Evran er að drepa Evrópudrauminn, segir Krugman

Gjaldmiðillinn sem átti að tengja þjóðirnar saman hefur í þess stað skapað andrúmsloft beiskrar heiftar innan ESB og á evrusvæðinu. Þetta segir Paul Krugman sem hér var á ferð í haust. Greina megi í Evrópu ógnvænlega pólitíska strauma sem ekki ætti að vísa á bug þótt enginn Hitler sé í augsýn.

 

Í grein sinni í The New York Times (11/12) leiðir Krugman hugann að kreppunni miklu á fjórða áratugnum þegar nasisminn og fasisminn blómstruðu hvað mest: „Það er tími til kominn að kalla það ástand sem nú hefur skapast sínu rétta nafni: KREPPA. Að vísu er ástandið ekki bein endurtekning á Kreppunni miklu, en það er engin huggun.“ Hann nefnir einkum þrjú meginatriði: atvinnuleysi sé ískyggilega mikið; stjórnmálaleiðtogum og stofnunum sé mjög vantreyst og sótt sé hart að lýðræðislegum gildum.

 

Hann gagnrýnir að sífellt meiri niðurskurði í efnahagslífi Evrópuríkja fylgi ekki nein viðleitni til að ýta undir hagvöxt. Gríðarleg ólga og reiði sé að magnast upp og margir Evrópubúar beini reiði sinni með réttu eða röngu að því hvernig Þjóðverjar beiti valdi sínu á harkalegan hátt í glímunni við vanda evrusvæðisins.

 

„Enginn sem þekkir evrópska sögu getur horft upp á þennan endurvakta fjandskap í álfunni án þess að hrollur fari um hann. Samt má vera að verri hlutir séu í aðsigi.“ Í framhaldi af þessum orðum verður Krugman tíðrætt um ástandið í Ungverjalandi. Þar sé við völd miðhægri flokkur, Fidesz, sem sýni lítt dulbúna einræðistilburði og hafi breytt stjórnarskránni sér í hag til að koma í veg fyrir að aðrir flokkar nái völdum þar í landi. ESB hafi lítið gert til að koma í veg fyrir þetta valdarán þar sem stjórnarskrárbreytingin hafi átt sér stað meðan Ungverjar gegndu forystuhlutverki í ESB og forseti ráðherraráðsins hafi þá verið úr þeirra röðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tom G. Palmer, sérfræðingur hjá Cato stofnuninni í Bandaríkjunum og yfirmaður alþjóðadeildar Atlas Economic Research Foundation, um PaukKrugman:

„Paul Krugman er gerspilltur maður. Hann var einu sinni góður hagfræðingur og ég mæli ennþá með bókum og ritgerðum sem hann skrifaði á þeim tíma. Hann hefur hins vegar selt þessar hugsjónir fyrir áhrif og völd. Hann ræðst mjög harkalega á nafngreinda einstaklinga, hefur þá fyrir rangri sök og hefur aldrei beðist afsökunar á slíkum skrifum.“

http://www.vb.is/frett/68015/

Krugman á það sameiginlegt með fleiri Bandaríkjamönnum að gera allt til að vernda stöðu dollars sem hinnar leiðandi myntar í alþjóðlegum viðskipum.

Það mun hafa skelfileg áhrif á bandaríkst efnahagslíf ef dollarinn missir stöðu sína en evran hefur verið að ógna honum undanfarin ár.

Bandaríkjamenn óttast að ef evran nær sér á strik, sem ég efast ekki um að hún geri, þá geti hún átt eftir að taka við hlutverki dollars í alþjóðlegum viðskiptum.

Það þarf mikið til þegar maður í stöðu Palmer lýsir því yfir opinberlega að Krugman sé orðinn gjörspilltur maður sem hefur selt hugsjónir sínar fyrir áhrif og völd.

Paul Krugman er því algörlega ómarktækur um íslensk efnahagsmál. Það hefur reyndar verið augljóst lengi.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 15:17

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur hefur sína trú á hreinu, sem er hið besta mál.

En hvar í þessum pistli er vitnað í umsögn Krugmans um íslensk efnahagsmál?

Kolbrún Hilmars, 20.12.2011 kl. 17:42

3 identicon

Kolbrún, þú átt erfitt með að draga ályktanir út frá fyrirliggjandi upplýsingum.

Einstaklingur sem er talinn vera gjörspilltur í skrifum sínum og hafa selt hugsjónir sínar fyrir áhrif og völd er varla marktækur.

Þegar við bætist að hann er Bandaríkjamaður sem gerir sér vel grein fyrir afleiðingum þess að evran ýti dollar til hliðar sem gjaldmiðill alþjóðlegra viðskipta þá þarf ekki frekari vitna við.

Krugman var hér á fundi í Hörpu nýlega og mælti með að Íslendingar héldu krónunni. Honum fannst víst frábært að sjá gengi hennar hrynja öðru hvoru niður úr öllu valdi með þeim afleiðinum að skuldir heimilanna tvöfölduðust.

Hann varð svo að viðurkenna fáfræði sína um íslensk efnahagsmál þegar honum var stillt upp við vegg. Allt tal hans átti greinilega að þjóna ákveðnu markmiði í eigin þágu.

Ráðgjöf heimsfrægra erlendra hagfræðinga hefur yfirleitt reynst röng. Þeir ráðlögðu á sínum tíma að ríkið hætti að greiða erlendar skuldir. Þeir sögðu að við myndum aldrei geta borgað Iceasve. Allt reyndist þetta byggt á sandi.

Krugman hefur misst allan trúverðugleika - svo einfalt er það.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 18:59

4 identicon

@ Ásmundur: Þér ferst ekkert að ráðast hér með níði og rakalausum rógi að hinum mikilsvirta hagfræðiprófessor Paul Krugman Nóbelsverðlaunahafa. Þó svo að þessi Palmer hafi reynt að níða hann niður. Það er mikil samkeppni og öfund í gangi við fræðimenn í Bandaríkjunum sem ná toppnum eins og Paul Krugman hefur gert.

En það þarf ekki að vitna í fræga hagfræðinga eins og Krugman sem segja svipað og að Evran sé ónýtur skuldavafningur sem aldrei muni ganga upp í núverandi mynd. Þeir skipta þúsundum sem hafa sagt frá veikleikum og hönnunargöllum Evrunnar sem gjaldmiðils. Sjálfur guðfaðir Evrunnar Delors telur hana vart á vetur setjandi !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 20:37

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þeir sem trúa því og jafnvel skrifa um það ritgerðir, að dollar (USD) sé ekki helsti gjaldmiðill heims í dag, eru annað hvort illa haldnir af brennivínsferð í fyrsta sinn í kaupstað, aldrei vaðið yfir bæjarlækinn, eða eru enn að mótmæla lagningu talsímasæstrengs til Íslands. Dúddamía hvað sumir eru stuttir á því! Þeir sem halda að Evran sé framtíðarlausn, ættu að lesa mannkynssöguna. Þar nægir að lesa það helsta frá tuttugustu öldinni. Þeir sem ekki skilja steypuna kringum Evru eftir þann lestur, ættu sennilega að einbeita sér að fiskafræði. eftirlaunasjóði flugfreyja eða athvarfi fyrir óvirka jarðfræðinga sem útskrifuðust með láði, en hafa síðan ekki svo mikið sem mokað upp kartöflum.

Halldór Egill Guðnason, 21.12.2011 kl. 02:08

6 identicon

Ekki kannast ég við að neinn hafi haldið því fram að bandaríkjadollar væri ekki helsti gjaldmiðill heims í dag.

Hitt er annað mál að uppgangur evru hefur á undanförnum árum veikt stöðu hans. Það er auðvitað ekkert náttúrulögmál að dollar verði um alla framtíð leiðandi gjaldmiðill í alþjóðlegum viðskiptum.

Það er því skiljanlegt að Bandaríkjamenn sjái ofsjónum yfir uppgangi evrunnar og geri allt til stöðva hann. Annað þykir "unamerican" sem er eitthvert mesta skammaryrði sem þekkist þar um slóðir.

Íslendingar eru ekki einir um þjóðrembuna.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 08:18

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, afsakaðu síðbúið svar. En það er ekki rétt hjá þér að ég eigi erfitt með að draga ályktanir af "fyrirliggjandi upplýsingum". T.d. dró ég þá ályktun af þínum fyrri skrifum að þú værir sanntrúaður ESB sinni.

Hins vegar gat ég ekki dregið neina viðlíka ályktun af þessum pistli Vinstri vaktarinnar um hvað Krugman sýndist um íslensk efnahagsmál.

En líklega skiptir skoðun hans í þeim efnum engu máli því ef marka má þín eigin skrif þá er Krugman/USA í stríði við Evruna/ESB. Efni pistilsins var enda á þeim nótunum.

Kolbrún Hilmars, 21.12.2011 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband