Þjóðverjum finnst þeir vera að moka í botnlausa tunnu

Það fé sem ætlað er til bjargar Grikkjum í þeim vandræðum, sem evran hefur komið þeim í, staldrar ekki við í Grikklandi nema að nafninu til. Það rennur til baka til lánardrottna Grikkja, einkum til þýskra og franskra banka.

Þýsk og frönsk stjórnvöld hafa haft forystu um nýja og nýja lánapakka til Grikkja fyrst og fremst í þeim tilgangi að bjarga eigin skinni, þ.e. eigin bönkum. En þrátt fyrir seinasta björgunarpakkann, sem nú er verið að útbúa, virðast flestir sammála um að með honum sé aðeins verið að fresta vandanum. Grikkland sekkur dýpra og dýpra í skuldafenið.

Það er því engin furða þótt innanríkisráðherra Þýskalands, Hans-Peter Friedrich, láti í ljós þá skoðun að best sé fyrir Grikki „að yfirgefa evru-svæðið. Með því séu meiri möguleikar fyrir landið að verða samkeppnishæft á ný," eins og lesa má í meðfylgjandi frétt mbl.is.

Evrusvæðið bauð Grikkjum upp á gjaldmiðil sem hentaði alls ekki efnahagsaðstæðum þar í landi. Hátt gengi evrunnar varð til þess að erlendar vörur og annar innflutningur varð mjög ódýr og vextirnir lágir. Þar af hlaust mikil eyðsla og miklar erlendar lántökur sem lítil innistæða var fyrir. Efnahags- og atvinnulíf var einfaldlega byggt á fölskum forsendum. Loftbóluhagkerfið þandist út og að því kom að skuldirnar urðu óviðráðanlegar.

Á Íslandi varð ekki ósvipuð þróun um skeið og gengi íslensku krónunnar varð mjög hátt 2006-7. Ef við Íslendingar hefðum verið í ESB og á evrusvæðinu á liðnum áratug hefðum við verið tilneydd að taka gífurleg lán til bjargar íslensku bönkunum sem skulduðu bönkum í Þýskalandi og víðar tífalt verðmæti íslenskrar landsframleiðslu.

En vegna þess að við bjuggum við sjálfstæðan gjaldmiðil og vorum ekki í ESB gátum við sett neyðarlögin í október 2008 og gátum þar með endurskipulagt bankakerfi okkar frá grunni. Við settum á gjaldeyrishöft sem við erum nú smám saman að vinna okkur út úr. Gengisfall krónunnar var óhjákvæmileg afleiðing af bankahruninu sem vissulega skapaði margvísleg vandamál. En lágt gengi krónunnar hefur jafnframt gert okkur kleyft að vinna okkur út úr vandanum jafnt og þétt. Gjaldeyrisöflun gengur vel og hagvöxtur er að aukast. Gjaldeyrislánin sem fengist hafa frá AGS og norrænum ríkjum hafa ekki runnið jafnóðum út úr landinu, eins og gerst hefur í Grikklandi, heldur nýtast þau hér eingöngu sem varasjóður og öryggisventill.

Innanríkisráðherra Þýskalands lítur bersýnilega svo á að nýir og nýir björgunarpakkar gegni því eina hlutverki að fresta því að raunverulega sé tekið á vanda Grikkja og það sé álíka mikil hjálp í þessum lánapökkum og því að pissa í skó sinn til að halda á sér hita. Best sé fyrir alla aðila málsins að Grikkir hverfi af evrusvæðinu og geti þannig fengið hreint borð. Með öðrum orðum: þeir verði einfaldlega að fara íslensku leiðina. - RA

 


mbl.is Möguleikar Grikkja meiri utan evrusvæðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sælir vinstri vakendur! Norðan sem og að austan.

Gætuð þér sett link á þetta skjal er tekið er til umræðu hér:

http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1222326/

Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.2.2012 kl. 18:27

2 identicon

Hér er verið að villa um fyrir fólki og kannski sjálfum sér um leið. Það er verið að gera einfalda hluti flókna.

Evran hentar öllum þjóðum sem lifa ekki um efni fram. Reyndar hentar engum að lifa um efni fram. Það hefur alltaf mjög óheppilegar og oft skelfilegar afleiðingar.

Gengislækkunarúrræðið sem andsinnar hrósa er í reynd neyðarúrræði vegna þeirra eignatilfærslna sem það leiðir til.

Þá er ég ekki aðeins að tala um óhjákvæmilegar eignatilfærslur vegna gengismunar heldur ekki síður hvernig sumir eru í aðstöðu til að stórhagnast á því að notfæra sér ástandið á kostnað almennings.

Það getur verið gott að hafa gengislækkunarúrræðið ef það er ekki misnotað og aðeins er gripið til þess í algjörum undantekningartilfellum. Þannig virkar það þar sem góð hagstjórn er stunduð.

Gengislækkunarúrræðið er engin nauðsyn. Þjóðum sem misnota það er hollt að hafa það ekki rétt eins og áfengissjúklingum er hollt að hafa ekki aðgang að áfengi.

Þetta á við okkur. Því veldur krónan. Það er útilokað að stunda góða hagstjórn með krónu. Ástæðan er ýkt viðbrögð hennar við hvers kyns áreiti. 

Allir vita að þegar gengi krónunnar lækkar þá eykst verðbólgan. Við það minnkar kaupmáttur launa svo að þrýst er á launahækkun. Launahækkun veldur svo enn meiri verðbólgu.

Til að koma í veg fyrir að verðbólga verði miklu meiri  hér en td í evrulöndum þurfa verðhækkanir og launahækkanir að ganga tilbaka þegar gengi krónunnar hækkar.

Verð lækkar þó aðeins að mjög takmörkuðu leyti og laun lækka aldrei. Það er útilokað að slíkar leiðréttingar get gerst í frjálsu hagkerfi. Krónan er því ónýt sem gjaldmiðill. Hún hefur of litla útbreiðslu og er því allt of viðkvæm fyrir áreiti. Mikil verðbólga til lengdar er því óhjákvæmileg með krónu.

Með evru þurfa Íslendingar aðeins að beita eðlilegri hagstjórn sem hefur ekki dugað með krónu.

Eðlileg hagstjórn er að hækka skatta, draga úr opinberum framkvæmdum og minnka skuldir eða safna sjóðum þegar vel árar. Þá hafa menn eitthvað upp á að hlaupa í samdrætti og geta aukið opinberar framkvæmdir og lækkað skatta til að efla hagkerfið og auðvelda fólki erfiðan róðurinn.

Valið um evru eða krónu er því val um heilbrigða hagstjórn eða ekki. Það er val um fjárhagslegt öryggi. Það er val um að losa þjóðina undan löglegri spillingu á kostnað almennings. Þetta er spurning um mannréttindi.

Ísland er ríkt land. Evran mun auðvelda okkur að dreifa auðævunum tiltölulega jafnt. Krónan hvetur til hvers kyns brasks og auðveldar mikla misskiptingu auðæva og veldur oft mjög sáraukafullu skyndilegu eignatapi. 

Síðast en ekki síst eru þær efnahagslegu hamfarir sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur krónunnar mikill friðarspillir.   

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 27.2.2012 kl. 10:02

3 identicon

Ásmundur segir: "Hér er verið að villa um fyrir fólki og kannski sjálfum sér um leið."

Hahahahahahahahahaaaa!!!  Brilliant!

Líttu í spegil maður!!

palli (IP-tala skráð) 27.2.2012 kl. 10:34

4 identicon

Margir hafa líklega litla trú á að Íslendingar geti stundað heilbrigða hagstjórn. Þeir byggja þá skoðun á ömurlegri reynslu síðustu áratuga. Þess vegna telja þeir að gengislækkunarúrræðið sé nauðsynlegt.

Þetta er misskilningur. Ástæðan fyrir því að Íslendingar hafa aldrei getað stundað heilbrigða hagstjórn er ekki að við séum svona miklir aular. Ástæðan er gjaldmiðillinn. Eftir upptölu evru verður heilbrigð hagstjórn auðveld ef tveim skilyrðum er fullnægt:

1)Hæfir menn verða valdir til að fara með yfirstjórn efnahagsmála. Það er enginn hörgull á þeim meðal Íslendinga.

2) Stjórnmálamenn mega ekki lofa upp i ermina á sér og knýja á að þau loforð verði efnd þó að slíkar kröfur rýmist ekki innan fjárlaga.

Heilbrigð hagstjórn gengur út á að halda opinberum framkvæmdum í lágmarki þegar vel árar, hækka skatta og greiða niður skuldir eða safna sjóðum.

Þá verður auðvelt að komast í gegnum samdrátt eða kreppu með því að efla hagkerfið með skattalækkunum og auknum opinberum framkvæmdum.

Ávinningurinn af að taka upp heilbrigða hagstjórn með upptöku evru verður gríðarlegur fyrir almenning eins og oft hefur verið bent á.

Því verður ekki trúað að Íslendingar séu þeir aular að kjósa yfir sig ónýtan gjaldmiðil með öllum þeim hörmungum sem honum fylgja lengur en nauðsynlegt er.

Eru menn tilbúnir til að standa í rifrildi og málaferlum árum saman um lækkun á skuldum í hvert skipti sem krónan hrynur? Afleiðingarnar geta orðið skelfilegar.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 28.2.2012 kl. 00:50

5 identicon

Ein af afleiðingum þess að vera með ónýtan gjaldmiðil er að fjármálastofnanir eru í mestu vandræðum með hvernig þær eiga að lána út fé. 

Ekki er hægt að lána út fé með sama hætti og flestar aðrar þjóðir - óverðtryggt með hóflegum vöxtum. Það var gert fyrir tíma verðtryggingar og reyndist hörmulega. Vextir voru stórlega neikvæðir svo að sparifé og lífeyrissjóðir rýrnuðu niður í brot af upprunalegu raunvirði.

Þá voru tekin upp verðtryggð lán sem hafa verið aðallánsformið á langtímalánum í rúm 30 ár. Nú hafa annmarkar þeirra komið í ljós eins og allir vita.

Reyndar komu þeir einnig fram fáeinum árum eftir að verðtrygging var tekin upp þegar gengi krónunnar hrundi um meira en helming á tólf mánaða tímabili. 

Fáeinum árum fyrir hrun fóru Íslendingar að taka erlend lán (sem til allrar hamingju voru dæmd íslensk vegna mistaka bankanna). Menn trúðu því að þannig fengju þeir sömu lánskjör og íbúar evrulanda.

Annað kom á daginn. Þeir höfðu lokað augunum fyrir því að gengið gæti hrunið þó að fyrir því væri reynsla td 1967-1968 og 1982-1984. Það var því hæpið að tala um forsendubrest.

Nú er lausnin óverðtryggð lán þar sem allir áfallnir vextir eru greiddir upp jafnóðum á gjalddögum. Ljóst er að þetta lánsform gengur ekki til lengdar nema raunvextir verði neikvæðir með þeim afleiðingum að sparifé og lífeyrissjóðir gufa upp.  

Ef vextir fylgja verðbólgustiginu munu flestir lántakendur verðtryggðra lána lenda í vanskilum þegar verðbólgan fer á skrið vegna þess hve vaxtaþáttur greiðslna er orðinn gífurlega hár.

Af þessum þrem lánformum hafa verðtryggð lán reynst skást enda hafa þau nú lifað góðu lífi í á fjórða áratug. Lánskjör hafa þó verið miklu óhagkvæmari hér en td í evrulöndum.

Það er þó fyrst og fremst vegna hárra vaxta ofan á verðtrygginguna en ekki vegna verðtryggingarinnar. Jafn veikur gjaldmiðill og krónan nýtur eðlilega lítils trausts.

Vextir verða því að vera háir til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta úr landi eftir að gjaldeyrishöft hafa verið afnumin.

Það er því bráðnauðsynlegt að taka upp evru við fyrsta tækifæri ef við ætlum að losa okkur við stórskaðleg gjaldeyrishöft. Annars sitjum við uppi með ómöguleg lánsform og miklu verri lánskjör en evruþjóðir. 

Almennt virðast menn gera sér grein fyrir að nauðsynlegt er að að afnema gjaldeyrishöft ef Ísland á ekki að einangrast (að vissu marki) og dragast aftur úr öðrum þjóðum. 

Við þær aðstæður er krónan og íslenskt efnahagslíf í mikilli hættu. "Eðlilegar" sveiflur á gengi krónunnar eru stórskaðlegar, meðal annars vegna mikillar verðbólgu af hennar völdum.

Það sem er þó enn verra er að vogunarsjóðir eiga auðvelt með að keyra gengi krónunnarnnar niður úr öllu valdi með skortsölu sem gæti hæglega valdið nýju og  miklu verra hruni en 2008.

Íslensk króna og afnám gjaldeyrishafta eru því ósamrýmanleg án þess að valda miklum skaða.  Evran leysir vandann.   

Ásmundue Harðason (IP-tala skráð) 28.2.2012 kl. 09:06

6 identicon

Já, sko, Ásmundur. Þú ert búinn að vera að segja sama hlutinn aftur og aftur. Spyrðu sjálfan til aldrei að tilganginum með þessu? Þú ert ekki að ná neinum árangri. Ekki neinum. Það er enginn sem hlustar á þig. Er það ekki augljóst? Þú ert rakkaður niður aftur og aftur, en ertu virkilega að búast við að einhver lesi þessar langlokur þínar, sem segja bara það sama aftur og aftur og aftur.

Þú veist að skilgreiningin á geðveiki er að endurtaka sama hlutinn aftur og aftur, en búast við mismunandi niðurstöðum.

Sérðu ekki hvernig það á við, við þitt hegðunarmynstur? Er þetta ekki nokkuð augljóst?

Blessaður reyndu nú að ná taki á sjálfum þér. Það er fullt af sérfræðingum sem geta hjálpað þér og útvegað geðlyf við hæfi.

Þú þarft að taka pásu frá sjálfum þér, reyna að gera eitthvað nýtt. Þessi þráhyggja þín er hræðileg upp á að horfa.

Og mundu þegar þín heimsmynd hrynur eða þegar þjóðin tekur þetta aðlögunarferli og treður því, að þá er sjálfsmorð engin lausn. Leitaðu að fólki sem vill og getur hjálpað þér. Það er engin skömm í því.

Gangi þér vel.

palli (IP-tala skráð) 28.2.2012 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband