Uppreisn norskrar verklýðshreyfingar gegn tilskipun ESB

Frá  forystu ASÍ heyrist fátt annað en halelúja þegar málefni ESB eiga í hlut. En norska Alþýðusambandið (LO) hefur snúist hart til varnar hagsmunum launafólks gegn nýlegri tilskipun ESB um starfsmannaleigur sem lögfesta á í Norgi og á Íslandi gegnum EES-samninginn.

Á vefsíðunni Almannahagsmunir og ESB er sagt svo frá í gær: „Samkvæmt könnun norska ríkisútvarpsins, NRK, þá hafa þau verkalýðsfélög sem eru á móti tilskipuninni um 75% allra félaga LO innan sinna vébanda. Þar er stærst og fremst í flokki Fagforbundet með um 320.000 félaga innan heilbrigðisgeirans, hjá sveitarfélögum og bæði einkareknum og opinberum stofnunum. 

"Tilskipunin getur leitt til þess að það verði til nokkurs konar C-lið á norskum vinnumarkaði. Við lítum á tilskipunina sem ógn við það fyrirkomulag sem er á vinnumarkaðinum í dag." segir Jan Davidsen, formaður Fagforbundet í samtali við norska fjölmiðla.

Þá hefur andstaða við tilskipunina verið mjög hörð innan Fellesforbundet, en það er stærsta félagið innan LO sem starfar innan einkageirans, með 150 þúsund félaga. Síðasti landsfundur Fellesforbundet, sem haldinn var í haust, samþykkti að skora á ríkisstjórnina og Stortinget að beita neitunarvaldi sínu gegn upptöku tilskipunarinnar. Arve Bakke, formaður Fellesforbundet skrifar á heimasíðu félagsins að það sé heimilt samkvæmt EES-samningnum og það beri að gera nú þegar slagurinn stendur um að vernda það fyrirkomulag á norskum vinnumarkaði sem þróast hefur síðast liðna öld."

Á vefsíðu ASÍ er hins vegar ekkert að finna um þetta mál. Þar má að vísu finna sex ára gamla ályktun miðstjórnar ASÍ um nauðsyn þess að lög séu sett um starfsemi starfsmannaleiga. Vafalaust var það ágæt ályktun. En nú þegar norsk verklýðshreyfing sér stóra galla á nýlegri tilskipun ESB um þetta sama mál sér forysta ASÍ ekkert athugavert við þessa nýju tilskipun. Yfirleitt sér forysta ASÍ ekki neitt athugavert við það sem frá ESB kemur, eins og alþjóð þekkir, hvort sem það er evran („kletturinn í hafinu" eins og Gylfi forseti hamrar á aftur og aftur) enda fellur ASÍ-forystan einkar vel að skilgreiningu Ögmundar Jónassonar á Elítunni „sem makar krókinn meðan almenningur borgar" og „stjórnendur hagsmunasamtaka sem eru reglulega í förum til Brussel" (sbr. grein hans: „Stofnanaveldið ánetjast ESB").

Aftur á móti er rétt að geta þess að Smugan gerði góða grein fyrir þessu máli 19. janúar s.l: ,,Heilsa og öryggi útlendinganna er aukaatriði hjá þessum starfsmannaleigum, sem nota upp vinnuaflið á stuttum tíma og sækja sér svo nýtt fólk.  Hætta á vinnuslysum eru tíu sinnum meiri í þessum hópi og það eru langtum fleiri vinnutengt  banaslys meðal útlendinga, en annarsstaðar á norskum vinnumarkaði,"   segir Steinar Krogstad, aðalritari í félaginu Fellesforbundet við Klassekampen. Í fyrra létust 54 í vinnuslysum í Noregi, nærri fimmtungur var af erlendu bergi brotinn. Fellesforbundet tilheyrir stækkandi hópi stéttarfélaga sem berst nú gegn samþykkt tilskipunar um starfsmannaleigur, sem þó átti að bæta stöðu útlendinganna sem flestir eru frá austur Evrópu.

Ástæðan fyrir harðnandi andstöðu í Noregi gegn tilskipuninni er mikil fjölgun starfsmannaleiga, svo mikil, að nýleg skýrsla frá De Facto sýndi að stærstu atvinnurekendurnir í byggingariðnaði í Ósló voru starfsmannaleigur en ekki norsk fyrirtæki með fastráðna starfsmenn. ,,Þetta virðist engan enda taka og þetta leiðir til félagslegra undirboða á vinnumarkaði og kemur í veg fyrir að hægt sé að fylgja eftir réttindum verkafólks og launþega."

Þingflokkur Sósíalíska Vinstri flokksins á norska Stórþinginu hélt í vikunni ráðstefnu um tilskipunina. Þar varaði formaður flutningaverkamanna við því að tilskipunin gæti leitt til þess að flestar hindranir gegn starfsfólki á vegum leigumiðlanna yrðu felldar niður. Það myndi rýra gildi norskra kjarasamninga. Einnig kom fram að verkalýðshreyfingin ætlar að leita til EFTA með vafaatriði um hvort starfsmannaleigur brjóti gegn starfsfólki sínu og stofni heilsu þess í hættu með því að fylgja ekki lögum og reglugerðum um vinnurétt, hvíldartíma og aðbúnað." (smugan.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli hann Gylfi Arnbjörnsson yfirjólasveinn ASÍ Elítunnar og einn helsti trúboði ESB trúboðsins á Íslandi viti nokkuð af þessu ?

Þessi umboðslausa silkihúfa ASÍ elítunnar og hans kumpánar kæra sig örugglega kollótta. Því fyrir þeim hafa kjör íslenskrar alþýðu aldrei skipt þá neinu sérstöku máli.

Algerlega án umboðs, hefur þeirra köllun verið öllu öðru æðri að boða sjálft "fagnaðarerindið" um ESB Ráðstjórnina í Brussel !

En þetta er góð grein hjá þér og á fullt erindi við íslenskra alþýðu og þá örfáu verkalýðsforkólfa sem enn bera hag hennar fyrir brjósti !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 09:04

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

ESB er miklu verr statt í jafnréttismálum verkafólks, heldur en Noregur.

Talað er um það af ESB-áróðurs-maskínunum yfirborguðu, að Noregur þurfi að fara í ESB vegna jafnaðar og réttlætis í ESB. Samt er það viðurkennt af ESB að það ágæta bandalag geti lært af jafnréttis-pólitík Noregs. Það er öllu snúið á haus í þessum ESB-áróðri.

Verkalýðsforystan í Noregi er virk, en verkalýðsforystan á Íslandi er ekki bara óvirk, heldur vinnur hún harðast af öllum gegn hag verkalýðsins. Vilhjálmur Egilsson SA-maður kemst ekki með tærnar þar sem Gylfi Arnbjörnsson hefur hælana, í að svíkja verkalýðinn. Þá er það orðið slæmt! 

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.2.2012 kl. 09:35

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Til að vinna að þessu er langsamlegabest að gerast aðili að EU. Og fá sæti við borðið. Langsamlega effektífast. Auk þess sem þetta fylgir EES, býst eg við. Ennfremur sem ekki heyrist múkk frá svokallaðri vinstrivakt á gróðærisárum sjalla hérna með tilheyrandi starfsmannaleigum. Heyrðist ekki múkk frá ,,vinstrivaktinni". Enda hún bara í þægilegu djobbi hjá Dabbanum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.2.2012 kl. 09:56

4 identicon

Sem EES-þjóð tökum við við tilskipunum frá ESB án þess að hafa neitt um þær að segja. Mótmæli Gylfa og ASÍ væru því eins og rödd hrópandans í eyðimörkinni. Áhrifin væru engin. Tíma Gylfa og ASÍ er því betur varið í annað.

Með inngöngu í ESB hættum við að taka við tilskipunum frá ESB. Þá tökum við fullan þátt í öllum ákvörðunum. Eftir inngöngu er því orðið tímabært að Íslendingar taki fullan þátt í lögum og reglum um verlaklýðsmál eins og öðrum málaflokkum. Þangað til erum við ekki í aðstöðu til þess.  

Það er rétt forgangsröðun hjá Gylfa Arnbjörnssyni að leggja áherslu á gífurlegan mun á vaxtakostnaði annars vegar í evrulöndum og hins vegar á Íslandi. 18% af launum Íslendinga fara í þennan aukavaxtakostnað. Það er ótrúlega mikið.

Orsakavaldurinn er augljóslega krónan sem eðlílega nýtur lítils trausts. Það er því til mikils að vinna að ganga í ESB og taka upp evru. Samkeppni við erlenda banka mun tryggja svipuð vaxtakjör hér og á evrusvæðinu. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 10:26

5 Smámynd: Elle_

Endalausa samfylkingarlygin glymur enn um hvað við munum nú geta stjórnað miklu af okkar málum þarna þó það yrði nánast við núllpunkt.  FULLVELDISAFSAL. 

Og ég minni á að forysta ASÍ og forysta Rafniðnaðarsambandsins heimtuðu líka ICESAVE.  Forysta Rafiðnaðarsambandsins óskiljanlega hótaði engu samkomulagi ef það yrði ekkert ICESAVE eins og og þar væri um lífsnauðsyn að ræða að fá nauðungina yfir okkur.  Jú, evrópska stórríkið vildi það.  Forgangurinn er allur öfugsnúinn.  Við eigum ekkert erindi inn í þetta veldi.

Elle_, 1.2.2012 kl. 11:01

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Svo eru Bretar að verða vitlausir en það veður roman people yfir allt og tekur vinnu frá heimamönnum. Þetta mun ske hér líka ef ekki verður gert einhvað á móti innflutning á verkafólki sem er reyndar sjálfvirkur þegar erfiðleikar steðja að í öðrum löndum. með verkalíðnum streyma glæpamenn og gleðikonur. Þetta er formúla sem er.

Valdimar Samúelsson, 1.2.2012 kl. 11:23

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ericson og Samúelsson, eruð þið ,,vinstri menn"?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.2.2012 kl. 12:00

8 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ég er hvorki vinstri né hægri sinnuð, og vona að ég fái réttláta gagnrýni út frá því.

Er ópólitískt og réttlætissinnað hugarfar ekki leyfilegt?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 2.2.2012 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband