Nei, nei, ekki ESB um jólin ...

Í fljótu bragði mætti ætla að ekki væri tilefni til að blogga um ESB og jólin. En engu að síður er það bessaleyfi tekið nú.

 

Fyrst vil ég óska þess að sem flestir um allan heim njóti jólahátíðarinnar eða annarra hátíða þessa árstíma, því ekki eru allir steyptir í sama mótið, hvorki hvað varðar trú né aðrar aðstæður sem móta lífshætti. Það vill brenna við að menn gleymi að til er heimur utan Evrópu sem við eigum bæði samleið með og skyldur við sem þjóð í samfélagi þjóða. Einnig að innan Evrópu, einnig ESB-landanna, eru hópar fólks sem ekki falla í það far sem ráðandi öfl ætla öllum að passa í.

 

Vandi ESB-landa er ærinn, þótt alvarlegri ógnir steðji að fólki utan þessa núverandi forréttindasvæðis. Það sem mestu máli skiptir er því hvernig tekist er á við hann, hvort byrðarnar eru lagðar á herðar þeirra sem minna hafa til skiptanna eða þeirra sem stofnuðu til vandræðanna en sleppa allt of oft. Og þá erum við komin að jólunum, þessum tíma þegar flestir að hugsa um eitthvað allt annað en pólitík. Sagan sýnir okkur þá tilhneigingu allt of margra ráðamanna að taka umdeildar ákvarðanir þegar almenningur er upptekinn við annað. Þess vegna er jólakveðja mín til ESB-landanna, sem flest eru rammkristin og halda sín jól þrátt fyrir allt sem á gengur, að ráðamenn fari í jólafrí yfir jólin, reyni ekki að lauma einhverju sem ekki þolir ljós hversdagsleikans í gegn, og taki sem fæstar vondar ákvarðanir yfir hátíðarnar. Ég vona það líka að sem minnst verði aðhafst í ESB aðildarviðræðunum á Íslandi í skjóli hátíðarinnar. En ef einhvern langar endilega að lesa skemmtilegan pistil um ESB, Össur og gulrótina feitu, þá bendi ég á bráðskemmtilegan pistil Lýðs Árnasonar.

Anna Björnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það væri gaman ef Ísland fengi ESB-aðild í jólagjöf á næsta ári eða þar næsta.

En þá þarf þjóðin að taka sig rækilega á og fara að hugsa skýrt. Við getum ekki leyft okkur að fórna hagsmunum komandi kynslóða með því að einangrast frá öðrum þjóðum í eymd og volæði.

Ef við kjósum að standa utan ESB einangrumst við vegna gjaldeyrishafta og vegna þess að við verðum utan ekki bara ESB heldur einnig EES. Gjaldeyrishöft samrýmast nefnilega ekki EES.

ESB-löndin eru nú miklu fleiri en þegar við gengum í EES. Við vitum hvernig útlendingum utan EES gengur að fá dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi.

Það ætti að vera vísbending um það sem við eigum í vændum í þeim löndum sem við höfum mest samneyti við ef við kjósum að vera utan ESB og segjum okkur úr EES.

Krónan gengur sem sagt ekki upp sem gjaldmiðill nema með gjaldeyrishöftum. Það sést kannski best á því að þegar króna a floti sýnir veikleika eiga stórir hrægammasjóðir auðvelt með að keyra gengi hennar niður úr öllu valdi.

Þeir gera það hiklaust til að græða á því. Slík tækifæri láta þeir sér ekki úr greipum ganga.

Með framsali fullveldis, eins og andstæðingar ESB kalla það, er átt við vandaða löggjöf um efnahagsmál sem í sjálfu sér verður mikil lyftistöng fyrir okkur enda íslensk löggjöf mikil hrákasmíð.

Það er mun heppilegra að þjóðin taki með öðrum þjóðum þátt í að setja okkur vönduð lög um efnahagsmál frekar en að Alþingi geri það af veikum mætti með slæmum árangri.

það er gott að vera laus við miður æskilegar geðþóttaákvarðanir íslenkra stjórnmálamanna. Missir fullveldis er því aðeins hluti af blekkingaráróðrinum. Þetta er meira spurning um að útrýma spillingu.

Þessi sameiginlegu lög um efnahagsmál tryggja mannréttindi og jöfnuð. Reyndar fylgjum við þeim nú þegar að mestu og látum okkur þau vel líka án þess að hafa neitt með þau að gera.

Með ESB-aðild þurfum við ekki lengur að fylgja tilskipunum annarra því að þetta verða þá okkar eigin lög jafnt sem annarra ESB-ríkja. Það verður okkar hlutskipti að vinna að setningu þessara laga og breytingum á þeim.

Ef Íslendingar kjósa gjaldeyrihöft, einangrun og lífskjaraskerðingu er ljóst að stór hluti af best menntaða fólkinu ásamt bestu fyrirtækjunum flytur af landi brott á meðan það er enn hægt.

Ófaglært fólk kemur kannski í staðinn. Íslendingar í EES-löndum gefa endanlega upp öll áform um um að flytja heim. Menntunarstigi íbúanna stórhrakar. Það er erfitt að gera sér í hugarlund að þannig verði hægt að greiða miklar skuldir ríkissjóðs.

Það er með ólíkundum ef almenningur sem hefur orðið að þola að skuldir hækki upp úr öllu valdi á sama tíma og íbúðarverð stórlækkar skuli ætla að láta slíkt yfir sig ganga aftur og aftur algjörlega að óþörfu. Slíku fólki er varla við bjargandi.

Það er með ólíkindum ef almenningur ætlar að sætta sig við áframahald á mikilli verðbólgu, verðtryggingu og háum vöxtum. Meðallán hjá ESB er með helmingi lægri greiðslubyrði en álíka hátt lán hér.

Með ESB-aðild og evru verða til mörg og fjölbreytileg atvinnutækifæri vegna þess að stöðugleikinn sem fylgir evru gerir Ísland vel samkeppnishæft við önnur lönd á ótal sviðum.

Atvinnutækifærin verða þá til af sjálfu sér án afskipta ríkisins. Menn einfaldlega sjá sér fært að keppa við erlend fyrirtæki bæði hér heima og erlendis. Útflutningstekjur aukast. Ekki veitir af til að greiða skuldir.

Ég veit ekki hvort almenningur hefur leitt hugann að þeim miklu fjármagnsflutningum sem eiga sér stað þegar gengi krónunnar sveiflast.

Sveiflur á gengi krónunnar er einn mesti gróðavegur þeirra sem eiga mikið fjármagn og eru á tánum til að ávaxta það. Almenningur borgar brúsann.

Auðmenn auka sveiflur á gengi krónu með stórum viðskiptum með krónur. Þeir hagnast á uppsveiflunm eins og aðrir sem eiga sparifé. Þegar gengi krónunnar nálgast hámark og hrun er fyrirsjánlegt koma þeir fénu úr landi.

Upphæðin tvöfaldast þá í íslenskum krónum vegna gengislækkunar krónunnar. Þannig hafa milljarðamæringar orðið til á kostnað almennings.

Þessum aðilum er því mikið í mun að halda í krónuna. Þeir halda því uppi miklum blekkingaráróðri gegn ESB og evru. Margir láta auðveldlega blekkjast.

Það væri sorglegt ef Íslendingar hefðu ekki vit á að notfæra sér tækifærið til að ganga í ESB.

Það væri ömurlegt ef þeir kysu frekar að einangrast án bandamanna. Versnandi lífskjör og kollsteypur á nokkurra ára fresti yrði þá hlutskipti þeirra.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 23.12.2011 kl. 00:03

2 identicon

Gleymdu þessu Ásmundur.  Þetta er búið.

Þið þurfið kraftaverk til þess að koma þessu í gegn héðan af.  Sennilega hefði það verið alveg nógu erfitt að sannfæra landsmenn um inngöngu ef allt hefði verið með felldu í ESB. En með myntina í drasli og pólitískt stríð í sambandinu þá er á brattan að sækja svo vægt sé tekið til orða. En ok. það er sjálfsagt að láta á þetta reyna fyrst þið fóruð "all in" með þetta glórulausa plan.

Það er hins vegar alveg unaðslegt að fylgjast með áróðursvélinni ykkar mala á fullum snúningi í von um að björgunarplan falli af himnum ofan svo forða megi því að flokkurinn verði að jaðarstærð í íslenskum stjórnmálum.

Ja, hverjum öðrum en ykkur í stjórnmálaarmi útrásarinnar hefði dottið það í hug að neita að afnema verðtrygginguna til þess eins að geta sýnt fram á það, hversu illa er hægt að fara með heimili landsmanna þegar landið er tæmt af gjaldeyri af styrktaraðilum Samfylkingarinnar? Og ætla svo að sannfæra þessi sömu heimili um að núna séu þið sko aldeilis komnir með lausnina þegar allt sem þið hafið snert fram að þessu hefur breyst í úrgang.

Þið eruð óborganlegir snillingar. 

Seiken (IP-tala skráð) 23.12.2011 kl. 10:32

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það er spurning hvaða möppu-vitringar ætla að halda utan um pappírsfarganið og óþekkjanlega þræði þess, fyrir hönd Íslandsbúa. Ef það er flókið að ná tökum á spillingunni og pappírs-ruglinu á Íslandi núna, þá er öllum ljóst sem eitthvað fylgjast með, að það verður ógerningur eftir inngöngu í ESB. Þannig eru bara staðreyndirnar í ESB, sama hvað hverjum finnst eða trúir.

Það er auðvelt að skilja hvað Lýður Árnason, sá ágæti drengur, er að tjá sig um hverju sinni á opinberum vettvangi. Okkur vantar fleira svona drenglynt fólk eins og Lýð, til að tjá sig á opinberum vettvangi. Hann hefur kjark til að segja það sem honum finnst, hefur sterka réttlætiskennd og sér vítt samhengi hlutanna í réttlátu ljósi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 23.12.2011 kl. 11:09

4 identicon

Mjög athyglisvert að fylgjast með afneitun andstæðinga ESB-aðildar.

Þó að hvað eftir annað sé með sterkum rökum bent á þá framtíðarsýn sem blasir við með Ísland utan ESB og með krónu sem gjaldmiðil er því aldrei svarað.

Það er eins og andstæðingarnir séu sammála ábendingunni og telji það bara í góðu lagi að Ísland einangrist frá og dragist aftur úr öðrum þjóðum.

Í stað uppbyggilegra umræðna er ríghaldið í ímyndað ESB skrýmsli sem er í raun ekkert annað en lykillinn að stöðugleika og efnahagslegri velgengni í framtíðinni.

Anna Sigríður hefur áhyggjur af pappirsfarganinu. Því er til að svara að það minnkar verulega að því er Ísland varðar.

Að því er varðar þátt okkar í ESB verður hann vel viðráðanlegur enda sameiginlega í höndum þegna 28 landa. Samstarf sparar endurtekningar og léttir því undir með öllum þátttakendum.

Það er rétt að ef nú væri kosið um ESB-aðild er líklegt að hún yrði felld. Þó er það ekki víst ef samningur lægi fyrir.

En það er nokkuð langt í að það verði kosið. Þegar þar að kemur verður ESB væntanlega orðið enn betra efnahagssamband en nokkru sinni og evran enn sterkari gjaldmiðill.

Sjálfstjórn með vandaða sameigilega löggjöf margra þjóða um efnahagsmál og sameiginlegan gjaldmiðil er ótrúlega góð blanda fyrir örríki.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 23.12.2011 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband