Evrópuleikritið - endurtekið efni

Evrópuleikritið á Alþingi minnir um margt á Asthon fjölskylduna en er þó heldur staglsamari en sú fimmtíu þátta röð. Til fróðleiks fyrir yngri kynslóðina var Ashton fjölskyldan bresk stríðssápa í gamla svarthvíta sjónvarpinu sem fjallaði um endurtekinn vandræðagang sama fólksins og flestum dugði að horfa á tíunda hvern þátt til að halda samhengi.

Lík þessu er ESB sápan og orðin flestum frekar leið. Makríllinn er stór leikandi en hann fer alltaf með sömu rulluna. Það gera svo hinir líka í sömu röð. Makríllinn sem er í blóra við ESB fluttur á Íslandsmið vekur upp hjá Brussel hugsun um að nú verði að hætta ESB viðræðunum því Íslendingar séu svo óþekkir. Það vekur upp Samfylkingarráðherra sem segja, nei og bera fyrir sig að þetta hafi nú verið sagt á útlensku og geti ekki verið svona í þýðingu. Stritast svo við að þegja um að til sé fiskur sem heitir makríll. Afneitunin sem að þessu sinni var leikin af Jóhönnu vekur upp forystu VG sem segir þetta gengur nú ekki en við skulum nú samt ekki gera neitt.

Við horfðum á þessa atburðarás í desember 2010, aftur um mitt ár 2011 og svo núna lokakafla í þriðju endurtekningu með ræðu Steingríms J. Sigfússonar á Alþingi í gær þar sem hann boðaði að þetta gæti bara siglt umræðunum í strand. En hann tók samt ekki undir að taka bara boði ESB um að slíta þeim og enn síður að gerð yrði fortakslaus krafa í málinu. Það var helst hægt að lesa út úr rullu sjávarútvegsráðherra að nú mætti nota þetta atriði til að fresta sjávarútvegsviðræðunum eða jafnvel öllum pakkanum fram yfir næstu Alþingiskosningar. Það gæfi þá upplagt tækifæri til frjálslegrar umræðu um málið hér heima rétt á meðan talað er til kjósenda.

Upphaflega boðuðu þeir VG þingmenn sem samþykktu ESB umsóknina að þegar fram væri komið hvað ESB vildi bjóða okkur þá ætti að taka afstöðu til málsins. Nú hefur ESB gefið línuna varðandi deili- og flökkustofna sem hafa lagst á íslenska landhelgi. Þar á að byggja á sögulegri reynslu og yrði mikilvægt til að marka þá sögulegu stund að spænskir og breskir togarar fái aftur að veiða í íslenskri landhelgi. Veiði í þessum stofnum er ekki smávægileg aukageta íslenska flotans heldur um 40% af öllum afla okkar. Þar fyrir utan hefur það verið skorið út í pappa af þeim embættismönnum íslenskum sem fara með málið að Ísland verður, ef til inngöngu í ESB kemur, að heimila evrópskum sjávarútvegsfyrirtækjum að kaupa upp fyrirtæki í sjávarútvegi og þar með kvótann á Íslandsmiðum.

Hér heyrist ekki hanagal en það er ekki fjarri lagi að hinn sprettharði makríll hafi nú í þrígang minnt á sig en samt er enn farið undan í flæmingi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú er bara um að gera að nýta makrílinn til að éta frá þorskinum svo úrkynjunin verði hraðari. Það er nefnilega áríðandi að friða lömbin þegar grasbrestur verður og ekki heyjast. Allar handfæraveiðar eru bannaðar frá............

Árni Gunnarsson, 22.3.2012 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband