Evran er eins og Titanic eftir áreksturinn við ísjakann

Það gildir jafnt um evruna og Titanic að björgunarbúnaður er ónógur. Grikkland marar í hálfu kafi. Írland og Portúgal eru löskuð en lafa. Leki kominn að Ítalíu og Spáni. ESB eys og eys. Er þá skynsamlegt fyrir skipverja á vel sjóhæfu skipi að klifra um borð í þetta sökkvandi skip?

Þessi myndræna og skýra samlíking sem hér birtist að ofan í styttri útgáfu var upphafspunkturinn í ágætri ræðu Stefáns Jóhann Stefánssonar, hagfræðings, á fundi Heimssýnar á Húsavík, 14. janúar s.l. Hann minnti á að forsvarsmenn evrulandanna voru mjög bjartsýnir þegar evrunni var hleypt út á fjármálahafið árið 2002, ekki síður en bátasmiðirnir og útgerðarmennirnir sem hleyptu Titanic af stokkunum 91 ári fyrr. Við birtum hér nokkrar málsgreinar úr erindi Stefáns sem finna má í heild sinni á http://heimssyn.is/evran-smidagalli-ofurtru-eda-svik-kostir-islands/#more-1031

Stefán bendir á að „óheppni olli því að Titanic rakst á ísjaka og sökk í apríl 1912.  Sviksamlegt athæfi olli því að björgunarbátar voru ekki til fyrir nema ríflega helming af þeim farþegum og áhöfn sem voru um borð. Það mætti líka segja að það hafi verið óheppni evrunnar að hún lenti í hremmingum fjármálakreppunnar síðustu árin.  ESB og evran á þó einhvern þátt í að framkalla kreppuna með lausatökum, ofurtrú á frjálsræði og ónógu eftirliti. Og það gildir jafnt um evruna og Titanic að björgunarbúnaður er ónógur. Grikkland hefur t.d. verið að sökkva í tvö ár - og marar enn í hálfu kafi án þess að evruríkin eða ESB megni að koma Grikklandi almennilega á ferð. Írland og Portugal eru löskuð en lafa, og segja má að leki hafi komið að Ítalíu og Spáni. Björgunaraðgerðir ESB fyrir þessi ríki leiða hugann að því þegar áhöfn skips notar ákaft ausurnar á meðan skipið er enn lekt. Það er óvissuástand - og við vitum ekki alveg hvað framtíðin leiðir í ljós."

„Stefnt er að því að björgunarsjóður Evrópu (EFSF: European Financial Stability Facility  - verður síðan ESM) muni hafa yfir að ráða 500 milljörðum evra, en þegar er búið að ráðstafa góðum hluta af því til Grikklands, Írlands og Portúgals. Ef haft er í huga að ríkisskuldir Ítalíu eru um 1900 milljarðar evra sést að þessi björgunarsjóður dugar ekki langt ef Ítalía lendir í vandræðum, hvað þá ef bæði Ítalía og Spánn lenda í greiðsluerfiðleikum, en Spánn er fjórða stærsta evruríkið. Lendi Ítalía og Spánn í erfiðleikum er því ekki víst að önnur ríki eða AGS geti komið til hjálpar með sama hætti. Slíkur er stærðarmunurinn."

„Vaxtaálög og vaxtakostnaður ítalska ríkisins hefur aukist og hefur nálgast þau mörk sem teljast vera ósjálfbær, þ.e. skuldirnar koma ekki til með að minnka án sérstakra aðgerða. Grikkland, Spánn og Ítalía eru því þrjár misstórar tifandi tímasprengjur sem óvíst er hvort hægt verði að aftengja í tíma. Almenningur í Evrópu, stjórnmálamenn og fjármálakerfið sveiflast á milli vonar og ótta um það hvort ástandið muni þróast til betri eða verri vegar á árinu."

„Hver er ástæðan fyrir evruvandanum?

Hver er svo ástæðan fyrir þessu? Var ekki allt í lukkunnar velstandi þegar evrunni var hleypt af stokkunum endanlega árið 2002. Framtíðin virtist mörgum björt eins og ég nefndi í upphafi. Það voru samt nokkur atriði sem ýmsir höfðu bent á að vantaði. Það skorti t.d. tilfinnanlega stóran og sterkan ríkissjóð sem bakhjarl fyrir evruna. Sá er t.d. munur á Bandaríkjadal og evru. En það vantar ekki aðeins fjármuni. Það skortir líka vilja meðal flestra ríkja að draga Grikki upp úr feninu. Íbúar Þýskalands, Finnlands, Frakklands og annarra ríkja vilja ekki sjá á eftir of miklu af skattgreiðslum sínum lenda í skuldahítinni hjá ríkjunum í suðri. Efnahagur landanna, stjórnarhættir, vinnu- og verkmenning hafa reynst of ólík og hafa verið samstarfinu fjötur um fót."

„Hver er þá þessi grundvallarvandi sem veldur því að þróun hagrænna atriða í evrulöndunum hafa ekki leitað í sama farveg  - eins og búist var við með sameiginlegum markaði og sameiginlegri mynt - mynt sem átti reyndar einhvern tímann að vera endahnúturinn á samrunaþróuninni í álfunni. Þessi vandi er tiltölulega augljós þegar menn koma auga á hann. Hann er sá að samkeppnisstaða evruríkjanna hefur þróast með mjög mismunandi hætti. Þar skiptast ríkin talsvert í tvö horn þar sem öflugt Þýskaland er fyrirferðarmest annars vegar vegna samkeppnisyfirburða sinna. Fyrir vikið hafa þýskar vörur átt greiða leið á markaði annars staðar. Í hinu horninu eru flest jaðarríkin hverra vörur þykja mun minna samkeppnishæfar sökum óhagstæðrar verðþróunar.  Afleiðingin hefur orðið sú að umtalsverður viðskiptaafgangur hefur verið í utanríkisviðskiptum Þjóðverja og þeir hafa safnað auði á meðan jaðarþjóðirnar hafa eytt um efni fram. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að verðhækkanir hafa verið talsvert meiri í mörgum jaðarlöndunum en í Þýskalandi og suðrænar vörur hafa því síður átt upp á pallborðið hjá neytendum í álfunni en áður."

„Allt þetta, auk ósveigjanlegs vinnumarkaðar og fleira gerir það að verkum að það virðast næg rök benda til þess að Evrópa sé ekki hagkvæmt gjaldmiðilssvæði og að evran muni um ófyrirsjáanlega framtíð hvíla á veikum stoðum. Og hvað Ísland varðar þá hafa mikilvæg rök, m.a. um mismunandi hagsveiflur sem gera sömu peningastefnu óhagkvæma, bent til þess að Ísland sé ekki eðlilegur hluti af þessu óhagkvæma evrópska myntsvæði."

„Hagsveiflur eru ekki þær sömu hér og í Evrópu, hvorki hvað umfang né tíma varðar. Þess vegna hentar ekki sama vaxta- eða peningastefna, þ.e. stýrivextir sem seðlabankar ákveða. Við erum lítið hagkerfi sem hefði lítil áhrif á meðaltalsþróun í Evrópu þannig að vextir tækju mið af stærri löndunum en ekki okkur. Þetta gæti haft í för með sér að annað hvort yrði hér miklu meira atvinnuleysi en ella - eða meiri verðbólga. Tilhneigingar í þessa átt höfum við séð í þessum hefðbundnu vandræðalöndum sem hér hafa verið nefnd - en líka í Finnlandi og víðar. Auk þess er ég ansi hræddur um að vera okkar í ESB myndi draga úr okkur framtaks- og framkvæmdamátt, bæði vegna meiri reglugerðarfargans og þyngsla (t.d. í sjávarútvegi) og vegna þess að of mikill tími færi í að leita að spenum Evrópusjóðanna og komast á þá."

En ef við förum ekki í ESB og tökum upp evru

Förum við hins vegar ekki þessa leið þá held ég að það sé vert fyrir okkur að hafa í huga að þrátt fyrir allt er Ísland með best settu velferðarríkjum í veröldinni. Það er margt sem er betra einhvers staðar annars staðar en í heildina tekið höfum við það hvað best. Þannig hafa tekjur á mann að meðaltali verið lengst af síðustu áratugi með því mesta sem gerist. Við höfum stundum verið í einu af efstu fimm sætum á tekjulista þjóða heims - og það þrátt fyrir þessa blessaða krónu. Það er ekki til marks um galla eða gagnsleysi krónunnar að gengi hennar hafi fallið svo og svo mikið gagnvart dönsku krónunni frá því sjálfstæð myntskráning hófst fyrir um 90 árum. Það er á vissan hátt þvert á móti kostur að gengi gjaldmiðla breytist miðað við aðstæður. Það er ekki gjaldmiðlunum að kenna að gengi breytist heldur eru það yfirleitt aðrir þættir í efnahagslífinu sem því ráða. Það er eðli gjaldmiðla að gengi þeirra breytist - og þeir væru gagnsminni ef svo gerðist ekki. Gengisbreytingar jafna hagsveiflur - gengisfall hjálpar ríkjum að komast út úr vandræðum og gengishækkun getur kælt hagkerfið þegar hitinn er orðinn of mikill. Þetta er grunnstefið - þótt þessu geti fylgt flöktandi hljóð og einhver óþægindi um stund."

Í lok erindisins sagði Stefán:

„Við búum í velferðarþjóðfélagi jafnvel þótt víða sé langt á milli bæja. En við verðum líka að viðurkenna afleiðingar þess að búa í strjálbýlu landi. Þá verða leiðir lengri og flutningskostnaður t.d. meiri. Þess vegna lækkar ýmis kostnaður ekkert við það að ganga í Evrópusambandið eins og sumir gefa í skyn.

Síðustu áratugi hafa lífskjör verið með besta móti á Íslandi ef borið er saman við önnur lönd. Við skulum því draga djúpt andann - horfa fram á veginn - fikra okkur hægt og bítandi út úr kreppunni - því skyndilausnir geta virst varasamar. Að mínu mati er versta og hættulegasta skyndilausnin sú að reyna að hlaupa inn í Evrópusambandið og taka upp evruna. Þá gæti farið fyrir okkur eins og fór fyrir Nýfundnalandi eftir að það gekk í samband við Kanada - og áratuga afturför fylgdi.

Látum það ekki henda. Stöndum í lappirnar - stöndum á eigin fótum - afhendum ekki einhverjum skriffinnum í Brussel auðlindir Íslands og göngumst ekki frekar undir vald skrifræðisins í álfunni. Þótt íslenska skrifræðið sé oft ekki gott - þá er það skömminni skárra en það evrópska í flestum tilvikum - og það er nær - það er hægt að ná til þess og breyta því ef við viljum. Við breytum ekki ESB ef við færum þangað inn.  Við skulum leysa okkar mál á okkar forsendum eftir því sem hægt er og stuðla áfram að því að sá kraftur sem býr í Íslendingum nýtist þjóðinni til farsældar."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú þykir mér Vinstrivaktin vera seinheppin í samlíkingu sinni. Þeir líkja Evru við sökkvandi Titanic.

Hverjar eru svo staðreyndur málsins? Frá upphafi aldarinnar hefur evran hækkað gagnvart bandaríkjadollar um 28.2% og um 32.5% gagnvart bresku pundi.

Meira að segja hefur evran hækkað gagnvart bandaríkjadollar um 1,6% það sem af er þessu ári.

Evran má lækka mikið. Lækkun kemur sér vel fyrir útflutning evrulanda til landa utan evrusvæðisins. Þau verða samkeppnishæfari í verði og geta því búist við meiri sölu. 

http://www.islandsbanki.is/fjarfestingar/markadir-og-visitolur/gjaldmidlar/greining-krossa/?g1=EUR&g2=ISK

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 15:29

2 identicon

Hvaða eiturlíf ert þú að taka vinur og komdu með eitthvað betra bull.......shit!!!

Er ekki blessuð krónan búin að tapa einhverja 1000% yfir árin og ekki er heimili á landinu að bjargast þar.... Samt er Evran að styrkjast aftur á móti KR og en yfir 160 kr í evru þótt hún sé aðeins að gefa eftir í samburði við alvöru gjaldmiðla.

Þorsteinn Halldórsson (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 19:15

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hvern varðar um Evru,hvort hún hækkar eða lækkar,við getum selt þeim afurðir sem greiða í þeirri mynt,annað kemur okkur ekki við. Hvað eru þeir að seilast í, ágjarnir Evrópubúar? Auðlindir Íslands? Þar sem auðtrúa draumóramenn bjóðast fyrir klink,með von um meira, tilbúnir að höndla með eigur okkar. Þessi ríkisstjórn á að segja af sér,umsóknin í þennan óskapnað er kolólögleg.

Helga Kristjánsdóttir, 4.2.2012 kl. 03:50

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ásmundur, ef þú mannst söguna um Titanic, þá veistu að það skip var á blússandi siglingu megin hluta ferðar sinar, stefndi í að setja methraða í siglingu yfir hafið. Það hafði skotið öllum öðrum skipum ref fyrir rass.

En þegar þetta ósökkvandi skip lennti á einum hafísjaka kom gat á það og ósökkvandi skipið sökk!

Ég fæ ekki séð annað en samlíking Titanic við evruna sé bara nokkuð góð. 

Í báðum tilfellum fer allt vel af stað og í báðum tilfellum átti ekkert að geta komið fyrir, enda um verkfræðilegt/hagfræðilegt kraftaverk að ræða. Í báðum tilfellum kom þó óhapp og í báðum tilfellellum kom í ljós við það óhapp að varnir voru engar, eða mjög litlar. Nú virðist ljóst að evran mun enn og aftur samsvara sér Titanic með því að sökkva til botns.

Það eina sem kannski munar er tími. Titanic var í siglingu einungis örfáa daga og sökk á skömmum tíma. Evran er hins vegar búin að vera á ferð í áratug, svo eðlilegt er að lengri tíma taki fyrir hana að sökkva. Miðað við ennan tímamun á atburðum má reikna með að evran verði öll seinnipart þessa árs, eða í byrjun þess næsta!

Gunnar Heiðarsson, 4.2.2012 kl. 08:22

5 identicon

Helga, þú ert á miklum villigötum. Hvaðan hefurðu þessar ranghugmyndir?

"Ágjarnir Evrópubúar" eru ekkert að seilast. Það erum við sem erum að sækja um aðild að ESB. Og hvort sem við göngum í ESB eða ekki þá verða auðlindirnar áfram okkar.

Varastu blekkingaráróðurinn. Láttu ekki vænisýkina ná tökum á þér.   

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 4.2.2012 kl. 08:32

6 identicon

Gunnar, hvernig skýrirðu styrkleika evrunnar sem kemur fram í um 30% hækkun á gengi hennar gagnvart bandaríkjadollar og bresku pundi frá upphafi aldarinnar?

Það eru margir sem vilja evruna feiga einkum þó Bretar og Bandaríkjamenn. Evran veikir stöðu breska pundsins. Bandaríkjamenn horfa til þess með hryllingi að evran geti átt eftir velta dollar úr sessi sem hinnar alþjóðlegu viðskiptamyntar.

Það er því sótt að evru úr ýmsum áttum en hún lætur ekki deigan síga eins og gengisþróunin sýnir. Bretar og Bandaríkjamenn tala evruna niður vegna eigin hagsmuna.

Vandi fáeinna evruríkja er ekki vegna evrunnar. Skuldavandi lagast ekki þó að menn hafi eigin gjaldmiðil. Þvert á móti hrynur eigin gjaldmiðill í skuldavanda. Við það hækka skuldirnar upp úr öllu valdi og vandinn eykst.

Nú á tímum alþjóðavæðingar ganga ekki eigin gjaldmiðlar smáþjóða upp nema hugsanlega hjá þjóðum sem búa við mikla einangrun.

Eðlilegar leiðréttingar verða að stjórnlausum stórsveiflum. Bólur og hrun skiptast á með gífurlegu tjóni. Vegna mikilla skulda íslenska ríkisins getur nýtt hrun riðið okkur að fullu.

Því minni sem gjaldmiðillinn er þeim mun alvarlegra er ástandið. Krónan er því ónýt. Tobin skattur breytir engu þar um. 

Evran er í stöðugri framþróin til að geta sinnt sínu hlutverki sem best. Gjaldmiðll verður ekki sterkur nema að hann gangi í gegnum krísur. Að Evran sé að hrynja er ekkert annað en óskhyggja óvildarmanna hennar.

Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er óðs manns æði. Valið er því á milli krónu eða ESB-aðildar og evru. Það er auðvelt val ef menn loka ekki augunum fyrir staðreyndum. 

Fyrir hrun lokuðu menn augunum fyrir því sem þá var í gangi. Nú loka menn augunum fyrir þeim skelfilegu afleiðingum sem íslensk króna getur leitt yfir okkur. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 4.2.2012 kl. 10:18

7 identicon

Ásmundur Harlarson, öðru nafni Ómar, er líklega sá óþroskaðasti, heimskasti, heilaþvegnasti og ruglaðasti einstaklingur sem nokkru sinni hefur tjáð sig á internetinu. Hann hefur engan áhuga á rökræðum, hann vill einungis halda uppi áróðri, en áróðurinn er langt ofan hans eigin skilningi. Þetta er þessi týpíska litla sál sem vill verða stór en hefur bara ekki það sem til þarf, og hefur bitið fast í einhvern ESB-draumhyggju. Raunveruleikinn breytir engu, hann kemur málinu ekki við. Þetta snýst um hans innri sál og geðástand hans.

Það er fullkomlega tilgangslaust að reyna rökræður við svona einstaklinga. Það er ekkert sem mun breyta þeirra skoðun. Ekki neitt. Ekki frekar en hægt væri að rökræða um tilvist guðs við munk. Það er tilgangslaust.

Sálfræðilegt ástand er slíkt að hann mun aldrei horfa í augun á sjálfum sér eða yfirleitt velta rökum fyrir sér. Hann veit sannleikann. Hann fær hann frá sínum dýrlingum. Ekkert annað skiptir í raun máli.

Þar sem þetta eru engar rökræður, heldur áróður sem stafar af sálfræðilegu ástandi og þroskaleysi hans, þá er ekkert að því að henda honum út. Hann mun aldrei hætta, aldrei, enda þyrfti hann að horfast í augu við sjálfan sig og þroskast. Það er í sjálfu sér gott dæmi um hans sálfræðilega ástand hvað hann er duglegur við að skrifa á bloggið og hversu oft. Hann skrifar meira en nokkur annar. Þessi einstaklingur er í trúarlegri krossferð.

...og svo er hann auðvitað líka hrokafullur, með barnalega útúrsnúngina og önnur álíka sálfræðileg hegðunarmynstur, sem styrkja þessa greiningu á þessum einstaklingi.

Þannig að vefsíðuhöfundar hafa allan siðferðislegan rétt að banna ip-töluna hans og henda honum út, ítrekað ef þess þarf. Það kemur málefninu um ESB-aðild eða ekki, ekki neitt við. Að hafa svona þjáðan einstakling inn í ummælakerfinu eyðileggur tilganginn sem lagt var af stað með.

Og Ásmundur, ef þú ert ekki að tala við sálfræðinga nú þegar þá ættirðu að láta verða af því.

Þetta er það sem kallað er þráhyggja á fræðimáli.

Þú munt auðvitað svara eða hugsa þegjandi þörfina, en þetta er einfaldar staðreyndir sem flest fólk sér langar leiðir, ESB-sinnar sem andstæðingar. Þitt ástand kemur viðfangsefninu ekkert við, og í raun ertu að skemma fyrir ESB-aðild með þessum áróðri þínum.

Ef þú vilt að Ísland gangi í ESB þá þyrftirðu að sannfæra fólk með rökum en ekki áróðri. Vandamálið hjá þér er að þú sérð ekki muninn á þessu tvennu.

palli (IP-tala skráð) 4.2.2012 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband