Gjaldeyrishöft og almannahagur
17.3.2012 | 12:19
Ákveðinn hópur kvartar og kveinar hástöfum yfir gjaldeyrishöftunum. Ýmsir fjölmiðlar gera málflutningi þessa hóps mjög góð skil. Miðað við fjölmiðlaumræðuna mætti ætla að höftin væru aðeins skaðleg. Samt hefur Alþingi æ ofan í æ samþykkt lög sem hefta frjálst gjaldeyrisflæði. Það er jú vegna þess að höftin hafa ákveðna kosti í för með sér, þ.e. ákveðinn stöðugleika. Höftin verja almenning gegn óstöðugleika, m.a. í formi verðbólgu.
Sjálfsagt finna þeir fyrir höftunum sem hafa gnægð fjár til að spila með á mörkuðum, líkt og þeir gerðu fyrir bankahrunið. Höftin eru jú tilkomin m.a. til þess að koma í veg fyrir að viðskipti þeirra (brask) valdi óstöðugleika sem bitnað á öllum þorra landsmanna.
Steingrímur stoppar ósómann
Höftin eru til að koma í veg fyrir að erlent fjármagn sem flæddi til landsins á uppgangstímum einkabankanna flæði aftur úr landi með tilheyrandi hættu á gengisfalli og verðbólgu. Þar með er höftunum ætlað að tryggja hagsmuni almennings á Íslandi. Þetta vill oft gleymast.
Nýleg breyting á gjaldeyrislögunum er til að loka ákveðnum glufum sem fjármagnseigendur höfðu fundið. Í ljós hafði komið að þeir fundu ekki aðeins glufu til að koma gjaldeyri úr landi í gegum endurgreiðslur á tilteknum skuldabréfum. Það var kannski í lagi meðan þetta var ekki mikið, en þetta fór hraðvaxandi. Það var heldur verra að þessir fjármagnseigendur létu sér ekki nægja að taka gjaldeyrinn einu sinni út, heldur fundu þeir leið til að koma með hann aftur og nýta sér mun á álands- og aflandsgengi til að græða enn meira.
Allt þar til Steingrímur kom í veg fyrir ósómann í góðu samkomulagi við helstu sérfræðinga á þessu sviði.
Tobin-skattur: Frelsi með ábyrgð?
Þessar eru m.a. afleiðingar af uppgangstíma svokallaðra frjálsra markaða, eftirlitsleysis á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, gallaðra reglna um bankarekstur, ekki síst í Evrópu og óheppilegrar efnahagsstefnu hér og víðar.
Það má segja Þjóðverjum, Frökkum og fáeinum öðrum Evrópuþjóðum til hróss að fjármálakreppa síðustu ára hefur komið þeim í skilning um að nauðsynlegt er að bregðast við óheftu flæði fjármagns sem hefur valdið sveiflum og skaða. Þess vegna ræða þessar þjóðir í fullri alvöru um að taka upp einhvers konar Tobin-skatt á skjótar og miklar fjármagnstilfærslur til að koma í veg fyrir að þær valdi sveiflum og óhagræði fyrir almenning.
Tími til aðgerða hér?
Á meðan við höfum gjaldeyrishöft þurfum við Íslendingar síður Tobin-skatt. Það er hins vegar fyllsta ástæða fyrir okkur, ekki síður en Þjóðverja og Frakka, að ræða hvernig við getum komið í veg fyrir skaðleg áhrif óheftra fjármagnstilfærslna í framtíðinni.
Einhvers konar Tobin-skattur gæti verið leið til þess. Nú er tíminn til að ræða slíkt.
Athugasemdir
Er það nú orðinn glæpur að lána ríkinu peninga? Ætlar vinstrivaktin að lána ríkinu peninga í staðinn?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 12:42
Sá sem þetta skrifar þekkir ekki gjaldeyrishöftin og útfærslu þeirra.
Sjúkt.
Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 13:16
Það má líka spyrja hvaða fjárfestingar höftin hafi hindrað? Bíða einhverjir hér í röðum eftir að fjárfesta? Hafa alþjóðleg fyrirtæki, t.d. álverið í Straumsvík, ekki aukið fjárfestingar sínar hér á landi þrátt fyrir höftin? Hagvöxtur á síðasta ári er talinn ríflega 3 prósent sem telst harla gott og langtum meira en að meðaltali í nágrannalöndunum. Höftin skýla okkur í þeim ólgusjó sem riðið hefur yfir Evrópu.
Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 14:54
Stefán,
Þú talar um fyrirtæki. Fyrirtæki fá undanþágu hjá Seðlabankanum, þ.e. kapítalistar og fyrirtæki þeirra fá undanþágur.
En hvernig er það með einstaklinga?
Veistu hvaða fórnir einstaklingar þurftu að færa?
Allt í einu mega launamenn ekki millifæra launin sín heim til sín nema með því að brjóta lög í heimalandi fjölskyldu sinnar.
En það er í lagi því Össur hf. er með undanþágu og álverið í Straumsvík er að fjárfesta.
Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 15:19
Sæll Stefán.
Allur þorri fólks finnur ekki fyrir öðru en jákvæðum afleiðingum af þessum höftum. Þau hindra fólk ekki í því að kaupa innfluttar vörur eða þjónustu. Þau koma í veg fyrir óstöðugleika, verðbólgu og fleira. Tiltölulega fámennur hópur sem er í viðskiptum hefur visst óhagræði af höftunum, en það er miklu minna en sá hagur sem þjóðin hefur af þeim. Það eru fáir einstaklingar sem þurfa að færa einhverjar fórnir. Ég geri ráð fyrir að það gildi almennt sömu reglur fyrir einstaklinga og fyrirtæki þegar kemur að undanþágum frá höftunum. Ég veit ekki betur en að fólk sem býr erlendis geti flutt eða tekið með sér talsverða fjármuni ef þeir svo kjósa.
Það eru hins helst þeir sem hafa talsverða fjármuni á milli handanna og hafa reynt að græða á kostnað fjöldans með því að fara finna glufur og fara ýmsa snúninga á álands og aflandsmarkaði í gróðasókn sinni sem höftin þrengja verulega að - og það er gert til að verja allan almenning.
Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 15:48
Sæll nafni,
Þú segist ekki vita betur en að einstaklingar geti flutt fjármuni til útlanda ef það vill. Fólk sem býr erlendis getur flutt út fjármuni að einhverju leyti. En segðu mér hvernig fólk sem starfar á Íslandi getur flutt út pening án þess að það brjóti lög um peningaþvott í heimalandi fjölskyldu sinnar, t.d. á ESB svæðinu?
Þú gerir ráð fyrir því að einstaklingar og fyrirtæki þurfi að lúta sömu reglum þegar kemur að undanþágum. Geturðu fullyrt það? Hefurðu kannað það?
Lög og reglur um gjaldeyrishöft eru skrifaðar af mannhöturum, þ.e. hatur á þeim sem eru ekki eins og þeir.
Það er of langt mál að skrifa um mitt mál, en meir leið eins og gyðingur við upphaf þriðja ríkisins þegar gjaldeyrishöftin voru sett. Þannig var einnig komið fram við mig af opinberum stofnunum og aðilum.
Flestir aðilar vildur ekki tala við mig.
En flestir styðja þetta vegna þess að það kemur sér peningalega vel. Allir hugsa um peninga á Íslandi en ekki um neitt annað.
Þess vegna var þenslan og þess vegna varð hrunið svona æðislegt.
Ríkisstjórnir geta gert það sem þau vilja og sett svo bara relur og lög sem byggja á peningum en ekki einstaklingum og réttindum þeirra.
Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 17:36
Gjaldmiðill sem þarf að vera í höftum árum saman, án þess að fyrisjáanlegt sé að hægt sé að aflétta þeim, er ónýtur.
Sjálfstæður gjaldmiðill þarf að vera minnst 10 sinnum útbreiddari en krónan hjá þjóð með mikil utanríkisviðskipti.
Þó að gjaldeyrishöft geti verið óhjákvæmileg eru þau alltaf stórskaðleg. Traust á Íslandi sem viðskiptalandi er í lágmarki. Erfitt er að fá erlent lánsfé og lánskjörin eru mjög slæm.
Þannig eru gjaldeyrishöftin okkur óhemjudýr. Dýrmæt viðskiptatækifæri glatast og vextir á erlendum lánum eru allt of háir.
Þeir sem geta kaupa margir gjaldeyri á skráðu gengi, selja hann erlendis á aflandsgengi og kaupa hann aftur á skráðu gengi og síðan koll af kolli og verða moldríkir á kostnað almennings.
Þannig kynda gjaldeyrishöft undir spillingu í þjóðfélaginu þar sem hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Eina fullnægjandi leiðin í gjaldmiðilsmálum er upptaka evru eftir inngöngu í ESB.
Upptaka annarra gjaldmiðla felur í sér fullveldisafsal auk þess sem þeir hafa engan bakhjarl í seðlabanka ef þeir eru teknir upp einhliða. Miklu skiptir að langmest af okkar útflutningi er til ESB-landanna.
Gylfi Arnbjörnsson hefur bent á að á gjaldeyrishaftatímabili síðustu aldar fór kaupmáttur launa sífellt lækkandi. Tekjur lækkuðu þó ekki vegna aukinnar þátttöku kvenna á vinnumarkaði.
Það er orðið mjög brýnt að hefja undirbúning að upptöku nýs gjaldmiðils. Við megum ekki fljóta aftur sofandi að feigðarósi.
Ásmundur Harðason (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 17:51
Ágæti nafni.
Lögin eru sett af náungakærleik - ekki hatri eins og þú virðist halda.
Ásmundur: Gjaldmiðill Íslands hefur stuðlað að því að lífsgæði hér eru með því sem best gerist. Gjaldmiðillinn er nú að stuðla að því að hagvöxtur er 3% og flest færist til betri vegar.
Upptaka evru yrði okkur spennitreyja sem leiddi okkur í sams konar ástand og er á Grikklandi og á Spáni.
Evrusvæðið er óhagkvæmt gjaldmiðilssvæði þar sem launakostnaður hefur þróast með mjög mismunandi hætti sem hefur leitt til þess að utanríkisviðskipti hafa verið mjög jávkæð í Þýskalandi sem hefur safnað auði en viðskiptin hafa verið neikvæði á Ítalíu, Grikklandi og víðar sem hafa safnað verulegum skuldum. Evrusvæðið mun því búa við mikla erfiðleika næstu árin ef ekki áratugina.
Athugaðu að kaupmáttur launa hefur aukist síðustu mánuði og jafnvel misseri. Lækkun kaupmáttar í stuttan tíma eftir bankakreppuna er ein af fáum undantekningum þar sem kaupmáttur hækkar ekki stöðugt.
Við eigum ekki að taka upp gjaldmiðil sem hendar öðru hagrænu svæði. Við eigum að hafa okkar eigin gjaldmiðil sem tekur mið af okkar hagsvæði - og hefja undirbúning að styrkari peningastefnu þar sem krónan er þungamiðjan, ásamt viðunandi varúðarráðstöfunum sem henta íslensku hagkerfi.
Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 18:10
Stefán, Lögin voru ekki sett af náungakærleik nema þá að þú kallar það náungakærleik að sundra fjölskyldum meðvitað.
Það veit ég af eigin reynslu.
En Stefán, Það var einnig af náungakærleik að losa sig við gyðinga í Þýskalandi. En það fer eftir því hvernig þú lítur á það.
Lög og reglur sem banna einstaklingum að vinna að búa með fjölskyldu til þess að "bjarga" öðrum fjölskyldum hefur lítið með náungakærleik að gera.
Þetta er bláköld staðreynd. Þú þarft ekki að sannfæra mig um að ég hafi ekki gengið í gegnum þetta á Íslandi.
Þið lokið flest augunum vegna þess að það hentar ykkur.
En það sem þú hefur ekki upplifað sjálfur þarftu ekki endilega að trúa. En það er satt, nafni.
Það sem á sér stað í gegnum gjaldeyrishöftin hefur meira með lög frá þriðja ríkinu að gera en í opnu lýðræðisríki.
Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 18:22
Stefán: Mín íslensku greiðslukort, debet og kredit, virka ágætlega í útlöndum. Þín gera það væntanlega líka.
Ekki efast ég um að fyrirkomulag gjaldeyrismála veldur þér og þínum óþægindum - kannski meiri óþægindum en réttlætanlegt er í krafti almannahagsmuna - en er ekki full dramatískt að líkja sér við gyðing í Þriðja ríkinu?
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 18:51
Hans: Ef þú hefur tvo valkosti sem ríkið, Ísland setur þér
1. Hætta í vinnunni þinni og flytja af landi brott
2. Hætta stuðningu við fjölskylduna þína
Hvort myndir þú velja? Finnst þér rétt að ríki setji þér þessa valkosti?
Þetta val stóð mér til boða og ekkert annað.
Seðlabankinn, alþingismenn og ráðherrar sögðu að ekkert væri hægt að gera.
Þetta er staðreynd vegna þess að þetta var staðan sem ég var í.
En flestum fannst þetta reyndar bara gott því þetta var gott fyrir meirihlutann.
stefan (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 19:01
Var það alveg ómögulegt að láta gefa út kort af reikningi fyrir makann?
Annars ætti auðvitað að gera ráð fyrir fjölskyldum sem búa í tveimur löndum í lögum um gjaldeyrishöft. Það breytir því ekki að helfararlíkingar eru allt of mikið í þessu samhengi.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 19:30
Hans, ég sagði í "upphafi" þriðja ríkisins.
Það getur verið að þetta hafa verið einum of mikið.
Það er ekki hægt að gefa út kort á manneskju sem ekki er með skráð lögheimili á Íslandi. Á debetkort er aðeins hægt að taka út 100 evrur á dag og á kredtikort 250 evrur á uppsprengdu gengi og kostnaði.
Samir gjaldeyrir fer úr landi en með meiri tilkostnaði.
Sá sem notar kortin mín er ekki ég. Má það? Hvaða rétt hef ég ef kortinu er stolið?
Við erum öll að berjast fyrir réttlátu þjóðfélagi. Það varð hrun. En réttlátt þjóðfélag verður ekki byggt upp með því að bjóða upp á valmöguleika í færslu 11.
Ef við viljum réttlátt þjóðfélag þá getum við ekki samþykkt að það sé brotið á grundvallar rétti fólks svo að öðrum líði "kanski" betur.
Grundvallar réttur er að fá að starfa við það sem aðrir mega vinna við og að búa með þeirri konu sem maður vill t.d.
Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 20:06
Ég er búinn að koma öllu því á framfæri sem ég vildi koma á framfæri.
Þetta er of langt mal til að skrifa um í athugasemdum.
Ég vil ekki að neinn þurfi að hætta í vinnunni sinni svo að ég hafi það betur fjárhagslega.
Ég vil ekki að neinn þurfi að skilja við fjölskyldu sína svo að ég hafi það betur fjárhagslega.
Góða helgi.
Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 20:11
Eg vildi líka að Stefán Júl hefði barist fyrir mannréttindum en ekki lögleysu og ranglæti í kúgunarmálinu ICESAVE. Samt hefurðu mína samúð, Stefán Júl. Vildi samt að þú sæir fyrst hvað hitt var ranglátt.
Elle_, 17.3.2012 kl. 22:38
Gjaldeyrishöftin eru enn full af ýmsun undanþágum fyrir auðmenn en engum fyrir almenning.
"Steingrímur stoppar ósómann" segja fáfróðir höfundar þessa bloggs hjá vinstrivaktinni... nema það sé ósómi í ykkar huga að almenningur standi jafnfætis auðmönnum.
Þvílíka vitleysu eruð þið að skrifa hér Vinstrivakt!
Hvernig getið þið verið svona vitlausir að verja forréttindi auðmanna?
Það getur verið að höftin hafi skilað einhverju góðu... en það verður aldrei, ALDREI réttlætt með öllu því óréttlæti sem þau hafa einnig haft í för með sér gagnvart minnihluta fólks sem hefur ekki getað varið sig vegna þeirrar sjúklegu efnahagslegu þjóðernishyggju sem gripið hefur meirihluta þessa lands.
Eru höfundar þessa bloggs líka með alveg lokuð augun gagnvart krónuútboðum Seðlabankans? Hafið þið ekki farið út úr húsi síðan 2008?
Í þessum útboðum, sem Steingrímur styður og ver, þá geta auðmenn skipt evrum sínum á mun hagstæðara gengi en almenningur? Seðlabankinn keypti evrurnar af þeim á 240 krónur stk. á meðan almenningi bjóðast aðeins 165 krónur!
Halló, Vinstrivakt! Vakna!!
Lúðvík Júlíusson, 17.3.2012 kl. 23:08
Stefán, þú ert heldur betur á villigötum.
Krónan er okkur stórhættuleg. Með krónu sem gjaldmiðil er nýtt hrun líklegt og getur auðveldlega gert Ísland gjaldþrota enda hækka erlendar skuldir upp úr öllu valdi þegar gengi krónunnar hrynur niður úr öllu valdi.
Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú hafnar þeim miklu kjarabótum sem felast í ESB-aðild og evru?
Lastu ekki færsluna "Grísk reiði á bloggi söngvara". Þar kemur fram að hremmingar Grikkja eiga sér allt aðrar skýringar en evru og ESB.
Sama má segja um Spán. Þar varð bóla eftir upptöku evru enda lækkuðu vextir mikið. Bólan fékk að vaxa óhindrað og sprakk svo fyrirsjáanlega að lokum með hvelli.
Vandinn í Grikklandi, á Spáni og víðar er þeirra eigið sjálfskaparvíti. Evrunni verður ekki kennt um að þessar þjóðir höndluðu ekki þá velmegun sem fylgir evru.
Krónan hefur valdið okkur miklum búsifjum. Á síðustu öld olli hún því að víð drógumst aftur úr öðrum þjóðum einkum vegna gjaldeyrishafta eins og Jónas Haralz hefur lýst eftirminnilega.
Jónas lýsti gjaldeyrishöftum sem einu mesta efnahagsböli Íslandssögunnar. Sem fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjónarinnar talaði hann af reynslu.
Lengst af hefur verið minni velmegun á Íslandi en í nágrannaríkjunum. Það var fyrst 2003-2008 sem það breyttist. En þetta var skuldsett velmegun byggð á bólu sem vitað var að myndi að lokum springa. Þetta var því í raun sukk en ekki velmegun.
Það er engin furða þó að laun þokist upp á við eftir að botni var náð í hruninu. Þaðan er aðeins ein leið. Laun eru hér miklu lægri en í nágrannalöndunum.
Krónan stórskaðar samkeppnishæfni Íslands. og kemur þannig í veg fyrir að ný atvinnutækifæri verði til. Vaxtagjöld ríkisins munu lækka um tugi milljarða á ári með upptölu evru.
Útflutningsfyrirtæki blómstra tímabundið þegar gengi krónunnar er hagstætt en lenda svo von bráðar í rekstrarvanda svo að oft blasir ekkert annað við en gjaldþrot. Það vantar allan stöðugleika.
Það er auðvelt að lifa með evru ef þess er gætt að lifa ekki um efni fram. Það er einfaldlega rangt að ríki geti ekki búið við sama gjaldmiðil þó að laun séu mishá. Reynslan á evrusvæðinu sýnir að það gengur prýðilega.
Gerirðu þér enga grein fyrir að það er vegna krónunnar sem fólk hefur í stórum stíl tapað margra ára sparnaði, sem var varið í kaup á íbúð, og situr nú uppi með skuldir umfram söluverð íbúðarinnar? Gjaldmiðill sem hagar sér svona er ónýtur.
Fyrir nærri 90 árum var íslenska krónan á pari við danska krónu. Núna er gamla íslenska krónan Dk 0.0005 eða um 1/2000 af því sem hún var í upphafi.
Með krónu er íslenskt hagkerfi sjúkt og getur elnað alvarlega sóttin á hvenær sem er.
Ásmindur Harðarson (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 23:09
Ásmundur, eitt er víst, Vinstrivaktinn hefur ekki hugmynd um þann raunveruleika sem almenningur býr við eða er það siðlaus að henni er alveg sama.
Lúðvík Júlíusson, 18.3.2012 kl. 08:48
Það hefur alltaf verið hlutverk vinstri manna að verja hægri menn og herja á almenning.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 10:04
Kæri Ásmundur, þú ert heldur betur gamansamur.
Ég veit ekki hvar þú hefur verið. Ísland, þ.e. íslenska ríkið hefur aldrei orðið gjaldþrota. Evruríki hefur hins vegar orðið gjaldþorta og ýmis Evrópuríki. Hrunið varð hér á landi vegna þess að bankarnir stækkuðu og uxu íslensku hagkerfi yfir höfuð. Bankarnir stækkuðu vegna þess að gnægð lánsfjár var á alþjóðlegum mörkuðum á ódýru verði. Þeim tókst að stækka vegna þess að við störfuðum á grunni stórgallaðra evrópskra reglna sem leyfðu bönkum að starfa í öllum Evrópulöndum ef þeir höfðu starfsleyfi í einu (ef við hefðum haft evru er eins víst að bankarnir hefðu stækkað mun meira – og fallið hefði þá lent á íslenska ríkinu og við værum í grísku ástandi). Bankarnir blésu út hér eins og annars staðar og þegar lánamarkaðir þornuðu alþjóðlega upp úr 2007 lentu íslenskir bankar í erfiðleikum eins og víða annars staðar. Það má ekki gleyma hlut evrópsku reglnanna í þessu ferli og þær hafa ásamt ýmsu öðru stuðlað að því að við erum með höftin í dag. Krónan er hins vegar að hjálpa okkur út úr þessum erfiðleikum nú þar sem jafnvægi er að komast á viðskipti við útlönd og við söfnum afgangi til að greiða af okkar skuldum.
Það eru engar kjarabætur sem gætu fylgt evru eða ESB-aðild. Telur þú 20-50% atvinnuleysi hjá vissum hópum og á vissum svæðum vera kjarabætur? Verðmyndun hér á landi tekur mið af aðstæðum innanlands, verðtrygging er óháð því hvaða gjaldmiðil við erum með, vaxtaþróun er með ákaflega mismunandi hætti í Evrópu og matvælaverð er mismunandi; það sem er hér á landi er ekkert ósvipað því sem víða gerist. Vegna ólíkra hagkerfa, ólíkra hagsveiflna sem krefjast mismunandi peningastefnu yrði hagur almennings að jafnaði verri hér værum við með evru og í EMU.
Hremmingar Grikkja eru m.a. vegna vel þekkts efnahagsvanda sem fylgdi evruupptökunni hjá þeim. Þetta hefur með mismunadi upplýsingastöðu aðila á markaði að gera. Þar sem Grikkir voru á evrusvæðinu fengu þeir lán á mun lægri vöxtum en ef þeir hefðu verið með sinn eigin gjaldmiðil. Lánveitendur gerðu vissulega skyssu, en þeir vissu ekki betur. Grikkir fengu í raun lánað traust frá Þjóðverjum og gátu þar af leiðandi safnað miklu meiri skuldum. Það er að koma þeim í koll í dag – og þetta er ein af ástæðum vanda þeirra – þótt vissulega séu ástæðurnar fleiri. Þú hlýtur að muna eftir írska prófessornum sem kom hingað um daginn og talaði um svipaðan vanda hjá Írum? Ástandið í þessum skuldalöndum er því ekki bara þeirra eigið sjálfskaparvíti heldur markast m.a. af aðstæðum sem evran hefur skapað.
Lífskjör á Íslandi hafa verið með því sem best gerist í heiminum frá áttunda áratug þessarar aldar. Þegar meðaltekjur á mann eru skoðaðar höfum við oftast verið meðal topp tíu landa í heiminum. Ekki kom krónan í veg fyrir það. Enn eru lífskjör mjög góð hér á landi og fara hlutfallslega batnandi ef haft er í huga góður hagvöxtur hér en lítill í nágrannalöndunum. Afturkippurinn í hruninu var vissulega stór, en hann var tímabundinn, eins og sést á auknum kaupmætti nú. Mér sýnist þú þurfa að skoða hagtölur síðustu áratuga dálítið betur.
Krónan bætir samkeppnisstöðu Íslands. Ef við tækjum upp evru yrðum við læst í efnahagslegri spennutreyju sem myndi bitna jafnt á fjölskyldum sem ríkissjóði.
Grikkir, Spánverjar, Ítalir, Portúgalar og Írar hafa fengið að kynnast því á eigin skinni hvað það er erfitt að vera með evruna. Aðrar Evrópuþjóðir eru uggandi gagnvart þeirri þróun sem er að eiga sér stað og þjóðir eins og Tékkar, Pólverjar og fleiri tala um það að það komi ekki til greina að taka upp evruna þótt þjóðirnar séu í ESB.
Reynslan af evrusvæðinu sýnir að það er ekki hagkvæmt gjaldmiðilssvæði og að erfiðleikar sem við höfum séð þar síðustu ár eru vísast komnir til að vera þar til sambandinu verður breytt í grundvallaratriðum.
Það eru ekki bara kostir sem fylgja hverjum gjaldmiðli, en við verðum að vega kostina og gallana saman. Niðurstaðan af því mati er að það er betra í heild fyrir íslensku þjóðina og hennar framtíð að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil. Þótt krónan hafi fallið í verði gagnvart öðrum miðlum og það skapað vissa erfiðleika um stund þá hefur krónan verið okkur til heilla síðustu áratugina. Það má taka alla gjaldmiðla og sýna að þeir hafi fallið svo og svo mikið í verði, t.d. gagnvart gulli – Bandaríkjadalur hefur t.d. fallið gífurlega í verði gagnvart gulli.
Svo óska ég þess, Ásmunur, að þú takir gleði þína á ný með hinni góðu íslensku krónu – því annað munt þú varla hafa svo langt sem augað eygir.
Stefán (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 10:29
Stefán, það sem gerir krónuna ónothæfa eru gífurlegar sveiflur á gengi hennar.
Á aðeins um 40 árum hefur gengi hennar fallið allavega þrísvar um meira en helming innan tólf mánaða. 2008 var því ekki einstakur atburður sem gerist ekki aftur.
Gjaldmiðill, sem er þess eðlis að þegar gengi hans hrynur hækka lán á sama tíma og tekjur og íbúðarverð lækka, er ónýtur.
Ástæðan er að einstaklingar sem hafa lagt margra ára sparnað í kaup á íbúð tapa þá allri eigninni og sitja uppi með miklu hærri skuldir en íbúðarverðið.
Krónan er ekki nothæf til útlána. Allir vita um reynsluna af verðtryggðum lánum og gengisbundnum lánum.
Nú eiga óverðtryggð lán að vera lausnarorðið. Það er hins vegar ljóst að vanskil á þeim verða gífurleg um leið og verðbólgan fer á skrið enda hækkar greiðslubyrðin þá gífurlega.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 11:21
Stefán, ef ekki hefði komið til aðstoð frá AGS og nágrannaríkjum hefði Ísland orðið gjaldþrota 2008 enda hefðum við ekki fengið lán til að endurfjármagna lán á gjalddaga. Greiðsluþrot hefði blasað við og Parísarklúbburinn hefði tekið yfir okkar mál.
Mikil hætta er á að annað hrun verði með krónu sem gjaldmiðil. Þegar gengi gjaldmiðilsins hrynur hækka erlendar skuldir upp úr öllu valdi. Öfugt við hrunið 2008 eru erlendar skuldir ríkisins nú miklar. Nýtt hrun þýðir að þær verða óviðráðanlegar. Auk þess lokast fyrir okkur erlendir lánamarkaðir nema hugsanlega á okurkjörum.
Dauðaspírallinn sem fylgir krónunni er ógnvekjandi. Það er þó enn meira ógnvekjandi hve margir láta sér hann í léttu rúmi liggja.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 11:39
- - - - - Stefán, ef ekki hefði komið til aðstoð frá AGS og nágrannaríkjum hefði Ísland orðið gjaldþrota 2008 enda hefðum við ekki fengið lán til að endurfjármagna lán á gjalddaga.- - - - -
Segir sami maður og barðist fyrir að koma kúguninni ICESAVE yfir okkur og undir ýmsum nöfnum. Og ver ICESAVE enn. Honum ferst að tala um gjaldþrot ísl. ríkisins.
Elle_, 18.3.2012 kl. 12:56
"Það eru engar kjarabætur sem gætu fylgt evru eða ESB-aðild. Telur þú 20-50% atvinnuleysi hjá vissum hópum og á vissum svæðum vera kjarabætur?"
Stefán, atvinnuástand í evruríkjum hefur engin áhrif á atvinnuástand á Íslandi eftir ESB-aðild. Hvernig ætti það svo sem að vera?
Atvinnuástandið er mjög gott víða í ESB. Atvinnuleysi er minna í mörgum ESB-löndum en á Íslandi og svipað í öðrum. Atvinnuleysið í ESB er frá 4% í Austurríki upp í 23% á Spáni.
Allt bendir til að atvinnutækifærum muni fjölga mikið með ESB-aðild og upptöku evru. Stöðugleikinn sem fylgir evru og tollalækkanir munu bæta samkeppnishæfni Íslands og auka þannig möguleika á meiri útflutningi með auknum atvinnutækifærum.
ESB-ríkin eru sjálfstæð ríki jafnólík hvert öðru og önnur sjálfstæð ríki. Þannig eru td lágmarkslaun í Danmörku meira en tíu sinnum hærri en lágmarkslaun í Búlgaríu.
Það er því fráleitt að halda því fram að atvinnuleysi á Íslandi muni vaxa við ESB-aðild vegna þess að það sé meira að meðaltali í ESB en á Íslandi. Á sama hátt er langsótt að ætla að kjör versni. Þvert á mótu hafa þau alla möguleika á að batna
Laun á Íslandi eru með verra móti miðað við ESB ef austantjaldslöndin eru undanskilin.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 13:28
Ásmundur, minn kæri.
Grikkir fengu aðstoð frá AGS og ESB. Samt urðu þeir gjaldþrota.
Þú verður að athuga að gengi allra gjaldmiðla breytist. Það á líka við um evruna, Bandaríkjadal, jen og aðra miðla. Ef við værum á evrusvæðinu væru áfram sveiflur gagnvart öðrum miðlum. Gengisbreytingar taka einkum mið af gangi hagkerfis í viðkomandi löndum sem ræðst af grunnþáttum þess eins og t.d. árferði - og hér skiptir miklu máli sjávarútvegur, verð sjávarafurða, verð áls, breytileg eftirspurn erlendis og svo framvegis. Ef krónan myndi ekki aðlagast þessum breytingum værum við í verulega slæmum málum.
Eignastæða einstaklinga og fjölskyldna er almennt mun hærri hér á landi en í velflestum Evrópulöndum - m.a. vegna þess að einkaeign á íbúðarhúsnæði er almennt mun algengari. Það hefur sína kosti og galla - en krónan hefur ekki hindrað þessa eignamyndun.
Krónan hefur verið vel nothæf til útlána. Við sjáum það bara á þróun síðustu ára.
Það er ólíklegt að annað hrun vofi yfir. Við erum búin að ganga í gegnum eitt og höfum tekið til ýmissa varna sem ættu að koma í veg fyrri alla hættu á "hruni".
Það er mikill misskilningur að atvinna muni aukast með ESB aðild. Hún hefði þá fremur átt að aukast með aðild að evrópska efnahagssvæðinu, sem hún gerði ekki merkjanlega.
Hins vegar bendir allt til að við yrðum í efnahagslegri spennitreyju með aðild að EMU og evru. Það sem verra er: Það er algjört upplausnarástand á evrusvæðinu nú. Þótt Grikkland sé erfiðasta málið núna þá er lausn ekki fundin á Ítalíu, Spáni né á svæðinu í heild. ... En við skulum nú vona það besta fyrir þeirra hönd.
Stefán (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 14:47
Kæri Ragnar Arnalds,
værir þú til í að svara þeim athugasemdum sem ég geri í færslu 16?
Þær helstu eru hvort þú vitir ekki að þeim fjölmörgu ívilnunum og undanþágum sem auðmönnum bjóðast en ekki almenningi og hvers vegna þú gerir ekki athugasemdir við krónu- og gjaldeyrisútboð Seðlabankans þar sem Seðlabankinn kaupir evrur af auðmönnum á 240 krónur en býðst til að greiða aðeins 165 krónur þegar þær eru keyptar af almenningi.
Kærar kveðjur,
Lúðvík Júlíusson
Lúðvík Júlíusson, 18.3.2012 kl. 14:54
Stefán, þú ofmetur algjörlega þörfina á sveigjanleika gjaldmiðilsins. Auk þess virðistu ekki gera þér grein fyrir skaðsemi þessa sveigjanleika þegar krónan er annars vegar. Við höfum þó verið að súpa seiðið af því allar götur síðan hrun og er ekkert lát á.
Okkur vantar stöðugleika. Stöðugleiki er andstæða sveigjanleika gjaldmiðilsins. Stöðugleikinn eykur samkeppnihæfnina, eykur traust á landinu til að hafa við það viðskipti og bætir bæði lánstraust og lánskjör.
Stöðugleikinn skapar grundvöll fyrir meiri útflutning af margvíslegri gerð. Við það verða til mörg og margvísleg atvinnutækifæri án afskipta opinberra aðila.
Vegna þess hve stór hluti viðskipta evrulanda er innbyrðis á milli þeirra er auðvelt að ráða við sveiflur evrunnar. Vandi sem kann að koma upp varðandi gengi evru er því leystur með einföldum hagstjórnartækjum.
Þar sem verulegur vandi hefur komið upp í evruríkjum hafa menn vanrækt að beita þessum hagstjórnartækjum þegar við átti. Það er eins og þeir hafi sofnað á verðinum vegna vímunnar yfir að vera komnir með evru.
Mörgum löndum á evrusvæðinu hefur gengið vel að aðlaga sig evrunni. Þau er af ýmsum gerðum með mishá laun, misháar tekjur og mismunandi atvinnuvegi. Evran hefur samt hentað þeim. Þetta er spurning um að beita einföldum hagstjórnartækjum og fljóta ekki sofandi að feigðarósi.
Einföld hagstjórnartæki eru mun heppilegri lausn en sveiflur á gengi vegna þeirra eignatilfærslna sem gengisbreyting gjaldmiðla hefur í för með sér og vegna þess trausts sem gjaldmiðillinn þarf að njóta.
Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að vinna vinnuna sína í stað þess að varpa vandanum yfir á almenning með gengisfellingu. Það er framfaraskref ef þeir geta það ekki lengur. Þá hafa þeir engan annan kost en að standa sig. Niðurstaðan verður betra mannval í stjórnsýslunni.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 19.3.2012 kl. 00:57
Hvað er þetta Ásmundur - ertu í fullri vinnu við þessi skrif?
Mér sýnist þú annars vera farinn að endurtaka þig dálítið.
Þú virðist ekki ná því að krónan er að hjálpa okkur út úr vandræðunum. Þú talar niður krónuna eins og sá sem er ekki ánægður með viktina formælir voginni sinni. Það er ekki gjaldmiðillinn sem veldur sveiflum heldur grunnur hagkerfisins og að einhverju leyti hagstjórn.
Það er hins vegar athyglisvert að sjá hjá þér fullyrðingar um að vandi evruríkjanna sé um að kenna vankunnáttu þeirra í að fara með hagstjórnartæki.
Stefán (IP-tala skráð) 19.3.2012 kl. 17:15
Auðvitað vara ég við krónunni. Hún er stórhættuleg. Hún getur valdið okkur þvílíku tjóni að við berum þess aldrei bætur.
Það er nú meira hvað krónan er að hjálpa okkur. Af hennar völdum hækkuðu skuldir upp úr öllu valdi á meðan tekjur og íbúðarverð lækkuðu mikið.
Það er lítil hjálp í að missa umtalsvert eigið fé í íbúð og sitja upp með skuldir umfram söluverð eins og hent hefur marga.
Hætt er við að tjón af völdum krónunnar sé mun meira en hagurinn af því að gengi krónunnar lækkaði. Gengishrunið hefur engin áhrif á sölur á okkar helstu úrflutningsvörum þó að fyrirtækin hagnist meira.
Jafnvel ferðaþjónustan verðleggur sína þjónustu að miklu leyti í evrum. Auðvitað eru jákvæð áhrif einhver en að mínu mati ert tjónið af völdum krónunnar miklu meira.
Það sem villir okkur sýn er að ríkið skuldaði lítið sem ekkert við hrun. Menn einblína því á stöðu ríkissjóðs. Einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög eru hins vegar í djúpum skít af völdum krónunnar.
Ég var að tala um sveiflur á gengi gjaldmiðilsins. Það eru þær sem valda óstöðugu verði svo að erfitt er að gera erlenda samninga nema mjög skammt fram í tímann svo að viðskiptatækifæri tapast.
Sveiflur á gengi krónunnar valda verðbólgu og gera verðtryggingu og háa vexti nauðsynlega sérstaklega ef ekki eru höft.
Vandi evruríkja er alþjóðlegur skuldavandi. Þar sem þessi vandi hefur farið úr böndunum er það vegna þess að menn hafa sofnað á verðinum.
Með einföldum hagstjórnartækjum hefði verið auðvelt að koma í veg fyrir vandann á sama hátt og það hefði verið auðvelt að koma í veg fyrir ofvöxt íslensku bankanna með einföldum hagstjórnartækjum.
Þetta er þó mun auðveldara í evruríkjum vegna þess að stór hluti viðskipta evruríkja er við hvert annað. Það virðist hins vegar taka tíma fyrir sumar þjóðir að átta sig. Þær þurfa fyrst að brenna sig.
Ég svara hverri athugasemd fyrir sig. Þá verður ekki komist hjá endurtekningum. Það lesa heldur ekki allir allar athugasemdirnar.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 19.3.2012 kl. 17:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.