Sendiherra ESB þjófstartar kosningabaráttu og brýtur samninga
4.4.2012 | 13:26
Sendiherra ESB, Timo Summa, þeytist um héruð og boðar fundi eins og kosningabaráttan í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu sé þegar hafin. Tómas Inga Olrich, fyrrv. sendiherra, fordæmir þetta framferði og telur það brot á alþjóðlegum reglum og algera lögleysu.
Tómas Ingi sem einnig var alþingismaður og ráðherra á sínum tíma vísar í 41. grein Vínarsáttmálans, sem kveður svo á um að sendinefndum beri skylda til að blanda sér ekki í innri málefni þess ríkis, þar sem þær starfa og beri jafnframt að virða lög og reglur heimlandsins. Þessi regla hvíli þyngst á viðkomandi sendiherra. En sendiherra ESB, segir Tómas Ingi, fer hér um sveitir, á vegum Evrópustofu... og hagar sér eins og þingmaður í aðdraganda kosninga: hann heimsækir fyrirtæki, ræðir við atvinnurekendur og rekur áróður fyrir ESB. Á síðum fjölmiðla má sjá, að hann er önnum kafinn við að leiðrétta það sem viðmælendur hans hafa eftir honum. Hann hefur þó ekki enn leiðrétt þá yfirlýsingu sína á fundi Evrópustofu á Akureyri, að hann ætli sér það hlutverk að skapa umræðuna. Er honum vorkunn, því þar voru allmargir mættir, sem heyrðu erkibiskups boðskap.
Með framferði sínu kemur sendiherra ESB fram við Íslendinga eins og þjóðin sé ekki sjálfstæð og fullvalda. Hann hefur að engu þær reglur sem ESB hefur undirgengist. Yfirmenn hans í Brussel virðast ekki hafa áhyggjur af því og eru því samábyrgir fyrir lögleysunni.
Utanríkisráðuneytið hefur umsjón og eftirlit með öllum samskiptum ESB við íslenska aðila. Ekki hefur komið í ljós að utanríkisráðherra hafi gert athugasemdir við inngrip sendiherrans í umræður um það stórpólitíska innanríkismál, sem aðildarumsókn um ESB er. Sakleysingjar í blaðamannastétt hafa reynst ESB nytsamlegir með því að telja ekkert athugavert við það, að sendiherrann fari um sveitir og reki áróður fyrir ESB-aðild. Er líklegt að þeir átti sig ekki fyllilega á því hver grundvöllur Vínarsáttmálans er.
Sáttmálinn er meðal þeirra alþjóðlegu samninga, sem einna mestrar virðingar njóta. Þjóðum heimsins er ljóst hve mikilvægt er, að sendifulltrúar fái að starfa í öryggi innan landamæra gistiríkis og njóti þar sérstakra fríðinda. Á sama hátt er alþjóðlega viðurkennt, að þeir hafi ekki rétt til að seilast til beinna áhrifa á innanríkismál gistiríkisins.
Íslendingar horfa nú upp á það, að gagnvart lögleysu sendiherrans sýna íslensk stjórnvöld uppgjöf og undirgefni. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra dreymir báða um að Ísland gangi í Evrópusambandið. Er auðmýkt þeirra lýsing á stöðu þjóðarinnar innan þess sem í þeirra augum er framtíðarlandið ESB?
Tilvitnunin er úr grein Tómasar Inga Olrich sem birtist í Morgunblaðinu s.l. laugardag.
Athugasemdir
They will not control us
http://www.youtube.com/watch?v=w8KQmps-Sog&ob=av2n
Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 22:48
Takk fyrir alla pislana þína R.A.
Helga Kristjánsdóttir, 5.4.2012 kl. 01:11
Það ætti að vísa þessum Timo Summa úr landi og það sem fyrst.
Já, hann Ragnar er góður penni, Helga!
Jón Valur Jensson, 6.4.2012 kl. 03:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.