Matarpistill á skírdegi og viðskipti ofar vísindum
5.4.2012 | 11:43
Á degi hinnar síðustu kvöldmáltíðar er við hæfi að Vinstri vaktin víki aðeins að matarumfjöllun. Matur er ekki bara grundvöllur mannlegrar tilveru, hann er einnig grundvöllur sjálfstæðis og öryggis þjóðríkja. Það er ekki séríslenskur áróður til þess að þóknast kjósendum í sveitum sem stjórnmálamenn leggja áherslu á matvælaöryggi. Þetta hafa menn um víða veröld gert og bitur reynsla úr hruninu 2008 kenndi okkur Íslendingum lexíu. Þá var í svip ekki vitað hvort hér væri til gjaldeyrir til innkaupa á nauðsynjum og við slíkar aðstæður munar miklu að ekki þarf að kaupa inn grunnvörur eins og mjólk, kjöt og fisk. Keppikefli okkar til framtíðar hlýtur svo að vera að landið eigi möguleika á sjálfbærni í kornframleiðslu og þar vantar lítið upp á.
Matvælaverð fer nú stöðugt hækkandi og efnahagsstórveldi keppast nú um að leggja undir sig ræktarlönd þar sem hægt er að framleiða mat. Í því liggur fjárfesting til framtíðar og það sama gildir hér á landi. Fjárfesting okkar liggur ekki síst í því að viðhalda þeirri matvælaframleiðslu sem hér er og láta ekki glepjast af skammtíma gylliboðum um lægra matvælaverð á kostnað landbúnaðar í landinu.
Fyrir aðeins örfáum árum lá það ekkert borðliggjandi fyrir að íslenskur landbúnaður ætti framtíð fyrir sér í heimi lækkandi matvælaverðs og aukins framboðs. Talsmenn bænda voru þá margir í þröngri stöðu að verja innflutningsbann og tolla en gerðu það ekki síst með skírskotun til þess gildis sem íslensk sveitabyggð hefur fyrir samfélag okkar og menningu.
Í dag er allt önnur mynd uppi. Matvælaverð fer hækkandi og matvælaskortur er helsta ógn mannkyns. Við erum þegar komin í þá stöðu að hefðbundnar íslenskar landbúnaðarvörur seljast á sama verði hér heima og erlendis. Skylda allra þjóða er að framleiða mat og sem mest af honum meðan sú framleiðsla er í sátt við náttúruna. Hér liggja miklir möguleikar og mikilvægt hlutverk íslenskra sveita.
En um leið steðjar mikil ógn að landbúnaðinum í þeirri kröfu um að galopna markaði fyrir viðskiptalöndum okkar í ESB. Þrátt fyrir möguleika á lítilsháttar tímabundinni lækkun á einstaka vörum væri slík ráðstöfun andstæð íslenskum hagsmunum til lengri tíma litið.
Fjölmargar sveitir í landinu standa byggðalega afar tæpt og það er dýrkeypt að missa þær alveg úr byggð og tapa um leið þeirri samfélagslegu uppbyggingu sem þar er til staðar. Eftir það er margfalt átak og kostnaðarsamt að taka upp landnytjar að nýju. Enginn venjulegur bóndi getur í dag ákveðið að hefja búrekstur í Loðmundafirði eða Jökulfjörðum. Söm yrðu örlög fjölmargra sveita ef atlaga Evrópusinna að sveitum landsins yrði að veruleika og fullvíst má telja að sá vaxtabroddur sem er í útflutningi lambakjöts og mjólkurvöru hyrfi þá með margra milljarða gjaldeyristapi fyrir þjóðarbúið.
Hitt eru þó miklu veigameiri rök að óheftur innflutningur á landbúnaðarvörum er bein ógn við viðkvæma náttúru eylendunnar í norðri. Bæði bústofnar og villt náttúra eru hér afar viðkvæmar fyrir smiti að utan eins og sást best í hrossapest fyrir fáeinum árum og langri sögu þar áður af baráttu við erlenda búfjársjúkdóma. Bara með frjálsum innflutningi á hráu og ófrystu kjöti köllum við t.d. yfir okkur tríkínismit í íslenska náttúru sem enginn veit hvaða áhrif gæti haft til lengri tíma. Kúariða og salmonellur eru einnig á löngum gestalista þeirra sem berjast fyrir opnun fyrir frjálsum kjötviðskiptum.
Frjáls og óhindruð viðskipti milli landa með vinnuafl og allar vörur eru hluti af þeim grundvelli sem ESB byggir á. Og þegar þessir beinhörðu kapítalísku hagsmunir rekast á við vísindin þá skulu vísindin víkja. Þetta höfum við séð í orðræðu íslenskra vísinda- og embættismanna við ESB og nú síðast einnig í kröfum Rússa um varúð á þessu sviði.
Rússnesk stjórnvöld bönnuðu í síðasta mánuði allan innflutning á lifandi búpeningi frá Evrópu eftir að upp komu mjög sérstæð og ógnvekjandi sjúkdómstilvik í Þýskalandi, sjúkdómar sem heita Schmallenberg vírus og Blátunguveiki. Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvort þessar ráðstafanir Rússa eru nauðsynlegar en það er frekar fátt sem bendir til að annarlegir viðskiptahagsmunir séu hér á ferðinni. Það er einnig athyglisvert að fylgjast með umræðunni þar sem Rússar hafa lagt áherslu á að ESB bæti úr öryggi og heilbrigðiseftirliti en Evrópusambandið hamrar á því að Rússum lærist að kerfið í ESB er fullkomið. Slík orðræða er kunnugleg þeim sem hafa hér á landi staðið í viðræðum við hinar óskeikulu ofurstofnanir ESB.
Boris Ye Frumkin talsmaður Rússa segir í viðtali við ensk-kínversku fréttaveituna CNTV:
In principle, it's necessary to combine and harmonize safety standards of both Russia and the EU. It's one of the tasks that should be decided in the new strategic partnership agreement, which has been prepared for years and should be signed soon. Such a harmonization doesn't mean that Russia should accept all norms of the European Union. Movements should be in mutual direction that will also be good to the European Union. /-b.
Athugasemdir
Ég þakka fyrir enn einn góðan og þarfan pistil.
Það er einmitt mjög mikilvægt að þjóðin sé eins sjálfbær og unnt er með matvælaframleiðslu. Að mér sýnist eru öll helstu rökin tiltekin í pistlinum.
Ef landkostir leyfa er umframframleiðsla auk þess mikilvæg í sveltandi heimi.
Gleðilega páska.
Kolbrún Hilmars, 6.4.2012 kl. 13:50
Eins og annars í ESB-umræðunni endurspeglast hin landlæga vanmáttarkennd Íslendinga í styrkjum til landbúnaðarins.
Það er talið útilokað að nokkur vilji leggja sér til munns íslenskar landbúnaðarvörur nema þær séu verðlagðar langt undir framleiðslukostnaði. Almenningur greiðir því bændum það sem upp á vantar með skattgreiðslum og verndartollum.
Þó er vitað að stór hluti íslensks almennings vill aðeins íslenskar landbúnaðarvörur og er tilbúinn til að greiða fyrir þær miklu hærra verð en erlendar. Þetta á einkum við um lambakjöt og hvers kyns grænmeti en einnig mjólkurvörur.
Íslenska vatnið og útiganga sauðfjár tryggja miklu betri vöru en í boði er erlendis frá. Sjálfur mun ég halda áfram að borða lambakjöt eftir inngöngu í ESB en sleppa svínakjöti og kjúklingakjöti meðal annars vegna lélegs aðbúnaðar og slæms fóðurs.
Þetta er ekki mjög algengur hugsunarháttur á Íslandi en þeim mun algengari víða erlendis. Það eru því allir möguleikar á að að flytja út það lambakjöt sem Íslendingar vilja ekki greiða fyrir eðlilegt verð.
Grænmeti er hægt að rækta ódýrt í risaylverum á ódýrri afgangsorku jarðvarmavirkjana. Alltaf þegar það er í boði kaupi ég íslenskt grænmeti og er tilbúinn til að greiða mun hærra verð fyrir það en erlent. Mér sýnist þetta eiga við um mjög marga ef ekki flesta aðra.
Þó að líklega dragi talsvert úr kaupum á íslenskum landbúnaðarvörum þegar verndartollar á erlendar landbúnarvörur falla niður þá eru allir möguleikar á að selja því sem munar úr landi og miklu meira en það.
Núverandi kerfi býður upp á gífurlega spillingu. Verðlækkandi samkeppni er engin. Afleiðingarnar eru afleitar. Vörurnar eru allt of dýrar þátt fyrir að bændur séu ekki ofhaldnir. Þróunin í slíku kerfi leiðir til meiri spillingar, hærra verðs og jafnvel verri afkomu bænda.
Lausnin er frjáls samkeppni með afnámi verndartolla þar sem mest áhersla er lögð á lífrænar og vistvænar lúxusvörur sem fullt af fólki úti í heimi er tilbúið til að greiða fyrir hátt verð.
Hættum að láta eins og Bakkabræður stjórni hér landbúnaðarmálunum.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 7.4.2012 kl. 13:33
Ásmundur, þetta snýst ekki bara um lúxusvarning, heldur ætan mat.
Hér fyrr á öldum kvörtuðu forfeður okkar yfir möðkuðu mjöli, ef yfirhöfuð fékkst eitthvað mjöl innflutt. Vor- og haustskipin áttu það nefnilega til að farast í hafi.
Sjálf hef ég þurft að þola ónýt innflutt matvæli. Varla er ég sú eina sem man eftir úldnu finnsku kartöflunum í kring um 1970 - sem voru í þokkabót jafndýrar og nýuppteknar íslenskar hefðu verið.
Þá reyndu margir að bjargast við hrísgrjón í staðinn. Ekki þó ég, eftir að ég fann feitan hvítan maðk í einum hrísgrjónapottinum...
Kolbrún Hilmars, 7.4.2012 kl. 15:59
Kolbrún, einmitt vegna þess að mikið af innfluttum mat er drasl eigum við eingöngu að selja gæðamatvörur sem menn eru tilbúnir að greiða fyrir hærra verð.
Þetta eru ekki endilega lúxusvörur. Þetta geta verið mismunandi gæðaflokkar þar sem lúxusflokkurinn er dýrastur.
Lausaganga búfjár, hreint vatn og ímynd landsins sem hreint land (þrátt fyrir mengandi álver) mun auðvelda slíka markaðssetningu.
Ef einhver minnkun verður á sölu á íslenskum landbúnaðarvörum innanlands eftir inngöngu í ESB, eins og búast má við, þá mun sala til útlanda væntanlega aukast mun meira en henni nemur.
Svo má ekki gleyma styrkjakerfi ESB í landbúnaðarmálum.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 10:04
Það er alltaf sama röflið í þessu Ásmundi.
minnimáttarkennd, minnimáttarkennd, minnimáttarkennd.
Hefurðu ekkert betra fram að færa?
Þú ert bara svo mikið fífl, Ásmundur. Heimsk hrokabytta.
Hvers vegna heldurðu að fólk hérna inni sé yfirleitt að taka eitthvað mark á þér? Þú hefur sýnt og sannað að þú ert heilaþvegið fífl.
Ómarktækur fábjáni.
palli (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.