankanna töpuðu lánardrottnar margfaldri landsframleiðslu Íslendinga. Þetta er af allt annarri stærðargráðu en hjá öðrum þjóðum. Hvergi annars staðar hrundi allt bankakerfið og hvergi var það nærri eins stórt sem hlutfall af landsframleiðslu.

Enn getur íslenska ríkið orðið gjaldþrota einkum vegna þess hve krónan getur leikið okkur grátt. Við virðumst ekki geta lært af reynslunni. Ég efast um að margir setji skuldavanda almennings og fyrirtækja eftir hrun í sambandi við krónuna. Þó er hún 100% sökudólgurinn.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 15:21

8 identicon

Ef þetta og hefði hitt?

Þú segir alltaf Ísland hefði þetta eða hitt. 

Staðreyndin er að íslenska ríkið hefur staðið við sínar skuldbindingar. Það hefur gríska evruríkið ekki gert. Þess vegna telst það tæknilega gjaldþrota.

Þú skalt svo muna að það voru hinar samevrópsku starfsreglur banka sem gerðu íslensku bönkunum kleift að hefja starfsemi í öðrum ESB-löndum.

Það voru hinar samevrópsku reglur sem lágu til grundvallar stærð bankanna og hinu mikla hruni sem varð.

Það er svo íhugunarefni að margir sérfræðingar ESB-landanna telja þessar reglur meingallaðara, m.a. vegna þess hvernig þær bitnuðu á Íslendingum.

Stefán (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 16:57

9 identicon

"2.Það varð gjaldþrota m.a. vegna þess að það var í evrusamstarfinu og fékk því lægri vexti á sín lán og gat safnað meiri skuldum. Þetta var ein ástæðan þótt fleira hafi þurft til."

Þessi rök Stefáns fyrir því að vandi Grikkja sé evrusamstarfinu að kenna eru vægast sagt mjög sérstök. Ástæðan er sem sagt lágir vextir sem fylgdu evrusamstarfinu.

Er Stefán þá þeirrar skoðunar að Íslendingar megi ekki fá lægri vexti því að þá verði Ísland gjaldþrota? Þeir eigi þess vegna að halda sig frá ESB.

Í fyrsta lagi bera ríki, fyrirtæki og einstaklingar ábyrgð á því sjálfir að grípa til nauðsynlegra ráðstafana við breyttar aðstæður. Það ætti að vera auðvelt þegar aðstæður batna eins og þegar vextir lækka.

Þessi skýring Stefáns á vanda Grikkja er því í raun viðurkenning á að Grikkir höndluðu ekki það létta og löðurmannlega verk að lifa við lægri vexti.

Að vísu er rétt að halda til haga að mikið offramboð var á lánum á hagstæðum kjörum um allan heim á þessum tíma. En lágir vextir fara hækkandi. Það virðist hafa gleymst í hita leiksins. ESB og evra bera hins vegar enga ábyrgð á því. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 16:58

10 identicon

Það er rétt að íslenska ríkið hefur enn sem komið er staðið í skilum með sín lán.

Það er hins vegar rangt að Grikkir hafi ekki gert það. ESB hefur hins vegar samið um lækkun lána gríska ríkisins vegna þess að vanskil hefðu annars verið fyrirsjáanleg.

En það er fleira skuldir en skuldir ríkja. Ísland á eflaust heimsmet í afskriftum á skuldum þjóðarbúsins einkum vegna afskrifta á skuldum bankanna.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 17:08

11 identicon

Ásmundur höndlar ekki það sem sagt er.

Eins mikill aðildarsinni og hann er hlýtur hann að hafa fylgst með málflutningi prófessors frá Írlandi sem kom hingað fyrir skömmu. Hann viðurkenndi þennan hefðbundna hagfræðilega upplýsingavanda sem hér er til grundvallar. Írar fengu líka lán á of lágum evruvöxtum.

Nú sýnist mér Ásmundur eitthvað hafa gluggað í hagfræði. Ég legg til að hann rifji upp skilgreiningar á því sem þýtt hefur verið sem freistni eða siðavandi (moral hazard) og jafnframt hrakval (adverse selection) til glöggvunar.

Stefán (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 17:26

12 identicon

Stefán, þá nærð því ekki sem ég var að segja. Þó að lægri vextir samfara evru leiði til að fáeinar evruþjóðir taki of há lán, þá er fráleitt að kenna evrunni um það.

Einstaklingur sem fær launahækkun getur þá eins kennt vinnuveitandum um að hann freistaðist til að taka of há lán eftir launahækkunina. Árinni kennir illur ræðari.

Í grein Mikis Thedorakis og í umfjöllun rússnesku sjónvarpsstöðvarinnar RT News um vanda Grikkja, sem voru bæði birt hér á Vinstrivaktinni eru ástæður vanda Grikkja  tilgreindar allt aðrar en evra og ESB.

Telurðu að Íslendingar muni ekki þola þá vaxtalækkun sem ESB-aðild leiðir til? Telurðu að Ísland verði gjaldþrota ef til hennar kemur og að það verði þá evrunni að kenna?  

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 18:54

13 identicon

Ásmundur minn kæri:

Þú nefnir sjálfur tengslin á milli evruaðildar, lægri vaxta um stund og mikilla skulda sumra evruþjóðanna. Þú talar um lægri vexti samfara evru sem hafi leitt til þess að fáeinar evruþjóðir hafi tekið of há lán. Það er alveg rétt hjá þér. Tengslin eru skýr og þekkt í hagfræðinni, eins og þú reyndar viðurkennir.

Ástæðan í þessu tilviki er sú að vera Grikkja (og Íra og fleiri) á evrusvæðinu gerði það að verkum að markaðir mátu upplýsingar ekki rétt og töldu að jaðarþjóðirnar væru betri skuldunautar en þær í raun voru. Missýn markaða leiddi þá til að yfirfæra hluta af því trausti sem Þýskalandi (og nokkrar aðrar þjóðir) hafði yfir á jaðarþjóðirnar. Evruaðildin villti mörkuðum sýn.

Hefðu markaðirnir haft réttar upplýsingar hefðu vextirnir á lánum til Grikkja, Íra, og fleiri að sjálfsögðu verið hærri. betri upplýsingar um skuldunautana komu fram um síðir - og nú sjá markaðsaðilar að vextirnir á lánunum til þessara jaðarríkja hefðu átt að vera hærri.

Þá hefði skuldasöfnunin hjá Grikkjum, Írum og fleirum verið minni - og vandi þessara þjóða minni.

En svo er evruaðildinni fyrir að þakka að þessi skuldavandi er mun meiri en ella hefði verið.  

Stefán (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 21:12

14 identicon

Ég endurtek spurninguna til páfagauksins:

Af hverju þú hengur hérna inni, mánuðum saman eins og þú bendir sjálfur á. Það er enginn sem tekur mark á neinu sem þú segir, það segja þér allir að drullast út með þitt kjaftæði, en samt heldurðu áfram og áfram.

Af hverju, Ásmundur? Til hvers?

Geturðu ekki svarað því? Frekar einföld spurning

palli (IP-tala skráð) 17.4.2012 kl. 07:00

15 identicon

Stefán, markaðir stjórna ekki ríkjum nema þegar hlutirnir fara úrskeiðis og allt er látið reka á reiðanum.

Á Grikklandi tók ríkisstjórnin einfaldlega of mikið að lánum. Lægri vextir opna möguleika á að taka meiri lán en ella. En fyrir því eru takmörk. Grikkir kenna evrunni ekki um. Það gera einkum Bretar og Bandaríkjamenn sem vilja evruna feiga af eiginhagsmunaástæðum. 

Auk þess var allt of mikið lánsfé í boði um allan heim á lágum vöxtum á þessum tíma. Það freistaði margra sem uggðu ekki að sér og hreinlega hugsuðu ekki út í að þessir lágu vextir voru tímabundnir.

Evran hefur ekki frjálsan vilja. Það er því mjög langsótt að kenna henni um mistök ríkisstjórnarinnar.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 17.4.2012 kl. 07:50

16 identicon

Hans Martens, framkvæmdastjóri European Policy Centre: 

"Það er bæði ómálefnalegt og beinlínis rangt að tala um vanda evrunnar þegar rætt er um vanda skuldsettra ríkja sem nota evruna sem gjaldmiðil. Öll tölfræði um gjaldmiðilinn og stöðu þeirra ríkja sem nota hann og hafa hagað ríkisfjármálum sínum með ábyrgum hætti sýnir þetta svart á hvítu.

Ef evran væri í raunverulegum vandræðum þá hefði hún átt að lækka meira gagnvart öðrum gjaldmiðlum eins og dollar á síðustu tveimur árum. Það hefur gjaldmiðillinn ekki gert. Allt framangreint er mat Hans Martens, framkvæmdastjóra European Policy Centre, sem er hugveita (e. think tank) um Evrópumál sem staðsett er í Brussel."

http://www.visir.is/um-hagsmuni-islands-og-meintan-tilvistarvanda-evrunnar/article/2012120328803

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 17.4.2012 kl. 08:04

17 identicon

Ásmundur. 

Fjárfestar flýja evruna; sjá: Alþjóðlegir fjárfestar hafa misst trúna á evrunni http://www.vb.is/frettir/71493/  Álög á skuldabréf evruskuldalandanna eru há og hafa víða hækkað að undanförnu.

Þessi Hans Martens virðist ekki alveg átta sig á því hvað er í gangi frekar en margir aðrir. Lestu það sem Martin Wolf er að segja hér að ofan   - og það sem ýmsir aðrir hafa sagt í sömu veru áður. Sundurleitni hefur einkennt evrusvæðið en ekki samleitni eins og vonast var. Það er vandinn, þ.e. mismunandi samkeppnisstaða, innri greiðslujafnaðarvandi evrusvæðisins og misvægi í þróun eigna og skulda þjóða og ríkja.

Ég hallast nú að því miðað við það sem þú segir, Ásmundur, að þú áttir þig ekki á gangi markaðsmála eða skyldum málum. Þetta eru líka fleipur og fordómar hjá þér í garð Breta almennt og Bandaríkjamanna.

Tal þitt um frjálsan vilja gjaldmiðla kórónar náttúrulega rökleysuna hjá þér.

Svo vil ég bara bæta því við að það er alveg ljóst að ESB heldur úti miklum áróðri fyrir sínum málum; heldur uppi stofnunum, borgar kynnisferðir fyrir hina og þessa og verja milljörðum í að koma þeim sjónarmiðum á framfæri sem hentar sambandinu. Það þarf dálítið að skoða það sem frá ESB kemur í því ljósi að það er að réttlæta sjálft sig og sínar gjörðir.

Það er greinilegt að það eru ýmsir hér á landi sem hafa lent í áróðursneti ESB, en ég er svo sem ekki að saka þig um slíkt viljaleysi .....

Stefán (IP-tala skráð) 17.4.2012 kl. 09:16

18 identicon

Stefán, Martin Wolf er álíka marktækur um vanda evrunnar og Davíð Oddsson um kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það eru áhöld um hvor sé meiri áróðursmeistari.

Evran hefur ekkert veikst þrátt fyrir vanda fáeinna evruríkja. Það er eðlilegt að eigendur slíkra bréfa hafi selt þau í meiri mæli en ella. En líklega hafa kaup aukist í ríkisskuldabrúfum annarra evruríkja því að annars hefði gengi evrunnar átt að lækka sem hefur ekki gerst.

Það er mikill áróður í gangi gegn evru enda drottna helstu andstæðingar evru, Bretar og Bandaríkjamenn, yfir fjármálaumræðunni í heiminum. Mest af þessu eru dylgjur sem eiga ekki við nein rök að styðjast.

Þess vegna er mikill fengur í ummælum Hans Martens, framkvæmdastjóra European Policy centre, sem er hugveita (think tank) sem er um það bil algjör andstaða við áróðursmiðstöð. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 17.4.2012 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband