Aðvörunarorð sem Össur og Jóhanna fást ekki til að hlusta á
4.2.2012 | 11:22
Á sama tíma og Össur og Jóhanna hamast við að koma okkur í ESB til að taka upp evru eru hagfræðingar víða um heim að vara við því að evrusvæðið sé meingallað og muni fyrr en síðar klofna eða jafnvel hrynja, jafnvel þótt það sleppi yfir erfiðasta hjallann í ár.
Álit ýmissa sérfræðinga og stjórnmálamanna um framtíð evrunnar (The experts' view on the euro's future: it doesn't have one) á vefsvæði enska blaðsins The Independent s.l. fimmtudag hefur vakið mikla athygli. Almennt hafa þeir litla trú á að nýr sáttmáli ESB um fjármálastöðugleika, EFC - European Fiscal Compact, muni nokkru breyta til hins betra þótt almennt sé talið að bráðavandi Grikklands verði þó leystur til bráðabirgða. Margir telja sáttmálann illframkvæmanlegan, niðurskurður ríkisútgjalda verði alltof krappur og hafi þveröfug áhrif með því að hamla vexti en ekkert sé gert til að leysa hinn raunverulega vanda evrusvæðisins. Hér eru nokkur sýnishorn:
Evrusvæðið er hægfara lestarslys... Það eru helmingslíkur á að evrusvæðið leysist upp á næstu þremur til fimm árum. - Nouriel Roubini, prófessor í hagfræði.
Evrusvæðið getur ekki staðist (cannot survive) í núverandi formi. Það táknar annað hvort að hrun þess er óhjákvæmilegt eða það verður að umbreytast hratt og renna saman í eitt sambandsríki... Ég tel að evran sé gölluð í grundvallaratriðum. - Gerard Lyons, hagfræðingur
Spurningin er hvað gerist á síðara stigi (þ.e. eftir núverandi björgunaraðgerðir). Það sem fólk hefur ekki áttað sig á er að undirliggjandi skuldavandi Grikklands, Ítalíu, Portúgals, Spánar og Írlands er enn of mikill til að standast til lengdar." - Vicky Pryce, hagfræðingur
Vandamálið er að sá niðurskurður ríkisútgjalda sem Þjóðverjar vilja knýja önnur ríki til að framkvæma mun þrýsta Evrópu inn í skuldagildru samdráttarskeiðs (a deflationary debt trap). - George Soros, fjárfestir
Ég held að enginn geti í raun og veru haldið því fram að evrusvæðið muni standast með núverandi aðildarríkjum... - Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands
Til lengdar mun evrusvæðið ekki ganga upp. Það hentar ekki tilgangi sínum og var hugsanlega mestu pólítisku mistökin sem gerð hafa verið síðan 1945. Ástæðan fyrir því að það gengur ekki upp er ekki núverandi kreppa heldur kreppa samkeppnishæfni (a crisis of competitiveness). Ítalía, Grikkland, Spánn og Portúgal eru ekki nægilega samkeppnisfær miðað við Þýskaland og ég trúi ekki á það að þær sparnaðarráðstafanir og niðurfærsla verðlags og launa sem þörf er á til að þau verði samkeppnisfær muni pólitískt séð ná í gegn. - Lord Lamont, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta
Evrusvæðið er gallað í grundvallaratriðum og stenst ekki. - Nigel Lawson, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta
Sannleikurinn er sá að í fyrsta lagi eru of mörg lönd á evrusvæðinu og umfram allt geta þau líklega ekki komist af án átakamikilla umbreytinga." - Jim O´Neil, stjórnarformaður eignastýringar Goldman Sachs
Matsfyrirtækið Standard and Poor's hafði rétt fyrir sér þegar það lýsti því yfir um leið og það lækkaði lánshæfismat Frakklands og nokkurra annarra ríkja (á evrusvæðinu) í seinasta mánuði að sparnaðaraðgerðir einar og sér gætu í reynd verkað gegn tilgangi sínum (becoming self-defeating). - Ed Balls, "skugga"fjármálaráðherra Bretlands
Er ekki tími til kominn að flugfreyjan Jóhanna og hennar lið komi loksins niður úr skýjunum og horfist í augu við raunveruleikann eins og hann blasir við á evrusvæðinu?
Athugasemdir
Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi 2011 er 77%. Atvinnuþátttaka kvenna í EU27 2010 er 58% Innganga í ESB og upptaka atvinnuleysisstefnu ESB mun bitna harðast á konum. Atvinnuleysi kvenna í ESB er 10,3% í 58% atvinnuþátttöku sem þýðir að hátt í 20.000 konur á Íslandi geta búist við því að vera sendar heim fljótlega eftir inngöngu Íslands í ESB til að ná ESB meðaltalinu þ.e ef staðhæfingin ESB-ista um að Ísland fái meðaltöl ESB á færibandi við inngöngu eigi að standast.
Seðlabanka Evrópu (ECP) er bannað að vera lánveitandi til þrautavara. Mýtan um að seðlabanki Evrópu verði bakjarl fyrir íslenska banka eftir inngöngu í ESB á ekki við rök að styðjast.
Evrópusambandið niðurgreiðir verð á kjúklinga og svínkjöti. Engar niðurgreiðslur eru á kjúklinga og svínakjöti á Íslandi, við ótakmarkaðan innflutning á niðurgreiddu kjúklinga og svínakjöti frá Evrópusambandinu þá mun þessi iðnaður leggjast af hérlendis með tilheyrandi atvinnuleysi nema íslenskir skattgreiðendur séu tilbúnir að niðurgreiði verð á þessu kjöti eins og skattgreiðendur í Evrópusambandinu.
Raforkuverð á Íslandi mun hækka varanlega um 300-400% fljótlega eftir ESB aðild. Raforkuverð á Möltu hefur hækkað um 300% eftir inngöngu í ESB 2004 en samt var það mun dýrara fyrir aðild en hér, núna er það 450% hærra en hér á landi þótt tekjur á Ísland séu 60% hærri.
Lönd sem sækjast eftir inngöngu í ESB eru öll mjög fátæk og eru meðaltekjur þessara landa 400% til 1.300% lægri en meðaltal ESB og 600% til 2.100% lægri en á Íslandi. Umsóknarríki í ESB er klúbbur fátækra ríkja sem eru að ná sér í ókeypis fé af löndum eins og Íslandi, þegar listi umsóknarríkja er skoðaður þá stendur Ísland þarna út úr eins og skrattinn úr sauðalæknum.
Húsnæðiskostnaður sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eftir löndum: Danmörk 33,3% , Þýskaland 27,5%, Finnland 17,5%, Svíþjóð 21,1%, Noregur 20,7%, Ísland 21%, Bretland 28.9%, Sviss 26,4%. Mýtan um að húsnæðiskostnaður á íslandi sé mjög hár í samanburði við önnur lönd af því að við séum ekki í ESB á ekki við nein rök að styðjast. Eins og við vitum þá eru afborganir lána stærsti einstaki liðurinn í útgjöldum til húsnæðis.
Eggert Sigurbergsson, 4.2.2012 kl. 11:52
Fátækravæðing jaðarhagkerfa Evrópu er á fullri ferð.
Afþjóðernissering Evrópu er hafin og brátt mun þjóðsöngur Evrópu "ode to joy" hljóma í stað núverandi þjóðsöngva aðildarlanda og samhliða mun Evrópska ríkisfangið verða æðra en ríkisfang aðildarlandanna.
Þegar Evran var sett á stofn þá var meginmarkmið hennar að flýta samruna þjóða Evrópu í eitt ríki, feður Evrunar vissu að næsta heimskrísa mundi færa þeim gullið tækifæri til að fátækravæða ósamkepnishæf hagkerfi í Evrópu sem mundi færa Þýskalandi og Frakklandi stóraukin auð og völd.
Feður Evrunar vissu að hrun A-Evrópu 1989 bauð upp á einstakt tækifæri til að sölsa undir sig þessi fátæku ónýt lönd enda eru einu umsóknarlöndin um inngöngu í sæluna A-Evrópsk lönd eða lönd sem eru undir forrræði heittrúaðra þjóðernisjafnaðaermanna eins og Íslands. Ástæðan fyrir flumbrugangi við að koma Evruni á flot var að sjá til þess að A-Evrópu löndin, sem skriðjökullinn USSR skildi eftir, næðu ekki að þroskast í átt til sjálfsvitundar og lýðræðis heldur yrðu sogðu beint inn í ESB og þyrftu þau því enga sérstaka fátækravæðingarmeðferðar við eins og t.d Grikkland, Ítalía, Spánn og Írland.
Það stóð aldrei til að ESB yrði eitthvað tollabandalag heldur var því bara otað að fávísum lýðnum til að plata hann í gin ljónsins svo að engin undankoma væri fyrir hendi þegar skoltar Þýskalands og Frakkland skyllu saman í hið Þýsk/Franska stórríki. Þessi ríki, Þýskaland/Frakkland, eru búin að heyja stríð í mörg hundruð ár til að búa til stórríkið undir sinni forsjá en sáu sína sæng upp reidda og tóku því höndum saman og ætla því að deila gósinu sín á milli allavega svona til að byrja með.
Eggert Sigurbergsson, 4.2.2012 kl. 12:36
Eggert, þessi ESB-meðaltöl skipta engu máli varðandi ESB-aðild Íslands. Ástandið er einfaldlega mjög mismunandi á öllum sviðum í löndum ESB.
Td er atvinnuleysið 5-6 sinnum meira á Spáni en í Austurríki og lágmarkslaun 12-13 sinnum hærri í Danmörku en í Búlgaríu.
Atvinnuþátttaka kvenna byggist mikið á mismunandi hefð í þessum löndum.
Það er fráleitt að gefa í skyn að atvinnutælifærum kvenna á Íslandi muni fækka með inngöngu í ESB vegna þess að hún sé minni að meltali í ESB-löndum.
Ástæðan er mismunandi hefð en einnig er atvinnuleysið einfaldlega mjög mismunandi í ESB-löndum eins og áður segir.
Það er furðulegt að einblína á þau lönd sem nú eru að sækja um aðild í stað þess að horfa á allar ESB-þjóðirnar.
Það gerir ESB ekki verra þó að við höfum ekki sótt um aðild fyrir mörgum árum ásamt þeim löndum sem þá gengu í sambandið.
Ég kannast ekki við neina mýtu um að húsnæðiskostnaður á Íslandi sé mjög hár. Hins vegar er greiðslubyrði lána um tvöfalt hærri en í evrulöndum.
Aðalástæðan fyrir því að heildarhúsnæðiskostnaður er ekki hærra hlutfall er eflaust lágt orkuverð.
Meðaltal húsnæðiskostnaðar á Íslandi segir ekki alla söguna. Vegna þess ójöfnuðar sem fylgir krónunni eru tiltölulega margir skuldlausir og aðrir því þeim mun skuldugri.
Seðlabanki Evrópu, ECB, hefur undanfarið verið að lána evrópskum bönkum í vanda. Það er því rangt að halda því fram að hann sé ekki bakhjarl þeirra. Hann hefur hins vegar alfarið neitað að lána ríkjum og sagt að það væri ekki hlutverk hans.
Kjúklinga- og svínakjötsframleiðsla á Íslandi hefur í raun verið stórlega niðurgreidd í formi mikilla gjaldþrota í þessum greinum. Það er ekkert að því að óarðbær framleiðsla leggist niður og í staðinn verði tekin upp arðbærari framleiðsla.
Aukning í fullvinnslu fiskafurða til útflutnings um allt land vegna tollaívilnana mun væntanlega gera miklu meira en að bæta fyrir minni kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu.
Stöðugleikinn sem fylgir evru mun gera Ísland mun samkeppnishæfara við önnur lönd. Það leiðir til meiri útflutnings sem mun skapa fleiri atvinnutækifæri.
Raforkuverð á Íslandi mun að sjálfsögðu ekki hækka neitt vegna inngöngu í ESB enda er raforka á Íslandi ekki í samkeppni við raforku erlendis frá.
Ef tilkoma rafstrangs hefur áhrif á raforkuverð á Íslandi þá breytir ESB-aðild engu þar um. EES-samningurinn hefur sömu áhrif.
Ísland er allt of lítil eining til að geta spjarað sig án bandamanna í heimi alþjóðavæðingar. Krónan verður eins og korktappi í ólgusjó, varnarlaus gagnvart utanaðkomandi áhrifum.
Gjaldeyrishöft með krónu eru því nauðsynleg til frambúðar með tilheyrandi spillingu, lífskjaraskerðingu og einangrun.
Gjaldeyrishöft til farmbúðar samrýmast ekki EES-samningnum. Það er því væntanlega sjálfhætt þar.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 4.2.2012 kl. 17:54
Það er margt sem fólk leggur ekki hugan að í sambandi við það sem er betra hér en í Evrópu til dæmis húshitunarkostnaður er svo margfalt hærri það, að allir eru með brennsluofna einn eða fleiri í húsum sínum sem kynnt er upp með timbri allan veturinn. Í mörgum húsum hefur fólk ekki ráð á að kynda húsin með olíu eða gasi, og verður að kynda fyrir heita vatninu með brennsluofni í kjallara til að hita upp vatnið í baðið. Margir hafa ekki annað heitt vatn dags daglega. Þegar maður ferðast niður Evrópu alveg frá nyrstu sýslum til Austurríkis og jafnvel enn neðar má sjá timburhlaða við hvert hús sem fólk hefur annað hvort keypt eða á trjáskika eða fær að fella sér tré hjá trjábændum. Mengunin er svakaleg og ekki góð fyrir fólk með öndunarfæra sjúkdóma, því reyk leggur yfir heilu byggðarlögin eftir kl. fjögur á daginn, þega fólk fer að kynda upp í kamesinu. Sumir loka jafnvel hluta hússins yfir veturinn til að spara kyndingu. Og hita þá bara eldhúsið og svefnálmuna. Sitja jafnvel fyrir framan sjónvarpið á kvöldin íklædd úlpun og ullarsokkum.
Þetta þætti okkur nú ekki boðlegt. Það er margt gott í útlöndum, en það er líka margt gott í okkar samfélagi. Það er bara misjafnt hvað við viljum. Sá sem ekki getur haft reiður á eyðslu sinni er sennilega betur komin á meginlandinu, þar sem þeir fá ekki fyrirgreiðslu nema geta sýnt fram á að þeir eigi fyrir skuldbindingum sínum. Öfugt við hér þar sem fólk hefur getað til skamms tíma skuldbundið ættingja, vini og vandamenn í ófhófsneyslu. Og það er líka vandamálið, hér er óhóf hjá alltof mörgum sem þeim dytti aldrei í hug að gera annarsstaðar, svo skrýtið sem það nú er.
Þannig að bottom lænið er að við getum haft það alveg jafn gott hér og jafnvel betra ef við sýnum ráðdeild og sparnað í daglegum rekstri. Og við þurfum svo sannarlega ekki að ganga inn í Evrópusambandið til að hafa það gott. Við höfum það best bara með því að vera sjálfstæði og njóta þess sem auðlindir landsins gefa okkur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.2.2012 kl. 23:35
Ásthildur, hefurðu ekkert hugleitt hvað það getur leitt yfir okkur að vera án bandamanna í heiminum með krónu sem gjaldmiðil?
Hefurðu ekkert hugleitt að það krefst gjaldeyrishafta til frambúðar með öllum þeim hörmungum sem þeim fylgja til lengdar?
Gjaldeyrishöft leiða yfir okkur mikla spillingu, mikla lífskjaraskerðingu almennings og einangrun frá Evrópu.
Við getum ekki stundað vinnu þar né nám nema í undantekningartilvikum. Þetta verður með allt öðrum hætti en áður en við gengum í EES.
Ásóknin í störf og nám í Evrópu hefur aukist en framboðið minnkað. ESB- og EES þjóðunum hefur fjölgað mikið. Þær hafa forgang á störf og nám.
Við þekkjum stöðu þeirra sem eru frá löndum utan EES-svæðisins hér á landi.
Það gefur okkur góða vísbendingu um hvers er að vænta fyrir okkur ef við göngum úr EES sem við við væntanlega neyðumst til vegna gjaldeyrishafta til frambúðar.
Fólk, einkum ungt fólk, mun ekki sætta sig við slíkt ástand fyrir Íslendinga í Evrópu.
Það gengur ekki að vera með frjáls viðskipti með íslenskar krónur. Gengissveiflurnar verða allt of miklar.
Það er ekki boðlegt að lán hækki á sama tíma og laun standa í stað og íbúðarverð lækkar en verðlag hækkar.
Það er ekki boðlegt að eigið fé sem er lagt í íbúðarhúsnæði gufi upp og skuldir verði meiri en söluverð íbúðarinnar.
Fyrirtækjum er ekki bjóðandi að rekstrarskilyrði breytist skyndilega vegna gengisbreytinga á krónu þannig að blómlegur rekstur verður vonlaus.
Allt hefur þetta mjög slæm áhrif á móralinn í landinu svo að fólk flýr unnvörpum til útlanda. Við þurfum stöðugleika.
Annars virðistu ekki gera þér grein fyrir hve aðstæður í ESB-löndum eru mismunandi allt frá því að vera miklu verri en á Íslandi upp í vera miklu betri.
Stöðugleikinn með miklu betri lánskjörum og miklu betri samkeppnishæfni Íslands við önnur lönd og meiri tollaívilnunum mun tryggja mun betri lífskjör en við búum við í dag.
Ísland án bandamanna í heiminum með ónýtan gjaldmiðil á tímum alþjóðavæðingar er skelfileg framtíðarsýn. Krónan verður eins og korktappi í ólgusjó, algjörlega varnarlaus gagnvart utanaðkomandi áhrifum.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 5.2.2012 kl. 10:45
Ég veit ekki betur en við höfum lifað hér góðu lífi síðan við urðum sjálfstæð þjóð og losnuðum undan myglaða mjölinu danska. Þó krónan hafi farið upp og farið niður þá hefur okkur liðið vel. Og hver segir að við munum ekki eiga bandamenn meðal annara þjóða? Í stað þess að hafa takmarkaðan aðgang að "vinum" og "bandamönnum" verðum við í góðu sambandi við ALLAN heimin en ekki bara örfá ríki. Við erum líka í góðu sambandi við Norðurlöndin. Fyrir utan að ég hef fulla trú á íslenskri þjóð og þeim auðlindum sem hún á og hefur umráð yfir meðan við stöndum utan við svona bandalag.
Ég óttast það ef ykkur tekst að troða okkur þangað inn að við verðum þrælar án réttar, það get ég ekki sætt mig við, og vil ekki skilja mitt gjöfula land eftir í slíkum krumlum þegar barnabörnin mín eiga að erfa landið. Þess vegna mun ég berjast gegn þessu af alefli eins og ég get meðan nokkur lifandi strengur er eftir í mínum skrokki. Ég lít á ykkur sem landráðafólk sem þannig hagið ykkur, því miður ég bara get ekki að því gert. Þið eruð ekki íslengingar heldur fólk sem þorir ekki að standa í eigin lappir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.2.2012 kl. 14:21
Ásthildur, gerirðu þér enga grein fyrir að eftir bankahrunið var Ísland í raun gjaldþrota? Það sem bjargaði okkur var aðstoð AGS og nokkurra nágrannaríkja sem var veitt með skilyrðum sem við stóðum ekki við.
Án þessarar aðstoðar hefðum við lent í greiðsluþroti vegna skorts á lánsfé eða vegna þess að lán fengust aðeins á kjörum sem við gátum ekki staðið undir.
Annað sem bjargaði okkur voru neyðarlögin þar sem lögvarðar eigur lánardrottna voru fluttar til innistæðueigenda bankanna.
Hve vel við sluppum úr þessu fordæmlausa hruni (sem er reyndar fullsnemmt að fullyrða neitt um) skýrist eflaust að miklu leyti af ESB-umsókninni.
Við getum ekki átt von á sömu silkihanskameðferðinni ef við höfnum ESB. Þá verðum við meðhöndluð eins og hver önnur fullvalda þjóð eftir úrsögn úr EES-samstarfinu.
Eins og ég hef margoft fært rök fyrir ganga frjáls viðskipti með krónu ekki upp. Það er aðeins tímaspurning hvenær krónan myndi hrynja niður úr öllu valdi og gera erlendar skuldir óviðráðanlegar.
Erlendir vogunarsjóðir fara létt með að keyra krónuna niður úr öllu valdi með skortsölu. Greiðsluþrot ríkisins blasir þá við.
Gjaldeyrishöft eru skammgóður vermir vegna spillingar, ójöfnuðar og lífskjaraskerðingar samfara þeim. Auk þess eru þau engin trygging fyrir að gengi krónunnar hrynji ekki sbr 1967-68 og 1983-84.
Í bæði skiptin féll gengið um meira en helming á innan við 12 mánuðum eins og 2008.
Eftir bankahrun höfðum við enga bandamenn. Jafnvel Norðmenn, hvað þá hinar norðurlandaþjóðirnar, stóðu með ESB gegn okkur. Við litum helst til Rússa eftir aðstoð sem þegar á reyndi gátu heldur ekki aðstoðað vegna slæms ástands heima fyrir.
Finnst þér fýsilegra að hafa sem bandamenn þjóðir sem eru alræmdar fyrir mannaréttindabrot frekar en helstu lýðræðisþjóðir heims? Í vanda munu þær ekki sýna okkur neina miskunn.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 5.2.2012 kl. 17:34
Já ég geri mér grein fyrir því að hér varð hrun, ég geri mér líka grein fyrir því að við þurftum aðstoð. En hvað hefur það með ESB að gera? Ef hagvöxtur hér er meiri en í ESB löndunum nú þegar, hvað höfum við þá þangað að sækja.
Vísir menn segja að þó við gengjum í ESB í dag myndu líða a.m.k. 6 ár þangað til við gætum tekið upp evruna ef hún verður þá til eftir þau ár. HVað eigum við að gera á meðan? Ef við getum ekki lifað án evrunnar, hvað eigum við þá að gera meðan við bíðum eftir að komast í sæluna og peningapottinn hjá ESB? Viltu svara því?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.2.2012 kl. 17:50
Ásthildur, hagvöxtur kemur þessu máli ekkert við.
Það var mikill hagvöxtur hér á árunum fyrir hrun. Samt hrundi allt. Krónan og skortur á bandamönnum valda því að hætta á hruni er margfalt meiri en ella.
Auk þess fáum við auðvitað ekki meðalhagvöxt í ESB eftir inngöngu. Hann er meiri í mörgum löndum ESB en hér og minni í öðrum. Hann getur vel hækkað við inngöngu í ESB.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 5.2.2012 kl. 18:07
Já og af hverju varð hrunið? af því að við vorum ekki í ESB? Nei það varð vegna fyrirhyggjuleysis stjórnvalda sem áttu að gæta þessa, og svo einbeitts brotavilja útrásarvíkinga sem stálu öllu steini léttara. Mér sýnist ýmis ríki í ESB vera enn verr komin en við þrátt fyrir sína aðild. En það er erfitt að ræða við fólk sem ekki vill skilja það sem er beint fyrir framan augun á því.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.2.2012 kl. 18:38
Ásthildur, það kemur ESB ekkert við þó að einstakar þjóðir í ESB hafi sýnt af sér óráðsíu, spillingu og fyrirhyggjuleysi. Það er auðvitað hægt bæði í og utan ESB og hefur alltaf sínar afleiðingar.
Við fórum verst úr út hruninu að því leyti að hvergi varð algjört hrun fjármalakerfisins nema hér. Það var einkum vegna hruns krónunnar þó að málið sé auðvitað flóknara. Hve vel við komum endanlega út úr hruninu er enn óljóst meðal annars vegna Icesave.
Hve vel hefur gengið hingað til er að mörgu leyti glópalán. Við höfum ekki þurft að endurgreiða lán AGS og nágrannaríkja þrátt fyrir að hafa ekki staðið við skilmála.
Við höfum einnig komist upp með að taka lögvarðar eignir lánardrottna og færa þær innistæðueigendum. Ytri aðstæður hafa einnig verið okkur hagfelldar.
En við getum ekki búist við svona trakteringum eftir að Ísland hefur hafnað ESB-aðild. Frá lýðveldisstofnun höfum við aðeins verið fáein ár á eigin vegum. Þau ár enduðu með skelfingu. Áður vorum við undir verndarvæng Bandaríkjamanna.
Ég tek það ekki óstinnt upp þó að fólk sjái ekki það sem er beint fyrir framan augun á því nema þegar það er í afneitun og vill ekki fyrir nokkra nuni sjá það.
Það er alvarlegt mál þegar um hagsmuni komandi kynslóða er að tefla.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 5.2.2012 kl. 22:36
Björgvin G. Sigurðsson:
"Hagfræðingar hafa lengi haldið því fram að það þurfi að lágmarki 3-4 milljónir manna til að standa undir kostnaði við eigin gjaldmiðil. Án þess baklands sé sjálfstæð mynt í alþjóðlegu hagkerfi undirseld hverskonar braski spákaupmanna. Á kostnað hins almenna skuldara og sparifjáreiganda."
Þetta eru orð að sönnu. Fyrir hrun slepptum við einfaldlega mestu af nauðsynlegum kostnaði og áttum því nánast ekkert í gjaldeyrisvarasjóði til að verjast hruni.
Steingrímur J. virtist rétt eftir hrun gera sér vel grein fyrir að krónan væri ónothæf. Hann leitaði því allra leiða til að komast hjá ESB og upptöku evru.
Norska krónan varð hans haldreipi eins langsótt og það nú er. Þegar Stoltenberg sagði nei varð krónan skyndilega nothæf að mati Steingríms.
Mjög ótrúverðugt svo að ekki sé meira sagt.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 00:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.