Samviskuspurningar
5.1.2012 | 13:16
Í þeirri ólgu sem skapast hefur í íslenskum stjórnmálum í kjölfar seinustu hrókeringa í valdastólum er við hæfi að spyrja nokkurra samviskuspurninga. Við vitum hvað flokkarnir segja í stefnuskrám sínum um ESB aðild, við vitum líka hvernig framkvæmdin er ef á reynir, en raunveruleikinn er bara sá að einungis hefur reynt á stjórnarflokkana. Hinir eru í raun óskrifað blað, hvað sem þeir segja í orði, þeir hafa ekki komið að borði valhafa að þessu sinni. Við á vinstrivængnum í stjórnmálum vitum hvaða valkosti við höfum til að styðja, til dæmis ef kosið væri núna: Krataflokk sem vill inn í ESB og vinstriflokk sem lætur (því miður) krataflokkinn stýra vegferðinni að aðild Íslands að ESB. Fyrir aðra eru valkostirnir hrunflokkarnir og eins og sakir standa virðast þeir báðir nokkuð einarðir í andstöðu sinni gegn ESB aðild. Einnig gegn áframhaldi aðildarviðræðna, þótt nokkuð sé þar slegið í og úr, aðallega af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Hreyfingin er höll undir ESB-aðild en áreiðanlega áherslumunur milli þingmanna þar. Svona er staðan núna. Hins vegar er ekkert sjálfgefið að ef Samfylkingin byði öðrum hvorum hrunflokkanna með sér í stjórn, eða báðum, að ekki væri vilji til að henda ESB-andstöðunni út um gluggann. Framsókn hefur að vísu breyst nokkuð síðan á tímum Halldórs Ásgrímssonar og vera má að viðspyrnan þar á bæ sé það mikil að ekki yrði hægt að kaupa þann flokk í ESB-málum fyrir ráðherrastóla.
Þeir sem halda haus eru þó fyrst og fremst þjóðin sem hefur í nokkur misseri verið að herðast í andstöðu sinni við aðild að ESB. En hún er ekki spurð og ráðamenn halda áfram að flækja okkur í net ESB á meðan. Þörfin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði þjóðarinnar sjálfrar er himinhrópandi. - AB
Athugasemdir
Undirskriftarlisti: utanthingsstjórn.is
Það er ekkert annað raunhæft í boði fyrir almenning í þessu landi.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.1.2012 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.